Vorverkin í garðinum

Klippingar

Það er heppilegast að ganga í allar stórframkvæmdir á trjám snemma árs, eða frá janúar fram í lok mars. Á þessu tímabili er gott að saga stórar greinar áður en tréð vaknar til lífsins. Birki og Hlynur eru meðal þeirra trjáa sem blæða nokkuð við vorklippingar, því er best að klippa þau á tímabilinu janúar til mars, áður en frost fer úr jörðu.

Limgerði er gott að klippa snemma á vorin áður en þau fara að laufgast, en auðveldara er að gera sér grein fyrir lögun limgerðis á þessum tíma. Það fer best á því að klippa limgerði í svokallað A-form, þar sem neðsti hlutinn (næst jörðu) er sverastur ummáls og efsta hlutann (næst sólu) minnstur ummáls. Með því jafnast dreifing sólarljóss á plöntuna.

Ef fella á tré í garðinum er vorið heppilegasti tíminn, áður en trén laufgast. Mikilvægt er að fá góðar ráðleggingar eða leita til fagmanna áður en ráðist er í slíka framkæmd svo ekki hljótist tjón af. Eftir að tré hefur verið fellt, s.s. ösp er ráðlagt að setja Roundup í sárið (trjábotninn sem eftir verður.) Með því er plantan drepin niður í rót sem fyrirbyggir áframhaldandi rótarskot og að plantan verði til vansa í garðinum.

Harðgerðari rósir er gott að klippa snemma á vorin, s.s. Dornrós, Hansarós, Meyjarós, Hjónarós, Fjallarós og Þyrnirósir.
Betra er að bíða með viðkvæmari tegundir fram í maí eða þar til þær eru farnar að sýna lífsmark.
Gott er að fjarlægja myrkrasprota, þykkar greinar í miðju rósarinnar, en halda eftir fínni greinum, því á þær koma rósarblómin.

Mosi

Oft er fyrsta vorverk garðeigenda að ráðast á grasflötina og þann mosa sem hefur myndast yfir veturinn. Mosi getur dafnað við mun lægra hitastig en grasið sjálft og því á hann auðvelt með að ná yfirhöndinni yfir köldu mánuðina.

Þegar frost er að fara úr jörðu er mosinn oft laus og auðvelt að fjarlægja hann með garðhrífu. Þegar búið er að fara yfir flötina með hrífu er gott að stinga aðeins í flötina með gaffli, til að loft, kalk og áburður eigi auðveldari leið niður í jarðveginn.

Þegar líður á vorið og grasið farið að grænka getur verið erfiðara að ná mosanum. Þá er hægt að leigja sér þar til gerðan mosatætara. Hann gerir jafnframt litlar holur í flötina sem hefur sömu verkan og að stinga með gafflinum.

Að þessum aðgerðum afloknum er gott að dreifa kalki á flötina, t.d. Túrbó Kalki frá Áburðarverksmiðunni.
Eftir viku er síðan kominn tími til að bera áburð á flötina, annað hvort tilbúinn áburð eins og Blákorn eða lífrænan áburð, t.d. þörungamjöl eða búfjáráburð. Gott er að gefa til skiptis lífrænan og tilbúinn áburð. Mikilvægt er dreifa vel úr áburðinum og fyrirbyggja að áburður eða kalk sitji saman í hrúgum á flötinni. Við það brennur flötin ogljótir rauðir og gulbrúnir flekkir myndast. Best er að bera á í þurru veðri.

Í lok maí eða byrjun júní er síðan tilvalið að strá grasfræi yfir flötina til að þétta hana og bæta hraðar upp fyrir sárin sem mosinn skilur eftir sig.

Beðhreinsun og moltugerð

Lauf, mosi og greinar skýla plönunum yfir veturinn og því mikilvægt að leyfa því að liggja fram á vor. Gott er að huga að beðhreinsun þegar frost er að fara úr jörðu en hlífa þó viðkvæmari tegundum þar til næturfrost hættir.

Það hefur færst mjög í vöxt á síðustu árum að garðeigendur noti safnkassa til að safna lífrænum úrgangi og skapa þannig sinn eigin jarðveg sem gott er að bæta við hina moldina í garðinum.
Þeir sem ekki hafa safnkassa geta grafið holu fyrir úrganginn. Þá þarf að sáldra mold milli laga til að tryggja súrefnisflæði um holuna, slíkt flýtir fyrir rotnunarferlinu.

Forræktun á grænmeti og kartöflum

Gott er að huga að forræktun á grænmeti í mars/apríl.

Kartöfluútsæði þarf að láta spíra áður en það er sett niður. Gott er að láta kartöflur spíra í birtu en ekki í miklum hita. Með því fást stuttar, þykkar og kröftugar spírur. Hægt er að setja útsæði niður um leið og hætta á næturfrosti er liðin hjá. Þá er einnig gott að breiða akrýldúk yfir beðið fyrst um sinn.

Vorlaukar og sumarblóm

Vorlauka, s.s. begóníur, dalíur, gladíólur og liljur, þarf alltaf að forrækta inni. Flestir vorlaukar blómstra síðsumars og því er forræktun nauðsynleg til að tryggja blómstur fyrir fyrstu haustfrost.

Skemmtilegt er að sá fyrir sínum eigin sumarblómum. Oft borgar sig að sá og forrækta inni. Algengt er að reikna með 4-8 vikum þar til hægt er að planta, alísu, morgunfrú og flauelsblómi, út á vaxtarstað. Aðrar plöntur þurfa lengri tíma, s.s. stjúpa, silfurkambur og petúnía. Aftan á fræpökkunum eru góðar upplýsingar sem styðjast má við um meðhöndlun hverrar tegundar.

Áburðargjöf

Gott er að gefa garðinum tilbúinn áburð og lífrænan búfjáráburð á víxl, hvort sem um ræðir grasflötina eða trjábeðin. Megin reglan er að gefa áburð einu sinni í mánuði í maí, júní og júlí.

Meira lesefni tengt vorinu má lesa um í fróðleiksmolum okkar.