Tré

  • Skjól fyrir vetri

    Skjól fyrir vetri

    Flestar plöntur sem ræktaðar eru í görðum eru fullkomlega færar um að sjá um sig sjálfar yfir vetrarmánuðina og því óþarfi að hafa mikið fyrir vetrarskýlingu. Ef plönturnar eru aftur á móti viðkvæmar fyrir kulda eða vorsól eru nokkrar einfaldar reglur sem garðeigendur ættu að venja sig á að fara eftir þegar líða fer á haustið og þegar sólin fer að hækka á lofti á vorin. Gott er að skýla ungum trjáplöntum, hvort sem er lauf- eða barrtrjám, með striga fyrir verstu vindáttinni og einnig getur verið gott að setja sæmilega stóran stein við ungplöntuna til að koma í veg fyrir frostlyftingu og rótarslit.

    Skjól fyrir vorsólinni

    Mörg sígræn tré og runnar eru viðkvæm fyrir vorsólinni og því nauðsynlegt að skýla þeim sem standa á berangri. Það kemur í veg fyrir of mikla útgufun og sólbruna á vorin sem leiðir til þess að barrið ofþornar og verður brúnt á litinn. Almennt er garðeigendum þó ráðlagt að velja frekar harðgerðar tegundir á erfiða staði og bíða með viðkvæmari tré og runna þar til skjólið fyrir þá er orðið nægilega mikið.

    Hreinsun beða að vori

    Sölnuð blöð veita plöntum skjól yfir vetrarmánuðina og þess vegna á alls ekki að hreinsa þau burt fyrr en að vori. Þeir sem vilja geta aftur á móti rakað mesta laufið úr grasflötinni og í stað þess að setja það í safnhauginn er gott að hlúa að viðkvæmum fjölæringum eða rósum með því að hrauka upp að þeim með laufinu sem fallið hefur af trjánum. Laufið veitir plöntunum skjól og heldur hita í jarðvegi, sem er gott vegna þess að rætur eru viðkvæmar fyrir örum hitabreytingum í moldinni.

    Allar viðkvæmustu plönturnar þarf aftur á móti að taka inn og skýla þannig fyrir Vetri konungi.

  • Ræktun ávaxtatrjáa

    Epl-, plómu-, peru- og kirsuberjatré

    Skjól og staðsetning

    Í upphafi er mjög mikilvægt að huga að skjóli í garðinum. Ávaxtatré eiga ekki möguleika á að mynda aldin ef þau eru í stöðugum barningi við vindinn. Tré, limgerði og skjólveggir skapa umhverfi þar sem aldintré þrífast. Í skjólinu skapast staðbundið veðurfar sem er oft nokkrum gráðum heitara en mælingar Veðurstofunnar segja til um. Þessi viðbótarhiti er mikilvægur þroska og vexti epla-, peru-, plómu og kirsuberjatrjáa. Það er því lykilatriði að velja trénu góðan stað, bæði bjartan og heitan. 

    Sjá greinina í heild sinni. 

  • Almenn áburðargjöf

    Almennt er mælt með að bera áburð þrisvar yfir sumarið, frá maí til júlí. Áburðaverksmiðjan býður uppá tilbúna áburði sem henta við flest tilfelli og eru auðveldir og þægilegir í notkun.

    • Á grasflöt er talið gott að byrja á að bera Graskorn til að koma sprettunni af stað, en bera svo Blákorn í næstu tvö skiptin. Ef mikill mosi er í grasflötinni er hins vegar ráðlagt að bera Kalk og Blákorn í fyrstu gjöf og svo Graskorn í næstu gjöf. Einnig er þörungamjöl gott fyrir grasflötina. 
    • Í trjábeð er gott að bera Blákorn ef um blómstrandi tré eða runna er að ræða, en annars Trjákorn.
    • Í kartöflugarða er yfirleitt mælt með Blákorni í bland við þrífosfat til að auka undirvöxt. 
    • Í aðra grænmetisgarða þarf kalkmeiri áburð og því ágætt að bera á Blákorn og þörungamjöl.
    • Í sumarbústaðarlönd þar sem um næringarsnauðan jarðveg er að ræða og meirihluti plantna eru grænar er mælt með Trjákorni og Blákorni til skiptis. 
  • Jólatrjáa tegundir

    Hvaða jólatré skal velja?

    Nordmannsþinur

    Nordmannsþinur er hið sígilda jólatré til margra áratuga og sú tegund sem flestir velja. Hann hefur fagurgrænan lit á mjúkum nálunum, er barrheldinn og getur verið mjög þéttur. Þessi tegund er ekki ræktuð á Íslandi og því flutt inn til landsins fyrir hver jól frá reyndum jólatrésbónda í Danmörku.

    Rauðgreni

    Rauðgreni er sú tegund sem lengst hefur verið notuð sem jólatré hér á landi. Með réttri meðhöndlun er það frekar barrheldið og þannig hægt að halda ferskgrænum nálunum betur á trénu. Ilmurinn er mjög góður og oft hefur rauðgreni þetta ‘ekta’ jólatréslega vaxtarlag, píramídlaga og þétt. Auk þess er það frekar nett og því ekki mjög plássfrekt.

    Stafafura

    Stafafuran er einstaklega falleg sem jólatré og ilmurinn sérstaklega góður. Hún er að koma sífellt sterkari inn sem jólatré fyrir þá sem kjósa örlítið annað vaxtarlag en hið sígilda píramídalaga tré. Stafafuran er einnig barrheldinn og heldur fagurgrænum nálunum vel fram yfir áramót.

  • Þegar flytja á stór tré

    Flutningur stórra trjáa

    Tré eru föst í jörðinni og þess eðlis að þau flytja sig ekki úr stað af sjálfsdáðum. Stundum kemur upp sú staða, fyrir einhverjar sakir, að tré henta ekki lengur á þeim stað sem þau standa. Breyta þarf skipulagi eða þá að tré sem einu sinni var lítill kvistur hefur vaxi og breyst í stór og mikið tré sem skyggir á sól og lokar fyrir útsýni. Við slíkar aðstæður er tvennt í boði. Fella tréð eða flytja það ef það er hægt.
    Þegar ákvörðun um að flytja tré er tekin er einkum þrennt sem hafa þarf í huga;

    •  að tréð sé það fallegt að það taki því að flytja það
    •  að tréð sé af tegund sem vert er að halda upp á
    •  að aldur þess sé ekki það hár að tréð drepist fyrir aldurssakir innan fárra ára.

    Rótarskurður

    Allra best er að hefja undirbúning fyrir flutningi trjáa ári fyrr en flutningurinn þeirra fer fram. Fyrra árið á að grafa holu og rótarskera hálfan hring umhverfis tréð. Stærð rótarhnaussins sem fylgir trénu fer eftir stærð þess. Þumalfingurreglan segir að margfalda eigi þvermál stofnsins með tíu og rótarstinga í þeirri fjarlægð frá stofninum. Hafa verður í huga að tré með stóran rótarhnaus eru mjög þung og taka verður tillit til þess þegar tré eru rótaskorinn. Ef um mjög stór tré er að ræða er óvinnandi vegur að flytja þau nema með öflugum vinnuvélum. Því er gott að að sýna fyrirhyggju og flytja tré áður en þau verða of stór.     

    Þegar búið er að grafa 40 til 50 sentímera djúpan hálfhring kringum tréð og klippa á ræturnar á að fylla holuna með lausum jarðvegi. Hafa skal rótarskurðinn sem allra hreinast og gæta þess að brjóta ekki rætur að óþörfu.
    Undirbúa á jarðveginn á þeim stað sem tré á að standa í framtíðinni ári áður en tréð er flutt. Stinga skal upp jarðveginn og blanda hann með lífrænum jarðvegi. Ári seinna er tré rótarstungið hinum megin og hnausnum pakkað í striga eða jarðvegsdúk.

    Flutningur

    Gæta verður þess að sem minnst af jarðvegi hrynji af rótunum meðan á flutningi stendur svo að ræturnar skaðist ekki að óþörfu. Einnig þarf að passa vel að rótarhnausinn þorni ekki í flutningi. Ef flytja á tréð langa leið í opinni kerru eða á palli er nauðsynlegt að pakka því í striga til að varna því að laufið vindþorni á leiðinni. Rætur þola ekki beina sól og því mikilvægt að hlífa hnausnum við beinu sólskini.

    Gróðursetning

    Til að auðvelda niðursetningu trésins á nýja staðnum er best að hafa holuna sem það fer í rúma. Það auðveldar alla vinnu og kemur í veg fyrir að rótum sé þvingað ofan í holuna. Jarðveginn kringum hnausinn verður líka lausari í sér eftir að tréð er komið niður og auðveldar því að skjóta rótum. Ekki má setja tré dýpra en það stóð áður, sumar tegundir þola það að vísu en aðrar alls ekki. Til að tryggja að tré standi af sér veður og vinda fyrst eftir gróðursetningu og vaggi ekki til í holunni verður að reka niður stoð við hliðina á því og binda tréð við hana með gúmmíi.
    Eftir að búið er að koma trénu fyrir í holunni og þjappa jarðveginum gætilega að hnausnum á að vökva vel og gæta þess að hnausinn þorni ekki fyrstu vikurnar eftir gróðursetningu.

    Vor eða haust

    Að jafnaðir er talið betra að flytja tré á vorin, þau ná þá að skjóta rótum á nýja staðnum yfir sumarið og festa sig fyrir veturinn. Í góðu árferði geta rætur trjáa vaxi frá því í apríl og fram í október og því ættu tré sem er flutt snemma að getað fest sig í jarðveginum fyrir næsta vaxtarskeið. Hvort sem tré eru flutt að vori eða hausti verður að gæta þess að staga þau vel niður svo þau falli ekki um koll.

     

    Heimild: Árstíðirnar í garðinum.

    Vilmundur Hansen

  • Gróðursetning trjáplantna

    Gróðursetning trjáplantna

    Fyrir gróðursetningu trjáplantna er nauðsynlegt að stinga upp beð eða holu niður á 40 til 80 sentímetra dýpi allt eftir því hvort um limgerðisplöntur er að ræða eða stærri tré. Hæfileg beðdýpi fyrir limgerðisplöntur er 40 til 60 sentímetrar og 60 til 80 sentímetrar fyrir stærri tré. Hæfilegt breidd beðsins er hins vegar 80 til 100 sentímetrar. Helst verður að koma trjáplöntum niður sem allra fyrst, séu þær ekki í mold. 

    Hæfilegt bil milli trjáplantna

    Hæfilegt bil milli limgerðisplantna er þannig að tvær til þrjár plöntur séu á lengdarmeter. Bil milli stofntrjáa fer aftur á móti eftir því hvað trén verða há og fyrirferðamikil og getur verið frá þremur til sex metrum. Aldrei má gróðursetja tré dýpra en þau stóðu áður hvort sem það var í potti eða beði. Meðan á gróðursetningu stendur verður að gæta þess að plönturnar verði fyrir sem minnstu hnjaski og að moldin haldist sem mest á rótunum. Greiða skal vel úr rótunum þegar plönturnar eru settar niður og gæta þess að trén standi lóðréttar í holunni. Síðan skal moka jarðveginum að og þjappa honum varlega að rótunum.

    Séu tré orðin yfir einn og hálfur metri á hæð er nauðsynlegt að setja staur niður með þeim sem stuðning fyrstu árin á meðan þau eru að róta sig og koma sér fyrir. Eftir að plöntunni hefur verið komið fyrir á sinn stað skal vökva vel og gæta þess næstu dag að ræturnar þorni ekki.

  • Íslenskt birki - harðgert og nægjusamt

    Birkiskógar

    Birki er eina trjátegundin sem hefur myndað samfellda skóga hér á landi eftir að ísöld lauk. Nöfnin birki eða björk má rekja aftur í sanskrít og merkja þau hið bjarta eða ljósa tré. Hér er líklega vísan til hins ljósa stofns trésins. Gerð barkarins er einkennandi fyrir ættkvíslina en hann er rauðbrúnn eða hvítur og flagnar í þunnan spæni.

    Birki er harðgert

    Birki vex eingöngu á norðurhveli jarðar, sumar tegundir mjög norðarlega og hátt til fjalla. Útbreiðsla þess er um alla norðanverða Evrópu, langt austur í Asíu og langleiðina að Kyrrahafi. Hér á landi vaxa tvær tegundir villtar, ilmbjörk og fjalldrapi, einnig er til blendingur þessara tegunda sem nefnist skógarviðarbróðir. Erfðabreytileiki birkis er mikill og geta tré frá sömu fræmóður verið mjög ólík í vexti og blaðlögun. Þetta sýnir að genabreyti leiki er mikill þótt líkur bendi til að hann sé fátæklegri en við landnám. Bent hefur verið á að landnámsmenn hafi líklega höggvið stærstu og bestu trén fyrst og með því móti grisjað úr tré með gen sem báru í sér erfðaeiginleika til mikils vaxtar. Eftir hafa orðið hríslur og kjarr. Fjalldrapi er allur smávaxnari en ilmbjörkin og stundum skriðull.

    Birkifræ

    Björkin er tré eða runni með þéttum greinum. Bolurinn er hlutfallslega grannur miðað við hæð trésins. Börkurinn er þunnur, ljós eða rauðbrúnn, og flagnar af stofninum. Ræturnar liggja grunnt og þurfa súrefnisríkan jarðveg og dafna því ekki vel í blautum jarðvegi. Blöðin eru á stilk sem er um helmingur blaðsins á lengd, egg- eða tígullaga og sagtennt. Blómin eru í reklum. Fræin eru lítil hnoð með himnuvæng. Þau eru fislétt og eru um 1,5 til 2 milljónir fræja í hverju kílói. Þrátt fyrir smæð fræjanna berast þau sjaldan langt frá móðurplöntunni. Fræin geymast illa nema við bestu aðstæður.

    Birki er nægjusöm trjátegund sem getur vaxið við lægri sumarhita en flestar aðrar trjátegundir en nær hins vegar ekki góðum þroska nema í frjóum jarðvegi. Hæðarmörk birkis yfir sjó eru um 550 metrar og það verður 80 til 100 ára gamalt og ætla má að það geti náð um 20 metra hæð við góðar aðstæður.

    Lækningamáttur birkisins

    Fyrr á tímum var birki notað í ýmsum tilgangi. Úr berkinum má búa til skrautmuni og hann var notaður til að súta skinn. Seyðið úr berkinum þótti gott við niðurgangi og seyðið var ómissandi við magn- og kraftleysi, matarólyst og til að verjast sviða á barnsrössum. Börkurinn þótti einnig góður á brunasár ef hann var blandaður ósöltu smjöri.

    Vilmundur Hansen

  • Yfirvetrun plantna

    Yfirvetrun plantna

    Plöntur beita margvíslegum leiðum til að lifa veturinn af. Einærar plöntur lifa af sem fræ. Séu aðstæður óhagstæðar geta fræ sumra tegunda legið í dvala í jarðveginum í nokkur ár en að jafnaði spíra fræin að vori, vaxa upp og blómstra og mynda fræ sem fellur að hausti. Tvíærar plöntur safna forða í rótina á fyrra ári og rótin lifir veturinn af. Á öðru ári blómstrar plantan og myndar fræ. Hringrásin heldur áfram. Margar tegundir fjölærra plantna og laukjurta beita svipaðri aðferð. Þær vaxa upp að vori, vaxa og dafna yfir sumarið, safna forðanæringu í rótina eða laukinn, sölna að hausti og lifa í dvala neðanjarðar yfir veturinn. Þar sem snjór liggur eins og teppi yfir jarðveginum eru plönturnar vel varðar fyrir umhleypingum og grasbítum sem byggja lífsafkomu sína á þeim yfir veturinn.

    Tré og runnar sölna ekki á haustin og þurfa því að beita öðrum ráðum til að lifa veturinn af. Sum tré eru sumargræn en önnur græn allt árið. Lauf sígrænna trjáa nefnist barr, er yfirleitt langt og mjótt og með vaxhúð sem dregur úr útgufun.

    Fyrir lauffall á haustin draga flest lauftré blaðgrænuna úr blöðunum og senda hana niður í rótina til geymslu, rétt eins og hagsýnir heimilishaldarar safna vetrarbirgðum í búrið sitt. Blaðgrænan er byggð upp af efnum sem trén eiga ekki greiðan aðgang að og þurfa að eyða mikilli orku í að framleiða. Eftir í blöðunum verða efni sem trén hafa minna fyrir að búa til. Efnin sem eftir verða eru gul eða rauð og eru ástæðan fyrir því haustlitur trjánna er yfirleitt í þeim litum.

    Haust

    Á haustin er að finna í brumi trjáplantna fullþroskaðan vísi að vexti næsta árs. Vaxtarvísirinn er vel geymdur í bruminu og það ver hann fyrir vetrarkuldanum. Frost að vori, eftir að brumið hefur opnað sig, getur skemmt vaxtarvísinn varanlega.
    Til þess að tré laufgist að vori þarf lofthiti að vera kominn upp fyrir ákveðið lágmark en í öðrum tilfellum þarf daglengd að hafa náð ákveðnum klukkustundafjölda. Langir hlýindakaflar á veturna geta því vakið ýmsar trjátegundir, einkum frá suðlægari slóðum þar sem vorar fyrr en á Íslandi, af dvala sínum og blekkt tré til að halda að það sé komið vor. Þegar slíkt gerist eru miklar líkur á frostskemmdum ef það kólnar hratt aftur. Lítil hætta er á þessu hjá plöntum sem koma frá svæðum sem eru á næstu eða sömu breiddargráðum og Ísland.

    Hægfara kólnun best

    Ólíkt dýrafrumum hafa frumur í plöntum svokallaðan frumuvegg sem liggur utan um frumuhimnuna. Veggurinn er stinnur, hann verndar frumuna og kemur að hluta til í staðinn fyrir stoðgrind. Í gegnum frumuvegginn síast vatn og næringarefni.
    Kólni hratt er hætt við að vökvinn í plöntufrumunni frjósi. Við það eykst rúmmál hans og hætta á að frumuveggurinn rifni en það leiðir til kalskemmda. Miklu máli skiptir að plöntur kólni það hægt á haustin að vatn nái að komast út úr frumunum í þeim takti sem eðlilegastur er fyrir hverja tegund. Dæmi er um að snögg kólnun niður í 10°C hafi drepið tré sem annars þola kuldann allt að níutíu frostgráðum. Stutt haust valda því að plönturnar ná ekki að mynda eðlilegt frostþol og eru því viðkvæmari en ella.

    Skjól fyrir vorsólinni

    Of mikil útgufun getur einnig verið hættuleg fyrir plönturnar. Á vorin, þegar sólin skín og jörð er frosin, ná plönturnar ekki að bæta sér upp þann vökva sem þær tapa við útgufun og því hætta á ofþornun. Hér á landi þekkist þetta best hjá sígrænum trjám þegar barrið verður brúnt á vorin.

    Jurtir á norðurslóðum

    Jurtir sem eiga náttúruleg heimkynni á norðurslóðum eða hátt til fjalla eru yfirleitt lágvaxnar og með öflugt rótarkerfi sem getur verið allt að þrisvar sinnum víðfeðmara en sá hluti jurtarinnar sem er ofanjarðar.
    Þar sem vaxtartími er stuttur mega plönturnar engan tíma missa og verða að hefja vöxt strax og veður leyfir. Langur sólargangur yfir sumarmánuðina lengir vaxtartímann verulega, enda nýta plönturnar hann til hins ýtrasta. Margar norðlægar tegundir mynda þúfur, eins og lambagras og geldingahnappur, og geta með því móti haldið hærri hita og nýtt sólarljósið betur.


    Ljóstillífun

    Sígræn tré hafa það fram yfir sumargræn að þau geta hafið ljóstillífun um leið og hiti er orðinn það mikill að þau vakna af dvala. Talið er að smávaxnar og sígrænar jurtir geti ljóstillífað undir snjó og lengt þannig vaxtartímann.
    Nokkrar tegundir trjáa, til dæmis aspir, geta notað blaðgrænu í berki, stofni og greinum til ljóstillífunar þegar aðstæður eru hagstæðar á veturna.


     

  • Rótarskurður

    Flutningur trjáa

    Ef flytja á tré skiptir miklu að ræturnar séu meðhöndlaðar rétt og að skerðing á þeim sé með minnsta móti. Sé farið er eftir ströngustu reglum um flutning stórra trjáa á að hefja undirbúning að minnsta kosti ári áður en flutningurinn sjálfur fer fram. Í flestum tilfellum nægir að stinga upp góðan hnaus í kringum tré sem eru allt að tveggja metra há og flytja þau með honum.

    Gæta verður þess að sem minnst af jarðvegi hrynji af rótunum meðan á flutningi stendur svo að ræturnar skaðist ekki að óþörfu. Einnig þarf að passa vel að rótarhnausinn þorni ekki í flutningi. Ef flytja á tréð langa leið í opinni kerru eða á palli er nauðsynlegt að pakka því í striga svo að laufið vindþorni ekki á leiðinni. Rætur þola ekki beina sól og því mikilvægt að hlífa hnausnum við beinu sólskini. Ef ekki er hægt að gróðursetja trén strax verður að koma þeim fyrir í mold á skuggsælum stað og í skjóli.

    Nýja staðsetningin

    Til að auðvelda niðursetningu trésins á nýja staðnum er best að hafa holuna sem það fer í nokkuð rýmri en hnausinn. Það auðveldar alla vinnu og kemur í veg fyrir að þurfi að þvinga rótunum ofan í holuna, enda fer slíkt illa með ræturnar. Skoða skal rótarkerfið vel þegar tréð er sett niður og klippa burt brotnar og sárar rætur. Einnig er gott að klippa ræturnar þannig að þær séu svipaðar að lengd og passi þannig vel í holuna.

    Jarðvegurinn í kringum hnausinn verður að vera laus í sér eftir að tréð er komið niður til að auðveldar því að endurnýja ræturnar. Ekki má setja tré dýpra en það stóð áður.

    Stuðningur

    Til að tryggja að tré standi af sér veður og vinda eftir gróðursetningu og vaggi ekki til í holunni verður að veita því stuðning. Setja skal stoð eða stoðir við hliðina á trénu og binda það við hana. Hvort sem tré eru flutt að vori eða hausti verður að gæta þess að staga þau vel niður svo þau falli ekki um koll.

    Eftir að búið er að koma trénu fyrir í holunni og þjappa jarðveginum gætilega að hnausnum á að vökva vel og gæta þess að hnausinn þorni aldrei fyrstu vikurnar eftir gróðursetningu.

    Stór tré

    Þegar um stór tré er að ræða skal á fyrsta ári grafa holu og rótskera ræturnar hálfan hring umhverfis tréð. Stærð rótarhnaussins sem fylgir trénu fer að sjálfsögðu eftir stærð þess. Þumalfingursreglan segir að margfalda eigi þvermál stofnsins með 10 og rótskera í þeirri fjarlægð frá honum. Hafa verður í huga að tré með stórum rótarhnaus eru mjög þung og taka verður tillit til þess þegar tré eru rótarskorin. Ef um mjög stór tré er að ræða er óvinnandi vegur að flytja þau nema með öflugum vinnuvélum. Einnig getur verið gott að létta krónu trésins með því að grisja hana fyrir flutninginn.

    Eftir búið er að grafa 40 til 50 sentímetra djúpan hálfhring kringum tréð og klippa á ræturnar skal fylla holuna aftur með lausum jarðvegi og þjappa honum hæfilega að rótunum. Hafa skal rótarskurðinn sem allra hreinastan og gæta þess að brjóta ekki rætur að óþörfu. Hárræturnar, sem taka upp næringu og vatn úr jarðveginum, endurnýjast næst trénu þar sem skorið hefur verið á ræturnar og gerir því fært að jafna sig fyrr eftir flutninginn.

    Undirbúiningur hefst árir fyrir flutning

    Undirbúa skal jarðveginn á þeim stað sem tréð á að standa í framtíðinni ári áður en tréð er flutt. Stinga skal upp jarðveginn og blanda hann með lífrænum jarðvegi.
    Ári seinna er tréð rótarstungið hinum megin og undir ræturnar og hnausnum pakkað í striga eða jarðvegsdúk til að halda honum vel saman. Gæta þarf þess að losa aftur um dúkinn þegar tréð er komið á sinn stað.

    Vor eða haust

    Tré má flytja hvort sem er á vorin eða haustin. Séu tré flutt að vori ná þau að skjóta rótum á nýja staðnum yfir sumarið og festa sig fyrir veturinn. Í góðu árferði geta rætur trjáa vaxið frá því í apríl og fram í október og ættu því tré sem eru flutt snemma að geta fest sig í jarðveginum fyrir næsta vaxtarskeið. Sé tréð flutt að hausti og rætur að vaxa fram í október og festa sig. Síðan hafa ræturnar forskot um vorið ef þær hefja aftur vöxt í apríl.

  • Litríkar trjáplöntur

    Litríkar trjáplöntur

    Runnar og tré með litríku laufi setja mikinn svip á garðinn og margar hverjar eru sannkallaðar stássplöntur. Þar sem þær geta orðið ansi umfangsmiklar er enn mikilvægara að vanda vel staðsetningu og huga vel að litasamspili við tegundir í kring til þess að þær njóti sín sem best. Gott er að huga að blómlit þeirra plantna sem vaxa í kring, plöntur með hvítum og gulum blómum fara t.d. mjög vel með runnum með rauðleitu laufi. 

    Hér er listi yfir nokkrar fallegar tegundir, flokkaður eftir lauflit.

    Blágrænt eða grágrænt lauf:

    Rauðbrúnt – purpurarautt lauf:

    Hvítmynstrað lauf:

    Gulgrænt lauf:

    Rannveig Guðleifsdóttir

    Garðaflóra

Sjá fleiri spurningar & svör