Inniplöntur

  • Hvernig er best að vökva

    Hvernig er best að vökva

    Algengasta dánarorsök pottaplanta er röng vökvun þ.e. annað hvort of mikil eða of lítil. Íslenskt kranavatn hentar flestum pottaplöntum, það er sérlega kalksnautt og hentar því fleiri pottaplöntum en kranavatn í flestum öðrum löndum. Mikilvægt er að nota ekki of kalt vatn en gott er að láta vatnið standa yfir nótt áður en vökvað er.


    Þrjár leiðir til að vökva

    Vökva í moldina

    • Nota vatnskönnu með mjóum stút til að stýra vatnsmagni
    • Passa að vökva ekki of mikið
    • Hella burt því vatni sem stendur eftir í undirskál eða yfirpotti eftir klukkutíma

    Vökva að neðan

    • Auðvelt að tryggja að jarðvegurinn blotni í gegn
    • Ólíklegra að maður ofvökvi
    • Hella burt því vatni sem stendur eftir í undirskál eða yfirpotti eftir klukkutíma
    • Hægt að bregðast við svarðmýi (litlu svörtu flugunum) og sveppum (hvítri skán í jarðvegi) með því að vökva að neðan.
    • Einstaka plöntur (t.d. pálíur og heimilisfriður) þola illa að vatn lendi á blöðum og þurfa því að vera vökvaðar að neðan

    Dýfa plöntunni

    • Sú aðferð sem tryggir best að jarðvegurinn blotni alveg í gegn en maður ofvökvi þó ekki
    • Potturinn tekinn og dýft í fötu af vatni.
    • Jarðvegurinn er blautur í gegn þegar loftbólur hætta að stíga til lofts
    • Potturinn þarf síðan að standa þangað til umfram vatnið hefur runnið burt

     

  • Hversu oft á að vökva

    Hversu oft á að vökva

    Enga fasta reglu er hægt að setja um vökvun. Hún fer eftir plöntunni, hita- og rakastigi í herbergi, birtu og árstíð. Gott er að kynna sér plöntuna til að vita hversu mikinn raka hún þarf. Sumar plöntur verða að þorna vel á milli, sumar vilja aðeins að efsta lag jarðvegarins þorni og sumar þola litla sem enga þornun.
    Til að vita hvort kominn sé tími til að vökva er best að skoða jarðveginn. Gott er að stinga putta í moldina og athuga rakastigið. Ef hún er þurr c. 3 cm ofan er kominn tími til að vökva flestar plöntur. Best er þó að nota rakamæli.

    Einnig þarf að passa að vatnsþörfin fer eftir árstíma.

    Vetrarvökvun

    Á veturna þarf að draga úr vökvun. Í skammdeginu þurfa plöntur mikið minna vatn. Ef vökvað er jafn oft og mikið og yfir sumar mun umfram vatnið sitja eftir í pottinum. Það getur valdið rótarfúa og svarðmýi (litlu svörtu flugurnar).
    Fylgjast vel með plöntunum á sólríkum dögum yfir sumartímann. Á björtum stað getur planta þornað hratt á blíðviðrisdögum.

  • Áburðargjöf inniplantna

    Hvenær á að nota áburð

    Mikilvægt er að gefa plöntum næringu milli þess sem þeim er umpottaðar. Ef það er ekki gert er hætta á næringarskorti sem getur valdið blaðskaða eða að blómplanta blómstri ekki.


    Mikilvægt er að vökva ekki með næringu yfir vetur

    Plantan getur ekki nýtt sér næringuna í skammdeginu en hún mun byggjast upp í jarðveginum. Gamalt húsráð er að vökva með næringu í öllum þeim mánuðum sem enda ekki með r-i. Það er, mars – ágúst; en ekki í mánuðunum; september – febrúar.
    Einnig er mikilvægt að gefa ekki of mikla næringu og ekki of oft. Fylgja skal fyrirmælum með hverri næringu (og jafnvel þynna út meira en þær segja) og alltaf vökva með hreinu vatni a.m.k. einu sinni milli næringar þannig að næringin byggist ekki upp í jarðveginum.

    Súr næring

    Einstaka plöntur þurfa sérhæfða næringu, svo sem lyngrósir, hortensíur og gardeníur, sem vilja súra næringu.

     

  • Hvernig mold er best að nota

    Hvernig mold er best að nota

    Þær pottaplöntur sem við erum með inni hjá okkur koma víðsvegar frá og eru vanar mismunandi jarðvegi. Réttur jarðvegur er ekki alltaf bráðnauðsynlegur en ef hann er sá rétti auðveldar það alla aðra umhirðu á plöntunni. Ef plantan þín er viðkvæmari en hún ætti að vera fyrir mismunandi raka- og birtuskilyrðum er mjög líklegt að hún sé í óheppilegum jarðvegi. Hægt er að fletta uppi þörfum hverrar plöntu fyrir sig eða íhuga rakaþörf og ákveða moldina út frá því. Einnig er hægt að blanda bætiefnum í moldina til að laga hana að sérþörfum hverrar plöntu.

    Alhliða mold


    Mold sem hentar fyrir flestar pottaplöntur. Passa þarf að;

    • drenið sé gott (að hún verði ekki að drullu þegar hún blotnar)
      hún sé rakadræg (hún haldi í sér vatni og það leki ekki strax í gegn)
    • að hún haldist loftkennd (verði ekki að steypu þegar hún þornar)
    • einnig er gott að athuga hvort hún sé næringarbætt og pH-jöfnuð

    Ef plantan þarf sérhæfða mold er góð almenn mold heppilegur grunnur
    til þess að planta bætiefnum saman við.
    Góð almenn mold sem fæst í Garðheimum er Culvita Potgrond.


    Sáðmold


    Mold ætluð til að sá fræjum í og koma upp græðlingum. Sáðmold er
    sandkennd með hröðu frárennsli sem kemur í veg fyrir rótarfúa. Hún er
    einnig ekki jafn næringarbætt og almenn mold og kemur þannig í veg
    fyrir ofvöxt græðlinga sem hætta er á í almennri mold. Hægt er að sá
    fræjum beint í hana og halda kímplöntunum í henni þar til nokkur
    laufblöð eru komin á þær. Þá er hægt að færa plöntuna yfir í almenna
    mold.

    Kaktusamold


    Mold ætluð kaktusum og þykkblöðungum. Hún hentar einnig vel fyrir
    índíanafjöður og aðrar plöntur sem þola illa að standa í vatni. Moldin er
    mjög sandkennd og því er frárennslið mjög hratt. Auðveldar hirðu á
    þessum plöntum til muna þar sem töluvert minni hætta er á ofvökvun
    og rótarfúa.

    Súr mold


    Mold ætluð plöntum sem þurfa lægra pH-gildi en er í almennri mold.
    Gildið í slíkri mold er um 4.5 - 6.5, í stað 7+ í almennri mold. Röng mold
    getur valdið næringarskorti í sýrukærum plöntum þar sem þær geta
    ekki tekið upp efni í röngu sýrustigi. Dæmi um þessar plöntur eru
    lyngrósir, hortensíur, alparósir og gardeníur. Einnig er hægt að laga
    sýrustigið af með súrri fljótandi næringu.

    Leirkennd mold fyrir ólífu- og sítrustré
    Ólífu- og sítrustré koma frá ströndum Miðjarðarhafs þar sem
    jarðvegurinn er leirkenndur með hröðu dreni. Umhirða þeirra plantna
    og annarra Miðjarðarhafsplanta svo sem köngulpálma er auðveldust í
    þessari mold. 

  • Bætiefni í mold

    Bætiefni í mold


    Hægt er að bæta dren og rakadrægni með því að blanda moldina með
    bætiefnum.
    Kókostrefjar
    Kókostrefjar eru notaðar sem jarðvegur fyrir sumar orkídeutegundir
    sem þola ekki venjulegan jarðveg.
    Einnig er hægt að blanda þeim við jarðveg til að gera hann
    loftkenndari, rakadrægari og auka dreni


    Vikur


    Vikur er hægt að nota neðst í potti til að auka dren.
    Ef ekki er hægt að tryggja dren er hægt að setja gott lag af vikri neðst í
    pottinn svo vatnið safnist þangað og sitji ekki á rótum.
    Einnig er hægt að blanda honum við jarðveg ti að gera hann
    loftkenndari og auka dren.


    Leirkúlur


    Leirkúlur eru notaðar neðst í potti til að auka dren, leirkúlurnar
    draga einnig í sig vökva sem þær skila síðan og geta því aukið
    rakadrægni
    og lengt tíma milli vökvuna.
    Einnig er hægt að blanda þeim við jarðveg til að gera hann
    loftkenndari og rakadrægari. Þær henta sérlega vel fyrir plöntur sem
    þola þurrk illa þar sem þær skila raka aftur í jarðveg þegar hann
    þornar.

    Vermíkúlít


    Vermíkúlít er bætiefni fyrir jarðveg. Það eykur frárennsli en er aðallega
    notað til að gera moldina rakadrægari. Það hentar því vel fyrir plöntur
    sem þola illa þurrk og er oft notað með græðlingum og kímplöntum.
    Perlít
    Perlít er bætiefni fyrir jarðveg. Það er einnig hentugt til að róta
    afklippur eða vatnsræktun. Í jarðvegi eykur það frárennsli og gerir
    hann loftkenndari.


    Vatnskristallar


    Einnig kallað vatnsgel. Litlir kristallar sem draga í sig vatn þegar
    vökvað er sem þeir skila síðan út í jarðveginn þegar hann þornar. Gerir
    þannig moldina rakadrægari og lengir tíma milli vökvana.

  • Hvenær á að umpotta

    Hvenær á að umpotta

    Best er að umpotta í byrjun vaxtartímans, að vori, en það er ekki nauðsyn. Ef hægt er að bíða til vors er það betra. En ef mjög þröngt er um plöntuna eða hún farin að þorna mjög hratt er betra að umpotta henni en láta hana bíða til vors.
    Hægt er að brúa bilið milli umpottanna með því að setja nýtt lag af mold efst til þess að auka rakadrægni og næringu í jarðvegi.
    Til að sjá hvort tímabært sé að umpotta er gott að lyfta upp undirpottinum og sjá hvort rætur séu komnar í gegn um götin í botninum. Einnig er hægt að taka utan um pottinn og finna þrýstinginn, hvort ræturnar séu búnar að fylla upp pottinn að innan. Ef hvort tveggja (eða annað) á við, er líklegt að kominn sé tími á umpottun.

    Aðrar vísbendingar um að kominn sé tími til er ef plantan þornar mjög hratt milli vökvanna (ef plantan hefur innbyrt alla moldina helst raki ekki í pottinum) og ef plantan er að visna eða blöðin ljós.

    Rótarbundnar plöntur

    Einstaka plöntur þrífast betur ef þær eru rótarbundnar og eru því umpottaðar sjaldnar.

    Til dæmis friðjarlilja, sómakólfur og indíánafjöður. Gamalt húsráð er að umpotta þeim ekki fyrr en þær sprengja pottinn utan að sér.
    Einstaka plöntur eru með viðkvæmt rótarkerfi og því ætti að raska því sem minnst við umpottun. Dæmi um slíkar plöntur eru friðarlilja og strelitzia (Bird of Paradise)

  • Hvernig er plöntum umpottað

    Hvernig er plöntum umpottað

    Þegar plöntu er umpottað er hún sett í stærri pott og moldin endurnýjuð. Þumalputtareglan er sú að stækka pottinn um eina stærð (u.þ.b. 2 cm stærri í þvermáli). Ekki er ráðlagt að stækka um meira en það þar sem plantan gæti þá vaxið úr sér. Gott er að grípa mjúklega um plöntuna og byrja að losa pottinn frá henni. Hægt er að þrýsta á pottinn og gjugga honum til þess að losa hann. Plantan er tekin upp og varlega leyst úr rótarflækjunni. Setjið moldarlag í nýja pottinn og setjið plöntuna ofan á það þannig hún standi í réttri hæð (með nægri mold undir) og í miðjunni. Hellið síðan mold með fram plöntunni þannig að plantan sé stöðug í pottinum. Ekki þjappa moldinni um of þar sem hún þarf að vera loftkennd í kring um ræturnar. Gott er að láta pottinn standa í vatni í um klukkutíma til þess að draga í sig vökva og síðan láta renna vel af.

  • Hvernig pott á að nota

    Hvernig pott á að nota

    Allar plöntur þurfa dren. Ef dren er ekki til staðar munu ræturnar standa í vatni og geta þá fúnað. Algengast hér á landi er að vera með plönturnar í plastundirpotti ofan í hlífðarpotti utan um það. Þannig getur vatnið lekið úr undirpottinum. Mikilvægt er að hlífðarpotturinn sé a.m.k. cm stærri en undirpotturinn þannig loft geti leikið um hann.
    Einnig er hægt að setja plöntur beint í pott með gati og hafa síðan undirskál.
    Dæmi um þannig potta eru leirpottar. Leirpottarnir eru ekki vatnsheldir eins og plastið er og hafa því meiri áhrif á plöntuna. Kostur við leirpottana er þeir anda og geta því hentað vel fyrir plöntur með viðkvæmt rótarkerfi. Leirpottar munu hins vegar draga í sig vökva og því þorna plöntur fyrr í þeim. Þeir henta því mjög vel fyrir kaktusa og þykkblöðunga eða fyrir þá sem duglegir eru að vökva.
    Ef potturinn býður ekki upp á dren né að plastpottur sé hafður í honum er hægt að setja gott lag af vikri í botninn. Þá getur vatnið lekið niður í það lag og situr ekki á rótunum.

  • Umpottun - kennslumyndband

    Hér má sjá kennslumyndband hvernig best er að umpotta pottaplöntum.

     

  • Hvernig hægt er að hækka loftraka

    Hvernig hægt er að hækka loftraka

    Almennt er rakastig íslenskra heimila of lágt fyrir pottaplöntur. Ráðlagt rakastig fyrir flestar pottaplöntur er 40-60% og hærra fyrir sumar.
    Of lágt rakastig getur valdið skemmdum á laufblöðum, þau skrælnað eða orðið brún á endunum. Lauffagrar plöntur eins og calatheur þurfa hátt rakastig til að haldast fallegar og heilbrigðar. Hægt er að halda rakastigi uppi með að úða plöntur reglulega. Best er að úða daglega yfir plöntuna alla. Einnig er gott að velja staðsetningu slíkra plantna vel, ekki nálægt glugga eða hurð.
    Ef það er ekki nóg er hægt að útbúa rakabakka undir plöntuna; stór undirskál með vikri eða smásteinum þar sem vatn stendur og hækkar rakastig.
    Ef planta þarf sérlega hátt rakastig er einnig hægt að hafa rakatæki eða lítið ilmolíutæki hjá á henni.

  • Plöntur sem þurfa mikla vökvun

    Hvaða plöntur þurfa mikla vökvun

    Einstaka plöntur þola litla sem enga þornun. Að sumu leyti eru þessar plöntur auðveldar þar sem erfitt er að ofvökva þær (nema þær bókstaflega standi í vatni). Huga þarf sérstaklega að þeim á mjög sólríkum dögum eða ef farið er í burtu í einhvern tíma. Dæmi um slíkar plöntur eru:

    • Friðarlilja
    • Burknar
    • Aspas
    • Sumir kærleiksviðir (philodendron)
    • Heimilisfriður
    • Brómelíur
    • Gardeníur
    • Ýmsar hitabeltistegundir


    Hægt er að koma í veg fyrir þorrnun með því að setja þessar tegundir í sjálfsvökvandi pott eða nota vökvunarstauk 

  • Plöntur sem þola að þorna

    Plöntur sem þola þurrk vel

    Sumar plöntur þola vel að vera vökvaðar sjaldan. Þessar plöntur henta vel þeim sem eiga það til að gleyma að vökva, fara oft burt og á hlýja og þurra staði. Þessar plöntur vilja jarðveg og pott með góðu dreni. Dæmi um slíkar plöntur eru:

    • Kaktusar
    • Mjólkurjurtir
    • Sómakólfur
    • Indíanafjöður og indíanahöfðingi
    • Þykkblöðungar
    • Maríulauf
    • Sjómannsgleði
    • Pálmalilja, jukka
    • Drekatré
    • Hjartband
    • Perluband
  • Hvaða plöntur sem henta fyrir svefnherbergi

    Hvaða plöntur sem henta fyrir svefnherbergi

    Lofthreinsandi plöntur henta vel fyrir svefnherbergi, til dæmis;

    • Indíánafjöður og indíánahöfðingi
    • Sómakólfur
    • Friðjarlilja
    • Mánagull
    • Drekatré
    • Veðhlaupari
    • Gúmmífíkja

    En varast plöntur sem gefa frá sér efni sem gætu valdið
    ofnæmisviðbrögðum eða valda álagi á öndunarfæri. Má nefna;

    • bergfléttu
    • suma burkna
    • sumar blómstrandi plöntur
  • Plöntur sem henta fyrir baðherbergi

    Plöntur sem henta fyrir baðherbergi

    Hærra rakastig er oft í baðherberginu í öðrum herbergjum hússins. Það er því upplagt herbergi fyrir þær pottaplöntur sem vilja hærra rakastig.
    Rakakærar pottaplöntur eru t.d.

    • Friðarlilja
    • Burknar
    • Mánagull
    • Vínviður
    • Aspas
    • Gullpálmi
    • Loftplöntur
    • Brómelíur
  • Plöntur sem henta fyrir skrifstofur

    Plöntur sem henta fyrir skrifstofur

    Plöntur í skrifstofu þurfa oft að þola litla birtu (eða birtu frá flúorljósum), lágt rakastig og að það komi tímabil þar sem vökvun er lítil. Sem betur fer eru til fallegar og auðveldar plöntur sem þola þessar aðstæður vel og eru því upplagðar í skrifstofur. Má nefna:

    • Mánagull
    • Mánageisli
    • Indíánafjöður og indíánahöfðingi
    • Sómakólfur
    • Veðhlaupari
    • Drekatré
    • Pálmalilja, jukka
    • Sjómannsgleði
    • Maríulauf
    • Gúmmífíkja
      Þessar plöntur eru auk þess allar lofthreinsandi.
  • Plöntur sem þola vel að vera í skugga

    Plöntur sem þola vel að vera í skugga

    Sumar plöntur þola litla birtu mjög vel. Þetta eru oft skógarbotnsplöntur vanar skugga. Oft helst hönd í hönd að þær plöntur sem þola skugga vel þola þurrk illa og vilja einnig háan loftraka, en það eru til undantekningar við þeirri reglu. Dæmi um skuggþolnar plöntur eru:

     

    • Burkna
    • Calatheur
    • Flauelsfjöður
    • Aspas
    • Bænablóm
    • Friðarlilja
    • Mánagull
    • Sjómannsgleði*
    • Maríulauf*
    • Veðhlaupari*
    • Sómakólfur*
    • Indíánafjöður og indíánahöfðingi*
      *þurfa ekki mikla vökvun en þola skugga vel

  • Plöntur sem þola mikla sól

    Plöntur sem þola mikla sól

    Það getur verið vandasamt að finna plöntu fyrir mjög sólríkan stað. Flestar
    plöntur munu brenna og skrælna í of mikilli birtu. Þær plöntur sem þola sem
    mesta birtu eru til dæmis:

    • Kaktusar
    • Mjólkurjurtir
    • Þykkblöðungar
    • Perluband
    • Hjartaband
    • Havajirós
    • Papírus
  • Pottaplöntur í skammdeginu

    Pottaplöntur í skammdeginu

    Mest krefjandi verkefni íslenska pottaplönturæktandans er skammdegið. Fáir klukkutímar af birtu á hverjum degi gefa plöntum litla orku til að vinna úr og þá verða þær viðkvæm fyrir allskonar vandamálum. Aukin kynding innandyra gerir loftið þurrt og hitastig í gluggakistum getur orðið of lágt.

    Ekki gefa næringu
    Mikilvægt er að gefa enga næringu með vökvun yfir skammdegið þar sem plantan mun ekki geta nýtt sér það.

    Plöntur má færa til innanhúss

    Hægt er að bregðast við minna sólarljósi með því að færa plöntur á bjartari stað. Björtustu staðirnir, sem væru óæskilegir um mitt sumar, geta hentað vel fyrir plöntur yfir dimmasta skammdegið. Einnig er hægt að kaupa vaxtarperu með litrófi ætluðu plöntum.

    Raki er nauðsynlegur
    Lægra rakastig getur valdið því að plönturnar þorna fyrr og blöð þorna. Gott er að úða oftar yfir vetur en ella, eða fjárfesta í rakatæki eða rakabakka (bakki undir plöntunni með steinum eða vikri þar sem vatn getur staðið).
    Hitastig í gluggakistum getur einnig orðið of lágt fyrir sumar plöntur, gott að athuga hitastigið og færa þær á annan stað.

     

  • Plöntur sem eru lofthreinsandi

    Plöntur sem eru lofthreinsandi

    Allar ljóstillífandi plöntur munu stuðla að hærra súrefnismagni í lofti og draga úr koltvíoxíði. Þar að auki hreinsa sumar plöntur upp önnur óæskileg efni úr lofti, svo sem formaldehýð og bensól. Lofthreinsandi plöntur eru til dæmis:

    • Indíánafjöður og indíánahöfðingi
    • Sómakólfur
    • Friðjarlilja
    • Mánagull
    • Drekatré
    • Veðhlaupari
    • Gúmmífíkja
    • Sverðburkni
  • Plöntur sem eru eitraðar

    Plöntur sem eru eitraðar

    Margar plöntur eru eitraðar ef innbyrtar. Oft þýðir þetta ógleði og uppköst en geta valdið alvarlegum verkunum í stórum skömmtum. Einnig getur safi sumra plantna valdið útbrotum ef hann kemst í snertingu við húð. Ekki þarf að óttast þessar plöntur svo lengi sem viðeigandi ráðstafanir eru gerðar, hanskar notaðir við umpottun og þær hafðar þar sem börn komast ekki í þau. Ef einhver hluti er innbyrtur er hægt að hafa samband við Eitrunardeild Landspítalans.
    https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/eitrunarmidstod/

    Best er að kynna sér alltaf plöntu áður en farið er með hana heim til að vita hvort hún sé eitruð. Hægt er að finna uppflettilista yfir eitraðar plöntur hér:
    https://ucanr.edu/sites/poisonous_safe_plants/Toxic_Plants_by_Scientific_Name_685/

    Meðal algengra stofuplantna sem eru eitraðar mönnum eru:

    • Nería
    • mjókurjurtir (t.d. jólastjarna)
    • köllubróðir
    • rifblaðka (monstera)
    • jasmína
  • Plöntur sem eru góðar byrjandaplöntur

    Plöntur sem eru góðar byrjandaplöntur

    Það er gott að byrja á einfaldri plöntu sem fyrirgefa fúslegar ónákvæma vökvun. Sem dæmi má nefna:

    • Sómakólfur
    • Indíánafjöður og indíánahöfðingi
    • Drekatré
    • Maríulauf
    • Sjómannsgleði
    • Veðhlaupari
    • Mánagull
    • Pálmalilja, jukka
    • Mjólkurjurtir
    • Sebrína
    • Nóvemberkaktus
    • Hjartaband
  • Plöntur sem eru gæludýravænar

    Plöntur sem eru gæludýravænar

    Margar stofuplöntur sem við erum með eru eitraðar hundum og köttum.
    Almennt ættu þó gæludýr ekki að reyna að borða plönturnar ef rétt er hugað að næringarinntöku þeirra. Það er þó hvers eiganda að þekkja sitt dýr.
    Hér er hægt að fletta upp hvort planta er eitruð hundum eða köttum

    Nokkur dæmi um plöntur sem eru ekki eitraðar hundum og köttum eru:

    • Pálía
    • Veðhlaupari
    • Banani
    • Sverðburkni
    • Calathea
    • Piparskott
  • Ýmislegt sem getur verið að pottaplöntunum

    Það er allt morandi í litlum svörtum flugum

    Litlu svörtu flugurnar eru svarðmý. Þær gera pottaplöntum lítinn skaða en geta gert eigendur þeirra gráhærða. Svarðmý er oftast vísbending um ofvökvun, eða að einhvers staðar standi vatn. Flugan þarf standandi vatn til að verpa. Ef of mikið er vökvað stendur bleyta eftir í plöntunni þar sem eggin og lirfan getur lifað. Fyrsta skrefið er því að draga úr vökvun. Einnig getur hjálpað að vökva að neðan. Fylgist vel með mold til þess að vera viss um að vökva aldrei þegar moldin er enn blaut. Límgildrur henta vel til að góma fullorðnu flugurnar. Límborða er hægt að hengja við plöntur og vaska eða stinga í moldina.
    Gamalt húsráð er að strá þunnu lagi af kanil yfir moldarlagið eða setja sandlag, svo lirfan komist ekki upp.
    Einnig er hægt að eitra, þá með Húsa- og garðaúða eða öðru eitri, en það er alls ekki nauðsynlegt við þessari vá.

    Laufblöð detta af

    Ef laufblöð detta skyndilega af plöntu – jafnvel mörg í einu, án þess að nokkuð sjáist á þeim geta nokkrir hlutir verið að.
    Lauffallið er oft viðbragð við snöggu áfalli.
    Til dæmis mætti athuga hvort vökvað hafi verið með mjög köldu vatni.
    Eða plantan lent í miklum kulda í einhvern tíma.
    Einnig getur lauffall verið viðbragð við þurrki, þannig gott er að skoða jarðveginn og ef hann er þurr vökva oftar í framtíðinni.
    Ef blöðin fúna eða skrælna aðeins áður en þau falla er líklegt að um ofvökvun eða of litla vökvun hafi verið að ræða.
    Blaðfall getur einnig verið vegna einhverra meindýra og því er líka gott að skoða vel hvort eitthvað óæskilegt kvikt sé á plöntunni.
    Á sama tíma er gott að hafa í huga að það er einnig eðlilegt að planta felli laufblöð stöku sinnum.

    Laufblöðin verða brún á endanum og/eða brúnunum

    Oftast má skýra brúna enda vegna of lágs loftraka. Algengt er að sjá þennan skaða á fagurgrænum laufplöntum sem þurfa góðan loftraka. Ráðið við því er að færa plöntuna þar sem súgur er minni, úða hana oftar og jafnvel fá rakatæki við hana.
    Brúnir endar geta einnig verið vísbending um of litla vökvun (eða of mikla í einhverjum tilfellum) eða of mikinn hita.

    Laufblöðin eru að skrælna

    Oftast má skýra skrælnuð laufblöð vegna of lítillar vökvunar en of lágur
    loftraki og mikill hiti getur einnig verið vandinn.

    Laufblöðin eru undin

    Undin laufblöð eru oftast vísbending um að of mikill hiti sé og of lágur raki (til
    dæmis ef plantan er upp við heitan ofn).
    Það getur líka verið merki þess að einhverjar óværur séu á plöntunni og því ætti einnig að skoða hana vel.

    Það er brúnn blettur á laufblaðinu

    Ágæt þumalputtaregla er að skaðablettur á brún laufblaðs sé líklegast vegna of lágs raka, en blettur á miðju blaðinu líklegast sólbrunni. Þetta er langt frá því að vera algilt. En ef stór brúnn skaðablettur er á miðju laufblaði er sól líklegasti sökudólgurinn og fyrsta ráð er að færa plöntuna lengra frá glugga.
    Bletturinn getur einnig verið vísbending um of litla (eða einstaka sinnum of mikla) vökvun eða of mikinn hita og lágan raka.

    Það eru litlir brúnir blettir á laufblöðunum

    Ef blettirnir eru litlir á laufblöðum er ólíklegra að um sólskaða sé að ræða. Ef blettirnir eru dökkbrúnir og korkkenndir er líklegt að þeir séu vegna ofvökvunar. Ef blettirnir eru ljósir og þurrir eru líklegt að þeir séu vegna of lítillar vökvunar. Eins og með flestar skemmdir er einnig gott að athuga hvort eitthvað óæskilegt kvikt sé á plöntunni.

    Laufblöðin eru gulleit

    Gulleit laufblöð gætu líklega verið vegna of mikillar eða of lítillar vökvunar, þannig best er að skoða fyrst hvort moldin sé mjög þurr eða mjög blaut. Laufblöð geta einnig orðið gul í miklum súgi og kulda.
    Gulleit laufblöð geta einnig verið vísbending um næringarskort, sérstaklega ef mörg laufblöð eru gul.
    Á sama tíma er gott að hafa í huga að það er einnig eðlilegt að planta felli laufblöð stöku sinnum.

    Blómknúppar falla af án þess að blómstra

    Ef blómplanta verður fyrir einhverskonar áfalli er hennar fyrsta viðbragð að hætta við blómstrun. Að eyða þeirri orku ekki ef aðstæður eru ekki góðar. Það er því vísbending að eitthvað megi betur fara. Of lítil eða of mikil vökvun, ásamt og lágum loftraka, eða röngu hitastigi getur valdið því að blóm felli blómknúppa. Eins er gott að athuga hvort einhver væra sé á plöntunni.

    Blómið mitt blómstrar ekki

    Ef blómplanta blómstrar ekki ár eftir ár er hægt að athuga hvort nokkur atriði séu í lagi.
    Í fyrsta lagi mun blómplanta ekki blómstra ef of dimmt er hjá henni, þannig hægt er að prófa að setja hana á bjartari stað.
    Einnig er hægt að prófa að gefa henni fljótandi næringu fyrir blómstrandi plöntur, en það getur kallað á blómstrun.
    Svo þarf einnig að hafa í huga að sumar plöntur blómstra ekki fyrr en þær fylla upp í pottinn og þröngt er um ræturnar. Dæmi um slíka plöntu er friðarlilja. Þegar friðarlilja er umpottuð má búast við að hún blómstri ekki í einhvern tíma eftir það. Ef plantan er í stórum potti er hægt að prófa að umpotta henni í minni pott og sjá hvort hún blómstri þá.

    Blöðin lúta niður og hanga

    Fyrst skal athuga hvort plantan sé þurr og vökva strax ef svo er. Oft er þetta merki þess að ekki sé vökvað nóg.
    Hinsvegar getur það líka verið merki þess að of mikið hafi verið vökvað. Þá eru laufblöðin oft lin og þrútin, en einnig ætti að vera hægt að sjá það á moldinni.
    Ef plantan öll virðist visna getur vandinn verið rótarfúi. Hann kemur upp ef moldin helst blaut eða of þurr lengi. Best er að taka upp plöntuna og hreinsa ræturnar vel (sem eru þá dökkar og fúnar) og setja í nýja mold (sem er hvorki mjög þurr né blaut). Það getur verið erfitt að ná plöntu til baka eftir að rótarfúi er kominn.
    Að lokum gætu þetta einnig verið viðbrögð við einhverri væru og því gott að skoða plöntuna vel.

    Blöðin ljós og slöpp

    Ef plantan er lin og efsta lag hennar mjúkt og brotnar auðveldlega er líklegt að ofvökvun sé sökudólgurinn. Ef það er raunin er mikilvægt að leyfa moldinni að þorna sem allra fyrst, því plantan er farin að fúna. Setjið plöntuna á þurran og hlýjan stað þar sem moldin getur þornað hratt og dragið úr vökvun í framhaldinu.
    Ef efsta lag („húð“) plöntunnar er enn hart en plantan sjálf ljós og slöpp gæti verið um of litla vökvun að ræða (sem sést þá á mold).
    Líklegast er þó að hún sé á of dimmum stað og þurfi meiri birtu.

    Plantan mín er að vaxa út í mjóum stilkum

    Margar plöntur bregðast við of lítilli birtu með því að „leita“ að birtu með litlum mjóum stilkum. Þetta er algengt hjá t.d. þykkblöðungum þar sem þeir verða háir og grannir í stað þess að vera lágir og bústnir.
    Færið plöntuna í meiri birtu.

    Það er hvít skán ofan á moldinni

    Hvít skán á mold er líklegast sveppumygla. Myglan er ekki mjög hættuleg plöntunni en er vísbending um að það sé vökvað of mikið. Dragið úr vökvun ef plantan þolir það. Ef plantan þarf svo mikinn raka er gamalt húsráð að strá þunnu kanillagi yfir moldina.

    Það er grá slikja yfir laufblöðunum og vefur

    Ef vefur er á plöntunni þarf ekki að örvænta alveg strax - það er gríðarlega margt sem spinnur vef sem getur verið á plöntunni þinni. Köngulær og mítlar geta verið agnarsmáir og fundið sér gott heimili í plöntunni þinni. Þeir munu flestir ekki gera plöntunni þinni neinn skaða og jafnvel halda burtu þeim værum sem gætu gert skaða.
    Vefurinn getur hins vegar líka verið spunamaur – sem er ekki velkominn gestur. Ef um spunamaur er að ræða mun einnig sjást skaði á plöntunni sjálfri. Laufblöðin á plöntunni verða grá og mött. Spunamaurinn bítur og sýgur laufblöðin og skilur lítil tannaför eftir. Flekkótt slikja virðist því leggjast yfir blöðin. Ef spunamaur er á plöntunni einangraðu hana strax og skoðaðu leiðbeiningar varðandi skordýr hér að neðan.

    Það eru hvítir hnoðrar á plöntunni

    Hvítir hnoðrar sem líkjast bómull, en eru klístraðir eins og kandífloss, er ullarlús. Lúsin sjálf er silfurgráleit og getur verið svo agnarsmá að hún sést ekki, að því að vera um 0,5 cm löng. Lúsin sest sérstaklega á öll mót (þar sem blað mætir stilki, stilkur bol o.s.frv.) og undir laufblöð. Einangrið plöntuna strax og skoðið nánar leiðbeiningar um skordýr hér að neðan.

    Það eru litlar brúngráar skellur á plöntunni

    Tvennt kemur til greina ef það eru brúngráar skellur. Það er annaðhvort gamalt ör á plöntunni eða skjaldlús. Til að athuga hvort það sé er gott að sjá hvort hægt sé að kroppa skelluna af. Ef hún fer ekki af, eða brotnar af og skilur eftir sig sár á plöntunni, er skellan sár eða ör. Ef skellan fer af í einu lagi tiltölulega auðveldlega er líklegast um skjaldlús að ræða. Einangrið plöntuna strax og skoðið nánar leiðbeiningar um skordýr hér að neðan.

    Það eru silfurgráir flekkir á laufblöðunum

    Silfurgráir flekkir á blöðum og litlar svartar doppur ofan á laufblaði eru kögurvængjur. Einangrið plöntuna og skoðið nánar leiðbeiningar um skordýr hér að neðan. Þar sem kögurvængjurnar eru fleygar er mikilvægt að skoða allar aðrar plöntur vel.

    Það eru litlar grænar flugur á plöntunni

    Litlar grænar flugur eru blaðlýs. Ekki velkominn gestur en með auðveldari værum til að losna við. Einangrið plöntuna og skoðið nánar leiðbeiningar um skordýr hér að neðan.

    Það eru litlir ormar/lirfur í moldinni

    Litlar hvítar lirfur í moldinni er líklegast pottamor. Pottamor gerir plöntum lítinn skaða, en mörgum finnst þó óþægilegt að hafa hann. Gegn honum er hægt að dýfa plöntunni í heitt vatn (skoða skordýravarnir neðst) eða eitra í jarðveginum.

    Það er könguló á plöntunni

    Til hamingju, þú ert með náttúrulega skordýravörn. Köngulóin mun ekki gera plöntunni neitt og mun nærast á því sem gæti gert henni skaða.
    Ef þú ert hinsvegar ekki hrifinn af nýja gestinum þínum getur þú fjarlægt hann með eyrnapinna eða töng. Einnig virkar almennt skordýraeitur, eins og Húsa- og garðaúði einnig á köngulær.

    Það er vefur á plöntunni

    Ekki örvænta alveg strax – það er gríðarlega margt sem spinnur vef sem getur verið á plöntunni þinni. Köngulær og mítlar geta verið agnarsmáir og fundið sér gott heimili í plöntunni þinni. Þeir munu flestir ekki gera plöntunni þinni neinn skaða og jafnvel halda burtu þeim værum sem gætu gert skaða.
    Vefurinn getur hins vegar líka verið spunamaur – sem er ekki velkominn gestur. Ef um spunamaur er að ræða mun einnig sjást skaði á plöntunni sjálfri. Laufblöðin á plöntunni verða grá og mött. Spunamaurinn bítur og sýgur laufblöðin og skilur lítil tannaför eftir. Flekkótt slikja virðist því leggjast yfir blöðin. Ef spunamaur er á plöntunni einangraðu hana strax og skoðaðu leiðbeiningar varðandi skordýr hér að neðan.

    Það eru litlir gulir hringir á blöðunum, eða annarskonar mynstur

    Ljósgrænir eða gulir hringir, eða annarskonar greinilegt mynstur, er líklegast vírussýking á plöntunni. Einangrið plöntuna strax og reynið að staðfesta með að fletta upp að um vírussýkingu sé að ræða. Ef svo er er því miður lítið annað en að gera en að henda plöntunni þar sem engin lyf eru til gegn henni. Skoðið síðan vel hvort hún hafi breitt sér út til annarra plantna.

  • Meindýr – HÚSRÁÐ

    Meindýr – HÚSRÁÐ

    Spunamaur

    Spunamaur er áttfætla. Hann er agnarsmáar og sést varla með berum augum. Þeir fjölga sér ógnarhratt, en geta farið frá eggi að kynþroska á örfáum dögum og verpt gríðarlegu magni. Spunamaurinn sýgur safann úr laufblöðum og blómknúppum.

    Þó erfitt sé að sjá spunamítilinn sjálfan sést vefurinn sem hann spinnur yfir plöntuna berum augum. Mörgum bregður þegar þeir finna vef á plöntunni sinni, en það getur margt annað en spunamaur valdið honum. Því er gott að skoða plöntuna sjálfa vel áður en gripið er til aðgerða. Vefurinn sem spunamaurinn spinnur er fíngerður og þéttur. Hann fer á milli stilka og laufblaða en einnig yfir laufblöðin sjálf. Stundum er hægt að sjá spunamaurinn sjálfan sem litlar rauðappelsínugular doppur á vefinum. Það sést einnig vel skaði á plöntunni sjálfri. Spunamaurinn bítur og sígur laufblöðin en það skilur eftir lítil hvít eða gul sár. Laufblaðið er á endanum allsett þessum örum og virðist þá matt eða með grárri slikju yfir. Á endanum gulna blöðin, oft frá blaðstilki upp.

    Eins og með allar værur er fyrsta skref að einangra plöntuna og skoða allar aðrar vel fyrir sýkingu. Ef sýking er mjög langt komið þarf einnig að spyrja sig hvort best sé að fleygja plöntunni.
    Gott er að byrja á safna vefnum og vonandi með því fjarlægja sem flesta maura. Ef sýkingin er nýbyrjuð getur verið gott fyrsta ráð að fara með plöntuna í sturtu og skola vel af henni með eins sterkri bunu og plantan þolir. 47° bað aðferðina eða sítrónudropa og uppþvottalögur. Eftir það er hægt að nota náttúrulegan skordýraeyði svo sem InsektriFri eða NeemAzal. Einnig er hægt að nota skordýraeitur eins og Húsa- og garðaúða. Hægt er að lesa nánar um þessar aðferðir og efni að neðan.
    Ef plantan er með slíður eða einhver fylgsni þar sem lúsin getur falið sig án þess að hægt sé að ná í hana getur verið mjög erfitt að uppræta sýkinguna.

    Kögurvængjur

    Kögurvængjur eru lítil fleyg skordýr. Hver er um 22 mm. að lengd en þær sjást helst þegar þær fljúga um. Þær sjúga safann úr laufblöðum og blómknúppum. Laufblöðin verða grásilfruð, flekkótt og detta að lokum af plöntunni. Plantan sjálf verður ljós, fær ör og verður undin. Einnig geta komið svartar doppur á laufblöðin. Vængjurnar sjálfar eru oftast undir laufblöðunum.
    Fyrsta skref er að einangra plöntuna strax. Kögurvængjur eru fleygar, plantan þarf því að fara í sér rými.
    Ef sýkingin er mjög skæð gæti það sniðugasta í stöðunni verið að fleygja plöntunni.
    Þar sem þær eru fleygar þarf að skoða allar aðrar plöntur vel þar sem þær eru fljótar að breiða sér út.
    Gegn kögurvængjum er gott að nota límgildrur til þess að ná sem flestum fullorðnum dýrum, þar sem að ekki allar eru á plöntunni sjálfri.
    Síðan er hægt að nota náttúrulegan skordýraeyði svo sem InsektriFri eða NeemAzal, eða húsráð eins og 47° bað aðferðina eða sítrónudropa og uppþvottalögur. Einnig er hægt að nota skordýraeitur eins og Húsa- og garðaúða. Hægt er að lesa nánar um þessar aðferðir og efni að neðan.

    Skjaldlús

    Skjaldlús er flatt skjaldlaga skordýr. Hún sést á blaði sem dökk- eða ljósbrún skel og getur verið erfitt að sjá að um skordýr sé að ræða ef maður þekkir hana ekki. Skjaldlúsin raðar sér eftir stilkum og æðum. Því er hægt að finna hana á æðum laufblaðs og á öllum mótum; þar sem laufblað mætir stilki, stilkur grein og grein boli. Hún heldur sig einnig undir laufblöðum.
    Stundum getur verið erfitt að vera viss um að skella sé skjaldús eða ör á plöntunni. Ef hægt er að kroppa skelluna léttilega af, hún fer af í einu (eða klessist), og skilur ekki eftir sig opið sár, er hún skjaldlús.
    Ef sýkingin er mjög væg er hægt að byrja á að týna skjaldlúsina af. Hún klessist og nuddast af mjög léttilega.

    Gott er að byrja á því að taka lítinn pensil eða eyrnapinna og dýfa í spritt. Með honum strýkur maður síðan yfir lúsina þar sem hún leynist. Sprittið leysir upp skelina á lúsinni og drepur hana. Ef sýkingin er væg er oft nóg að taka nokkrar umferðir af sprittpenslun, svo lengi sem maður fylgist vel með á milli og eftir. Ef sýkingin er skæðari en það er hægt að nota náttúrulegan skordýraeyði svo sem InsektriFri eða NeemAzal, eða húsráð eins og 47° bað aðferðina eða sítrónudropa og uppþvottalögur. Einnig er hægt að nota skordýraeitur eins og Húsa- og garðaúða. Hægt er að lesa nánar um þessar aðferðir og efni hér á eftir.
    Ef plantan er með slíður eða einhver fylgsni þar sem lúsin getur falið sig án þess að hægt sé að ná í hana getur verið mjög erfitt að uppræta sýkinguna.

    Ullarlús

    Ullarlús er hvítt eða silfrað skordýr. Sjálft skordýrið er grásilfrað og sést vel berum augum þegar það er fullvaxið. Hún skilur einnig eftir sig hvíta hnoðra en það eru oftast þeir sem fólk verður fyrst vart við. Hnoðrarnir líkjast helst bómull en eru klístraðir eins og kandífloss ef þeir eru snertir. Ullarlúsin raðar sér eftir stilkum og æðum. Því er hægt að finna hana, og hnoðra hennar, á æðum laufblaðs og á öllum mótum; þar sem laufblað mætir stilki, stilkur grein og grein boli. Hún heldur sig einnig undir laufblöðum. Ullarlúsin getur valdið úrvexti, eða annarskonar undarlegum vexti, hjá plöntunni. Fylgjast þarf vel með plöntu sem hefur eitt sinn fengið ullarlús, þar sem hún getur oft leynt sér eftir að maður heldur að búið sé að uppræta hana.
    Ef sýkingin er mjög skæð, og plantan alsett lúsinni, þarf að spyrja sig hvort betra sé einfaldlega fleygja henni. Þumalputtaregla fyrir ullarlúsina er að ef hún virðist hvít úr einhverri fjarlægð þá er sýkingin líklegast of langt farin til að mikið sé hægt að gera.
    Gott er að byrja á því að taka lítinn pensil eða eyrnapinna og dýfa í spritt. Með honum strýkur maður síðan yfir lúsina þar sem hún leynist. Sprittið leysir upp skelina á lúsinni og drepur hana. Ef sýkingin er væg er oft nóg að taka nokkrar umferðir af sprittpenslun, svo lengi sem maður fylgist vel með á milli og eftir. Ef sýkingin er skæðari en það er hægt að nota náttúrulegan skordýraeyði svo sem InsektriFri eða NeemAzal, eða húsráð eins og 47° bað aðferðina eða sítrónudropa og uppþvottalögur. Einnig er hægt að nota skordýraeitur eins og Húsa- og garðaúða. Hægt er að lesa nánar um þessar aðferðir og efni hér á eftir.
    Ef plantan er með slíður eða einhver fylgsni þar sem lúsin getur falið sig án þess að hægt sé að ná í hana getur verið mjög erfitt að uppræta sýkinguna.

    Blaðlús

    Blaðlús er lítið og grænt skordýr. Þær sjást oft í stórum klösum þar sem þær virðast yfirþyrma plöntuna. Þar sem hún er græn nær hún hins vegar oft að falla inn í bakgrunninn. Blaðlúsin fjölgar sér ógnarhratt og getur meyfætt og því getur sýking breitt sér út á svipstundu. Hún sést á vaxtarbroddum plöntunnar, æðum og blómknúppum. Það sjást líka skemmdir á plöntunni sjálfri en blöðin verpast oft og krumpast. Góðu fréttirnar eru þær að auðveldara er að losa sig við blaðlús en önnur skordýr. Oft er nóg að fara með plöntuna í sturtu og skola vel af henni með eins sterkri bunu og plantan þolir.
    Gott er að einangra sýktu plöntuna um leið (og skoða allar aðrar) og endurtaka sturtu nokkrum sinnum. Ef það nægir ekki til að uppræta sýkinguna er hægt að nota náttúrulegan skordýraeyði svo sem InsektriFri eða NeemAzal, eða húsráð eins og 47° bað aðferðina eða sítrónudropa og uppþvottalögur. Einnig er hægt að nota skordýraeitur eins og Húsa- og garðaúða. Hægt er að lesa nánar um þessar aðferðir og efni að neðan.

     

    Svarðmý, rakamý, litlar svartar flugur

    Litlu svörtu flugurnar eru svarðmý. Þær gera pottaplöntum lítinn skaða en geta gert eigendur þeirra gráhærða. Svarðmý er oftast vísbending um ofvökvun, eða að einhvers staðar standi vatn. Flugan þarf standandi vatn til að verpa. Ef of mikið er vökvað stendur bleyta eftir í plöntunni þar sem eggin og lirfan getur lifað. Fyrsta skrefið er því að draga úr vökvun. Einnig getur hjálpað að vökva að neðan. Fylgist vel með mold til þess að vera viss um að vökva aldrei þegar moldin er enn blaut. Límgildrur henta vel til að góma fullorðnu flugurnar. Límborða er hægt að hengja við plöntur og vaska eða stinga í moldina.
    Gamalt húsráð er að strá þunnu lagi af kanil yfir moldarlagið eða setja sandlag, svo lirfan komist ekki upp.
    Einnig er hægt að eitra, þá með Húsa- og garðaúða eða öðru eitri, en það er alls ekki nauðsynlegt við þessari vá.

  • Forvarnir gegn meindýrum

    Forvarnir gegn meindýrum

    Gott er að taka föstum tökum þegar sýking kemur upp en best er að koma í veg fyrir að það gerist yfir höfuð.

    Nokkurra ráð til að forðast að sýking komist upp í pottaplöntum

    • Skoða allar plöntur vel áður en þær eru keyptar.
      Það er ekki alltaf hægt að sjá sýkingu ef hún er skammt komin. Hins vegar er gott að venja sig á að skoða vel allar nýjar plöntur áður en þær koma inn á heimili. Gott er að hafa í huga að flest meindýr halda sig undir laufblöðunum, á æðum laufblaðs eða á liðamótum (þar sem laufblað mætir stilki, stilkur grein, og grein boli).
    • Skola plöntur og hreinsa þegar komið er heim
      Önnur góð regla er að skola allar nýjar plöntur og hreinsa lauf. Gott er að fara með plöntuna í sturtu og skola hana með eins sterkri bunu og hún þolir. Hægt er að strjúka eftir æðum og mótum, þar sem meindýr halda sig oftast.
    • Einangra allar nýjar plöntur
      Allar nýjar plöntur ættu að vera í einangrun í einhvern tíma áður en þær eru settar í nálægt öðrum plöntum. Ef sýking er í nýrri plöntu ætti það að sjást fljótt en það getur verið mjög leitt ef sú sýking kemst í allar aðrar plöntur. 1-2 vikur er oftast nægur tími til að sjá hvort sýking sé í plöntunni. Að þeim tíma liðnum skoðar maður plöntuna vel og skolar jafnvel einu sinni enn.
    • Passa rakastig
      Planta sem býr við góð skilyrði getur sjálf varist mörgum sýkingum. Stærsti vandi hér á landi er oft hvað rakastig er lágt. Með því að úða reglulega yfir plöntuna eða setja rakatæki nálægt henni er hægt að verja hana gegn sýkingum.
    • Þrífa plöntur reglulega
      Pottaplönturnar okkar fá ekki þá rigningu sem þær eru vanar og fara því að safna ryki og óhreinindum. Það er því gott að þrífa þær reglulega. Þær geta þá andað betur, eiga auðveldara með ljóstillífun og líta mikið betur út. Að skoða eða strjúka af plöntum getur einnig verið nóg til að losa við sýkingu sem er á fyrstu stigum. Ef plantan er ekki stór og þung er best að fara með hana í sturtu og skola hana með eins sterkri bunu og hún þolir. Ef erfitt er að gera það er hægt að taka blautan klút og strjúka yfir blöð að neðan og ofan.
    • Skoða plöntur reglulega
      Gott er að skoða reglulega allar plöntur til að sjá hvort eitthvað sé kvikt í þeim. Þegar það er gert þarf að hafa í huga að flest meindýr halda sig undir laufblöðum, á æðum eða á liðamótum (þar sem blað mætir stilki, stilkur grein og grein bol).

    Hafa í huga að:

    • Hvítir hnoðrar – ullarlús
    • Brúngráar skeljar – skjaldlús
    • Verpt og krumpuð laufblöð og skemmd – blaðlús
    • Blöð orðin mött og vefur á þeim – spunamítill
    • Silfurgráir flekkir á laufblöðum – kögurvængjur

    Einnig ætti alltaf að skoða plöntu vel ef henni hrakar án þess að augljóst sé hvað hafi komið upp á. Það gæti vel verið vegna einhversskonar sýkingar

    • Hvenær er kominn er tími til að henda plöntu
      Það er aldrei auðvelt að henda plöntu – og oft borgar sig að sýna vandamálinu þolinmæði. En ef sýkingin er langt komin getur það besta í stöðunni verið að henda plöntunni og koma þannig í veg fyrir að sýkingin breiði sér út til annarra plantna. Ef maður er ekki með aðstöðu til að einangra plöntuna er einnig betra að henda henni en að hætta á að sýkingin breiði sér út.
    • Skipta út mold eftir sýkingu
      Það getur verið góð regla að skipta út mold á plöntu sem hefur verið sýkt, jafnvel þó sýkingin virðist vera farin. Það geta leynst egg í jarðveginum eða lirfur. Það ætti að henda gömlu moldinni út.
    • Þrífa potta eftir sýkingu í mold
      Undir- og yfirpottar ættu að vera þrifnir vel eftir sýkingu. Egg og lirfur gætu leynst á þeim og því er góð regla að þvo vel eða spritta potta eftir að sýking kemur upp
  • Skordýralyf

    Skordýralyf

    Hefðbundinn skordýraeyðir

    Skordýraeyðir er efni sem virkar sérlega vel gegn skordýrum og áttfætlum. Efnið er oft einnig skaðlegt mannfólki og ætti því að vera notað sparlega og með varúð. Skordýraeyðir er oft fljótvirkur og ekki er þörf á að endurtaka jafn oft og með náttúrulegri varnir. Skordýraeitur sem fæst hjá okkur er m.a.:

    Húsa – og garðaúði

    Húsa – og garðaúði er notaður sem almennt skordýraeitur. Hægt er að nota hann á plöntur með því að úða beint á þær í a.m.k. 60 cm fjarlægð. Úðinn drepur á um 30 mín. þau meindýr sem eru næm. Mikilvægt er að ná undir laufblöð og á mót laufblaða og greina. Það má nota úðann innandyra en hann hentar ekki matjurtum.
    Húsráð sem er oft notað gegn fleygum meindýrum eða skæðum sýkingum er að setja plöntuna í poka og úða vel yfir hana í honum. Halda síðan pokanum lokuðum í um 2 tíma til þess að láta efnið virka.
    Húsa – og garðaúði virkar ekki á egg meindýra og því þarf að fylgjast með og halda plöntunni í einangrun. Ef egg voru í jarðvegi þarf að eitra aftur þegar þau klekjast.

    Permasect

    Permasect er breiðvirkur skordýraeyðir sem notaður er í landbúnaði og garðyrkju. Hann skal bara nota utandyra. Ef hann er notaður á pottaplöntu ætti hún að vera geymd í einhvern tíma þar sem fólk er ekki. Permasect er blandað við vatn (4ml. í 10 lítra af vatni) og úðað yfir plöntuna, bæði á efra og neðra borð. Permasect virkar ekki á egg meindýra og því þarf að fylgjast með og halda plöntunni í einangrun. Ef egg voru í jarðvegi þarf að eitra aftur þegar þau klekjast.
    Permasect ber að nota sparlega og með varúð.

  • Vistvænn skordýraeyðir

    Vistvænn skordýraeyðir

    Margar plöntur hafa myndað með sér skordýraeiði sem hægt er að nota sem vistvænni kost en hefðbundinn skordýraeyði. Þeir henta oft matvörum betur og eru tiltölulega skaðlausir mönnum og öðrum spendýrum. Þeir eru hins vegar oft ekki jafn fljótvirkir og hefðbundinn skordýraeyðir og suma þarf að nota oftar. Þeir vistvænu skordýraeyðar sem fást hjá Garðheimum eru;

    NeemAzal

    NeemAzal er olía unnin úr fræjum Neem trésins. Tréið myndar efni sem er sótthreinsandi og virkar sem skordýrabani. Neem olían er einnig notuð í snyrti – og ilmvörur. Hún getur hinsvegar verið eitruð ef innbyrt í stórum skömmtum. Því ætti að halda NeemAzal fjarri börnum og dýrum, og nota sparlega.
    Neem olían raskar hormónastarfsemi skordýra og áttfætla þannig þær geta ekki hamskipti.
    NeemAzal er blandað við vatn (10 ml í 3,5 lítra af vatni) og úðað yfir plöntuna. Mikilvægt er að ná undir laufblöð og á mót laufblaða og greina.
    Ef sýkingin er sérlega slæm, eða plantan er með slíður eða önnur fylgsni þar sem meindýr geta falið sig er hægt að blanda veikari lausn í bala og dýfa plöntunni í nokkrar mínútur.
    Lirfur deyja strax en fæðnunám stöðvast á fullorðnum dýrum og það fækkar jafnt og þétt í stofninum. Það tekur um 7-10 daga fyrir heildaráhrifin að koma fram. NeemAzal hefur ekki áhrif á egg meindýra og því þarf að eitra aftur ef og þegar þau klekjast út.
    Hægt er að bæta við smá spritti við NeemAzal blönduna sem drepur meindýr strax. Ef það er gert er gott að skola plöntuna nokkrum dögum síðar svo sprittið sitji ekki á plöntunni of lengi.

    Insektfri

    Insektfri er vistsvænn skordýraeyðir unnin úr krýsisblómum. Efnið lamar og drepur þau meindýr sem það kemst í tæri við á skömmum tíma. Það brotnar einnig niður á örfáum dögum. Það hentar því vel matjurtum og rósum. Insektfri er hægt að nota utandyra og í gróðurhúsum. Efnið verður að komast í tæri við meindýrið til þess að skaða það og það endist ekki lengi á yfirborði plöntunnar. Því er mikilvægt að úða vel yfir og bleyta yfirborð plöntunnar. Ef sýkingin er sérlega slæm, eða plantan er með slíður eða önnur fylgsni þar sem meindýr geta falið sig er hægt að blanda veikari lausn í bala og dýfa plöntunni í nokkrar mínútur. Ef úðað er utandyra verður að vera þurrt í einhvern tíma eftir á. Insektfri hefur ekki áhrif á egg meindrýa og því þarf að eitra aftur ef og þegar þau klekjast út. Insektfri fæst bæði sem tilbúinn blanda og sem þykkni sem blandast í vatn (20 ml í 2-3 lítra af köldu vatni). Efnið ber að nota sparlega og með varúð.

  • Húsráð gegn meindýrum

    Húsráð gegn meindýrum

    Ýmsum húsráðum og brögðum er hægt að beita gegn meindýrum áður en gripið er til þess að nota skordýraeyði. Kostir og gallar eru við hverja aðferð en gott er að prófa sig áfram og vera undir það búinn að sumar aðferðir geti valdið plöntum einhverjum skaða.

    Sítrónudropar og uppþvottalögur/grænsápa

    Hægt er að blanda vistvænan skordýraeyði sjálfur. Algengasta blandan er örfáir dropa af sítrónudropum og lífrænum uppþvottalegi eða grænsápu í vatn. Almennur ólífrænn uppþvottalögur hentar ekki. Blöndunni er síðan úðað yfir plöntuna. Passa að úða vel undir laufblöð og á öll mót þar sem meindýr halda sig gjarnan.
    Hafðu í huga að sápan getur einnig brotið upp vaxhúð plöntunnar og því geta komið skemmdir á blöð ef sápan situr á laufblöðum. Hægt er að sporna gegn því með því að skoða plöntuna vel eftir að blandan hefur fengið að sitja í einhverja daga.

    47° bað

    Garðyrkjufræðingurinn Hafsteinn Hafliðason mæli með því að dýfa
    plöntum í 47°C vatn í 20 mínútur til að losna við þaulsetin kvikindi eins og skjald- og ullarlús, kögurvængjur og spunamítla. Á þeim óendanlega brunni fróðleiks sem facebook hópurinn hans Stofublóm inniblóm pottablóm hópurinn segir hann

    „Plantan með potti og öllu er þá sett á bólakaf í 47°C heitt vatn í 20 mínútur. Halda vatninu á bilinu 45-47°C á meðan. Það má vera ögn af uppþvottalegi í vatninu. Á eftir eru plönturnar skolaðar vel með mjúkri bunu undir handsturtunni á baðinu og látnar standa þar meðan vatnið er að síga vel af þeim og plönturnar rétta sig af. Flestar plöntur þola að fara í vatn upp að 50°C án þess að skaðast, en þær geta orðið svolítið lúpulegar á eftir, misst nokkur lauf kannski. En flestar lifa þær áfram frískar og sprækar lausar við óværuna.“

    Það er hinsvegar gott að hafa í huga að það getur verið snúið að sjá til að hitastigið fari ekki yfir 50°C og ef það gerist getur sést mikið á plöntunni. Einnig þola sumar tegundir ekki svo miklar hitabreytingar.

    Loka í poka yfir nótt

    Ef um mjög skæða sýkingu er að ræða eða fleygt meindýr úða sumir efni yfir plöntu (þá annaðhvort skordýreyði eða heimagerðri blöndu) og setja poka yfir. Halda pokanum lokuðum í nokkra tíma eða yfir nótt. Þannig kemst meindýrið ekki burt og efnið gufar ekki upp áður en það nær að verka á meindýrin.

    Skola vel og týna af

    Ekki er alltaf þörf á að grípa til stórræðisaðgerða gegn sýkingu. Það getur oft verið nóg, ef sýking er nýkomin fram eða er væg að handhreinsa plöntuna. Hægt er að nota pensil eða eyrnapinna til að fjarlægja meindýrið með spritti. Setja hana í sturtu eða bala og skola hana vel, strjúka yfir og undir blöð og stilka. Gott er að halda plöntunni í einangrun og skoða hana svo vel í kjölfarið. Egg og lítil meindýr sjást ekki berum augum og því þarf að sýna þolinmæði.

    Kanill og sandur

    Ef eitthvað kvikt er í mold eða jarðveg er húsráð að strá þuna lagi af kanil eða sandi yfir yfirborðið. Sandurinn kemur oft í veg fyrir að væran komist upp á yfirborðið, en margar deyja við það. Kanillinn þjónar sama tilgangi en er auk þess sótthreinsandi. Þetta getur því verið gott ráð gegn svarðmýi og pottamor eða öðru sem maður finnur í moldinni.

    Taka afleggjara og henda plöntu

    Ef sýking er langt komin eða aðstæður þannig að ekki er hægt að leggjast í nokkra vikna vinnu við að uppræta sýkingu er oft ekkert annað í stöðunni en að henda plöntunni. Áður en það er gert er hins vegar hægt að taka afleggjara og dauðhreinsa hann. Oft er mikið auðveldara að hreinsa einn afleggjara en alla plöntuna. Af flestum plöntum er hægt að taka afleggjara, hvort sem það er hliðarsproti með rót (sem þá er hægt að dýfa í vatn og handþvo) eða klippa hluta af með rótarskoti. Þannig er hægt að feta milliveg milli þess að henda plöntunni og halda henni. Fylgjast þarf þó vel með afleggjaranum ef eitthvað skyldi hafa lifað af á honum.

     

  • Orkídeur

    Orkídeur

    Orkídeur, eða brönugrös, tilheyra einni stærstu ætt blómplantna með um 20. þús tegundir. Á Íslandi vaxa nokkur brönugrös, svo sem friggjargras og hjónagras. Þær orkídeur sem ræktaðar eru sem pottaplöntur eru flestar frá Suðaustur-Asíu.
    Margar tegundir er nú hægt að fá en algengust er Phalaenopsis orkídean, Dísarbrana. Þær umræðuleiðbeiningar sem koma hér fram eiga sérstaklega við Phalaenopsis, en geta þó átt við aðrar tegundir einnig.

    Staðsetning

    Phalaenopsis er gott að hafa á mjög björtum stað. Þó ber að varast að hafa þær í suðurglugga nema yfir hávetur. Gott er að færa hana milli glugga milli árstíða þannig að hún fái góða birtu á veturna en brenni ekki á sumrin. Þær þola einhvern kulda, en hitinn ætti ekki að fara neðar en 15°C, og ekki yfir 27°C. Sumar tegundir stofu-orkídea þurfa hitamun milli dags og nætur til þess að blómstra aftur, og því henta kaldar en sólríkar gluggakistur þeim vel.
    Orkídeur vilja allar hærra rakastig en gengur og gerist á íslenskum heimilum (sérstaklega um vetur). Því er gott að hafa þær á stað þar sem súgur er lítill og ekki of þurrt loft (til dæmis ekki beint yfir heitum ofni).

    Loftraki

    Orkídeur vilja hátt rakastig. Ef rakastigið er of lágt geta loftræturnar farið að skrælna og þær verið tregar til að blómstra, eða fellt blómknúppa. Gott er að hafa rakabakka undir orkídeum (bakka með vikri eða steinum þar sem vatn getur staðið) eða rakatæki nálægt, og úða þær reglulega.

    Vökvun: Phalaenopsis orkídean, og flestar aðrar orkídeur, eru ekki í jarðvegi sem heldur raka vel. Hún þarf því að fá tækifæri til þess að drekka upp raka án þess þó að standa í vatni, en því getur fylgt fúi. Því er hentugast að dýfa orkídeunni og láta hana standa í vatni í um klukkustund. Að lok þess tíma sést að ræturnar sem standa berar eru orðnar þykkar og grænar. Mikilvægt er að nota ekki ískalt vatn, og ekki hitavatnsblandað vatn. Látið leka vel af plöntunni. Ef hellt er að ofan er gott að forðast að vatn fari á blöðin og þá sérstaklega á miðju plöntunnar. Ef vatn stendur þar er hætta á fúa. Því er oft ráðlagt að vökva frekar á morgnanna þannig vatn á blöðum gufi upp yfir daginn.
    Gott er að dýfa þeim um vikulega, en það getur breyst eftir aðstæðum. Um hásumar og blómgun þurfa þær oft meira vatn, en minna um vetur.

    Áburður

    Orkídeur þurfa sérhæfða næringu. Ekki er mælt með að nota almenna pottaplöntunæringu. Hægt er að fá bæði fljótandi orkídeunæringu og pinna sem komið er fyrir í pottinum og brotna niður hægt og rólega. Ef pinnar eru settir er vökvað venjulega og vatnið látum um að brjóta þá niður. Ólíkt flestum öðrum stofuplöntum er ráðlagt að gefa þeim líka einhverja næringu yfir vetrarmánuðina. Ef fljótandi næring er notuð er gott að blanda henni við vökvunarvatn í annað hvert skipti sem vökvað er, um sumar, en um 6 vikna fresti um vetur.

    Val á potti

    Orkídeupottar eru oftast hærri og mjórri en venjulegir blómapottar. Það hentar plöntunni betur. Best er ef loft getur leikið um ræturnar og því er mál að hafa annaðhvort botn með götum og síðan stærri baka undir, eða hlífðarpott sem er nokkuð stærri en plast-undirpotturinn. Einnig er gott að ljós skíni á rætur orkídea og því getur glær eða næstum glær pottur verið góður.

    Umpottun

    Gott er að umpotta á um 2 ára fresti í stærri pott, eða eftir þörfum. Orkídean fær ekki næringu úr þeim jarðvegi sem hún er í og því þarf ekki að skipta honum út fyrir þær sakir. En það getur komið upp fúi eða þörungur í kurlinu, og þá þarf að skipta því út eða hreinsa vel. Flestar Phalaeonopsis orkídeur eru í hörðu kókoskurli þegar þær eru keyptar. Hægt er að nota það kurl áfram svo lengi sem það er hreint eða kaupa meira. Einnig er hægt að gera blöndu af grófum vikri og mosa til þess að sjá um dren og rakadrægni. Flestar orkídeur lifa það ekki af að fara í almenna pottaplöntumold. Ef um aðra tegund en Phalaenopsis er að ræða er best að skoða jarðveginn sem hún var upprunalega í og reyna með mestu að endurgera hann. Þegar plöntunni er umpottað er hún tekin úr pottinum og ræturnar varlega hreinsaðar. Ef græn slikja er á þeim er hægt að baða þær mjúklega upp úr volgu vatni til að ná henni af. Ekki stækka pottinn meira en eina stærð (um 2cm+).
    Passið að loft geti leikið um ræturnar og að jarðvegurinn pakkist ekki þétt upp við ræturnar.

    Blómstrun

    Orkídea við réttar aðstæður getur verið í blóma meirihluta árs. Hins vegar getur verið list að fá trega orkídeu til að loksins blómstra. Til þess eru nokkur ráð.
    Í fyrsta lagi þarf að sjá til þess að grunnþörfum hennar sé mætt. Ef hún þornar um of eða er ekki að fá næga birtu eða næringu hefur hún ekki orku í blómstrun.
    Hver blómstöngull á Phalaeonpsis getur blómstrað 2-3 sinnum. Því er ekki nauðsynlegt að klippa hann niður eftir fyrstu blómgun (en þó ráðlagt eftir þá seinni). Það getur hins vegar reynst auðveldara að fá nýja blómgun á nýjum stöngli en þeim gamla og sumir ræktendur hafa það sem reglu að klippa alltaf blómstöngla í lok blómgunar.
    Þegar blómstöngull er klipptur er best að miða við lægstu liðamót (við stöngullinn).
    Ef orkídea hefur ekki blómstrað í langan tíma er gott fyrsta verk að færa hana í meiri birtu.
    Ef orkídeunæring hefur ekki verið notuð til þessa skal byrja að nota hana á u.þ.b. 2 vikna fresti (6 vikna um vetur).
    Úðið plöntuna reglulega til að halda uppi raka. Hægt er að setja upp rakabakka eða rakatæki.
    Ef orkídean er enn treg er hægt að kalla fram blómstrun með hitamun milli dags og nætur. Um 10°C munur milli dags og nætur í 2 vikur, mun ýta undir blómstrun hjá flestum tegundum orkídea, þar á meðal Phalaeonopsis. Hins vegar geta hitabreytingar, og súgurinn og þurrkurinn sem þeim fylgja, farið illa með Phalaenopsis og því þarf að fylgjast með þeim ef þessi leið er farin.

  • Meðferð pottaplantna

    Vökvun

    Flestar pottaplöntur drepast vegna rangrar vökvunar - þær eru vökvaðar of mikið eða of lítið. Ekki er til nein ákveðin regla um það hvenær á að vökva því þættir eins og stærð potta, birta og hitastig hafa allir áhrif. Í grófum dráttum má segja að blómstrandi plöntur þurfi meira vatn en blaðplöntur og blaðplöntur meira vatn en kaktusar. Séu plönturnar látnar standa í vatni er hætt við að ræturnar rotni og ef vökvun er spöruð um of þorna þær upp. Ein besta leiðin til að meta hvort þurfi að vökva er að skoða moldina í pottinum og þá getur rakamælir komið að góðum notum. Litur og áferð moldarinnar segir mikið um rakastig hennar. Þurr mold er ljósari en blaut og hún á það til að losna frá pottinum. Vatnsskortur sést greinilega á plöntum þegar blöðin fara að hanga og þær verða slappar.

    Venjulegt kranavatn hentar prýðilega. Gætið þess að vatnið sé volgt svo að ræturnar ofkólni ekki. Það má hvort sem er vökva ofan á moldina eða í skálina sem potturinn stendur í. Þeir sem kjósa að vökva ofan á ættu að nota könnu með mjóum stút og gæta þess að bleyta moldina þar til vatn fer að renna út um gatið á botninum. Það verður svo að tæma undirskálina svo ræturnar standi ekki í vatni. Með því að vökva neðan frá er tryggt að moldin blotni í gegn. Þægilegasta aðferðin til að vökva á þennan hátt er að fylla fötu af vatni og dýfa plöntunum ofan í. Þegar moldin er orðin blaut í gegn þarf potturinn að fá að standa í smátíma svo umframvatn renni burt áður en potturinn er settur á sinn stað.

    Blómapottar eiga alltaf að vera með gati á botninum til þess að vatn safnist ekki fyrir í þeim. Plastpottar eru betri en leirpottar vegna þess að ekki þarf að vökva eins oft og þeir gefa ekki frá sér sölt eins og leirpottar. Ræturnar eiga það til að vaxa inn í leirinn og getur það valdið rótarskemmdum við umpottun.

    Birta og rakastig

    Allar plöntur þurfa birtu til að vaxa og dafna. Sumar þurfa mikla birtu en aðrar þrífast best í hálfskugga. Blómstrandi plöntur sem ekki fá næga birtu fá gul blöð, vaxtarsprotarnir verða langir og mjóir og blómin litlaus. Blómstrandi plöntur þurfa mikla birtu en ekki beina sól og ættu því að standa í gluggum sem snúa í austur eða vestur. Gluggar sem snúa í suður henta best fyrir kaktusa og þykkblöðunga. Þar sem birta er lítil er alltaf hægt að grípa til lýsingar og setja upp sérstakar perur sem gefa frá sér blárri birtu en við eigum að venjast. Þeir sem nota gróðurperur verða að gæta þess að perurnar séu í um tíu sentímetra fjarlægð frá blómunum því annars teygja þau sig of mikið átt að ljósinu og verða veikluleg.

    Plöntur með stór blöð, eins og t.d. rifblaðka, eru með mikið yfirborð og þola því meiri skugga en plöntur með lítil blöð. Gott er að snúa pottaplöntum annað slagið þannig að sama hliðin snúi ekki alltaf af birtunni.

    Hitastig

    Hentugt hitastig fyrir flestar pottaplöntur er á bilinu 18 til 24° C á daginn en 13 til 16° C á nóttunni og það á að vera lægra á veturna en sumrin vegna lítillar birtu.
    Æskilegur loftraki fyrir pottaplöntur er á bilinu 40 til 60% en það er nánast ómögulegt að halda svo háu rakastigi á venjulegum heimilum. Því er nauðsynlegt að úða reglulega yfir blóm eins og orkideur, burkna og gardeníur sem þurfa mikinn loftraka. Skálar með vatni gera mikið gagn séu þær látnar standa nálægt blómunum og svo er einnig hægt að koma sér upp rakatæki ef mikið liggur við. Þá má einnig rækta rakakær blóm í eldhúsinu eða á baðherberginu.

    Áburðargjöf

    Blóm sem keypt eru í blómabúðum eða gróðrarstöðvum eru ræktuð við kjöraðstæður og þurfa því ekki áburð fyrstu vikurnar. Á sumrin er hæfilegt að vökva heimilisblómin með áburðarlausn á þriggja til fjögurra vikna fresti en sjaldnar yfir vetrarmánuðina. Áburður er misjafnlega sterkur og því þarf að lesa leiðbeiningarnar og fara eftir þeim. Of mikill áburður brennir rætur plantnanna og dregur úr vexti.

  • Eitraðar plöntur

    Eitraðar plöntur

    Aukinn áhugi og innflutningur á plöntum undanfarin ár hefur aukið framboð þeirra til muna. Sumar þessar plöntur geta verið varasamar og jafnvel eitraðar og er því nauðsynlegt að fólk sé vel á verði gagnvart þeim og að foreldrar gæti þess að börn komist ekki í þær. Íslensk börn eru reyndar ekki vön því að borða plöntur beint úr náttúrunni en smábörn eru gjörn á að stinga öllu upp í sig.

    Garðeigendur skyldu vera á verði gagnvart plöntum eins og: venusvagni, fingurbjargarblómi, geitabjöllu, töfratré og gullregni og ylliber geta verið varasöm ef þeirra er neitt í einhverjum mæli. Fólki er sérstaklega bent á að vara sig á ývið og lífvið þar sem safinn úr þessum plöntum er mjög eitraður og jafnvel banvænn. Af varasömum pottaplöntum má nefna: neríu, næturstjörnu, friðarlilju, jólastjörnu, köllu og allar mjólkurjurtir.

     

    Nokkur atriði til að hafa í huga

    Til þess að koma í veg fyrir eitrun af völdum plantna ætti því að hafa eftirfarandi atriði í huga:

    •  Aflið upplýsinga um plönturnar þegar þær eru keyptar. Hægt er að nálgast upplýsingar um eitraðar plöntur á vefnum. Varist að kaupa eitraðar plöntur ef börn eða gæludýr eru á heimilinu sem þykja líkleg til að stinga uppí sig plöntuhluta.  
    •  Það getur verið hættulegt að stinga upp í sig plöntuhlutum, hvort sem það eru lauf, stönglar, blóm, fræ, ber eða sveppir.
    • Neytið aldrei plantna eða sveppa sem þið þekkið ekki. Hafið neyðarnúmer tiltækt ef eitrun á sér stað.
    •  Ef nauðsynlegt reynist að fara upp á slysavarðstofu er brýnt að taka með hluta plöntunnar sem étin var. Þetta hjálpar læknum og hjúkrunarfólki að átta sig á hvers eðlis eitrunin er.
    •  Notið hanska þegar eitraðar plöntur eru meðhöndlaðar.

     

  • Risajúkka

    Risajúkka - Yucca guatemalensis (Yucca elephantipes)

    Risajúkka (Hermannshvíld) Yucca guatemalensis (Yucca elephantipes) er falleg planta sem auðvelt er að rækta hér, sé hún inni.  Langbest er að hafa hana í gróðurskála þar sem hún fær næga birtu og gott pláss. Risajúkkan er upprunalega frá Mið-Ameríku og í sínum heimahögum getur hún orðið allt að 10 m. á hæð. Svo stór verður hún auðvitað ekki innanhúss hér á landi.

    Þessar plöntur þola töluverðan kulda og eru oft hafðar úti á verönd eða svölum yfir sumartímann. Júkkan þolir ekki frost svo það er eins gott að huga vel að veðri og taka hana inn ef hætta er á hinu minnsta frosti.  Á veturna hentar henni vel að vera í frekar svölu herbergi. Stofn Jukkunnar er ljósbrúnn á litinn og oftast 15 til 100 c.m. á hæð.  Plantan er þekkt fyrir sín stinnu, oddmjóu, grænu blöð sem eru c.a.15 til 30 c.m. löng og vaxa út frá stofninum í tígulegri hvirfingu. 

    Risajúkkan getur hugsanlega blómstrað hér við albestu skilyrði og þá koma  hvít blómin út úr miðjum stofni á háum brúski. Það er þó frekar ósennilegt að hún blómstri innandyra. Hitinn fyrir hana yfir veturinn má alveg fara niður í 5 til 6 °C og á þeim tíma þarf að vökva hana c.a þriðju hverja viku og tína af henni öll blöð sem gulna. Á sumrin á hins vegar að vökva hana tvisvar til þrisvar í viku og setja fljótandi áburð í vatnið á tíu daga fresti fram á mitt sumar. Þá ætti að hætta að gefa áburð en halda samt áfram vökvuninni. Jukkunni líður best í frjóum, sandbornum jarðvegi. Það er mjög gott að úða vatni á laufblöðin hennar á sumrin. Hún vex c.a. 15 til 30 c.m. á ári fyrstu árin og því þarf að umpotta henni árlega meðan hún er ung en eftir það á tveggja til þriggja ára fresti. Það er auðvelt að fjölga henni bæði með græðlingum og rótarskiptingu. Plantan þolir illa mjög þurrt loft en kjörhiti fyrir hana er 10 til 15 °C.  Ef ykkur finnst þurfa að þurrka af blöðunum er allt í lagi að nota við það rakann klút.

  • Jólastjarna - myndband

    Hér má sjá myndband varðandi meðhöndlun jólastjörnu.

     

Sjá fleiri spurningar & svör