Haust

  • Þegar flytja á stór tré

    Flutningur stórra trjáa

    Tré eru föst í jörðinni og þess eðlis að þau flytja sig ekki úr stað af sjálfsdáðum. Stundum kemur upp sú staða, fyrir einhverjar sakir, að tré henta ekki lengur á þeim stað sem þau standa. Breyta þarf skipulagi eða þá að tré sem einu sinni var lítill kvistur hefur vaxi og breyst í stór og mikið tré sem skyggir á sól og lokar fyrir útsýni. Við slíkar aðstæður er tvennt í boði. Fella tréð eða flytja það ef það er hægt.
    Þegar ákvörðun um að flytja tré er tekin er einkum þrennt sem hafa þarf í huga;

    •  að tréð sé það fallegt að það taki því að flytja það
    •  að tréð sé af tegund sem vert er að halda upp á
    •  að aldur þess sé ekki það hár að tréð drepist fyrir aldurssakir innan fárra ára.

    Rótarskurður

    Allra best er að hefja undirbúning fyrir flutningi trjáa ári fyrr en flutningurinn þeirra fer fram. Fyrra árið á að grafa holu og rótarskera hálfan hring umhverfis tréð. Stærð rótarhnaussins sem fylgir trénu fer eftir stærð þess. Þumalfingurreglan segir að margfalda eigi þvermál stofnsins með tíu og rótarstinga í þeirri fjarlægð frá stofninum. Hafa verður í huga að tré með stóran rótarhnaus eru mjög þung og taka verður tillit til þess þegar tré eru rótaskorinn. Ef um mjög stór tré er að ræða er óvinnandi vegur að flytja þau nema með öflugum vinnuvélum. Því er gott að að sýna fyrirhyggju og flytja tré áður en þau verða of stór.     

    Þegar búið er að grafa 40 til 50 sentímera djúpan hálfhring kringum tréð og klippa á ræturnar á að fylla holuna með lausum jarðvegi. Hafa skal rótarskurðinn sem allra hreinast og gæta þess að brjóta ekki rætur að óþörfu.
    Undirbúa á jarðveginn á þeim stað sem tré á að standa í framtíðinni ári áður en tréð er flutt. Stinga skal upp jarðveginn og blanda hann með lífrænum jarðvegi. Ári seinna er tré rótarstungið hinum megin og hnausnum pakkað í striga eða jarðvegsdúk.

    Flutningur

    Gæta verður þess að sem minnst af jarðvegi hrynji af rótunum meðan á flutningi stendur svo að ræturnar skaðist ekki að óþörfu. Einnig þarf að passa vel að rótarhnausinn þorni ekki í flutningi. Ef flytja á tréð langa leið í opinni kerru eða á palli er nauðsynlegt að pakka því í striga til að varna því að laufið vindþorni á leiðinni. Rætur þola ekki beina sól og því mikilvægt að hlífa hnausnum við beinu sólskini.

    Gróðursetning

    Til að auðvelda niðursetningu trésins á nýja staðnum er best að hafa holuna sem það fer í rúma. Það auðveldar alla vinnu og kemur í veg fyrir að rótum sé þvingað ofan í holuna. Jarðveginn kringum hnausinn verður líka lausari í sér eftir að tréð er komið niður og auðveldar því að skjóta rótum. Ekki má setja tré dýpra en það stóð áður, sumar tegundir þola það að vísu en aðrar alls ekki. Til að tryggja að tré standi af sér veður og vinda fyrst eftir gróðursetningu og vaggi ekki til í holunni verður að reka niður stoð við hliðina á því og binda tréð við hana með gúmmíi.
    Eftir að búið er að koma trénu fyrir í holunni og þjappa jarðveginum gætilega að hnausnum á að vökva vel og gæta þess að hnausinn þorni ekki fyrstu vikurnar eftir gróðursetningu.

    Vor eða haust

    Að jafnaðir er talið betra að flytja tré á vorin, þau ná þá að skjóta rótum á nýja staðnum yfir sumarið og festa sig fyrir veturinn. Í góðu árferði geta rætur trjáa vaxi frá því í apríl og fram í október og því ættu tré sem er flutt snemma að getað fest sig í jarðveginum fyrir næsta vaxtarskeið. Hvort sem tré eru flutt að vori eða hausti verður að gæta þess að staga þau vel niður svo þau falli ekki um koll.

     

    Heimild: Árstíðirnar í garðinum.

    Vilmundur Hansen

  • Yfirvetrun plantna

    Yfirvetrun plantna

    Plöntur beita margvíslegum leiðum til að lifa veturinn af. Einærar plöntur lifa af sem fræ. Séu aðstæður óhagstæðar geta fræ sumra tegunda legið í dvala í jarðveginum í nokkur ár en að jafnaði spíra fræin að vori, vaxa upp og blómstra og mynda fræ sem fellur að hausti. Tvíærar plöntur safna forða í rótina á fyrra ári og rótin lifir veturinn af. Á öðru ári blómstrar plantan og myndar fræ. Hringrásin heldur áfram. Margar tegundir fjölærra plantna og laukjurta beita svipaðri aðferð. Þær vaxa upp að vori, vaxa og dafna yfir sumarið, safna forðanæringu í rótina eða laukinn, sölna að hausti og lifa í dvala neðanjarðar yfir veturinn. Þar sem snjór liggur eins og teppi yfir jarðveginum eru plönturnar vel varðar fyrir umhleypingum og grasbítum sem byggja lífsafkomu sína á þeim yfir veturinn.

    Tré og runnar sölna ekki á haustin og þurfa því að beita öðrum ráðum til að lifa veturinn af. Sum tré eru sumargræn en önnur græn allt árið. Lauf sígrænna trjáa nefnist barr, er yfirleitt langt og mjótt og með vaxhúð sem dregur úr útgufun.

    Fyrir lauffall á haustin draga flest lauftré blaðgrænuna úr blöðunum og senda hana niður í rótina til geymslu, rétt eins og hagsýnir heimilishaldarar safna vetrarbirgðum í búrið sitt. Blaðgrænan er byggð upp af efnum sem trén eiga ekki greiðan aðgang að og þurfa að eyða mikilli orku í að framleiða. Eftir í blöðunum verða efni sem trén hafa minna fyrir að búa til. Efnin sem eftir verða eru gul eða rauð og eru ástæðan fyrir því haustlitur trjánna er yfirleitt í þeim litum.

    Haust

    Á haustin er að finna í brumi trjáplantna fullþroskaðan vísi að vexti næsta árs. Vaxtarvísirinn er vel geymdur í bruminu og það ver hann fyrir vetrarkuldanum. Frost að vori, eftir að brumið hefur opnað sig, getur skemmt vaxtarvísinn varanlega.
    Til þess að tré laufgist að vori þarf lofthiti að vera kominn upp fyrir ákveðið lágmark en í öðrum tilfellum þarf daglengd að hafa náð ákveðnum klukkustundafjölda. Langir hlýindakaflar á veturna geta því vakið ýmsar trjátegundir, einkum frá suðlægari slóðum þar sem vorar fyrr en á Íslandi, af dvala sínum og blekkt tré til að halda að það sé komið vor. Þegar slíkt gerist eru miklar líkur á frostskemmdum ef það kólnar hratt aftur. Lítil hætta er á þessu hjá plöntum sem koma frá svæðum sem eru á næstu eða sömu breiddargráðum og Ísland.

    Hægfara kólnun best

    Ólíkt dýrafrumum hafa frumur í plöntum svokallaðan frumuvegg sem liggur utan um frumuhimnuna. Veggurinn er stinnur, hann verndar frumuna og kemur að hluta til í staðinn fyrir stoðgrind. Í gegnum frumuvegginn síast vatn og næringarefni.
    Kólni hratt er hætt við að vökvinn í plöntufrumunni frjósi. Við það eykst rúmmál hans og hætta á að frumuveggurinn rifni en það leiðir til kalskemmda. Miklu máli skiptir að plöntur kólni það hægt á haustin að vatn nái að komast út úr frumunum í þeim takti sem eðlilegastur er fyrir hverja tegund. Dæmi er um að snögg kólnun niður í 10°C hafi drepið tré sem annars þola kuldann allt að níutíu frostgráðum. Stutt haust valda því að plönturnar ná ekki að mynda eðlilegt frostþol og eru því viðkvæmari en ella.

    Skjól fyrir vorsólinni

    Of mikil útgufun getur einnig verið hættuleg fyrir plönturnar. Á vorin, þegar sólin skín og jörð er frosin, ná plönturnar ekki að bæta sér upp þann vökva sem þær tapa við útgufun og því hætta á ofþornun. Hér á landi þekkist þetta best hjá sígrænum trjám þegar barrið verður brúnt á vorin.

    Jurtir á norðurslóðum

    Jurtir sem eiga náttúruleg heimkynni á norðurslóðum eða hátt til fjalla eru yfirleitt lágvaxnar og með öflugt rótarkerfi sem getur verið allt að þrisvar sinnum víðfeðmara en sá hluti jurtarinnar sem er ofanjarðar.
    Þar sem vaxtartími er stuttur mega plönturnar engan tíma missa og verða að hefja vöxt strax og veður leyfir. Langur sólargangur yfir sumarmánuðina lengir vaxtartímann verulega, enda nýta plönturnar hann til hins ýtrasta. Margar norðlægar tegundir mynda þúfur, eins og lambagras og geldingahnappur, og geta með því móti haldið hærri hita og nýtt sólarljósið betur.


    Ljóstillífun

    Sígræn tré hafa það fram yfir sumargræn að þau geta hafið ljóstillífun um leið og hiti er orðinn það mikill að þau vakna af dvala. Talið er að smávaxnar og sígrænar jurtir geti ljóstillífað undir snjó og lengt þannig vaxtartímann.
    Nokkrar tegundir trjáa, til dæmis aspir, geta notað blaðgrænu í berki, stofni og greinum til ljóstillífunar þegar aðstæður eru hagstæðar á veturna.


     

  • Haustlaukar

    Það er yndislegt þegar fyrstu vorblómin byrja að kíkja upp úr moldinni og gefa tilverunni lit eftir gráma vetrarins. Nú er rétti tíminn til að búa í haginn fyrir blómríkt vor og planta haustlaukunum.

    Það eru nokkur atriði sem er ágætt að hafa í huga þegar laukunum er valinn staður. Mér finnst það hafa reynst best að planta þeim í beð með fjölærum plöntum. Það þarf að vera ákveðið bil á milli fjölærra plantna til að þær hafi pláss til að njóta sín og þetta bil er kjörið að nýta undir haustlaukana. Þeir lífga upp á beðið þegar fáar fjölærar plöntur eru í blóma og þegar laufin fara að fölna hverfa þau inn í fjölæru brúskana eftir því sem þeir vaxa upp. Runnabeð eru ekki eins hentug þar sem runnarnir breiða úr sér og gætu því fjölærir laukar farið að vaxa upp úr greinaflækju eftir nokkur ár. Það eru helst lágvaxnir laukar eins og krókusar og vetrargosar sem myndu henta þar.

    Flestar laukplöntur kunna best við sig á sólríkum stað. Krókusar og túlipanar opna ekki blómin í skugga. Páskaliljur geta vel vaxið í nokkrum skugga en þrífast þó betur sólarmegin í lífinu. Það er líka mikilvægt að jarðvegurinn sé ekki of blautur og klesstur. Krókusunum er sérstaklega illa við að standa í mikilli bleytu, en vel framræstur, næringarríkur jarðvegur er bestur fyrir allar tegundir haustlauka.

    Krókusarnir eru með fyrstu vorblómunum til að byrja að blómstra og lífga óneitanlega upp á tilveruna þegar þeir opna blómin mót vorsólinni. 'Ruby Giant', er yndislega falleg tegund með nokkuð stórum, dökkfjólubláum blómum. 'Romance' er snotur gul sort. Krónublöðin eru ljósgul á ytraborði en dökkgul að innan sem er skemmtilega öðruvísi litasamsetning. Krókusar verða ekki mikið bleikari en 'Roseus'. Krónublöðin eru mjórri en á öðrum krókustegundum og blómin verða því stjörnulaga þegar þau opnast. Yndislega falleg tegund sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. 'Tricolor' er önnur dásamlega falleg tegund með fjólubláum blómum sem eru með gulum og hvítum blómbotni. Af stórblóma vorkrókussortum má nefna 'Pickwick' með skemmtilega röndóttum blómum og 'Jeanne D‘Arc' með hreinhvítum blómum. Algjör dásemd.

    Páskaliljur eða hátíðarliljur byrja að blómstra í lok apríl og standa í blóma mest allan maí mánuð. Úrvalið er mikið bæði í litum og blómgerð. Febrúarliljan er lágvaxin með smáum blómum og er fyrst af hátíðarliljunum til að blómstra. Af henni eru nokkrar fallegar sortir. 'Tete-a-tete' er seld sem pottaplanta fyrir páska, en þrífst vel úti í garði og er yfirleitt fyrsta hátíðarliljan til að byrja að blómstra. 'February Gold' líkist 'Tete-a-tete' en er öll heldur stórgerðari. 'Jetfire' er í sérstöku uppáhaldi, yndislega falleg, gul með appelsínugulri hjákrónu. 'Thalia' er álíka smávaxin og febrúarliljurnar en blómstrar í maí hreinhvítum blómum.

    Af stórblóma hátíðarliljum má nefna: 'Fortissima' sem er með risastór, gul blóm með appelsínugulri hjákrónu. Virkilega glæsileg. 'Corsage' er gul með appelsínugulri hjákrónu sem er kögruð eins og pífa. 'Orangery' er hvít með appelsínugulri, skiptri hjákrónu sem leggst flöt upp við krónublöðin.  Mjög flott. Af laxableikum sortum er 'Precocious' ein sú allra flottasta. Nokkrar flottar sortir með fylltum blómum eru 'Delnashaugh' og 'Tahiti''Double Campernelle' er með smáum, mikið ilmandi blómum í ótrúlega dökkgulum lit. Stórglæsileg, en ekki eins harðgerð og ofantaldar sortir og þarf sennilega bestu mögulegu skilyrði til að blómstra árlega.

    Túlipanar blómstra flestir í lok maí og fram í júní. Stórblóma túlipanarnir eru hver öðrum fallegri, í öllum regnbogans litum.Villitúlipanar minna ekki mikið á stóru kynbættu yrkin sem mest eru ræktuð en þeir eru virkilega fallegir í einfaldleika sínum. Margir hverjir eru harðgerðir og blómstra árum saman. Nokkrar góðar tegundir eru : sveiptúlipanidvergtúlipani og fjólutúlipani, en af honum eru til margar fallegar sortir m.a. 'Persian Pearl'.

    Að lokum vil ég nefna nokkrar tegundir smálauka sem flestir blómstra í maí og eru ómissandi í vorgarðinn: vorírisbalkansnotru, perluliljur t.d. 'Dark Eyes''Valerie Finnis', og M. latifoliumsíberíuliljupostulínslilju, og snæstjarna. Garðskógarlilja 'Pagoda' er yndisleg skógarbotnsplanta sem blómstrar í maí og þolir töluverðan skugga.

    Nú er um að gera að nýta haustblíðuna til að fara út í garð og pota niður laukum. Svo er bara að bíða veturinn af sér og hlakka til blómskrúðsins í vor.

    Rannveig Guðleifsdóttir
    Garðaflóra

  • Haustplöntur

    Nú er farið að hausta  og sumarblómin, sem við höfum dáðst að í allt sumar, byrjuð að fölna. Við höfum notið þess að horfa á fallegu blómin við heimkeyrsluna, á veröndinni, á svölunum, í hengipottum og hvar sem við höfum verið með eða séð þennan fegurðarauka. Við verðum því að bíða þolinmóð eftir næsta sumri.  En svo eru til margar plöntur  sem seldar eru á haustin og geta þá tekið við af sumarblómunum sem nú eru að enda sína lífdaga.  Það eru t.d.runnarnir:, Ilmsnepla  (Hebe odoria) sígræn,lágvaxin, fíngerð planta sem hentar vel í ker og potta, með öðrum plöntum, Berjamynta (Gaultheria procumbens) lágvaxin með sígrænum blöðum, rauðum berjum, falleg planta sem fer vel keri eða stórum pottum, Vorlyng (Erica carnea) lágvaxinn runni, með bleikum, rauðum og hvítum blómum, hentar vel í ker, potta og beð, Sólargull (Helichrysum italicum),hefur einnig verið kölluð Karrýplantan vegna ilmsins, er með silfruðum blöðum og er skemmtileg í ker og potta, þessi planta er gömul lækningajurt, Silfurþráður, öðru nafni Vírkambur (Calocephalus browii) með lítil grá blöð, vex í hálfgerðri flækju og því er erfitt að finna byrjun á legg og enda plöntunnar. Hún er lágvaxin en fín í ker og potta. Allar þessar plöntur sem ég hef talið upp hér að framan, þurfa skjól og geta þá bjargað sér en þola ekki mikið frost og eru því sjaldan langlífar hér á okkar landi.      

    Sem betur fer eru margir með sígrænan gróður sem gleður augað allt árið og hjálpar okkur að þreyja veturinn  eins og t.d. Einir (Juniperus) og mörg fleiri afbrigði af honum sem lifa góðu lífi hér á landi og standa sig vel í beðum eða kerjum.   Síprusar (Champaecyparis) eru virkilega glæsilegt vetrarskraut bæði í beð, ker og potta, en sum afbrigðin gætu þurft skjól. 

    Beitilyng (Calluna vulgaris) blómstrar rauðum, bleikum eða hvítum blómum á haustin og er til í mörgum litaafbrigðum. Hvítt beitilyng er sagt veita gæfu. Blöðin verða rauðbrún á veturna. Nafnið beitilyng vísar til þess að plantan þótti góð til beitar. Allt frá fornöld voru blóm beitilyngs notuð til að bragðbæta öl og beitilyngshunang þykir mikið lostæti. Í eina tíð voru vendir beitilyngs bundnir saman og búnir til úr þeim kyndlar eða sópar. Beitilyngsvendir geta líka staðið árum saman sem stofuskraut án þess að tapa lit. Þar sem mikið óx af beitilyngi þótti gott að hafa það undir undirsængunum í rúmfletum fyrri á tíð. Þarf reglulega vökvun eigi það að lifa fram eftir hausti.

    Allar þessar plöntur lífga upp á umhverfið og hjálpa okkur að komast í gegnum vetrardrungann og skammdegið, hvort sem þær eru við útidyr, á veröndinni, svölunum eða hvar sem þær eru sjáanlegar.

    Notið frjóan jarðveg og grófan vikur eða leirkúlur í botninn á kerjunum og ef kerin eru frá árinu áður, þarf að þrífa þau vel.  Plönturnar ættu að festa rætur á skömmum tíma og ef  vindurinn mæðir mikið á þeim getur verið nauðsynlegt að útbúa eitthvert skjól svo þær nái að festa ræturnar sínar og þrífast vel.

    Nokkur sumarblóm geta með góðu móti lifað fram að áramótum og standa sig vel þó nokkrar frostanætur komi af og til og ef þær eru í sæmilegu skjóli. Það eru t.d. Silfurkambur  

    (Senecio cineraria) með sín fallegu silfruðu blöð og Skrautkál (Brassica oleracea var. acephala) með sinn skrautlega blaðlit.  
    Njótið haustdaganna með fallegum plöntum.

    Með sígrænni kveðju
    Magnús Jónasson
    Skrúðgarðyrkjufræðingur

  • Skjól fyrir vetri

    Skjól fyrir vetri

    Flestar plöntur sem ræktaðar eru í görðum eru fullkomlega færar um að sjá um sig sjálfar yfir vetrarmánuðina og því óþarfi að hafa mikið fyrir vetrarskýlingu. Ef plönturnar eru aftur á móti viðkvæmar fyrir kulda eða vorsól eru nokkrar einfaldar reglur sem garðeigendur ættu að venja sig á að fara eftir þegar líða fer á haustið og þegar sólin fer að hækka á lofti á vorin. Gott er að skýla ungum trjáplöntum, hvort sem er lauf- eða barrtrjám, með striga fyrir verstu vindáttinni og einnig getur verið gott að setja sæmilega stóran stein við ungplöntuna til að koma í veg fyrir frostlyftingu og rótarslit.

    Skjól fyrir vorsólinni

    Mörg sígræn tré og runnar eru viðkvæm fyrir vorsólinni og því nauðsynlegt að skýla þeim sem standa á berangri. Það kemur í veg fyrir of mikla útgufun og sólbruna á vorin sem leiðir til þess að barrið ofþornar og verður brúnt á litinn. Almennt er garðeigendum þó ráðlagt að velja frekar harðgerðar tegundir á erfiða staði og bíða með viðkvæmari tré og runna þar til skjólið fyrir þá er orðið nægilega mikið.

    Hreinsun beða að vori

    Sölnuð blöð veita plöntum skjól yfir vetrarmánuðina og þess vegna á alls ekki að hreinsa þau burt fyrr en að vori. Þeir sem vilja geta aftur á móti rakað mesta laufið úr grasflötinni og í stað þess að setja það í safnhauginn er gott að hlúa að viðkvæmum fjölæringum eða rósum með því að hrauka upp að þeim með laufinu sem fallið hefur af trjánum. Laufið veitir plöntunum skjól og heldur hita í jarðvegi, sem er gott vegna þess að rætur eru viðkvæmar fyrir örum hitabreytingum í moldinni.

    Allar viðkvæmustu plönturnar þarf aftur á móti að taka inn og skýla þannig fyrir Vetri konungi.

Sjá fleiri spurningar & svör