Um Garðheima

Garðheimar er fjölskyldurekið fyrirtæki með áherslu á allt sem tengist grænum lífsstíl, plöntum, blómum, skreytingum, gjafavöru, gæludýravörum og gæða garðyrkjutækjum og tólum. 

Stefna fyrirtækisins er að reka náttúruvænt fyrirtæki þar sem fólk getur eytt tímanum og notið þess andrúmslofts sem skapast innan um fjölskrúðugan gróður, sem og að veita góða þjónustu byggða á þekkingu og reynslu. 

Garðheimar eiga rætur til 30. september 1991 þegar hjónin Gísli Sigurðsson og Jónína S. Lárusdóttir stofnuðu fyrirtækið Gróðurvörur sem var til húsa á Smiðjuvegi 5. Þar ráku þau verslun og heildsölu sem seldi og þjónustaði rekstrarvörur til garðyrkjubænda, verslana, verktaka og bæjarfélaga auk smásöluverslunar sem seldi allt sem tengist garð- og gróðurrækt. Þar störfuðu um 14 manns.

Þau dreymdi um að opna garðyrkjumiðstöð að breskri fyrirmynd og fóru fljótlega að sækja um lóðir. Þann 2. desember 1999 rættist draumurinn og Garðheimar opnuðu í núverandi mynd við Stekkjarbakka 6 í Reykjavík. Í dag starfa rúmlega 60 manns hjá fyrirtækinu sem er rekið af börnum þeirra Gísla og Jónínu. 

Nýir Garðheimar

Fimmtudaginn 10. mars, 2022 rann upp langþráður dagur hjá okkur í Garðheimum þegar fyrsta skóflustungan að nýjum höfuðstöðvum Garðheima var tekin. Leitin að reit fyrir nýjar höfuðstöðvar hófst vorið 2016 þegar í ljós kom að búið væri að endurskipuleggja núverandi lóð Garðheima í þágu þéttingu byggðar. Í byrjun árs 2022 fengum við úthlutaðri lóð við Álfabakka 6 þar sem til stendur opna nýja garðyrkjumiðstöð að ári liðnu. Það var öll Garðheima stórfjölskyldan sem kom saman til að fagna og voru það þrjár kynslóðir sem tóku saman fyrstu skóflustunguna.

Garðheimar hafa fengið frábæra samstarfsaðila með sér í vegferðina og erum við sannfærð um að úr verði ein fallegasta garðyrkjumiðstöð sem reist hefur verið. Hönnun hússins hefur verið í höndum PK arkitekta, Landslags, Ferils verkfræðistofu og hollenska fyrirtækisins Smiemans, sem sérhæfa sig í byggingu garðyrkjumiðstöðva út um allan heim. Um er að ræða 7000 fm stálgrindarhús ásamt útisölusvæði á 20.000 fm lóð sem liggur við rætur Seljahverfisins og niður að Reykjanesbrautinni.

 

Mikið hefur verið lagt uppúr því að gera húsið eins umhverfisvænt og kostur er. Á lóðinni verða blágrænar ofanvatnslausnir, grasþak yfir hluta hússins og vökvunarkerfi sem safnar regnvatni til að vökva plöntur í sölu. Þá verður veðurstöð sem stýrir hita hússins og Dali ljósakerfi sem stuðlar að minni orkunotkun, o.s.frv.

 

Við hlökkum til að bjóða ykkur öll velkomin í nýja Garðheima við Álfabakka seinni parts sumars 2023.

Frétt á Vísi.is