Haustkransagerð

Aðferð og efni


Efni

Í íslenskri náttúru er hægt að nálgast ýmiskonar efni í haustkransagerð t.d. krækiberjalyng, sortulyng, bláberjalyng, hrútaberjalyng, blóðberg og mosa. Í görðum er fullt af spennandi efni eins og reyniber, kvistar, gljávíðir og birki svo dæmi séu tekin. Skemmtilegt er að nota stilkana af hengisumarblómunum surfinu og lobeliu, þá eru blómin hreinsuð af, sama er hægt að gera við bergfléttuna og stilkunum vafið í kransinn eða pinnaðir í með rómarnálum. 
Hafa ber í huga að umgangast náttúruna af virðingu og nærgætni. 

Á haustin fyllist gróðurhús Garðheima af ericum, calluna og öðru haustlyngi sem fallegt er að klippa niður í kransagerð og í blómadeildinni er hægt að fá innfluttar eikarlaufsgreinar sem tilvaldar eru í fallegan haustkrans. Fallegir náttúrulegir litir einkenna þær eftir því sem líður á haustið. 

Áhöld

Basthringur, plastfóður, klippur, bindivír, rómarnálar og elephantsprey.

Aðferð












  1. Byrjað er á því að klippa niður efnið í hæfilegar lengd.
  2. Basthringur er fóðraður með plastfóðri og bindivírinn festur. Gott er að búa til litla vendi sem lagðir eru á upphafspunkt, lagðir þétt saman á hringinn og vírunum vafið utanum, koll af kolli. Nauðsynlegt er að hylgja vírinn vel.
  3. Þegar komið er á endapunkt er gerð lykkja með vírnum, snúið upp á hann og að lokum klippt á hann og endanum stungið í basthringinn.
  4. Að lokum er spreyjað yfir með elephantspreyi sem gerir það að verkum að kransinn heldur sér vel. 

Hægt er að punta kransinn með fallegum borðum, snúrum, leðurreimum, könglum, þurrkuðum ávöxtum eða því sem hugmyndaflugið býður upp á. 

Utandyra heldur kransinn ferskleika sínum býsna lengi og er til mikillar prýði á útihurðinni. Innandyra gleður hann augað og er ráð að spreyja hann aftur með elephantspreyi eftir að hann þornar. Fallegur á vegg eða á borði með jafnvel háu kerti í miðjunni.