Útiplöntur

 • Ræktun ávaxtatrjáa

  Epl-, plómu-, peru- og kirsuberjatré

  Skjól og staðsetning

  Í upphafi er mjög mikilvægt að huga að skjóli í garðinum. Ávaxtatré eiga ekki möguleika á að mynda aldin ef þau eru í stöðugum barningi við vindinn. Tré, limgerði og skjólveggir skapa umhverfi þar sem aldintré þrífast. Í skjólinu skapast staðbundið veðurfar sem er oft nokkrum gráðum heitara en mælingar Veðurstofunnar segja til um. Þessi viðbótarhiti er mikilvægur þroska og vexti epla-, peru-, plómu og kirsuberjatrjáa. Það er því lykilatriði að velja trénu góðan stað, bæði bjartan og heitan. 

  Sjá greinina í heild sinni. 

 • Jarðarberjaræktun

  Jarðarberjaræktun

  Jarðarber hafa verið ræktuð með góðum árangri á Íslandi í áratugi, en jarðarber eru mjög einföld í ræktun og nægjusöm og því á allra færi að. Jarðarber er hægt að rækta á ýmsa vegu s.s. í pottum, kerjum, hengikörfum, gróðurreitum, inni í gróðurhúsi eða úti í beði.

  Það sem mestu skiptir er að þau séu á sæmilega skjólgóðum stað og fái góða sól og vökvun. Þá eru jarðaberjaplöntur sérstaklega viðkvæmar fyrir því að þorna fyrstu vikurnar eftir að þær eru settar niður og svo aftur þegar berin eru að myndast. Athuga þarf að passa sérlega vel uppá vökvunina séu plönturnar hafðar í kerjum eða grunnum jarðvegi.

  Algengt er að jarðarberjaplöntur byrji að gefa af sér um miðjan júlí, en því hlýrra sem loftið er, því fyrr koma berin. Þar af leiðandi er nokkuð vinsælt að reyna að flýta fyrir uppskerunni með því að breiða t.d. akrýldúk yfir. Hann heldur hita að plöntunum en hleypir samt vatninu í gegn. Hann hjálpar einnig til við að forða berjunum frá ágangi fugla. Þó getur verið gott að lyfta dúknum yfir hlýjasta hluta dagsins meðan á blómgun stendur til að leyfa flugunum að vinna sitt verk.

  Svart plast, jarðvegsdúkur eða jafnvel trjákurl geta líka verið gagnleg hjálpartól, sérstaklega þegar ræktað er í skipulögðum röðum. Það gegnir því hlutverki að halda hita að rótum, raka í jarðvegi og sniglunum frá og er þá dúkur sniðinn (eða kurli dreift) í kringum hverja plöntu fyrir sig.

  Jarðarberjaplöntur geta fjölgað sér mjög hratt. Það gera þær með því að skjóta renglum út frá sér ofanjarðar og myndast nýjar plöntur við enda þeirra. Algengt er að þetta gerist tvisvar á sumri. Plönturnar skjóta svo rótum þar sem þær lenda. Því þarf að fjarlægja renglurnar vilji maður ekki að plönturnar dreifi sér út um allt. Hægt að stýra fjölguninni með því að klippa plönturnar af renglunum og færa á góðan stað. Bestu plönturnar eru yfirleitt taldar vera þær sem vaxa af stystu renglunum. Þegar plönturnar eru orðnar 4-5 ára fara jarðaberin yfirleitt að minnka. Er þá tímabært að fjarlægja þær plöntur og leyfa nýjum að taka við.

  Jarðarber gera ekki miklar kröfur til jarðvegs, en kjósa helst súran jarðveg (þola illa kalk). Gott er að blanda smá lífrænum áburði við moldina áður en plönturnar eru settar niður. Þó þarf að varast að gefa ekki of mikið, sérstaklega af köfnunarefni, þannig að plönturnar eyði ekki allri orkunni í blaðvöxt. Þá getur verið gott að gefa kalíríkan áburð þegar nálgast blómgun, en það ætti að hjálpa plöntunni að einbeita sér að berjamynduninni.

  Plöntur sem settar eru niður að vori byrja yfirleitt ekki að gefa af sér fyrr en ári síðar. Sé ætlunin að setja niður nokkrar plöntur og láta þær fjölga sér er algengt að taki um 3 ár að koma sér upp myndarlegri ræktun.

   

   

   

 • Litríkir fjölæringar

  Litríkir fjölæringar

  Þegar við veljum plöntur í garðinn er það oft blómgunin sem ræður valinu. Blómlitur, lögun, ilmur og blómgunartími eru þættir sem vega þar þungt. Oft spáum við lítið í hvernig laufið er þó blaðfagrar plöntur séu til mikillar prýði allt sumarið, ekki aðeins þegar þær standa í blóma. Sumar plöntur eru jafnvel eingöngu ræktaðar vegna laufskrúðsins.

  Fjölbreytileiki í gerð laufblaða

  Það er ekki síður fjölbreytileiki í gerð laufblaða en blóma. Laufblöð geta verið gljáandi eða mött, hvítloðin, slétt eða krumpuð, fíngerð eða grófgerð. Litaúrvalið einskorðast ekki bara við fagurgrænt. Litaskalinn er frá gulgrænu yfir í blágrænt og þar að auki getur lauf verið grátt, í ýmsum rauðum litbrigðum, fjólublátt, jafnvel næstum svart. Og það þarf ekki endilega að vera einlitt, það getur verið mynstrað, með hvítum, gulum eða rauðum rákum eða dröfnum. Fjölbreytileikinn er ótrúlega mikill og virkilega gaman að leika sér með að raða saman mismunandi laufformum og litum.

  Fjölærar tegundir með litfagurt lauf

   

  Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Ígulrósir

  Ígulrósir eru hópur harðgerðra runnarósa sem setja mikinn svip á umhverfið þessa dagana og er Hansarósin þar fremst í flokki. En 'Hansa' er ekki eina ígulrósayrkið sem er þess virði að rækta, þeirra á meðal er mikill fjöldi úrvals garðplantna.

  Ígulrós (R. rugosa) vex villt í austur-Asíu, m.a. í Japan. Hún barst til Evrópu um aldamótin 1800, en notkun hennar í kynblöndun hófst ekki fyrr en seint á 19. öld. Á árunum 1890 – 1915 komu fram nokkur yrki og var ‘Hansa’ ein af þeim. Svo varð lítil framþróun í kynbótum ígulrósa þar til kanadísku Explorer rósirnar komu á markað upp úr 1970.

  Ígulrósir eru margar síblómstrandi eða lotublómstrandi, þó nokkrar blómstri bara einu sinni. Þær byrja flestar að blómstra í júlí og standa margar í blóma fram á haust. Þær eru allar með nokkuð stór blóm, einföld eða fyllt, oft mikið ilmandi og flestar mjög harðgerðar. Þær gera litlar kröfur um jarðvegsgæði og þola vel rýran jarðveg.

  Nokkur yrki sem óhætt er að mæla með:

  'Agnes' (1900) – ein fallegasta gula runnarósin sem völ er á. Með fyrstu ígulrósum til að blómstra í byrjun júlí. Einblómstrandi.

  'Hansa' (1902) – þessa þarf varla að kynna fyrir neinum, enda mikið ræktuð bæði í görðum sem og opnum svæðum.

  'F.J.Grootendorst' (1918) – ein af fjórum svokölluðu „nellikurósum“. Blómin eru smá, með tenntum krónublöðum sem minna á nellikublóm. Þarf gott skjól, kelur nokkuð mikið.

  'Wasagaming' (1938) – oft first til að blómstra í byrjun júlí, ilmandi bleikum blómum. Nokkurs nafnaruglings hefur gætt með þessa rós og hafa önnur yrki verið seld hér undir þessu nafni um árabil.

  'Louise Bugnet' (1960) – hvít fyllt blóm með rauðum bryddingum. Lotublómstrandi. Yndislega falleg.

  Polareis' (1963) – fölbleik, ilmandi blóm. Lotublómstrand

  'Jens Munk' (1974) – bleik, hálffyllt mikið ilmandi blóm. Kanadísk explorer rós.

  'Henry Hudson' (1976) – hvít blóm, síblómstrandi. Kanadísk explorer rós.

  'Schneekoppe' (1984) – fölbleik blóm með lillabláum blæ. Lotublómstrandi, stendur nánast samfellt í blóma í júlí og ágúst. Gróskumikil og virkilega flott rós.

  'Hansaland' (1993) – rauð, fyllt blóm. Í viðkvæmari kantinum, þarf gott skjól en þrífst annars vel.

  Fjöldi fleiri yrkja er í ræktun hér og þrífast þau öll vel.

  Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Júlíblóm

  Blómstra í júlí

  Á meðal þeirra blóma sem blómstra í júlí eru:

  Rósir

  Í júlí fara fyrstu rósirnar líka að blómstra. Þyrnirósirnar og aðrar villirósir eins og t.d. fjallarósin eru fyrstar og fljótlega bætast fyrstu ígulrósirnar við. 'Wasagaming' og 'Agnes' eru yfirleitt þær fyrstu til að byrja að blómstra. Á meðal annarra rósa í blóma í júlí eru 'Louise Bugnet', Maigold', 'Pike‘s Peak' (Hringbrautarrósin)‚ gullrós 'Bicolor' og Dornrós.

  Blómstrandi runnar

  Af blómstrandi runnum eru sýrenurnar og ýmsir hvítblóma kvistir eins og t.d. birkikvistur og stórkvistur sennilega mest áberandi í júlí. Aðrir fallegir runnar í blóma núna eru stjörnutoppur og brárunni ‚Siska‘. Svo styttist í að ljúfur kúlutyggjósilmur snækórónunnar leggist yfir garðinn.

   

  Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Þyrnirósir

  Þyrnirósir

  Þyrnirósir vaxa best í frekar sendnum og rýrum jarðvegi. Fái þær of mikinn áburð setja þær alla orku í blaðvöxt og blómgun verður lítil eða engin. Þyrnirósin er með hvítum, einföldum blómum. Hún vex villt á örfáum stöðum á Íslandi en er ekki mikið til skrauts og blómstrar sjaldan. Þær plöntur sem vaxa villtar eru alfriðaðar.

  Þyrnirósablendingar

  Þyrnirósablendingar komu fyrst fram um aldamótin 1800 og voru mjög vinsælir á 19. öld. Þegar síblómstrandi rósayrki komu fram á sjónarsviðið döluðu vinsældir þyrnirósanna og mörg yrki sem voru í ræktun hafa glatast. Þær eiga samt fullt erindi í íslenska garða þar sem þær eru afar harðgerðar og blómstra á undan flestum öðrum rósum. Blómin geta verið einföld eða fyllt, oftast hvít eða bleik, en það eru líka til nokkur yrki með gulum og rauðbleikum blómum.

  Nokkur góð yrki sem óhætt er að mæla með

  • 'Totenvik' með hvítum, hálffylltum blómum.
  • 'Katrín Viðar' með óvenju stórum, hvítum, einföldum blómum sem eru með fölbleikri slikju þegar blómin eru að springa út.
  • 'Juhannusmorsian' sem er finnskt yrki með fylltum, ljósbleikum blómum.
  • 'Poppius' með fylltum, bleikum blómum.
  • 'Glory of Edzell' með dökkbleikum, einföldum blómum með kremhvítri miðju.
  • 'Red Nelly' með rauðbleikum, einföldum blómum.
  • 'Harison‘s Yellow' sem er blendingur þyrnirósar og gullrósar með sterkgulum, fylltum blómum sem lýsast ekki með aldrinum.
  • Þyrnirósayrkja má svo finna ýtarlegri lista yfir fjölda þyrnirósayrkja sem hafa verið reynd hérlendis.

  Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Eitraðar plöntur

  Eitraðar plöntur

  Aukinn áhugi og innflutningur á plöntum undanfarin ár hefur aukið framboð þeirra til muna. Sumar þessar plöntur geta verið varasamar og jafnvel eitraðar og er því nauðsynlegt að fólk sé vel á verði gagnvart þeim og að foreldrar gæti þess að börn komist ekki í þær. Íslensk börn eru reyndar ekki vön því að borða plöntur beint úr náttúrunni en smábörn eru gjörn á að stinga öllu upp í sig.

  Garðeigendur skyldu vera á verði gagnvart plöntum eins og: venusvagni, fingurbjargarblómi, geitabjöllu, töfratré og gullregni og ylliber geta verið varasöm ef þeirra er neitt í einhverjum mæli. Fólki er sérstaklega bent á að vara sig á ývið og lífvið þar sem safinn úr þessum plöntum er mjög eitraður og jafnvel banvænn. Af varasömum pottaplöntum má nefna: neríu, næturstjörnu, friðarlilju, jólastjörnu, köllu og allar mjólkurjurtir.

   

  Nokkur atriði til að hafa í huga

  Til þess að koma í veg fyrir eitrun af völdum plantna ætti því að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  •  Aflið upplýsinga um plönturnar þegar þær eru keyptar. Hægt er að nálgast upplýsingar um eitraðar plöntur á vefnum. Varist að kaupa eitraðar plöntur ef börn eða gæludýr eru á heimilinu sem þykja líkleg til að stinga uppí sig plöntuhluta.  
  •  Það getur verið hættulegt að stinga upp í sig plöntuhlutum, hvort sem það eru lauf, stönglar, blóm, fræ, ber eða sveppir.
  • Neytið aldrei plantna eða sveppa sem þið þekkið ekki. Hafið neyðarnúmer tiltækt ef eitrun á sér stað.
  •  Ef nauðsynlegt reynist að fara upp á slysavarðstofu er brýnt að taka með hluta plöntunnar sem étin var. Þetta hjálpar læknum og hjúkrunarfólki að átta sig á hvers eðlis eitrunin er.
  •  Notið hanska þegar eitraðar plöntur eru meðhöndlaðar.

   

 • Þegar flytja á stór tré

  Flutningur stórra trjáa

  Tré eru föst í jörðinni og þess eðlis að þau flytja sig ekki úr stað af sjálfsdáðum. Stundum kemur upp sú staða, fyrir einhverjar sakir, að tré henta ekki lengur á þeim stað sem þau standa. Breyta þarf skipulagi eða þá að tré sem einu sinni var lítill kvistur hefur vaxi og breyst í stór og mikið tré sem skyggir á sól og lokar fyrir útsýni. Við slíkar aðstæður er tvennt í boði. Fella tréð eða flytja það ef það er hægt.
  Þegar ákvörðun um að flytja tré er tekin er einkum þrennt sem hafa þarf í huga;

  •  að tréð sé það fallegt að það taki því að flytja það
  •  að tréð sé af tegund sem vert er að halda upp á
  •  að aldur þess sé ekki það hár að tréð drepist fyrir aldurssakir innan fárra ára.

  Rótarskurður

  Allra best er að hefja undirbúning fyrir flutningi trjáa ári fyrr en flutningurinn þeirra fer fram. Fyrra árið á að grafa holu og rótarskera hálfan hring umhverfis tréð. Stærð rótarhnaussins sem fylgir trénu fer eftir stærð þess. Þumalfingurreglan segir að margfalda eigi þvermál stofnsins með tíu og rótarstinga í þeirri fjarlægð frá stofninum. Hafa verður í huga að tré með stóran rótarhnaus eru mjög þung og taka verður tillit til þess þegar tré eru rótaskorinn. Ef um mjög stór tré er að ræða er óvinnandi vegur að flytja þau nema með öflugum vinnuvélum. Því er gott að að sýna fyrirhyggju og flytja tré áður en þau verða of stór.     

  Þegar búið er að grafa 40 til 50 sentímera djúpan hálfhring kringum tréð og klippa á ræturnar á að fylla holuna með lausum jarðvegi. Hafa skal rótarskurðinn sem allra hreinast og gæta þess að brjóta ekki rætur að óþörfu.
  Undirbúa á jarðveginn á þeim stað sem tré á að standa í framtíðinni ári áður en tréð er flutt. Stinga skal upp jarðveginn og blanda hann með lífrænum jarðvegi. Ári seinna er tré rótarstungið hinum megin og hnausnum pakkað í striga eða jarðvegsdúk.

  Flutningur

  Gæta verður þess að sem minnst af jarðvegi hrynji af rótunum meðan á flutningi stendur svo að ræturnar skaðist ekki að óþörfu. Einnig þarf að passa vel að rótarhnausinn þorni ekki í flutningi. Ef flytja á tréð langa leið í opinni kerru eða á palli er nauðsynlegt að pakka því í striga til að varna því að laufið vindþorni á leiðinni. Rætur þola ekki beina sól og því mikilvægt að hlífa hnausnum við beinu sólskini.

  Gróðursetning

  Til að auðvelda niðursetningu trésins á nýja staðnum er best að hafa holuna sem það fer í rúma. Það auðveldar alla vinnu og kemur í veg fyrir að rótum sé þvingað ofan í holuna. Jarðveginn kringum hnausinn verður líka lausari í sér eftir að tréð er komið niður og auðveldar því að skjóta rótum. Ekki má setja tré dýpra en það stóð áður, sumar tegundir þola það að vísu en aðrar alls ekki. Til að tryggja að tré standi af sér veður og vinda fyrst eftir gróðursetningu og vaggi ekki til í holunni verður að reka niður stoð við hliðina á því og binda tréð við hana með gúmmíi.
  Eftir að búið er að koma trénu fyrir í holunni og þjappa jarðveginum gætilega að hnausnum á að vökva vel og gæta þess að hnausinn þorni ekki fyrstu vikurnar eftir gróðursetningu.

  Vor eða haust

  Að jafnaðir er talið betra að flytja tré á vorin, þau ná þá að skjóta rótum á nýja staðnum yfir sumarið og festa sig fyrir veturinn. Í góðu árferði geta rætur trjáa vaxi frá því í apríl og fram í október og því ættu tré sem er flutt snemma að getað fest sig í jarðveginum fyrir næsta vaxtarskeið. Hvort sem tré eru flutt að vori eða hausti verður að gæta þess að staga þau vel niður svo þau falli ekki um koll.

   

  Heimild: Árstíðirnar í garðinum.

  Vilmundur Hansen

 • Sumarverkin í garðinum

  Sumarverkin í garðinum

  Grasflötina þarf að slá reglulega.

  Kantarnir eru ekki alveg eins fljót afgreiddir. En það er ekkert sem segir að þeir þurfi alltaf að vera stífklipptir og skornir. Það nægjir að snyrta þá einu sinni til tvisvar yfir sumarið.

  Fjölærar plöntur

  Hafi þær náð þeirri hæð að þær þurfi á stuðningi að halda til að brotna ekki í næsta roki eða leggjast út af, er vorið góður tími til að huga að því. Það eru til ýmsar gerðir af plöntustoðum og kannski engin ein betri en önnur. Ég hef þó mest notað bambusprik og bast til að binda þær plöntur upp sem þurfa á því að halda og hefur það reynst ágætlega. Sem betur fer þarf þó ekki að standa í því að binda allar fjölærar plöntur upp, sumar standa keikar alveg hjálparlaust og lágvaxnar plöntur þurfa að sjálfsögðu engan stuðning.

  Það er líka gott að klippa burt blómstöngla þegar blómgun er lokið nema ætlunin sé að safna fræi. Þá er jafnvel nóg að skilja bara nokkra stöngla eftir og klippa restina burt. Þetta er sérstaklega mikilvægt með tegundir sem hafa mikla tilhneigingu til að sá sér, en almennt séð verða plönturnar líka snyrtilegri ef blómstönglarnir eru klipptir burt. Þó eru til plöntur sem eru fallegar eftir að blómgun líkur og ástæða til að leyfa þeim að halda sér. Þetta á t.d. við um kasmírsalvíu.

  Þegar ekki er hægt að stóla á rigninguna til að vökva garðinn þarf að draga fram garðslönguna og vökva. Það getur jafnvel þurft að vökva þó það rigni því oft dugir lítil rigning varla til að rétt væta í yfirborði moldarinnar. Hvort notaðir eru úðarar eða handvökvað er smekksatriði.

  Svo er það illgresið. Bölvað illgresið myndu margir segja. Það eru ýmsar leiðir færar í baráttunni við það. Það er hægt að hylja beð með dagblöðum og kurli, möl, þekjuplöntum o.s.frv. Það er hægt að eitra fyrir því. Flestum nægir að reyta það burt. Mestu skiptir að fjarlægja það áður en það þroskar fræ, þá nær það aldrei að verða vandamál.

  Þessi vel þekktu sumarverk eru kannski ekki í uppáhaldi hjá öllum, en það er undir hverjum og einum komið hversu vel snyrtur garðurinn er og því þurfa þau ekki að vera nein kvöð. Svo er bara fátt dásamlegra en að gleyma sér i garðinum á fögru sumarkvöldi. Það endurnærir sálina.

   Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Fjölæringar - gróðursetning og umhirða

  Fjölærar plöntur er hægt að fá í fjölmörgum blómlitum, mismunandi hæð, með stórum eða litlum blöðum, skuggþolnar og sólelskar. Fjölbreytileikinn er svo mikill að það helst valkvíði sem veldur töf á vali á plöntum til að setja í garðinn.
  Áður en fjölærar jurtir eru gróðursettar verður að undirbúa beðið vel með því að stinga það upp, losa um og hreinsa moldina og blanda hana með ferskir mold eða lífrænum áburði niður á 30 til 40 sentímetra dýpi.     
   Raða skal fjölæringunum í beð eftir lit og blómgunartíma þannig að eitthvað sé í blóma frá vori og fram á haust.
   Hæfilegt bil milli plantna er breytilegt eftir fyrirferð þeirra og getur verið frá nokkrum sentímetrum og upp í rúman metra. Miða má við að plöntur sem eru 10 til 30 sentímetrar á hæð sé plantað með 15 til 25 sentímetra millibili. 30 til 60 sentímetra háar plöntur þurfa 25 til 60 sentímetra millibil og plöntur sem eru 60 til 100 sentímetra háar veitir ekki af 50 til 100 sentímetra millibili eða meira.
  Sé jarðvegur í beðinu frjósamur nægja 40 til 50 grömm af alhliða garðáburði á hvern fermetra fyrrihluta sumars og hálfur skammtur í lok júlí. Hnefafylli af lífrænum áburði yfir beði annað hvert ár er einnig til bóta og gott er að raka hann niður.

  Vilmundur Hansen

 • Steinhæðin í blóma

  Steinhæðaplöntur eiga það allar sameiginlegt að þrífast best í rýrum, sendnum jarðvegi með góðu frárennsli þ.e. jarðvegi sem er ekki mjög rakaheldinn. Þær eru lágvaxnar og margar hverjar veðurþolnar og henta því vel þar sem skjól er lítið. Þó þær séu ekki háar í loftinu eru margar þeirra þó með fallegustu garðplöntum sem völ er á og þurfa afskaplega litla umhirðu.

  Af þeim plöntubeðum sem ég er með í garðinum mínum er upphækkaða steinbeðið það beð sem ég þarf minnst að sinna. Það þarf ekki að vökva það nema í mestu þurrkum, það þarf ekki að vesenast með prik og garn til að binda upp plöntur og einhverra hluta vegna er arfinn varla sjáanlegur þar. Kannski af því það er orðið svo þétt plantað að það sést hvergi í mold. Og þar er eitthvað í blóma frá maí fram í október.

  Nokkrar fallegar tegundir sem eru blómstrandi núna eru sunnuklukkarunnagrímasápujurtgeldingahnappursteindeplafagursmærarósasmæra og hraunbúi.

  Meðfram götunni er gömul steinhleðsla úr hraunhellum sem var lítið augnayndi og langaði mig mikið til að skipta henni út fyrir eitthvað flottara. Þangað til mér datt í hug að planta steinhæðaplöntum þar líka. Nú hefur steinhleðslan öðlast nýtt líf og hefur reynst besti staður fyrir stjörnublöðkur og aðrar plöntur sem eru annars viðkvæmar fyrir vetrarumhleypingum. Hallinn tryggir gott frárennsli og þrífast þær því ljómandi vel þrátt fyrir að fá ekkert vetrarskýli.

  Í steinhleðslunni eru stjörnublöðkurnar að byrja að blómstra ásamt sómagrímu og brekkudeplu. Þar vaxa líka nokkrar íslenskar tegundir eins og ljónslappi, lambagras, blóðberg, burnirót og holtasóley sem sóma sér allar vel sem garðplöntur. Það er vart hægt að hugsa sér viðhaldsminna blómaskrúð.

  Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Gróðursetning trjáplantna

  Gróðursetning trjáplantna

  Fyrir gróðursetningu trjáplantna er nauðsynlegt að stinga upp beð eða holu niður á 40 til 80 sentímetra dýpi allt eftir því hvort um limgerðisplöntur er að ræða eða stærri tré. Hæfileg beðdýpi fyrir limgerðisplöntur er 40 til 60 sentímetrar og 60 til 80 sentímetrar fyrir stærri tré. Hæfilegt breidd beðsins er hins vegar 80 til 100 sentímetrar. Helst verður að koma trjáplöntum niður sem allra fyrst, séu þær ekki í mold. 

  Hæfilegt bil milli trjáplantna

  Hæfilegt bil milli limgerðisplantna er þannig að tvær til þrjár plöntur séu á lengdarmeter. Bil milli stofntrjáa fer aftur á móti eftir því hvað trén verða há og fyrirferðamikil og getur verið frá þremur til sex metrum. Aldrei má gróðursetja tré dýpra en þau stóðu áður hvort sem það var í potti eða beði. Meðan á gróðursetningu stendur verður að gæta þess að plönturnar verði fyrir sem minnstu hnjaski og að moldin haldist sem mest á rótunum. Greiða skal vel úr rótunum þegar plönturnar eru settar niður og gæta þess að trén standi lóðréttar í holunni. Síðan skal moka jarðveginum að og þjappa honum varlega að rótunum.

  Séu tré orðin yfir einn og hálfur metri á hæð er nauðsynlegt að setja staur niður með þeim sem stuðning fyrstu árin á meðan þau eru að róta sig og koma sér fyrir. Eftir að plöntunni hefur verið komið fyrir á sinn stað skal vökva vel og gæta þess næstu dag að ræturnar þorni ekki.

 • Júníblóm

  Júní er hálfnaður og loksins er hitastigið farið að stíga upp á við og minna á sumar. Það er mesta furða hvað gróðurinn hefur lítið látið þennan kulda á sig fá og júníblómin blómstra nú hvert af öðru. En hvaða plöntur eru það helst sem skarta sínu blómskrúði á þessum tíma?

  Júní er tími vatnsbera og goðalykla.Vatnsberar eru af sóleyjaætt og hafa líka verið nefndir sporasóleyjar. Þeir hafa það óorð á sér að vera fulliðnir við að dreifa sér um allt og því ekki velkomnir í öllum görðum. Þó eru til vatnsberategundir sem haga sér skikkanlega og leggja ekki garðinn undir afkomendur sína. Þeir fyrstu til að blómstra eru blævatnsberi og stjörnuvatnsberi. Blævatnsberinn er lágvaxin tegund, varla meira en 30 cm á hæð með tvílitum bláum og hvítum blómum. Til eru sortir með hvítum og bleikum blómum líka, sumar enn smávaxnari en aðaltegundin. Stjörnuvatnsberinn er meðalhár með risastórum blómum á mælikvarða vatnsbera sem eru annað hvort tvílit, hvít og blá eða einlit blá. Sá einliti er líka þekktur undir nafninu vorvatnsberi. Báðar þessar tegundir sá sér lítið og hef ég aldrei fundið sjálfsáða stjörnuvatnsberaplöntu í garðinum mínum. Sem er eiginlega synd því hann er svo dásamlega fallegur. Þegar líða tekur á seinni hluta mánaðarins taka svo garðavatnsberarnir við með sínum undursamlega fallegu og litríku blómum. Ég á ljúfar æskuminningar af sporasóleyjunum í garðinum hans afa sem mér fannst að hlytu að vera þau dásamlegustu blóm sem fyrirfinndust á jörðinni. Og þeir eru enn í miklu uppáhaldi hjá mér. Þeir eru kannski ekki alveg eins stilltir og fyrrnefndu tegundirnar; ég hef fengið nokkrar dásamlega fallegar, sjálfsáðar plöntur af þeim, en þeir eru ekkert að leggja garðinn undir sig. Skógarvatnsberinn sér um það.

  Goðalyklar er önnur ættkvísl sem er mjög áberandi um þetta leiti. Þetta eru lágvaxnar plöntur af maríulykilsætt sem flestar eiga heimkynni sín í Norður-Ameríku.  Þær eru allar með bleikum eða hvítum blómum, harðgerðar og dásamlega fallegar. Ég er með fimm tegundir í garðinum mínum sem eru allar mjög keimlíkar en þó eru tvær sem skera sig aðeins úr. Hjartagoðalykillinn er sá eini sem blómstrar hvítum blómum, sem eru mun minni en á hinum tegundunum. Laufið er líka áberandi tennt en hinar tegundirnar eru allar með heilrenndum blöðum. Brekkugoðalykill ber þó af þeim öllum að mínu mati. Mjög gróskumikill með fallega ljósbleikum blómum.

  Vorblómstrandi lyklarnir eru nú búnir en aðrir taka við. Nú eru það kínalykilsdeildin og maríulykilsdeild sem eru í aðalhlutverkum.  Í kínalykilsdeildinni eru það kínalykillklukkulykill og fellalykill sem eru byrjaðir að blómstra og harnarlykillinn í maríulykilsdeild. Allt saman úrvalsgóðar og harðgerðar garðplöntur sem þarf ekkert að hafa fyrir.

  Páskaliljurnar eru flestar að fölna og túlipanarnir hafa tekið við af þeim. Mörgum finnast páskaliljurnar heldur ræfilslegar þegar blómgun er lokið og því er gott ráð að klippa burtu blómstönglana eftir blómgun. Þá fer heldur ekki óþarfa orka í að þroska fræ og laukarnir safna meiri forða fyrir blómgun næsta vors. Það sama á við um túlipanana þegar þeir hafa lokið blómgun sinni. Það er þó mikilvægt að klippa laufið ekki burt fyrr en það fer að fölna því annars ná laukarnir ekki að safna forða fyrir næsta vor.

  Aðrar tegundir sem eru einkennandi fyrir júnímánuð eru silfursóleygullhnappar, ýmsar deplur eins og t.d. kósakkadeplanjakobsstigarblásól og í steinhæðinni eru fjallablöðkurnar að byrja að opna sín ævintýralega fallegu blóm ásamt ýmsum lágvöxnum bláklukkum.

  Rannveig  Guðleifsdóttir
  Garðaflóra

 • Klukkurunnar

  Klukkurunnar (Weigela) er ættkvísl smávaxinna runna sem allir eiga heimkynni sín í Austur-Asíu. Þeir bera nokkuð stór, klukkulaga blóm í bleikum, hvítum, rauðum eða gulum lit og virðast alltof skrautlegir til að eiga möguleika á að þrífast hér. Nú veit ég ekki hversu margar tegundir klukkurunna hafa verið reyndar hér en tvær þeirra hafa reynst ævintýralega vel.

  Gullklukkurunninn (Weigela middendorfiana) er upprunninn í Japan. Hann er sá harðgerðari af þessum tveimur og verður líka mun stærri. Plantan sem vex í mínum garði er af yrkinu ‚Hokki‘ sem Ólafur Njálsson í Nátthaga ræktaði af fræjum sem hann safnaði á Hokkaídó í Japan. Þetta yrki hefur vægast sagt reynst vel. Á þremur árum hefur hann vaxið í ca. 1,5 m hæð og rúman meter á breidd. Hann kelur lítið sem ekkert og er að myndast við að blómstra núna sínum fallegu brennisteinsgulu blómum þrátt fyrir kulda og trekk sem minnir meira á apríl en júní.

  Kóreuklukkurunninn (Weigela coraieensis), sem eins og nafnið bendir til er upprunninn í Kóreu, er mun smávaxnari. Á jafn löngum tíma hefur hann vaxið í ca. 40 cm hæð og er svipaður að umfangi. Hann þarf skjólbetri stað og getur kalið nokkuð og hefur blómgunin ekki alveg verið árviss. Þegar vel liggur á honum blómstrar hann sínum ævintýralega fallegu rósrauðu blómum um miðjan júní.  Það gæti dregist eitthvað ef þessi kuldi heldur áfram, en knúpparnir bíða uns hlýnar á ný.

  Rannveig Guðleifsdóttir
  Garðaflóra

 • Íslenskt birki - harðgert og nægjusamt

  Birkiskógar

  Birki er eina trjátegundin sem hefur myndað samfellda skóga hér á landi eftir að ísöld lauk. Nöfnin birki eða björk má rekja aftur í sanskrít og merkja þau hið bjarta eða ljósa tré. Hér er líklega vísan til hins ljósa stofns trésins. Gerð barkarins er einkennandi fyrir ættkvíslina en hann er rauðbrúnn eða hvítur og flagnar í þunnan spæni.

  Birki er harðgert

  Birki vex eingöngu á norðurhveli jarðar, sumar tegundir mjög norðarlega og hátt til fjalla. Útbreiðsla þess er um alla norðanverða Evrópu, langt austur í Asíu og langleiðina að Kyrrahafi. Hér á landi vaxa tvær tegundir villtar, ilmbjörk og fjalldrapi, einnig er til blendingur þessara tegunda sem nefnist skógarviðarbróðir. Erfðabreytileiki birkis er mikill og geta tré frá sömu fræmóður verið mjög ólík í vexti og blaðlögun. Þetta sýnir að genabreyti leiki er mikill þótt líkur bendi til að hann sé fátæklegri en við landnám. Bent hefur verið á að landnámsmenn hafi líklega höggvið stærstu og bestu trén fyrst og með því móti grisjað úr tré með gen sem báru í sér erfðaeiginleika til mikils vaxtar. Eftir hafa orðið hríslur og kjarr. Fjalldrapi er allur smávaxnari en ilmbjörkin og stundum skriðull.

  Birkifræ

  Björkin er tré eða runni með þéttum greinum. Bolurinn er hlutfallslega grannur miðað við hæð trésins. Börkurinn er þunnur, ljós eða rauðbrúnn, og flagnar af stofninum. Ræturnar liggja grunnt og þurfa súrefnisríkan jarðveg og dafna því ekki vel í blautum jarðvegi. Blöðin eru á stilk sem er um helmingur blaðsins á lengd, egg- eða tígullaga og sagtennt. Blómin eru í reklum. Fræin eru lítil hnoð með himnuvæng. Þau eru fislétt og eru um 1,5 til 2 milljónir fræja í hverju kílói. Þrátt fyrir smæð fræjanna berast þau sjaldan langt frá móðurplöntunni. Fræin geymast illa nema við bestu aðstæður.

  Birki er nægjusöm trjátegund sem getur vaxið við lægri sumarhita en flestar aðrar trjátegundir en nær hins vegar ekki góðum þroska nema í frjóum jarðvegi. Hæðarmörk birkis yfir sjó eru um 550 metrar og það verður 80 til 100 ára gamalt og ætla má að það geti náð um 20 metra hæð við góðar aðstæður.

  Lækningamáttur birkisins

  Fyrr á tímum var birki notað í ýmsum tilgangi. Úr berkinum má búa til skrautmuni og hann var notaður til að súta skinn. Seyðið úr berkinum þótti gott við niðurgangi og seyðið var ómissandi við magn- og kraftleysi, matarólyst og til að verjast sviða á barnsrössum. Börkurinn þótti einnig góður á brunasár ef hann var blandaður ósöltu smjöri.

  Vilmundur Hansen

 • Leitin að réttu plöntunni

  Það er fátt skemmtilegra en að standa frammi fyrir því spennandi verkefni að hanna nýjan garð. Eða endurhanna gamlan garð sem er e.t.v. kominn í órækt. Þá er að mörgu að hyggja. Fyrst er rétt að huga að notagildi garðsins; hvernig hann muni veita eigendunum sem mesta ánægju. Skipuleggja dvalarsvæði og göngustíga, aðkomur og önnur „hörð svæði“. Svo er komið að þessu skemmtilega – að velja plönturnar.

  Fólk með plöntusöfnunaráráttu á háu stigi eins og ég fer yfirleitt öfugt að þessu. Ég sé flotta plöntu sem ég „verð“ að prófa og svo er höfuðverkurinn að finna henni stað. Útkoman getur verið fín að lokum en oft kallar þessi aðferð á tíða plöntuflutninga og tilfæringar til að hagræða og búa til pláss fyrir nýjar plöntur.

  Hin leiðin – og kannski sú réttari, er að byrja á því að skipuleggja gróðurbeðin og leita svo að hentugum plöntum til að gróðursetja. Þá er gott að taka mið af birtuskilyrðum, skjóli eða skorti á því, jarðvegi, litavali, hæð og umfangi plantnanna og blómgunartíma. Þetta getur verið mikið púsluspil.

  Fyrst þarf að skoða ytri skilyrðin: birtu, jarðveg og skjól. Ytri skilyrðin ráða miklu um hvaða plöntur henta á viðkomandi stað svo það mætti kalla það skylduval. Þegar verið er að útbúa nýtt beð skiptir öllu að byrja á grunninum og undirbúa jarðveginn vel. Það vex ekkert í blautri og klesstri mold, nema kannski mýrarplöntur. Stundum getur verið nauðsynlegt að skipta um jarðveg en oft er nóg að blanda moldina með góðum skammti af moltu og sandi. Steinhæðaplöntur þurfa betra frárennsli og þá er gott að blanda fínni möl saman við moldina. Jarðraki getur verið mikill á sumum blettum á meðan aðrir eru mjög þurrir. Það er bara ávísun á endalausa vinnu við að vökva að planta plöntum sem þola illa þurrk á þurra staði. Og plöntur sem þola illa raka lifa ekki í blautri mold. Næst er að huga að birtuskilyrðum. Þau skipta líka miklu máli. Sólelskar plöntur vaxa lítið og blómstra ekki í skugga og margar skuggaplöntur sviðna í sterku sólskini. Aftur á móti eru margar plöntur sem þrífast ágætlega í hálfskugga, þ.e þeim nægir að fá sól part úr degi. Að lokum er það svo vindurinn. Ef skjólið vantar er best að halda sig við lágvaxnar, veðurþolnar tegundir.

  Þegar búið er að þrengja hringinn með skylduvalinu er komið að frjálsa valinu: hæð, blómgunartíma og lit. Þar kemur til smekkur hvers og eins, en þó er gott að hafa nokkur atriði í huga. Þumalputtareglan er að raða plöntum þannig að þær lægstu séu fremst í beðinu og þær hærri aftar. Til að hafa blómskrúð sem lengst er æskilegt að velja plöntur með breytilegan blómgunartíma. Þannig má hafa eitthvað í blóma frá apríl fram í október. Litaval er einnig smekksatriði. Sumum finnst erfitt að raða saman mörgum litum og einskorða sig við einn til þrjá liti til að einfalda málin á meðan aðrir blanda saman öllum litum regnbogans.

  Að finna réttu plöntuna út frá öllum þessum breytum er ekkert einfalt mál. Ein leið til að auðvelda leitina er að nýta sér plöntugagnagrunna á netinu þar sem hægt er að leita að plöntum eftir ýmsum leitarskilyrðum. Það eru a.m.k fjórir slíkir gagnagrunnar til á Íslandi sem eru allir með mismunandi áherslum: Lystigarður AkureyrarYndisgróðurFélag garðplöntuframleiðenda og gagnagrunnur Garðaflóru, sem hefur þá sérstöðu að notendur geta lagt til upplýsingar og myndir um sínar plöntur í gagnagrunninn. Og þá er bara að hefja leitina. Góða skemmtun!

  Rannveig Guðleifsdóttir
  Garðaflóra

 • Grasflötin - iðagræn og gróskuleg

  Ýmsir standa í þeirri trú að gras vaxi af sjálfum sér og þurfi því litla sem enga umhirðu. Grasið í garðinum því oft sú plöntutegund sem fær hvað minnsta athygli. Þetta er röng hugsun því til að fá fallega grasflöt þarf að huga vel að henni alveg eins og öðrum gróðri í garðinum. Helstu kostir grassins er að það þolir talsvert traðk, er mjúkt undir fæti, endurnýjar sig sjálft og hefur fallegan lit.
   Grös þurfa milli 10 til 15 sentímetra þykkt lag af góðum jarðvegi til að vaxa og dafna vel. Sandblönduð mold hentar vel fyrir grös auk þess sem hún þjappast vel og auðvelt er að slétta hana. Gott er að gefa 6 til 8 kíló af tilbúnum áburði á hverja 100 fermetra sem er dreift jafnt yfir vaxtatímann. Flestar grastegundir eru ljóselskar og þrífast illa í skugga.
  Þeir sem eru óþolinmóðir og vilja grasflötina tilbúna strax á fyrsta sumri eiga að leggja þökur því sáning er seinlegri. Við tyrfingu skal byrja á því að leggja beina röð hringinn í kringum flötina. Síðan eru þökurnar lagðar hálf í hálft og götum lokað með bútum. Ekki skal ýta þökunum of þétt því við það getur myndast holrúm undir þeim og blettir sem ekki ná að skjóta rótum. Að þökulögn lokinni skal valta flötina og vökva.
  Við sáningu þarf jarðvegurinn að vera hæfilega rakur og nota skal um það bil tvö og hálft kíló af fræi á hverja 100 fermetra. Fyrsta árið eftir sáningu verður umgengni um lóðina að vera í lágmarki en það tekur þrjú ár fyrir sáninguna að ná fullum þroska.
  Sláttur er hluti af viðhaldi grasflatarinnar. Ekki skal slá of snöggt því blaðmassinn verður að vera nógur til að sjá rótunum fyrir næringu. Æskilegast er að slá oft og reglulega.

 • Krydd og matjurtir í pottum og kerjum

  Það eru ekki allir sem hafa pláss eða aðstöðu fyrir stóran matjurtagarð sem getur séð fjölskyldunni fyrir grænmeti og kartöflum frameftir vetri. Það er þó ekki þar með sagt að ekki sé hægt að njóta þess að gæða sér á heimaræktuðu grænmeti, þó í litlu magni sé. Það er nefnilega vel hægt að rækta matjurtir í pottum og kerjum á svölunum eða pallinum.

  Og hvað er svo hægt að rækta? Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru kryddjurtir og salat sem hvorutveggja henta mjög vel í pottarækt. Það er t.d. ekki amalegt að hafa pott með uppáhalds kryddjurtunum eða salati við dyrnar þar sem stutt er að ná sér í klípu með matnum. Það getur verið ágætt að sá salatinu tvisvar til þrisvar sinnum með nokkurra vikna millibili til að fá uppskeru yfir lengri tíma.

  Ég gerði tilraun með að rækta gulrætur í stórum blómakassa í fyrra sumar með fínum árangri. Það tók reyndar ekki marga daga að klára uppskeruna en það jafnast ekkert á við heimaræktaðar gulrætur þó í litlu magni sé! Þær njóta líka góðs af því að jarðvegurinn hitnar fyrr í kassanum heldur en í venjulegu beði. Jarðaber er líka fínt að rækta í kerjum og jafnvel hengipottum af sömu ástæðu. Þá liggja berin heldur ekki eins á moldinni og kannski minni líkur á að sniglarnir nái að gæða sér á berjunum á undan okkur. Allar káltegundir er auðveldlega hægt að rækta í kerjum og baunir líka.

  Það er t.d. kjörið að leyfa krökkum að prófa að rækta sitt eigið grænmeti í blómakössum. Það eru meira að segja til ýmis óvenjuleg litaafbrigði sem getur verið spennandi að prófa eins og t.d. fjólubláu og gulu gulræturnar sem slegið hafa rækilega í gegn hjá mínum dætrum. Sætar og góðar og stútfullar af andoxunarefnum. Möguleikarnir eru endalausir og um að gera að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og gleðja bragðlaukana með smá smakki af heimaræktuðu grænmeti í sumar.

 • Jarðvegur undirstaða grósku

  Til að gróður dafni vel verður að vanda vel allan undirbúning jarðvegsins sem hann á að standa í því árangur ræktunarinnar er að stórum hluta háður gæðum jarðvegsins. Fyrst og fremst eru það eðliseiginleikar og frjósemi jarðvegsins sem skipta máli, en þeir eiginleikar eru aftur á móti háðir jarðvegsbyggingu og samsetningu næringarefna. Jarðvegsbygging ræðst af holurými jarðvegsins. Æskilegast er að holurnar séu bæði stórar og smáar. Í smáu holunum geymist vatn og súrefni, en þær stóru sjá um að leiða regnvatn niður jarðveginn.

  Plöntur þurfa vatn til að vaxa og dafna eðlilega. Jarðvegur þarf því að vera hæfilega rakur. Blautur jarðvegur er kaldur og loftlítill og hefur slæm áhrif á rótarvöxt og hægir á vexti ofanjarðar. Í blautum jarðvegi verður starfsemi jarðvegsgerla og smádýra lítil og það hægir á rotnun lífrænna efna en virk starfsemi jarðvegslífvera bætir mjög ástand jarðvegsins. Starfsemin flýtir fyrir rotnun plöntuleifa þannig að hringrás næringarefna í jarðvegi verður örari.

  Sýrustig jarðvegs ræðst af magni óbundinna vetnisjóna í honum. Sýrustig er táknað með pH. Þegar sýrustigið er á milli pH 0 og 7, er sagt að jarðvegurinn sé súr, en basískur sé pH milli 7 og 14. Jarðvegur með pH 7 er hlutlaus. Sýrustig er hærra eftir því sem pH talan er lægri en basískara eftir því sem talan er hærri. Sýrustig jarðvegsins getur haft mikil áhrif á plönturnar. Áhrifin eru bæði bein og óbein og eru óbeinu áhrifin meiri. Beinna áhrifa gætir minna þótt sýrustigið sveiflist innan vissra marka. Það er ekki fyrr en jarðvegur er orðinn mjög súr eða mjög basískur að dregur að ráði úr vexti.

  Lífrænn áburður gerir öllum jarðvegi gott þar sem hann er ríkur að næringarefnum sem leysast hæfilega hratt upp í jarðveginum og hann er auðugur að lífrænum efnum sem byggja upp jarðveginn.

  Vilmundur Hansen

 • Af vorgulli og öðrum vorblómstrandi djásnum

  Mig hefur lengi dreymt um að rækta vorgull (Forsythia) í garðinum mínum. Þessa dásamlega gulu runna sem eru svo áberandi á vorin í nágrannalöndunum og við þekkjum sem ómissandi páskagreinar. Ég hélt þó að það væru draumórar einir að svona runni gæti þrifist, hvað þá blómstrað hér, en þegar ég rakst á plöntur til sölu í garðyrkjustöð fyrir tveimur árum VARÐ ég að prófa.

  Umrædd tegund heitir Forsythia ovata ‘Tetragold‘ eða marsgull. Það er upprunnið í Kóreu og er mun harðgerðara en þær tegundir sem helst eru ræktaðar í nágrannalöndunum. Ég þorði nú ekki annað en að planta því undir suðurvegg svo það myndi nú ekki væsa um greyið og það er skemmst frá því að segja að það þrífst bara ljómandi vel! Kelur nánast ekkert og skartar nú sínum fallegu gulu blómum.

  Það er nú ekki um auðugan garð að gresja í úrvali vorblómstrandi runna og trjáa hér á landi og því alltaf ánægjulegt að finna viðbót í þann takmarkaða hóp. Töfratréð er fyrsti runninn til að blómstra, jafnvel í lok mars og stendur í blóma fram í maí. Í lok apríl – byrjun maí blómstrar svo rósakirsið. Blómgun marsgullsins lendir þarna á milli og getur það byrjað að blómstra í apríl sé tíðarfar gott. Og þar með er lokið upptalningu vorblómstrandi runna og trjáa á Íslandi. Kannski er ein eða tvær tegundir sem mér yfirsést um, en það er ekki fyrr en í lok maí – byrjun júní sem fleiri tegundir taka við. Þá er komið sumar.

  Sem betur fer er nóg úrval af fjölærum plöntum og laukplöntum sem gefa tilverunni lit á þessum tíma. Krókusa og páskaliljur þekkja flestir, en páskaliljurnar standa einmitt í blóma núna og lífga heldur betur upp á garðinn. Páskaliljur eru nefnilega ekki bara páskaliljur, úrvalið er ótrúlega mikið í stærð, blómgerð og litum, frá hreinhvítu yfir í appelsínurautt.

  Vorblómstrandi lyklar skarta líka sínu fegursta þessa dagana og þar er af nógu að taka. Fyrstu lyklarnir byrja að blómstra í apríl og svo bætast stöðugt við fleiri tegundir eftir því sem líður á maímánuð. Ég ætla ekki að telja þá alla upp hér, en ætla aðeins að minnast á þær tvær deildir maríulykla sem eru hvað mest áberandi núna. Marílykilsættkvíslin er nefnilega svo stór og fjölbreytt að henni hefur verið skipt niður í nokkra flokka, eða deildir. Í vorlykladeild eru, eins og nafnið bendir til, þær tegundir sem eru fyrstar til að blómstra, margar hverjar um miðjan apríl. Þær eru allar harðgerðar og úrvals góðar garðplöntur. Huldulykill og elínarlykill eru dæmi um tegundir í þessari deild, og er elínarlykilsyrkið‚ John Mo‘ það fyrsta til að blómstra í mínum garði. Hin deildin er árikludeildin en tegundir þeirrar deildar byrja að blómstra í byrjun maí. Frúarlykillinn er sennilega þekktasta og útbreyddasta tegund deildarinnar enda eru til fjölmörg yrki af honum í öllum litum að bláum undanskildum. Aðrar úrvalstegundir í þessari deild eru mörtulykill og silfurlykill.

  Það er of langt mál að telja upp allar þær plöntur sem blómstra á þessum tíma en auk lyklanna eru m.a. ýmsar laukplöntur og tegundir af sóleyjaætt í blóma núna s.s. skógarblámi, geitabjöllur og balkansnotrur. Af nógu er að taka og víst að það gleður augað og lyftir sálinni þegar tilveran breytir um lit úr dauflegum gráma vetrarins í glaðlega liti vorsins.

 • Matjurtargarðurinn

  Þegar hefja á matjurtaræktun er gott að byrja á því að stinga garðinn vel upp og blanda í hann lífrænum áburði s.s. hænsnaskít, sveppamassa, moltu eða þaramjöli. Sé jarðvegurinn súr þarf að bæta í hann kalki. Allt er þetta góður áburður sem eykur uppskeruna og bætir bragðgæðin. Kalk er þó ekki sett í kartöflugarða því það eykur hættu á kláða.Auka má uppskeruna í garðinum með því að lyfta yfirborði beðanna um 20 til 30 sentímetra. Við það hitnar jarðvegurinn fyrr. Hæfileg breidd á matjurtabeði er einn metri. Sú breidd er þægileg til vinnslu og auðvelta að ná yfir þau án þess að teygja sig of mikið.

  Jarðvegur í matjurtareitnum þarf að vera hæfilega blanda af mold og sandi og yfirleitt þarf að blanda hann með lífrænum áburði og kalki til að bæta hann.Jarðvegshiti þarf að hafa náð að minnsta kosti 6°C við útplöntun matjurta sem er yfirleitt um mánaðarmótin maí og júní. Í Garð sem er 10 fermetrar að flatarmáli nægir að gefa um eitt kíló af alhliða tilbúnum áburði þegar garðurinn er stunginn upp og hálf kíló um það bil mánuði síðar.

   

 • Draumurinn um viðhaldsfræian garð

  Það hafa sjálfsagt margir notað veðurblíðuna síðustu daga til að hreinsa til í garðinum sínum. Forfallnir garðanördar eins og ég vitum fátt skemmtilegra. En fyrir mörgum eru garðyrkjustörfin sjálfsagt álíka leiðinleg kvöð og húsverkin eru fyrir mér. Þá dreymir um viðhaldsfrían garð eins og mig dreymir um viðhaldsfrítt heimili. Við vitum öll að heimilisstörfin vinna sig ekki sjálf. En er til viðhaldsfrír garður?

  Þegar ég sé garð þar sem nánast öllum gróðri hefur verið úthýst fæ ég sting í hjartað eins og pylsukokkurinn þegar hann sér sprungna pylsu. Hellur, steinar og möl eru mjög smart en afskaplega kuldaleg ef gróðurinn vantar. Það er margsannað að gróður í umhverfi okkar hefur afskaplega jákvæð áhrif á sálartetrið og heilsuna. Flestir hrífast meira af sældarlegum trjálundi en örfoka sandi. Er það endilega gefið að gróskumikill garður útheimti mikla vinnu? Eru hellur, pallar og möl viðhaldsfrí í raun? Þarf ekki að hreinsa mosa og gras úr hellunum, lauf og arfa úr mölinni og bera á pallinn?

  Villt gróðursvæði eru aftur á móti viðhaldsfrí. Þau sjá um sig sjálf. Þar þarf hvorki að klippa, grisja, bera á, tæta mosa eða reita arfa. Þó að garður geti kannski aldrei orðið algjörlega viðhaldsfrír er lykillinn að viðhaldsléttum garði e.t.v. sá að velja plöntur sem geta séð um sig sjálfar að mestu leiti. Runna sem þarf lítið að snyrta; fjölærar plöntur sem dreifa sér ekki um allt og þurfa ekki stuðning eða skiptingu á nokkurra ára fresti. Með því að nota þekjuplöntur í beð og planta þétt fær arfinn minni birtu og pláss til að dafna. Kannski þarf grasflötin ekki að vera eins og á verðlauna golfvelli til að þjóna sem leikvöllur fyrir fjölskylduna. Grasið vex hægar ef lífrænn áburður s.s. þörungamjöl er borið á. Ef það er slegið áður en það verður of hátt þarf ekki að hirða grasið, það hverfur ofan í svörðinn og verður að áburði. Og þarf mosinn að vera vandamál? Hann er fallega grænn á veturna. Ef ræktað er gras þar sem skuggsælt er og stór tré vaxa er öruggt að mosinn nær sér á strik. Afhverju að fara í stríð við hann? Fyrir nokkrum árum kom út dásamlega skemmtileg bók sem heitir Villigarðurinn - Garðyrkjuhandbók letingjans eftir Þorstein Úlfar Björnsson. Hún er frábær lesning hvort sem fólk aðhyllist svo frjálslegan stíl eða ekki, með mörgum góðum  ábendingum um hvernig megi njóta garðsins í sátt við náttúruna með sem minnstri fyrirhöfn. Þó að tíma eða áhuga skorti á að verja mörgum klukkustundum á viku í að klippa, snyrta og reyta er hægt að eiga sér gróðursælan unaðsreit. Galdurinn er að vinna með náttúrunni í stað þess að heyja stríð gegn henni og velja réttu plönturnar.

  Garðaflóra

 • Vetrarskýling gróðurs

  Þegar við höfum haft alla fallegu haustlitina fyrir augunum eru oft mikil viðbrigði þegar fyrsta lægðin kemur með miklum hvelli, rigningu, jafnvel snjókomu og ofsaroki.  Þá fýkur allt sem fokið getur.  Sumir hafa verið svo forsjálir að taka alla lausamuni inn þ.e.s. borðið, sólstólana, grillið, trampólínið o.fl. sem hefur veitt ánægju um sumarið. Við búum við þannig veðurlag að nauðsynlegt er að fjarlægja hlutina eða festa örugglega það sem verður að vera úti.

  Að gróðrinum þarf líka að hyggja á haustin.  Flestar fjölærar plöntur þurfa ekki sérstaka skýlingu, en ef þær eru í pottum eða kerjum má flytja þær í skjól, en muna samt að vökva þær reglulega svo þær ofþorni ekki.  Viðkvæmustu plöntunum verður þó að skýla  fyrir veðri og vindum.  Sem betur fer eru kjarkaðir einstaklingar, ræktendur og framleiðendur alltaf að   prófa sig áfram með nýjar tegundir.  Það er sjálfsagt að skýla þeim vel yfir vetrartímann meðan ekki er vitað nákvæmlega hvernig þær þola veðráttuna hér. Það er hægt að gera með laufum sem fallið hafa af trjám, trjákurli, smáum greinum, hálmi eða jafnvel með því hvolfa potti eða einhverju álíka yfir meðan plönturnar eru litlar.

  Sígrænn gróður þarf aðhlynningu fyrir veturinn. Hann heldur laufblöðum og nálum allt árið og þess vegna er alltaf einhver starfsemi í þessum græna gróðri  þó hún sé í algjöru lágmarki á veturna. Mesta hættan á skemmdum er þegar jörðin er gaddfreðin og plantan nær ekki að taka upp vatn. Sólin getur skinið skær og heit, þó frost sé og þá er plöntunum hætt við þurrkskemmdum. Skemmdirnar lýsa sér þannig að nálar og laufblöð verða brúnleit og detta af.  Þar sem fyrstu árin eru plöntunum erfiðust er nauðsynlegt að skýla þeim meðan vel meðan rótarkerfið og plantan öll er að þroskast.  Þetta á við um plöntur eins og t.d. greni og furu.  

  Besta aðferðin við að skýla sígrænum trjám og runnum er að reka niður 3.-4. staura kringum plöntuna og  strengja striga utaná, allan hringinn.  Gott að festa strigann á staurana með heftibyssu.  Striginn skyggir, loftar, hleypir vatni að og kælir plöntuna niður þegar sólin er sterkust.  Allar lyngrósir eru sígrænar og þeim þarf að skýla. Gott að setja laufblöð kurl eða mold að stofni.  Þetta sama á við um allar ágræddar rósir. Snjór er ein besta vörnin fyrir trjáplöntur og runna en getur þó orðið svo mikill að greinar brotni undan þunganum. Eina leiðin til að fyrirbyggja það er að hrista snjóinn af og létta þannig á snjóþyngdinni.   Ræktandi þarf að muna að vorin eru hættulegasti tími fyrir sígrænar plöntur.  Þegar mikil útgufun er og sólin skín þá er mesta hættan á að sígrænu plönturnar geti orðið brúnar eða gular, nema gerðar séu ráðstafanir til að skýla þeim. Skýlinguna er svo hægt að fjarlægja í maí eða þegar öll hætta á næturfrosti er liðin hjá.

  Með vetrarhlýrri kveðju
  Magnús Jónasson
  Skrúðgarðyrkjufræðingur.

 • Gaman í garðinum

  Garðyrkja er skemmtileg eða að minnsta kosti á hún að vera það. Margir garðeigendur leggja mikið á sig til að búa öllum plöntunum í garðinum kjöraðstæður, setja skuggaplöntur þar sem mestur skuggi er, alpaplönturnar norðan megin og binda upp hávaxnar jurtir svo þær fjúki ekki um koll í roki. Þeir gæta sín á því að gefa plöntunum réttan áburð, gullregnið fær smáaukaskammt af kalki og alparósin slettu af súrum áburði.

  Safnhaugnum er snúið tvisvar í viku, bletturinn sleginn reglulega og túlípanarnir bundnir upp eftir blómgun. Sumir ganga jafnvel svo langt að raða blómunum samkvæmt reglum litahringsins og eins læra menn latnesku nöfnin á öllum plöntunum sínum til að geta slegið um sig þegar aðrir garðaáhugamenn koma í heimsókn.

  Fallegir garðar krefjast mikillar vinnu og viðhalds og í sumum tilfellum vaxa garðarnir eigendum sínum yfir höfuð og verða að kvöð. Menn fá verki í hnén og bakið og í verstu tilfellum þorir fólk ekki í sumarfrí af hræðslu við að illgresið taki yfir meðan það er í burtu. Þegar svona er komið hættir garðurinn að vera til ánægju og breytist á ánauð og þá er ekkert gaman í garðinum lengur.

  Hvernig væri þá að breyta til, gefa sér lausan tauminn og lífga upp ágarðinn með alls kyns skringileg heitum. Þetta má til dæmis gera með því að leggja minni áherslu á beinar línur og hreinan stíl og leyfa hluta garðsins að vaxa villt. Af hverju ekki að setja litla tjörn með plastöndum í garðinn, gosbrunn eða lítinn eldbrunn, fuglahræðu eða styttur í garðinn. Einnig má koma fyrir lítilli álfafjölskyldu í einu horninu og fylla burknabeðið af bleikum flamingófuglum úr plasti. Það má líka lífga upp á garðinn á veturna með marglitum plastblómum og gervitrjám sem standa í blóma allt árið og gefa garðinum sumarlegt útlit allan ársins hring.

  Garðeigendur eiga að vera óhræddir að prófa eitthvað nýtt, sleppa fram af sér beislinu og gefa sér frelsi til smekkleysis annað slagið.

   

 • Mosinn í garðinum

  Ein af klassískum spurningum sem garðyrkjumenn fá reglulega er hvernig er hægt að losna við mosann í grasflötinni og af hellunum. Því miður er það nú svo að ekkert eitt töfraráð er til gegn mosa. Mosi þrífst best í raka, skugga og súrum jarðvegi og til að koma í veg fyrir að mosi vaxi í garðinum þarf helst að koma í veg fyrir að þannig aðstæður myndist.
  Sé skuggi af trjám verður að grisja til að hleypa sólarljósi niður í flötina. Þar sem raki er mikill í jarðvegi verður að ræsa hann eða hækka. Einnig er gott að dreifa ósöltum skeljasandi yfir flötina á nokkurra ára fresti.
  Besta leiðin til að losna við mosa af hellum er að skrapa hann af með vírbursta en einnig eru til efni sem drepa hann en fæst þeirra virka til langframa.
  Ríflega 600 tegundir af mosa vaxa hér á landi og eru sumar þeirra friðaðar. Mosi er lengi að vaxa og því ekki ráðlegt að rífa upp stórar flyksur og skilja eftir ljót sár sem eru lengi að gróa.

  Mosinn er ekki allstaðar óvinur garðeigenda. Í Japan er til dæmis ræktaður mosi og ræktun af slíku tagi hefur verið að breiðast út. Þeir sem vilja skreyta veggi eða steina með mosa ber þess að gæta að mosi þrífst í skugga, raka og súrum jarðvegi, en þannig aðstæður eru einmitt í mörgum görðum á Íslandi. Það er því tilvalið að rækta mosa á skuggastöðum og í pissskotum. Maður nær sér í lófafylli af mosa og setur hann í blandara (mixer) ásamt mjólk, bjór eða eggjarauðu og hrærir í góðan þykkan graut og penslar svo grautinn á þann stað þar sem mosinn á að vaxa. Mosinn hefur ekki eiginlega rætur, heldur rætlinga sem eiga auðvelt með að festa sig í grunnar sprungur og því er auðvelt að rækta hann á veggjum eða grjóti. Þessi aðferð dugir líka vel til að fá skófir til að vaxa á steinum eða veggjum. Á meðan mosinn er að koma sér fyrir er nauðsynlegt að úða hann reglulega með vatni til að halda honum rökum.

 • Fyrsti í vorsáningu

  Fyrstu skrefin

  Í janúar er upplagt að byrja að huga að sáningu á fjölærum plöntum sem þurfa kuldaskeið til að spíra. Yfirleitt dugar 6-8 vikna kuldaskeið. Þá er hægt að láta pottana standa úti fram í miðjan mars og ætti fræið í flestum tilvikum að spíra vel þegar það er tekið inn í hlýjuna. Dæmi um tegundir sem þurfa kaldörvun eru blágresistegundir og ýmsar tegundir maríulykla.

  Þá er líka rétti tíminn til að sá ýmsum tegundum af sumarblómum sem þurfa langan uppeldistíma og ætla ég að gera helstu tegundunum skil hér á eftir.

  Stjúpur og fjólur

  Stjúpur og fjólur eru ein vinsælustu sumarblómin, enda harðgerð og standa í blóma allt sumarið. Þau eru tvíær en með því að sá í janúar er hægt að fá blóm í maí – júní. Nefna má nokkrar góðar tegundir af stjúpum; Chianti, Chalon Supreme Purple Picotee'og Silver Wings. Góðar fjólu tegundir eru; Magnifico, Yesterday, Today and Tomorrow með blómum sem skipta lit úr hvítu yfir í fjólublátt og Penny Sunrise með skær appelsínugulum blómum.

  Ljónsmunnur

  Ljónsmunnur er fjölær planta en of viðkvæm til að lifa af veturinn hér og því ræktaðuð sem sumarblóm. Hún þarf langt uppeldi og því nauðsynlegt að sá henni í janúar eigi hún að ná að blómstra í byrjun sumars. Flottar tegundir í blönduðum litum eru: Frosted Flames með hvítmynstruðu laufi og Circus Clowns.

  Brúðarauga

  Brúðarauga þarf varla að kynna en því er best sáð í janúar. Fræið er örsmátt og plönturnar smáar eftir því í fyrstu. Það er mikil þolinmæðisvinna að dreifplanta smáplöntunum en ágætt að setja þrjár plöntur saman í pott og það kemur vel út að blanda saman mismunandi litum. Cascade og Pendula sortir eru með hangandi vöxt en það er einnig hægt að fá teigðan vöxt á plöntur sem eru ætlaðar í beð með því að rækta þær inni við stofuhita. Það er ágætt að klípa ofan af plöntunum nokkrum sinnum til að þær þétti sig vel. Pendula Sapphire er með bláum blómum með hvítu auga, Blue Cascade er með ljósblá blóm, Blue Splash er með hvítum blómum sem eins og nafnið bendir til eru með óreglulegum, bláum slettum. Virkilega flott með einlitum bláum tegundum. Blue Wings er afburðar falleg með mjög stórum bláum blómum en er sérstaklega viðkvæm fyrir þurrki og þarf því að passa að vökva hana reglulega. Red Cascade er með fjólurauðum blómum. Riviera Lilac er yndislega falleg tegund með lillableikum blómum. White Lady og White Fountain eru báðar með hreinhvít blóm.

 • Vorlaukar og hnýði

  Lauk- og hýðisjurtir

  Lauk- og hnýðisjurtum er yfirleitt skipt í flokka eftir því á hvaða tíma ársins þær eru settar niður og hvenær þær blómstra. Vorlaukar eru settir niður á vorin og blómstra á sumrin og fram á haust. Haustlaukar eru aftur á móti settir niður að hausti og blómstra á vorin. Plöntur, sem við köllum vorlauka í daglegu tali, þurfa ekki endilega að vera lauk- eða hnýðisjurtir því sumar þeirra hafa einfaldlega gildar forðarætur.

  Líffræðilega er enginn munur á vorlaukum og hnýðum og öðrum lauk- og hnýðisjurtum, blómgunartíminn er bara annar. Laukar, hnýði og forðarætur safna í sig næringu, geyma hana yfir hvíldartímann og nota hana svo til að blómstra. Fæstir vorlaukar eða hnýði lifa veturinn af úti hér á landi og verður því að forrækta þau inni áður en þau eru sett út. Erlendis eru vorlaukar yfirleitt kallaðir sumarlaukar vegna þess að þeir blómstra fyrr en hér.

  Forræktun

  Þegar vorlaukahnýði og forðarætur eru forræktaðar inni á að setja þær í rúmgóðan pott með næringarríkri mold um miðjan mars og fram í maí. Því stærri sem þessar rætur eru, því fyrr þarf að setja þær niður. Bestur árangur næst með því að láta plöntuna standa í sama pottinum allan vaxtartímann. Halda skal moldinni rakri allan vaxtartímann en gæta vel að frárennsli í pottinum því laukar, hnýði og forðarætur fúna standi þau í blautum jarðvegi. Séu hnýðin mjög hörð er reyndar gott að mýkja þau í vatni í 2 til 3 klukkustundir áður en þau eru sett í mold. Líkt og með haustlauka og hnýði á að setja vorlauka og hnýði niður sem nemur tvisvar til þrisvar sinnum þykkt þeirra og þjappa moldinni lauslega í kring. Eftir að laukarnir eru komnir í pott á að setja hann á bjartan stað. Þegar fyrstu blöðin koma í ljós á að flytja pottinn á svalari stað en gæta þess að birta sé nóg. Gott er að gefa áburð þegar vöxturinn er kominn vel af stað og plantan hefur náð vænum 10 sentímetrum á hæð. Seinni hluta maí eða í byrjun júní er kominn tími til að herða jurtirnar með því að setja pottinn út á svalir eða tröppur í 2 til 3 klukkutíma á dag. Útiverutíminn er svo lengdur smám saman þar til hætta á næturfrosti er liðin hjá. Eftir það er óhætt að hafa plönturnar úti allan sólarhringinn.

  Umhirða

  Vorlaukar, hnýði og forðarætur þurfa bjartan og skjólgóðan stað í garðinum svo að blómin fái notið sín. Jurtir í pottum er auðvelt að flytja í skjól, gerist þess þörf. Það auðveldar þeim lífið og eykur blómgunina. Klípa skal burt visnuð blóm sem búin eru að blómstra. Það kemur í veg fyrir tilraunir til fræmyndunar og eykur blómgun. Fæstar þessara plantna lifa veturinn af úti en þeir sem vilja rækta þær áfram eiga að láta blöðin sölna að fullu og taka svo pottinn inn fyrir fyrsta frost. Geyma skal pottinn með forðarótinni eða rótina sjálfa á þurrum og svölum stað yfir veturinn. Næsta vor er forðarótin sett aftur í pott með góðri mold og þegar búið er að vökva vaknar jurtin af dvala sínum.

 • Sígrænar plöntur

  Nú þegar vetur er genginn í garð og snjórinn hefur lagst yfir gefa sígrænar plöntur kærkominn lit í tilveruna. Úrval sígrænna plantna einskorðast ekki við barrtré og runna, en ég ætla að láta nægja að fjalla um nokkrar tegundir í þeim hópi að þessu sinni.

  Greni og fura eru algengustu sígrænu trjátegundirnar en flestar þeirra verða mjög stórvaxnar og henta ekki í litla garða. Ég ætla að nefna nokkrar fallegar tegundir sem eru nógu nettar til að prýða garða af hvaða stærð sem er og nógu harðgerðar til að þær geti lífgað upp á garðinn yfir vetrarmánuðina án vetrarskýlis. Reyndar geta jarðlægu tegundirnar horfið undir snjó þegar snjóar mikið en það er mikil prýði af þeim þegar snjólétt er.

  Það er ekki um margar smávaxnar grenitegundir að velja en þó eru til dvergvaxin afbrigði af tveimur tegundum sem hafa verið ræktuð hér. Fyrri tegundin er hvítgreni, Picea glauca. Yrkið Conica sem hefur fengið nafnið keilugreni, vex mjög hægt og verður aldrei meira en lítil, nett keila. Það er mjög fallegt, með fallega ljósgrænt barr en því miður heldur viðkvæmt og þarf mjög skjólgóðan stað í garðinum. Hin tegundin er Rauðgreni og eru nokkur dvergvaxin yrki til af því sem eru öll jarðlæg. Það algengasta, Nidiformis, hefur fengið nafnið hreiðurgreni. 

  Það er eins með fururnar og grenið, þær hafa tilhneigingu til að verða miklar um sig bæði á hæð og breidd. Af þeim furutegundum sem vaxa sem einstofna tré er broddfuran einna nettust, 5-10 m á hæð og vex mjög hægt. Fjallafura, er enn nettari, aðeins 1-3 m og eru tvær undirtegundir sem helst eru ræktaðar: fjallafura, (P. mugo var. mughus) sem verður rúmur meter á hæð og dvergfura (P. mugo var. pumilio) sem er enn lægri. Runnafura (P. pumila) er önnur smávaxin tegund sem vex í báðum grasagörðunum en hún er mun sjaldgæfari í ræktun og hef ég ekki rekist á hana í garðyrkjustöðvunum. Virkilega falleg og eftirsóknarverð tegund.

  Taxus – ýviður er ættkvísl sem er tiltölulega ný í ræktun. Dvergjapansýr (Taxus cuspitata var. nana), Ýviður Sommergold (T. Baccata) og Garðaýr Hillii (T. x  media) hafa allar reynst ljómandi vel. Hillii er með mjög fallega dökkgrænt barr og uppréttan vöxt en Sommergold skartar gulgrænu barri á nývexti sem verður síðan ljósgrænt þegar það eldist. Hann vex meira á breiddina en hæð.

  Það er komin lengri reynsla á ræktun einis (Juniperus). Íslenski einirinn er sjaldan ræktaður í görðum en til er ljómandi fallegt jarðlægt afbrigði af honum Repanda sem er vel þess virði að rækta. Það er grænna en himalayaeinirinn (J. squamata) sem er algengastur í ræktun og er oftast bláleitari. Mayeri er upprétt sort sem getur orðið nokkuð stór um sig. Blue Star og Blue Carpet eru báðar mjög bláleitar eins og nöfnin bera með sér, Blue Star verður lágvaxinn, hnöttóttur runni á meðan Blue Carpet breiðir úr sér eins og teppi. Holger er annað jarðlægt yrki en það skartar ljósgrænu barri á nývextinum sem er mjög fallegt. Fleiri einitegundir eins og t.d. kínaeinir eru líka í ræktun hér en eru heldur viðkvæmari en þær sem nefndar hafa verið.

  Sýprus – Chamaecyparis er heldur viðkvæmur og oftast ræktaður í pottum sem sumarplanta, en þó eru örfáar tegundir sem hafa staðið sig sæmilega vel. Má þar nefna alaskasýprusinn (C. nootkatensis) sem getur náð a.m.k. 1-2 m hæð á vel skýldum stöðum. Fagursýprus Stardust verður ekki hávaxinn, en hann hefur staðið sig sæmilega vel úti í garði hjá mér. Ég þurfti reyndar að skýla honum framanaf en hann er farinn að pluma sig ágætlega núna og þroskaði meira að segja köngla í sumar. Hann er fallega ljósgrænn. Sýprus þolir ekki þurrk og því hefur mér reynst best að rækta hann úti í beði. Sé hann ræktaður í pottum verður að passa að moldin haldist rök allan veturinn.

  Síðasta tegundin sem ég ætla að nefna er Vaxlífviður. Hann vex mjög hægt, er sæmilega skuggþolinn og eins og sýprusinn þolir hann ekki þurrk. Hann þrífst ljómandi vel á skjólgóðum stað.

  Þó flestar grenitegundir verði of stórvaxnar með tímanum fannst mér nauðsynlegt að hafa eitt grenitré í garðinum til að skreyta fyrir jólin. Blágreni varð fyrir valinu og með klippingu má halda aftur af vextinum í þónokkuð mörg ár. Það er fátt fallegra en ljósum skrýtt grenitré þakið snjó.

   Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

   

 • Vetrargræðlingar

  Val á móðurplöntum skiptir miklu máli þegar teknir eru græðlingar hvort sem það er gert að vetri eða sumri. Planta sem vex upp af græðlingi er erfðafræðilega eins og móðurplantan og kallast klónn. Algengast er að nýta ársprotann en hæglega má notast við tveggja eða þriggja ára greinar af víði og ösp. Heppileg lengd græðlinga er 15 til 20 sentímetrar en sverleikinn getur verið breytilegur eftir aldri greinanna. Varast skal að taka sprota sem eru grennri en 5 eða 6 millimetrar í þvermál.

  Best er að geyma græðlinga í kæla við 1º C. Þeir sem ekki hafa aðstöðu til þess geta geymt græðlingaefni óklippt í skugga og á svölum stað og gott er að hylja græðlingana með sandi eða mosa.

  Græðlingarnir sem geymdir eru lengi verða iðulega fyrir vökvatapi og því gott að setja þá í vatn sólarhring áður en þeim er stungið niður. Raðið græðlingunum lóðrétt í ílátið þannig að brumin vísi upp en ekki stinga þeim á kaf.

  Gott er að stinga upp ræktunarbeð að hausti og blanda safnhaugamold, sveppamassa eða húsdýraáburði í jarðveginn. Nauðsynlegt er að setja svart plast yfir beðið og fergja það með sandi eða möl og stinga græðlingunum í gegnum það. Plastið heldur jöfnum raka í beðinu, dregur til sín hita og heldur illgresi í skefjum.

  Hæfilegt bil milli víðigræðlinga í beði eru 10 til 12 sentímetrar og 15 til 20 sentímetrar milli raða. Græðlingunum er stungið niður og eitt til tvö brum látin standi upp úr.

  Hægt er að stinga græðlingunum beint í potta eða fjölpottabakka en þegar slíkt er gert er lengd þeirra minni, 10 til 12 sentímetrar. Skjól á ræktunarstað er nauðsynlegt þar sem vindur eykur uppgufun og vatnsþörf plantanna. Gott að raða pottunum þétt og hreykja jarðvegi að úthlið þeirra til að varna því að ystu pottarnir þorni.

  Græðlingunum er stungið niður þannig að 1/4 standa upp úr jarðveginum eða tvö til þrjú brum á víði og eitt brum á ösp. Gott er að strengja hvítt plast yfir pottana þar til græðlingarnir hafa rætt sig. Munið að lofta í heitu veðri. Ekki er æskilegt að láta græðlingana vera meira en eitt ár í pottum.

  Ef víðigræðlingunum er stungið niður á endanlegan vaxtarstað skal hafa 30 til 35 sentímetrar á milli þeirra en 50 sentímetrar milli grófgerðra tegunda í skjólbelti.

 • Yfirvetrun plantna

  Yfirvetrun plantna

  Plöntur beita margvíslegum leiðum til að lifa veturinn af. Einærar plöntur lifa af sem fræ. Séu aðstæður óhagstæðar geta fræ sumra tegunda legið í dvala í jarðveginum í nokkur ár en að jafnaði spíra fræin að vori, vaxa upp og blómstra og mynda fræ sem fellur að hausti. Tvíærar plöntur safna forða í rótina á fyrra ári og rótin lifir veturinn af. Á öðru ári blómstrar plantan og myndar fræ. Hringrásin heldur áfram. Margar tegundir fjölærra plantna og laukjurta beita svipaðri aðferð. Þær vaxa upp að vori, vaxa og dafna yfir sumarið, safna forðanæringu í rótina eða laukinn, sölna að hausti og lifa í dvala neðanjarðar yfir veturinn. Þar sem snjór liggur eins og teppi yfir jarðveginum eru plönturnar vel varðar fyrir umhleypingum og grasbítum sem byggja lífsafkomu sína á þeim yfir veturinn.

  Tré og runnar sölna ekki á haustin og þurfa því að beita öðrum ráðum til að lifa veturinn af. Sum tré eru sumargræn en önnur græn allt árið. Lauf sígrænna trjáa nefnist barr, er yfirleitt langt og mjótt og með vaxhúð sem dregur úr útgufun.

  Fyrir lauffall á haustin draga flest lauftré blaðgrænuna úr blöðunum og senda hana niður í rótina til geymslu, rétt eins og hagsýnir heimilishaldarar safna vetrarbirgðum í búrið sitt. Blaðgrænan er byggð upp af efnum sem trén eiga ekki greiðan aðgang að og þurfa að eyða mikilli orku í að framleiða. Eftir í blöðunum verða efni sem trén hafa minna fyrir að búa til. Efnin sem eftir verða eru gul eða rauð og eru ástæðan fyrir því haustlitur trjánna er yfirleitt í þeim litum.

  Haust

  Á haustin er að finna í brumi trjáplantna fullþroskaðan vísi að vexti næsta árs. Vaxtarvísirinn er vel geymdur í bruminu og það ver hann fyrir vetrarkuldanum. Frost að vori, eftir að brumið hefur opnað sig, getur skemmt vaxtarvísinn varanlega.
  Til þess að tré laufgist að vori þarf lofthiti að vera kominn upp fyrir ákveðið lágmark en í öðrum tilfellum þarf daglengd að hafa náð ákveðnum klukkustundafjölda. Langir hlýindakaflar á veturna geta því vakið ýmsar trjátegundir, einkum frá suðlægari slóðum þar sem vorar fyrr en á Íslandi, af dvala sínum og blekkt tré til að halda að það sé komið vor. Þegar slíkt gerist eru miklar líkur á frostskemmdum ef það kólnar hratt aftur. Lítil hætta er á þessu hjá plöntum sem koma frá svæðum sem eru á næstu eða sömu breiddargráðum og Ísland.

  Hægfara kólnun best

  Ólíkt dýrafrumum hafa frumur í plöntum svokallaðan frumuvegg sem liggur utan um frumuhimnuna. Veggurinn er stinnur, hann verndar frumuna og kemur að hluta til í staðinn fyrir stoðgrind. Í gegnum frumuvegginn síast vatn og næringarefni.
  Kólni hratt er hætt við að vökvinn í plöntufrumunni frjósi. Við það eykst rúmmál hans og hætta á að frumuveggurinn rifni en það leiðir til kalskemmda. Miklu máli skiptir að plöntur kólni það hægt á haustin að vatn nái að komast út úr frumunum í þeim takti sem eðlilegastur er fyrir hverja tegund. Dæmi er um að snögg kólnun niður í 10°C hafi drepið tré sem annars þola kuldann allt að níutíu frostgráðum. Stutt haust valda því að plönturnar ná ekki að mynda eðlilegt frostþol og eru því viðkvæmari en ella.

  Skjól fyrir vorsólinni

  Of mikil útgufun getur einnig verið hættuleg fyrir plönturnar. Á vorin, þegar sólin skín og jörð er frosin, ná plönturnar ekki að bæta sér upp þann vökva sem þær tapa við útgufun og því hætta á ofþornun. Hér á landi þekkist þetta best hjá sígrænum trjám þegar barrið verður brúnt á vorin.

  Jurtir á norðurslóðum

  Jurtir sem eiga náttúruleg heimkynni á norðurslóðum eða hátt til fjalla eru yfirleitt lágvaxnar og með öflugt rótarkerfi sem getur verið allt að þrisvar sinnum víðfeðmara en sá hluti jurtarinnar sem er ofanjarðar.
  Þar sem vaxtartími er stuttur mega plönturnar engan tíma missa og verða að hefja vöxt strax og veður leyfir. Langur sólargangur yfir sumarmánuðina lengir vaxtartímann verulega, enda nýta plönturnar hann til hins ýtrasta. Margar norðlægar tegundir mynda þúfur, eins og lambagras og geldingahnappur, og geta með því móti haldið hærri hita og nýtt sólarljósið betur.


  Ljóstillífun

  Sígræn tré hafa það fram yfir sumargræn að þau geta hafið ljóstillífun um leið og hiti er orðinn það mikill að þau vakna af dvala. Talið er að smávaxnar og sígrænar jurtir geti ljóstillífað undir snjó og lengt þannig vaxtartímann.
  Nokkrar tegundir trjáa, til dæmis aspir, geta notað blaðgrænu í berki, stofni og greinum til ljóstillífunar þegar aðstæður eru hagstæðar á veturna.


   

 • Haustlaukar

  Það er yndislegt þegar fyrstu vorblómin byrja að kíkja upp úr moldinni og gefa tilverunni lit eftir gráma vetrarins. Nú er rétti tíminn til að búa í haginn fyrir blómríkt vor og planta haustlaukunum.

  Það eru nokkur atriði sem er ágætt að hafa í huga þegar laukunum er valinn staður. Mér finnst það hafa reynst best að planta þeim í beð með fjölærum plöntum. Það þarf að vera ákveðið bil á milli fjölærra plantna til að þær hafi pláss til að njóta sín og þetta bil er kjörið að nýta undir haustlaukana. Þeir lífga upp á beðið þegar fáar fjölærar plöntur eru í blóma og þegar laufin fara að fölna hverfa þau inn í fjölæru brúskana eftir því sem þeir vaxa upp. Runnabeð eru ekki eins hentug þar sem runnarnir breiða úr sér og gætu því fjölærir laukar farið að vaxa upp úr greinaflækju eftir nokkur ár. Það eru helst lágvaxnir laukar eins og krókusar og vetrargosar sem myndu henta þar.

  Flestar laukplöntur kunna best við sig á sólríkum stað. Krókusar og túlipanar opna ekki blómin í skugga. Páskaliljur geta vel vaxið í nokkrum skugga en þrífast þó betur sólarmegin í lífinu. Það er líka mikilvægt að jarðvegurinn sé ekki of blautur og klesstur. Krókusunum er sérstaklega illa við að standa í mikilli bleytu, en vel framræstur, næringarríkur jarðvegur er bestur fyrir allar tegundir haustlauka.

  Krókusarnir eru með fyrstu vorblómunum til að byrja að blómstra og lífga óneitanlega upp á tilveruna þegar þeir opna blómin mót vorsólinni. 'Ruby Giant', er yndislega falleg tegund með nokkuð stórum, dökkfjólubláum blómum. 'Romance' er snotur gul sort. Krónublöðin eru ljósgul á ytraborði en dökkgul að innan sem er skemmtilega öðruvísi litasamsetning. Krókusar verða ekki mikið bleikari en 'Roseus'. Krónublöðin eru mjórri en á öðrum krókustegundum og blómin verða því stjörnulaga þegar þau opnast. Yndislega falleg tegund sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. 'Tricolor' er önnur dásamlega falleg tegund með fjólubláum blómum sem eru með gulum og hvítum blómbotni. Af stórblóma vorkrókussortum má nefna 'Pickwick' með skemmtilega röndóttum blómum og 'Jeanne D‘Arc' með hreinhvítum blómum. Algjör dásemd.

  Páskaliljur eða hátíðarliljur byrja að blómstra í lok apríl og standa í blóma mest allan maí mánuð. Úrvalið er mikið bæði í litum og blómgerð. Febrúarliljan er lágvaxin með smáum blómum og er fyrst af hátíðarliljunum til að blómstra. Af henni eru nokkrar fallegar sortir. 'Tete-a-tete' er seld sem pottaplanta fyrir páska, en þrífst vel úti í garði og er yfirleitt fyrsta hátíðarliljan til að byrja að blómstra. 'February Gold' líkist 'Tete-a-tete' en er öll heldur stórgerðari. 'Jetfire' er í sérstöku uppáhaldi, yndislega falleg, gul með appelsínugulri hjákrónu. 'Thalia' er álíka smávaxin og febrúarliljurnar en blómstrar í maí hreinhvítum blómum.

  Af stórblóma hátíðarliljum má nefna: 'Fortissima' sem er með risastór, gul blóm með appelsínugulri hjákrónu. Virkilega glæsileg. 'Corsage' er gul með appelsínugulri hjákrónu sem er kögruð eins og pífa. 'Orangery' er hvít með appelsínugulri, skiptri hjákrónu sem leggst flöt upp við krónublöðin.  Mjög flott. Af laxableikum sortum er 'Precocious' ein sú allra flottasta. Nokkrar flottar sortir með fylltum blómum eru 'Delnashaugh' og 'Tahiti''Double Campernelle' er með smáum, mikið ilmandi blómum í ótrúlega dökkgulum lit. Stórglæsileg, en ekki eins harðgerð og ofantaldar sortir og þarf sennilega bestu mögulegu skilyrði til að blómstra árlega.

  Túlipanar blómstra flestir í lok maí og fram í júní. Stórblóma túlipanarnir eru hver öðrum fallegri, í öllum regnbogans litum.Villitúlipanar minna ekki mikið á stóru kynbættu yrkin sem mest eru ræktuð en þeir eru virkilega fallegir í einfaldleika sínum. Margir hverjir eru harðgerðir og blómstra árum saman. Nokkrar góðar tegundir eru : sveiptúlipanidvergtúlipani og fjólutúlipani, en af honum eru til margar fallegar sortir m.a. 'Persian Pearl'.

  Að lokum vil ég nefna nokkrar tegundir smálauka sem flestir blómstra í maí og eru ómissandi í vorgarðinn: vorírisbalkansnotru, perluliljur t.d. 'Dark Eyes''Valerie Finnis', og M. latifoliumsíberíuliljupostulínslilju, og snæstjarna. Garðskógarlilja 'Pagoda' er yndisleg skógarbotnsplanta sem blómstrar í maí og þolir töluverðan skugga.

  Nú er um að gera að nýta haustblíðuna til að fara út í garð og pota niður laukum. Svo er bara að bíða veturinn af sér og hlakka til blómskrúðsins í vor.

  Rannveig Guðleifsdóttir
  Garðaflóra

 • Sveppir og sveppatínsla

  Villtir matsveppir

  Ef safna á sveppum til átu er mikilvægt að vanda valið og neyta aldrei sveppa sem ekki hafa verið greindir sem hæfir til neyslu. Þrátt fyrir að hér á landi vaxi fáir eitraðir sveppir er aldrei of varlega farið og óþarfi að fara út í tilraunastarfsemi. 

  Þrátt fyrir að tiltölulega fáar tegundir af eitruðum sveppum finnist hér á landi má þó nefna tegundir eins og berserk, slöttblekil, köngulsveppi, viðarkveif, garðlummu, trektlur og höddur.  Flestir þessir sveppir valda magaverkjum, uppköstum, niðurgangi og jafnvel ofskynjunum.  Með hlýnandi loftslagi og aukinni ræktun má búast við að fjölgi í fungu landsins og því full ástæða til að fara varlega þegar sveppir eru tíndir til neyslu.

  Helstu sveppategundirnar

  Til að greina sveppi er gott að hafa góða bók við höndina. Byrjendum er ráðlagt að læra að þekkja nokkrar algengar tegundir til að byrja með, t.d. kúalubbi, furusveppur og gorkúla, en láta aðra sveppi eiga sig í fyrstu. Smám saman eftir því sem þekkingin eykst er svo nýjum tegundum bætt við í söfnunarferðum.

  Villtir íslenskir matsveppir eru allir hattsveppir en lögun hattsins getur verið mismunandi til dæmis hvelfdur, flatur eða kúlulaga svo dæmi séu tekin. Ef er litið undir hatt ýmissa stórsveppa eru þar annað hvort fanir eða pípur og lítið mál er að þekkja þær í sundur. Undir hatti pípusveppa er röð lóðréttra pípa sem minna einna helst á svamp. Fansveppir hafa aftur á móti lóðrétt blöð eða fanir sem liggja undir hattinum.

  Allir nema einn pípusveppur, piparsveppur, sem hér hefur fundist eru ætir. Þeirra á meðal eru lerki- og furusveppir, kóngssveppurinn og kúalubbi.

  Sveppatímabilið

  Sveppir skjóta upp kollinum síðsumars í ágúst og fram eftir hausti í september og jafnvel fram í október ef vel viðrar.  Mest er um þá í skóglendi og hefur tegundum matsveppa fjölgað með aukinni skógrækt en þeir finnast einnig í mó- og graslendi.  Sumar tegundir vaxa í kringum ákveðnar trjátegundir eins og furusveppur og lerkisveppur en aðrar lifa í sambýli við margar tegundir eins og kóngssveppur og kúalubbi. Best er að tína sveppi 3 til 4 dögum eftir rigningu og í þurru veðri því annars eru þeir slepjulegir viðkomu. Þá er líka mest af þeim.Sveppir eru bestir á meðan þeir eru ungir og óskemmdir af áti snigla eða skordýra. Þegar sveppir eru tíndir skal taka neðst um stafinn og snúa honum varlega og losa þannig frá jarðveginum. Einnig má skera þá lausa með beittum hníf. Ekki er ráðlagt að kippa sveppum upp því þá er hætt við að ímurnar eða sveppþræðirnir skemmist. Ráðlegt er að tína sveppi í ílát sem loftar vel um t.d. körfu eða kassa en aldrei í plastpoka eða plastílát því þá rotna þeir.

  Hreinsun á sveppum

  Gott er að skera neðsta hlutann af stafnum burt og hreinsa skal allt lauf og óhreinindi af um leið og sveppirnir eru tíndir og er ráðlegt að fjarlægja allar skemmdir strax. Ef til stendur að þurrka sveppina er gott að skera þá í tvennt til að sjá hvort þeir eru maðkaðir. Möðkuðum sveppum verður að henda og er best að gera það á staðnum.  Þeir sem safna sveppum ættu að venja sig á að ganga vel um sveppamóinn og hvorki taka upp né sparka um koll sveppum sem ekki er ætlunin að safna. Sveppir eru nauðsynlegur hluti af hringrás náttúrunnar og enginn ástæða til að skemma þá að ástæðulausu.

  Geymsla á sveppum.

  Sveppir eru viðkvæmir og geymast illa og óráðlegt er að geyma ferska sveppi lengur en sólarhring eftir að þeir eru tíndir. Algengasta geymsluaðferðin er frysting eða þurrkun.
  Ef frysta á sveppina skal hreinsa þá vel og skera í bita. Hita skal bitana við vægum hita á pönnu og láta þá svo kólna. Að því loknu skal setja þá í ílát og í frysti.Við þurrkun er best að sneiða sveppina og dreifa þeim á grind eða grisju. Sveppirnir þurfa að vera orðnir skraufþurrir fyrir geymslu. Ef þeir eru harðir og stökkir eru þeir nógu þurrir, en ef þeir eru seigir verður að þurrka þá betur. Þurrkaða sveppi má setja beint út í súpur og pottrétti en ef á að steikja þá, þarf að láta þá liggja í bleyti í nokkrar klukkustundir fyrir matreiðslu.

  Vilmundur Hansen

 • Rótarskurður

  Flutningur trjáa

  Ef flytja á tré skiptir miklu að ræturnar séu meðhöndlaðar rétt og að skerðing á þeim sé með minnsta móti. Sé farið er eftir ströngustu reglum um flutning stórra trjáa á að hefja undirbúning að minnsta kosti ári áður en flutningurinn sjálfur fer fram. Í flestum tilfellum nægir að stinga upp góðan hnaus í kringum tré sem eru allt að tveggja metra há og flytja þau með honum.

  Gæta verður þess að sem minnst af jarðvegi hrynji af rótunum meðan á flutningi stendur svo að ræturnar skaðist ekki að óþörfu. Einnig þarf að passa vel að rótarhnausinn þorni ekki í flutningi. Ef flytja á tréð langa leið í opinni kerru eða á palli er nauðsynlegt að pakka því í striga svo að laufið vindþorni ekki á leiðinni. Rætur þola ekki beina sól og því mikilvægt að hlífa hnausnum við beinu sólskini. Ef ekki er hægt að gróðursetja trén strax verður að koma þeim fyrir í mold á skuggsælum stað og í skjóli.

  Nýja staðsetningin

  Til að auðvelda niðursetningu trésins á nýja staðnum er best að hafa holuna sem það fer í nokkuð rýmri en hnausinn. Það auðveldar alla vinnu og kemur í veg fyrir að þurfi að þvinga rótunum ofan í holuna, enda fer slíkt illa með ræturnar. Skoða skal rótarkerfið vel þegar tréð er sett niður og klippa burt brotnar og sárar rætur. Einnig er gott að klippa ræturnar þannig að þær séu svipaðar að lengd og passi þannig vel í holuna.

  Jarðvegurinn í kringum hnausinn verður að vera laus í sér eftir að tréð er komið niður til að auðveldar því að endurnýja ræturnar. Ekki má setja tré dýpra en það stóð áður.

  Stuðningur

  Til að tryggja að tré standi af sér veður og vinda eftir gróðursetningu og vaggi ekki til í holunni verður að veita því stuðning. Setja skal stoð eða stoðir við hliðina á trénu og binda það við hana. Hvort sem tré eru flutt að vori eða hausti verður að gæta þess að staga þau vel niður svo þau falli ekki um koll.

  Eftir að búið er að koma trénu fyrir í holunni og þjappa jarðveginum gætilega að hnausnum á að vökva vel og gæta þess að hnausinn þorni aldrei fyrstu vikurnar eftir gróðursetningu.

  Stór tré

  Þegar um stór tré er að ræða skal á fyrsta ári grafa holu og rótskera ræturnar hálfan hring umhverfis tréð. Stærð rótarhnaussins sem fylgir trénu fer að sjálfsögðu eftir stærð þess. Þumalfingursreglan segir að margfalda eigi þvermál stofnsins með 10 og rótskera í þeirri fjarlægð frá honum. Hafa verður í huga að tré með stórum rótarhnaus eru mjög þung og taka verður tillit til þess þegar tré eru rótarskorin. Ef um mjög stór tré er að ræða er óvinnandi vegur að flytja þau nema með öflugum vinnuvélum. Einnig getur verið gott að létta krónu trésins með því að grisja hana fyrir flutninginn.

  Eftir búið er að grafa 40 til 50 sentímetra djúpan hálfhring kringum tréð og klippa á ræturnar skal fylla holuna aftur með lausum jarðvegi og þjappa honum hæfilega að rótunum. Hafa skal rótarskurðinn sem allra hreinastan og gæta þess að brjóta ekki rætur að óþörfu. Hárræturnar, sem taka upp næringu og vatn úr jarðveginum, endurnýjast næst trénu þar sem skorið hefur verið á ræturnar og gerir því fært að jafna sig fyrr eftir flutninginn.

  Undirbúiningur hefst árir fyrir flutning

  Undirbúa skal jarðveginn á þeim stað sem tréð á að standa í framtíðinni ári áður en tréð er flutt. Stinga skal upp jarðveginn og blanda hann með lífrænum jarðvegi.
  Ári seinna er tréð rótarstungið hinum megin og undir ræturnar og hnausnum pakkað í striga eða jarðvegsdúk til að halda honum vel saman. Gæta þarf þess að losa aftur um dúkinn þegar tréð er komið á sinn stað.

  Vor eða haust

  Tré má flytja hvort sem er á vorin eða haustin. Séu tré flutt að vori ná þau að skjóta rótum á nýja staðnum yfir sumarið og festa sig fyrir veturinn. Í góðu árferði geta rætur trjáa vaxið frá því í apríl og fram í október og ættu því tré sem eru flutt snemma að geta fest sig í jarðveginum fyrir næsta vaxtarskeið. Sé tréð flutt að hausti og rætur að vaxa fram í október og festa sig. Síðan hafa ræturnar forskot um vorið ef þær hefja aftur vöxt í apríl.

 • Litríkar trjáplöntur

  Litríkar trjáplöntur

  Runnar og tré með litríku laufi setja mikinn svip á garðinn og margar hverjar eru sannkallaðar stássplöntur. Þar sem þær geta orðið ansi umfangsmiklar er enn mikilvægara að vanda vel staðsetningu og huga vel að litasamspili við tegundir í kring til þess að þær njóti sín sem best. Gott er að huga að blómlit þeirra plantna sem vaxa í kring, plöntur með hvítum og gulum blómum fara t.d. mjög vel með runnum með rauðleitu laufi. 

  Hér er listi yfir nokkrar fallegar tegundir, flokkaður eftir lauflit.

  Blágrænt eða grágrænt lauf:

  Rauðbrúnt – purpurarautt lauf:

  Hvítmynstrað lauf:

  Gulgrænt lauf:

  Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Bóndarósin

  Bóndarósin er blóm himinsins.   Í mínum huga minnir bóndarósin (Paeonia) mun frekar á fallega heimasætu í sveit, eilítið bústna og rjóða í kinnum, en íslenskan bónda þrátt fyrir að nafnið sé búsældarlegt. Nafnið bendir aftur á móti til þess að fyrstu bóndarósirnar í íslenskum görðum eigi uppruna sinn að rekja til Danmerkur þar sem plantan kallast bonderose. Sunnar í Evrópu eru bóndarósir aftur á móti kenndar við gríska lækninn Paion sem samkvæmt Ilíonskviðu Hómer á að hafa grætt sár Aresar, sem hann hlaut í Troju-stríðinu, með smyrslum sem unninn voru úr jurtinni. Elstu heimildir um Paion eru aftur á móti skráðar á leirtöflur sem fundust við fornleifauppgröft í Knossos á eyjunni Krít og benda til þess að jurtin hafi verið notuð til lækninga frá því á tímum Forn Grikkja. Kínverjar segja að bóndarósin sé blóm himinsins og hún er jafnframt þjóðarblóm Kína.

  Til skamms tíma tilheyrðu bóndarósir ætt sóleyja en í dag teljast þær til sérstakrar ættar sem nefnist Paeoniaceae eða bóndarósarætt. Innann ættkvíslarinnar Paeoniu eru svo um þrjátíu og fimm tegundir sem skiptast í jurtir og runna. Innan hverra tegundar er svo fjöldi yrkja sem áhugamenn um ræktum bóndarósa hafa búið til. 

  Flestar ef ekki allar bóndarósir bera stór blóm sem eru til í fjölbreytum litum. Hvít, gul, bleik, rauð og allt þar á milli. Lögun blóma er líka fjölbreytt og geta verið einföld upp í það að vera fyllt. Sumar bóndarósir auka enn á fegurð sína með því að gefa frá sé góðan ilm og voru krónublöð þeirra í eina tíð notuð til ilmvatnsgerðar. Bóndarósir eru fallegra sem afskorinn blóm í vasa.

  Sú bóndarós sem algengust er í görðum hér á landi kallast Paeonia officinalis á latínu og finnst villt við Miðjarðarhafið og á grísku eyjunum í Eyjahafinu. Tvær tegundir bóndarósa finnast villtar í Norður Ameríku en flestar eiga þó náttúruleg heimkynni í Mið Asíu og Kína. Ræktum bóndarósa á sér langa sögu í Kína og voru þær í miklum metum í görðum keisaranna, bæði sem augnayndi og sem lækningarjurtir og má finna heimildir um ræktun þeirra að minnsta kosti tvöþúsund ár aftur í tímann. Ræktunarafbrigðin skiptu hundruðum og mikil áhersla var lögð á fjölbreytni lita og í blómlögun. Kínverjar gáfu yrkjunum yfirleitt nöfn sem tengdust litnum en inn á milli mátti finna skondinn heiti eins og Drukkna hjákonan. Á Tang skeiðinu (618 til 906) naut bóndarósin sérstakrar verndar keisarans og jókst útbreiðsla hennar mikið. Plantan þykir enn í dag ómissandi til lyfjagerðar og talinn lækna flest mannamein.

  Bóndarósir skipta einnig veglegan sess í bókmenntum og listum í Kína. Ort eru ljóð um fegurð hennar og hún mikið notuð sem mótíf til skreytinga á postulín, í málverk, vefnað, útsaum og til útskurðar. Í borginni Lijang í Yunnan héraði gróðursetur fólk bóndarósir í garðinum sínum og býður til veislu og borðar úti undir skrúða blómstrandi bóndarósarunna sem geta náð allt að sex metra hæð. Elstu bóndarósarrunnarnir sem vitað er um í Kína eru farnir að nálgast fimmta hundraðið og stærsta blómið sem mælst hefur var tuttugu og átta sentímetrar í þvermál. 

  Fyrstu nytjar manna af bóndarós í Evrópu tengjast að öllum líkindum lækningum. Grikkir til forn nýtu alla hluta jurtina til lækninga og þótti hún jafngóð til að lækna geðveiki, tannpínu, gallsteina, slæmar draumfarir, getuleysi og losa konur undan barnsnauð. Fræ plöntunnar voru þrædd upp á band og börn látinn bera þau um hálsinn til að bægja burt hinu illa auga og vondum öndum. Öruggast þótti að safna jurtinni á nóttinni því sagt var að bóndarósin nyti verndar spætunnar og að nóg væri að spætan sæi til þegar henni var safnað til að gera lækningamátt plöntunnar að engu eða jafnvel hættulegan. Fyrstu runnabóndarósirnar bárust til Evrópu árið 1789 og var það Sir Josep Banks forstöðumaður Kew grasagarðsins í London sem fékk þær sendar frá Kína. Banks var mikill Íslandsvinur og ferðaðist um landið 1772. Lærlingur hans William Jackson Hooker, síðar forstöðumaður Kew-garðsins, var með í för þegar Jörgen Jörgensen síðar hundadagakonungur kom til Íslands. Sagan segir að Hooker hafi verið að safna plöntum á hæðinni þar sem Landakotskirkja stendur í dag á meðan Jörundur tók völd. Ekki er vitað með vissu hver var fyrstur til að flytja bóndarósina til Íslands en óneitanlega kemur Jón Rögnvaldsson stofnandi og fyrrum forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri sterklega til greina. Bóndarósir hafa verið lengi í ræktun á Akureyri og þrífast vel. Það er þó allt eins líklegt að einhver áhugasamur ræktandi hafi flutt fræ eða rótarhnúð með heim í töskunni í siglingu í kringum seinni heimstyrjöldina og að “íslenska” bóndarósin sé afkomandi hennar. Í dag eru um þrjátíu tegundir bóndarósa í rækt hér á landi og þar af nokkrar runnabóndarósir.

  Bóndarósir eru yfirleitt auðveldar í ræktun eftir að þær hafa komið sér fyrir. Plantan er langlíf og líður best ef hún fær að standa lengi óhreyfð á sama stað. Plönturnar geta orðið fyrirferðamiklar með tímanum og því best að ætla þeim gott pláss strax í upphafi. Þeim líður best í þurrum, djúpum, frjósömum og eilítið basískum jarðvegi. Jurtkenndar bóndarósir geta orðið 50 til 100 sentímetrar á hæð allt eftir tegund og er vöxtur þeirra kúlulaga. Vegna þunga blaða og blóma eiga plönturnar eiga það til að leggjast útaf fái þær ekki stuðning. Blómgun á sér yfirleitt stað í lok júní og fram í júlí en að henni lokinni skarta plantan fallegum blaðskrúð. Auðvelt er að fjölga bóndarós með skiptingu en einnig er hært að rækta nýjar plöntur af fræi.

  Fræ bóndarósarinnar hefur harða skurn og getur því verið lengi að spíra er gott að rispa fræið með hníf eða sandpappír fyrir sáningu og flýta þannig fyrir vatnsupptöku þess. Fræið þarf að fara í gegnu hita- og kuldaskeið áður en það tekur við sér og spírun tekur yfirleitt ár.

  Ef skipta á bóndarós skal grafa upp rótina í heilu lagi að haust, lok ágúst eða byrjun september, og kljúfa hana í nokkra hluta allt eftir stærð. Gætið þessa að það sé að minnsta kosti eitt brum á hverjum hluta. Bóndarósir hafa gildar forðarætur sem geta orðið mjög stórað og legið djúpt hafi plantan fengið að vaxa lengi á sama stað. Eftir að búið er að kljúfa rótina skal koma nýju hlutunum fyrir í vel unnum, frjóum og góðum jarðvegi sem blandaður hefur verið með búfjáráburði að minnsta kosti fjörutíu sentímetra niður. Þegar rótarbút af bóndarós er komið fyrir í jarðvegi verður að gæta þess að stinga honum ekki of djúpt í moldina. Fjórir til fimm sentímetrar undir yfirborðinu er passlegt, sé stungið dýpra er plantan lengur að koma upp og það dregur úr blómgun. Sé aftur á móti stungið grynnra getur rótin skemmst vegna vetrarkulda. Ræturnar alls ekki að standa í bleytu og fúna fljótlega við slíkar aðstæður. Bóndarósir skjóta fyrstu sprotunum upp snemma á vorin og því getur reynst nauðsynlegt að skýla þeim ef það kemur kuldakast. Einnig er nauðsynlegt að skýla viðkvæmustu tegundunum yfir veturinn að minnsta kosti á meðan þær eru litlar.

 • Sáð fyrir sumarblómum í mars - listi yfir fræ

  Þau sumarblóm sem sáð er fyrir í mars eru:

  • Bláhnoða Ageratum houstonianum, sáð í mars,spírará 10-14 dögum
  • Blákragafífill Brachycome iberidifolia, sáð í mars,apríl,spírar á 8-12 dögum
  • Skrautkál Brassica oleracea var.acephala, sáð í mars,spírar á 6-8 dögum
  • Morgunfrú (Gullfífill) Calendula officinalis, sáð í mars,apríl,spírar á 7-14 dögum
  • Garðakornblóm Centaurea cyanus, sáð í mars,apríl,spírar á 14-20 dögum
  • Brúðarstjarna Cosmos bipnnatus, sáð í mars,spírar á 8-14 dögum
  • Dalía Glitfífill Dahlia x hortensis, sáð í mars,apríl,spírar á 7-14 dögum (hnýðisplanta)
  • Hádegisblóm Dorotheanthus bellidiformis, sáð í mars,spírar á 14-20 dögum
  • Slönguhöfuð Echium plantagineum, sáð í mars,spírar á 12-14 dögum
  • Sólblóm Helianthus annuus, sáð í mars,spírar á 7-14 dögum
  • Eilífðarfífill (Eilífðargull) Helichrysum bracteatum, sáð í mars,apríl,spírar á 10-20 dögum
  • Sveipkragi Iberis umbellata, sáð í mars,apríl,spírar á 14 dögum
  • Aftanroðablóm Lavatera trimestris, sáð í mars,apríl,spírar á 7-14 dögum
  • Daggarbrá Leucanthemum paludosum, sáð í mars, pírar á 10-14 dögum
  • Fétoppur Limonium sinuatum, sáð í mars,apríl, spírar á 7-14 dögum
  • Þorskagin (Þorskamunnur)Linaria maroccana-blendingar, sáð í mars apríl,spírar á 10-14 dög.
  • Skrautnál Lobularia maritima var. maritima, sáð í mars,apríl,spírar á 8-14 dögum
  • Skógarmalva Malva sylvestris, sáð í mars,spírar á 10-14 dögum
  • Ilmskúfur Matthiola incana, sáð í mars,spírar á 7-14 dögum
  • Logatrúður (Apablóm) Mimulus cupreus, sáð í mars,spírar á 7-14 dögum
  • Tígurblóm Mimulus luteus, sáð í mars,spírar á 7-14 dögum
  • Fiðrildablóm Nemesia strumosa, sáð í mars,spírar á 14-20 dögum
  • Bláfiðrildablóm Nemesia versicolor, sáð í mars,spírar á 14-20 dögum
  • Skrautfrú Nigella damascena, sáð í mars,apríl,spírar á 14-20 dögum
  • Blábauga Nolana paradoxa, sáð í mars,spírar á 14-20 dögum
  • Sumarljómi Phlox drummondii, sáð í mars,spírar á 7-14 dögum
  • Álfabikar Salpiglossis sinuata, sáð í mars,apríl,spírar á 10-14 dögum
  • Paradísarblóm Schizanthus x wisetonensis, sáð í mars,apríl,spírar á 14-20 dögum
  • Klæðisblóm Tagetes erecta, sáð í mars, apríl, pírar á 7-14 dögum
  • Flauelsblóm Tagetes patula, sáð í mars,apríl,spírar á 7-14 dögum
  • Dúkablóm Tagetes tenuifolia, sáð í mars,apríl,spírar á 7-14 dögum
  • Rjúpurunni Tanacetum ptarmiciflorum, sáð í mars,apríl,spírar á 10-14 dögum
  • Skjaldflétta Tropaeolum majus, sáð í mars,apríl,spírar á 14-20 dögum
  • Garðajárnurt Verbena x hybrida, sáð í mars,spírar á 20-30 dögum

  Að sáningu lokinni

  Þegar sáningu er lokið þarf að úða vel yfir og setja merkipinna með plöntuheitinu og dagsetningu sáningar í bakkann. Látið síðan dagblað eða plastskerm yfir til að halda jöfnum hita.
  Ef vart verður við myglusveppi eftir sáningu stafar hann yfirleitt af ofvökvun. Eitt ráð til að fyrirbyggja myglusvepp er að strá örlitlu kaneldufti yfir sáninguna. Þetta hefur dugað furðu vel. Gætið þess vel að ofvökva aldrei. Meðalhófið er best í vökvunni sem öðru. Nú verður að nota biðlundina meðan beðið er eftir spíruninni og spennan vex með hverjum deginum.

  Með kveðju
  Magnús Jónasson
  Skrúðgarðyrkjufræðingur

 • Haustplöntur

  Nú er farið að hausta  og sumarblómin, sem við höfum dáðst að í allt sumar, byrjuð að fölna. Við höfum notið þess að horfa á fallegu blómin við heimkeyrsluna, á veröndinni, á svölunum, í hengipottum og hvar sem við höfum verið með eða séð þennan fegurðarauka. Við verðum því að bíða þolinmóð eftir næsta sumri.  En svo eru til margar plöntur  sem seldar eru á haustin og geta þá tekið við af sumarblómunum sem nú eru að enda sína lífdaga.  Það eru t.d.runnarnir:, Ilmsnepla  (Hebe odoria) sígræn,lágvaxin, fíngerð planta sem hentar vel í ker og potta, með öðrum plöntum, Berjamynta (Gaultheria procumbens) lágvaxin með sígrænum blöðum, rauðum berjum, falleg planta sem fer vel keri eða stórum pottum, Vorlyng (Erica carnea) lágvaxinn runni, með bleikum, rauðum og hvítum blómum, hentar vel í ker, potta og beð, Sólargull (Helichrysum italicum),hefur einnig verið kölluð Karrýplantan vegna ilmsins, er með silfruðum blöðum og er skemmtileg í ker og potta, þessi planta er gömul lækningajurt, Silfurþráður, öðru nafni Vírkambur (Calocephalus browii) með lítil grá blöð, vex í hálfgerðri flækju og því er erfitt að finna byrjun á legg og enda plöntunnar. Hún er lágvaxin en fín í ker og potta. Allar þessar plöntur sem ég hef talið upp hér að framan, þurfa skjól og geta þá bjargað sér en þola ekki mikið frost og eru því sjaldan langlífar hér á okkar landi.      

  Sem betur fer eru margir með sígrænan gróður sem gleður augað allt árið og hjálpar okkur að þreyja veturinn  eins og t.d. Einir (Juniperus) og mörg fleiri afbrigði af honum sem lifa góðu lífi hér á landi og standa sig vel í beðum eða kerjum.   Síprusar (Champaecyparis) eru virkilega glæsilegt vetrarskraut bæði í beð, ker og potta, en sum afbrigðin gætu þurft skjól. 

  Beitilyng (Calluna vulgaris) blómstrar rauðum, bleikum eða hvítum blómum á haustin og er til í mörgum litaafbrigðum. Hvítt beitilyng er sagt veita gæfu. Blöðin verða rauðbrún á veturna. Nafnið beitilyng vísar til þess að plantan þótti góð til beitar. Allt frá fornöld voru blóm beitilyngs notuð til að bragðbæta öl og beitilyngshunang þykir mikið lostæti. Í eina tíð voru vendir beitilyngs bundnir saman og búnir til úr þeim kyndlar eða sópar. Beitilyngsvendir geta líka staðið árum saman sem stofuskraut án þess að tapa lit. Þar sem mikið óx af beitilyngi þótti gott að hafa það undir undirsængunum í rúmfletum fyrri á tíð. Þarf reglulega vökvun eigi það að lifa fram eftir hausti.

  Allar þessar plöntur lífga upp á umhverfið og hjálpa okkur að komast í gegnum vetrardrungann og skammdegið, hvort sem þær eru við útidyr, á veröndinni, svölunum eða hvar sem þær eru sjáanlegar.

  Notið frjóan jarðveg og grófan vikur eða leirkúlur í botninn á kerjunum og ef kerin eru frá árinu áður, þarf að þrífa þau vel.  Plönturnar ættu að festa rætur á skömmum tíma og ef  vindurinn mæðir mikið á þeim getur verið nauðsynlegt að útbúa eitthvert skjól svo þær nái að festa ræturnar sínar og þrífast vel.

  Nokkur sumarblóm geta með góðu móti lifað fram að áramótum og standa sig vel þó nokkrar frostanætur komi af og til og ef þær eru í sæmilegu skjóli. Það eru t.d. Silfurkambur  

  (Senecio cineraria) með sín fallegu silfruðu blöð og Skrautkál (Brassica oleracea var. acephala) með sinn skrautlega blaðlit.  
  Njótið haustdaganna með fallegum plöntum.

  Með sígrænni kveðju
  Magnús Jónasson
  Skrúðgarðyrkjufræðingur

 • Sumargræðlingar - kennslumyndband

  Hér má sjá kennslumyndband hvernig sumargræðlingar útbúnir.

   

 • Sumarblóm - kynningarmyndband

  Hér má sjá kynninarmyndband á sumarblómum með Vilmundi Hansen

   

 • Sáning sumarblóma

  Sáning sumarblóma

  Sáning sumarblóma er eitt af vorverkunum.  Reikna má með 4-8 vikum þar til hægt er að planta út á vaxtarstað. Þó eru til nokkrar harðgerar, fljótvaxnar tegundir, sem hægt er að sá beint út á vaxtarstað í maí, ef aðstæður leyfa. Aftan á fræpökkunum eru upplýsingar um það ef meðhöndla þarf fræið sérstaklega.

  Þegar sáð er í bakka eða potta er handhægast að nota sáðmold, þar sem hún hefur rétta samsetningu og á að vera laus við sjúkdóma og meindýr.  Athugið að þvo vel uppúr heitu vatni öll áhöld og potta sem nota skal fyrir sáningu, sérstaklega ef þau hafa verið notuð áður,  góður undirbúningur borgar sig til að fá upp heilbrigðar plöntur.

  Sáðmold

  Algengasta aðferðin er að hella 6-7 cm þykku lagi af sáðmold í bakka og þjappa síðan létt yfir svo að yfirborðið sé slétt.  Moldin er vökvuð þannig að hún verði vel rök, en ekki blaut.  Fræinu er stráð yfir og síðan hulið með léttri moldinni.  Þumarfingursregla er að moldarlagið sé tvisvar sinnum þykkara en fræið sjálft.  Mjög fíngerð fræ eins og brúðarauga, tóbakshorn og ljónsmunna eru þó ekki hulin. 

  Sáðtöflur

  Annar möguleiki er að nota sáðtöflur, sem eru samanþjöppuð svarðmold eða kókosmold. Þær þrútna út í vatni og mynda nokkurs konar moldarpott með neti utan um. Byrja þarf á að láta sáðtöfluna drekka í sig vatn áður en fræið er sett í moldarpottinn. Ræturnar vaxa gegnum netið og má síðan setja pottinn beint í stærri pott með gróðurmold þegar þar að kemur.

  Munið að merkja bakkann vel með nafni plöntunnar, tegund blóma og lit og athugið að halda moldinni mátulega rakri meðan á spírun stendur. Fræ sem eiga að spíra í birtu er sett laust plast yfir,  en yfir þau fræ sem eiga að spíra í myrkri er sett laust plast og dagblöð. 

  Flest fræ spíra best á hlýjum stað (góður spírunarhiti er 18-20°C), en athugið að fylgjast vel með spíruninni og fjarlægið plast og dagblöð um leið og þið sjáið spírur koma út úr fræjum því þá þurfa plönturnar að fá sem mesta birtu og loft.  Athugið að jafnvægi þarf að vera á milli birtu og hita.  Ef birtan er of lítil miðað við hita verður plantan teygð og veikluleg.

  Gróðursetning

  Þegar kímplönturnar fara að skipta blöðum er rétt að dreifplanta.  Þá eru plönturnar gróðursettar í góða gróðurmold í potta eða bakka. Best er að gróðursetja þær þannig að kímblöðin séu sem næst moldinni.  Hæfilegt vaxtarrými fyrst er 6x6 cm fyrir flestar plöntur.  Góð birta er nauðsynleg og athugið að flestar plöntur verða fallegastar ef þær eru ræktaðar við fremur lágt hitastig.  

  Passið að gleyma ekki að vökva en athugið að fara mjög varlega í áburðargjöf ef þið notið tilbúna gróðurmold, því hún á að innihalda öll næringarefni í réttum hlutföllum.  Hætta er á skemmdum á viðkvæmum ungplöntum, ef þær fá of mikið af áburði.

  Ef allt hefur gengið vel má síðan planta í beð um mánaðarmótin maí-júni eftir því sem veður leyfir en athugið að gott er að herða plönturnar áður, t.d. með því að setja bakkana eða pottana út á daginn og inn aftur á kvöldin í nokkra daga svo vöxturinn haldi eðlilegum hraða.

 • Lífrænar varnir - ráð gegn ýmsum sjúkdómum og meindýrum.

  Lífrænar varnir

  Gott ráð gegn meindýrum og sjúkdómum er að planta ákveðnum plöntum á milli.  Mörg meindýr treysta  á þefskynið og lyktsterkar plöntur eins og hvítlaukur og mynta villa um fyrir þeim. Þá er einnnig hægt að velja plöntur sem draga til sín vissa skaðvalda eins og t.d. Skjaldfléttu sem dregur að sér blaðlýs og svo flauelsblóm sem dregur að sveifflugur sem nærast á blaðlúsum.   

  Grænsápa og brennisteinsduft

  Grænsápa og brennisteinsduft er efni sem innihalda pýretín. Pýretín er efni sem finnst í náttúrunni og er hættulaust í notkun.  En til þess að efnin nýtist þurfa þau að snerta skaðvaldinn og oft þarf að endurtaka  meðferð nokkrum sinnum.

  Gildrur

  Gildrur má nota til að veiða meindýr eins og snigla, svo sem bjórdósir.  Einnig er gott ráð að setja fjalir eða  tóma greipaldinhelminga milli plantnanna, sniglarnir skríða undir á daginn og þá er auðvelt að taka þá upp og fjarlæga.  Auk þess má búa til seyði úr sniglum og vatni, og vökva því yfir plönturnar. 

  Gulir límborðar

  Gulir límborðar og spjöld eru góð í gróðurhúsum, Lús og hvítfluga laðast að gula litnum og festast í líminu. 

  Matarsódi

  Matarsódi leystur upp í vatn  nýtist sem vörn gegn sveppagróðri. Best er að úða með daufri blöndu á moldina um leið og sáð er.

  Fljótandi þangáburður

  Fljótandi þangáburður getur bæði verið styrkjandi fyrir plöntur og hægt að nota  sem vörn gegn sveppum.  Úða má með blöndu gegn spunamaur og blaðlús.  

  Jurtaseyði

  Jurtaseyði úr hinum ýmsu plöntum hafa einnig ýmis forvarnargildi svo sem klóelfting eða vallhumall gegn blaðsveppi. Brenninetluseyði (einnig er til brenninetluduft) nýtist gegn kálflugu. Seyði úr rababarablöðum, regnfang og stórnetlu vinnur á skordýraplágum og koma jafnvel í veg fyrir þær.

  Forvarnir

  Veljið hraustar plöntur, þær eru líklegri til að þola ágang sjúkdóma og meindýra.

  Veljið staðsetningu eftir þörfum plantnanna. Mikilvægt er að velja saman í beð plöntur með líkar þarfir varðandi vökvun og áburðargjöf.

  Skiptiræktun

  Skiptiræktun minnkar líkurnar á að sjúkdómar safnist fyrir í jarðveginum. Hún er fólgin í að færa einærar plöntur á milli staða árlega. Þannig nýtast einnig þau mismunadi næringarefni sem eru í jarðveginum. Þetta á við um matjurtir, sumarblóm, lauk- og hnúðjurtir.

   

 • Skjól fyrir vetri

  Skjól fyrir vetri

  Flestar plöntur sem ræktaðar eru í görðum eru fullkomlega færar um að sjá um sig sjálfar yfir vetrarmánuðina og því óþarfi að hafa mikið fyrir vetrarskýlingu. Ef plönturnar eru aftur á móti viðkvæmar fyrir kulda eða vorsól eru nokkrar einfaldar reglur sem garðeigendur ættu að venja sig á að fara eftir þegar líða fer á haustið og þegar sólin fer að hækka á lofti á vorin. Gott er að skýla ungum trjáplöntum, hvort sem er lauf- eða barrtrjám, með striga fyrir verstu vindáttinni og einnig getur verið gott að setja sæmilega stóran stein við ungplöntuna til að koma í veg fyrir frostlyftingu og rótarslit.

  Skjól fyrir vorsólinni

  Mörg sígræn tré og runnar eru viðkvæm fyrir vorsólinni og því nauðsynlegt að skýla þeim sem standa á berangri. Það kemur í veg fyrir of mikla útgufun og sólbruna á vorin sem leiðir til þess að barrið ofþornar og verður brúnt á litinn. Almennt er garðeigendum þó ráðlagt að velja frekar harðgerðar tegundir á erfiða staði og bíða með viðkvæmari tré og runna þar til skjólið fyrir þá er orðið nægilega mikið.

  Hreinsun beða að vori

  Sölnuð blöð veita plöntum skjól yfir vetrarmánuðina og þess vegna á alls ekki að hreinsa þau burt fyrr en að vori. Þeir sem vilja geta aftur á móti rakað mesta laufið úr grasflötinni og í stað þess að setja það í safnhauginn er gott að hlúa að viðkvæmum fjölæringum eða rósum með því að hrauka upp að þeim með laufinu sem fallið hefur af trjánum. Laufið veitir plöntunum skjól og heldur hita í jarðvegi, sem er gott vegna þess að rætur eru viðkvæmar fyrir örum hitabreytingum í moldinni.

  Allar viðkvæmustu plönturnar þarf aftur á móti að taka inn og skýla þannig fyrir Vetri konungi.

Sjá fleiri spurningar & svör