Ræktun kryddjurta

Kryddjurtir

Fátt er skemmtilegra en líflegar kryddjurtir í eldhúsglugganum sem gefa góðan ilm í húsið og einstakt bragð í matargerðina. Kryddjurtir má rækta allt árið um kring innanhúss, en flestir hefja ræktun í febrúar/mars þegar sól tekur að hækka á lofti. Góðar upplýsingar um sáningartíma og aðferðir er yfirleitt að finna aftan á fræpakkningum.

Sáning og spírun

Gott er að nota sáðbakka og sáðmold eða sáðmoldarpillur og færa síðan spírurnar yfir í potta með venjulegri pottamold. Hægt er að sá beint í endanlega potta og nota venjulega pottamold en þá er mælt með þunnu lagi af sáðmold ofaná, sérílagi fyrir stærri fræ. Gott er að setja dagblaðsörk yfir pottinn eða sáðbakkann til að viðhalda raka og hita.

Fjöldi fræja

Fjöldi fræja fer eftir stærð fræja og stærð potta. Þumalputtaregla fyrir 12 cm pott er að nota 3-5 fræ í hvern pott (t.d. kóriander sem hefur stór fræ) en ef fræin eru mjög lítil þá 10-15 fræ í hvern pott (timian, oregano ofl. lítil fræ). Fræ sem eru mjög lítil er best að láta liggja ofaná moldinni.

Umpottun

Þegar spírur taka að myndast er dagblaðsörkin tekin af og plönturnar settar í endanleg ílát, ef við á. Dreifið úr spírunum og þjappið moldinni varlega að.

Staðsetning

Mælt er með að velja fremur sólríkan stað t.d. gluggasyllu. Birta við ræktunina er mikilvæg og kryddjurtir þurfa sólríkan stað. Varast skal þó beina sól meðan spírur eru litlar því þær geta brunnið. Örfáar tegundir s.s. mynta og karsi þrífast í norðurglugga.

Vökvun og áburðargjöf

Vökvun er mikilvæg sérílagi á spírunartímabilinu. Magnið getur farið eftir raka í loftinu, sólarstundum ofl og breytist þ.a.l. eftir árstíðum. Gott er að kanna reglulega rakastigið í moldinni t.d. með því að stinga fingri aðeins ofaní moldina. Betra er að vökva vel og sjaldnar en oft og lítið en á sólríkum dögum þarf að vökva oftar. Áburðargjöf er nauðsynleg þegar plantan er í fullum vexti, og er t.d. þörungaáburður í vöxvaformi góður kostur.

Hitastig

Venjulegur stofuhiti er ákjósanlegur fyrir nánast allar kryddjurtir. Varist of mikinn hita þegar spírurnar eru litlar því þá geta stilkarnir orðið þunnir og ræfilslegir. Vandamál með hitastig innanhúss skapast einkum á veturna nálægt miðstöðvarofnum sem eru hátt stilltir. Ef miðstöðvarofn er undir kryddhillunni er mælt með að botninn á kryddpottunum liggi ekki beint í bleytu. Þá má setja bakka með leirkúlum eða vikri undir pottana.

Varnir innanhúss

Ef vart verður við lús eða hvítflugu má nota skordýrasápu (t.d. frá Safer´s). Hvítflugan dregst að skærum hlutum svo flugnaspjöld í skærum litum geta komið að góðum notum. Einnig er ýmiss konar laukur tilvalinn til að fæla meindýr frá. Hægt er að skera laukinn niður og stinga honum innan um kryddplönturnar eða rækta t.d. graslauk í potti innanum hitt kryddið.

Uppskera

Athuga þarf að ganga ekki of nærri plöntunni þ.e. ekki taka of mikið magn í einu en einnig er gott að hvíla hana á milli t.d. með því að hafa sömu tegundina í tveimur pottum og hvíla þær til skiptis. Mælt er með að klippa framanaf greinum til að viðhalda runnavexti en með örfáar tegundir (t.d. steinselju, graslauk) er betra taka elstu blöðin fyrst.

Plöntur fluttar inn að hausti

Síðsumars er hægt að flytja plönturnar aftur inn (lok ágúst áður en hætta er á næturfrosti). Ef plönturnar hafa verið í beði og eru orðnar stórar er hægt að skipta þeim upp í nokkra potta en ekki er gott troða rótum í of litla potta. Á þennan hátt er hægt er að njóta kryddjurtanna frameftir vetri.