Vetrarskýling gróðurs

Þegar við höfum haft alla fallegu haustlitina fyrir augunum eru oft mikil viðbrigði þegar fyrsta lægðin kemur með miklum hvelli, rigningu, jafnvel snjókomu og ofsaroki.  Þá fýkur allt sem fokið getur.  Sumir hafa verið svo forsjálir að taka alla lausamuni inn þ.e.s. borðið, sólstólana, grillið, trampólínið o.fl. sem hefur veitt ánægju um sumarið. Við búum við þannig veðurlag að nauðsynlegt er að fjarlægja hlutina eða festa örugglega það sem verður að vera úti.

Að gróðrinum þarf líka að hyggja á haustin.  Flestar fjölærar plöntur þurfa ekki sérstaka skýlingu, en ef þær eru í pottum eða kerjum má flytja þær í skjól, en muna samt að vökva þær reglulega svo þær ofþorni ekki.  Viðkvæmustu plöntunum verður þó að skýla  fyrir veðri og vindum.  Sem betur fer eru kjarkaðir einstaklingar, ræktendur og framleiðendur alltaf að   prófa sig áfram með nýjar tegundir.  Það er sjálfsagt að skýla þeim vel yfir vetrartímann meðan ekki er vitað nákvæmlega hvernig þær þola veðráttuna hér. Það er hægt að gera með laufum sem fallið hafa af trjám, trjákurli, smáum greinum, hálmi eða jafnvel með því hvolfa potti eða einhverju álíka yfir meðan plönturnar eru litlar.

Sígrænn gróður þarf aðhlynningu fyrir veturinn. Hann heldur laufblöðum og nálum allt árið og þess vegna er alltaf einhver starfsemi í þessum græna gróðri  þó hún sé í algjöru lágmarki á veturna. Mesta hættan á skemmdum er þegar jörðin er gaddfreðin og plantan nær ekki að taka upp vatn. Sólin getur skinið skær og heit, þó frost sé og þá er plöntunum hætt við þurrkskemmdum. Skemmdirnar lýsa sér þannig að nálar og laufblöð verða brúnleit og detta af.  Þar sem fyrstu árin eru plöntunum erfiðust er nauðsynlegt að skýla þeim meðan vel meðan rótarkerfið og plantan öll er að þroskast.  Þetta á við um plöntur eins og t.d. greni og furu.  
Besta aðferðin við að skýla sígrænum trjám og runnum er að reka niður 3.-4. staura kringum plöntuna og  strengja striga utaná, allan hringinn.  Gott að festa strigann á staurana með heftibyssu.  Striginn skyggir, loftar, hleypir vatni að og kælir plöntuna niður þegar sólin er sterkust.  Allar lyngrósir eru sígrænar og þeim þarf að skýla. Gott að setja laufblöð kurl eða mold að stofni.  Þetta sama á við um allar ágræddar rósir. Snjór er ein besta vörnin fyrir trjáplöntur og runna en getur þó orðið svo mikill að greinar brotni undan þunganum. Eina leiðin til að fyrirbyggja það er að hrista snjóinn af og létta þannig á snjóþyngdinni.   Ræktandi þarf að muna að vorin eru hættulegasti tími fyrir sígrænar plöntur.  Þegar mikil útgufun er og sólin skín þá er mesta hættan á að sígrænu plönturnar geti orðið brúnar eða gular, nema gerðar séu ráðstafanir til að skýla þeim. Skýlinguna er svo hægt að fjarlægja í maí eða þegar öll hætta á næturfrosti er liðin hjá.

Með vetrarhlýrri kveðju
Magnús Jónasson
Skrúðgarðyrkjufræðingur.