Mosi í grasflöt

Mjög algengt er að mosi plági grasflatir hér á landi. Það sem helst virkar gegn mosanum eru birta og rétt næring, en mosi þolir illa sólarljós og þrífst ekki vel í sendnum eða kalkríkum jarðvegi. Því getur verið nauðsynlegt að slá mjög reglulega yfir sumarið til að hleypa birtunni niður að rótum, raka upp mosann og vera duglegur að bera kalk á flötina. Gott er að bera grasfræ í bletti sem geta myndast þegar mosinn er rakaður upp, sem og bera köfnunarefnisríkan áburð, s.s. graskorn, sem eykur vöxtinn. Þá má heldur ekki gleyma að vökva flötina, en ef hún þornar um of verður grasið gult og hart viðkomu og þar af leiðandi veikara sem auðveldar mosanum leið aftur upp. Einnig er hægt að fá mosaeyði til aðstoðar í baráttuna gegn mosanum. Til lengri tíma eru það umhirðan og þolinmæðin sem vinna best á mosanum.