Sumarverkin í garðinum

Garðurinn stendur í blóma og búið að planta flestu því sem planta þarf. Búið að hreinsa til og snyrta eftir veturinn. Garðhúsgögnin komin út. Nú er tíminn til að njóta garðsins. Það er þó engin ástæða til að kvíða verkefnaskorti. Fyrir þá sem njóta þess að vinna í garðinum þegar vel viðrar og hafa tímann til þess er alltaf hægt að finna sér eitthvað til dundurs.

Grasflötina þarf að slá reglulega. Ég slæ hana oft svo ég þurfi ekki að raka grasið. Ég er með létta, handknúna slátturvél sem dugar mér vel. Auðvelt að kippa henni út, ekkert vesen með bensín, ekkert vesen að koma henni í gang, engar snúrur og létt að ýta henni. Það er kannski korters trimm að trilla henni yfir grasflötina. Létt trimm.

Kantarnir eru ekki alveg eins fljót afgreiddir. En það er svo sem ekkert sem segir að þeir þurfi alltaf að vera stífklipptir og skornir. Ég læt mér nægja að snyrta þá einu sinni til tvisvar yfir sumarið.

Svo eru það fjölæru plönturnar. Margar hverjar hafa náð þeirri hæð að þær þurfi á stuðningi að halda til að brotna ekki í næsta roki eða leggjast út af. Það er því góður tími núna til að huga að því. Það eru til ýmsar gerðir af plöntustoðum og kannski engin ein betri en önnur. Ég hef þó mest notað bambusprik og bast til að binda þær plöntur upp sem þurfa á því að halda og hefur það reynst ágætlega. Sem betur fer þarf þó ekki að standa í því að binda allar fjölærar plöntur upp, sumar standa keikar alveg hjálparlaust og lágvaxnar plöntur þurfa að sjálfsögðu engan stuðning.

Það er líka gott að klippa burt blómstöngla þegar blómgun er lokið nema ætlunin sé að safna fræi. Þá er jafnvel nóg að skilja bara nokkra stöngla eftir og klippa restina burt. Þetta er sérstaklega mikilvægt með tegundir sem hafa mikla tilhneigingu til að sá sér, en almennt séð verða plönturnar líka snyrtilegri ef blómstönglarnir eru klipptir burt. Þó eru til plöntur sem eru fallegar eftir að blómgun líkur og ástæða til að leyfa þeim að halda sér. Þetta á t.d. við um kasmírsalvíu.

Ekki var hægt að stóla á rigninguna í júni til að vökva garðinn og þá þarf að draga fram garðslönguna og vökva. Það getur jafnvel þurft að vökva þó það rigni því oft dugði þessi litla rigning sem kom þó í júní varla til að rétt væta í yfirborði moldarinnar. Hvort notaðir eru úðarar eða handvökvað er smekksatriði.

Svo er það illgresið. Bölvað illgresið myndu margir segja. Það eru ýmsar leiðir færar í baráttunni við það. Það er hægt að hylja beð með dagblöðum og kurli, möl, þekjuplöntum o.s.frv. Það er hægt að eitra fyrir því. Þar sem mér er illa við að eitra garðinn minn læt ég mér nægja að reyta það burt. Mestu skiptir að fjarlægja það áður en það þroskar fræ, þá nær það aldrei að verða vandamál.

Þessi vel þekktu sumarverk eru kannski ekki í uppáhaldi hjá öllum, en það er undir hverjum og einum komið hversu vel snyrtur garðurinn er og því þurfa þau ekki að vera nein kvöð. Svo er bara fátt dásamlegra en að gleyma sér i garðinum á fögru sumarkvöldi. Það endurnærir sálina.