Sáning sumarblóma

Sáning sumarblóma er eitt af vorverkunum. Reikna má með 4-8 vikum þar til hægt er að planta út á vaxtarstað. Þó eru til nokkrar harðgerar, fljótvaxnar tegundir, sem hægt er að sá beint út á vaxtarstað í maí, ef aðstæður leyfa. Aftan á fræpökkunum eru upplýsingar ef meðhöndla þarf fræið sérstaklega.

Notkun sáðmoldar

Ef sáð er í bakka eða potta er handhægast að nota til þess gerða sáðmold, þar sem hún hefur rétta samsetningu og á að vera laus við sjúkdóma og meindýr. Athugið að þvo vel úr heitu vatni öll áhöld og potta sem nota skal fyrir sáningu, sérstaklega ef þau hafa verið notuð áður, það borgar sig að eyða eðeins meiri tíma til að fá upp heilbrigðar plöntur.

Sáðtöflur

Annar möguleiki er að nota sáðtöflurnar, sem eru samanþjöppuð svarðmold eða kókosmold, sem þrútnar út í vatni og myndar nokkurs konar moldarpott með neti utan um. Byrja þarf á að láta sáðtöfluna drekka í sig vatn áður en fræið er sett í moldarpottinn. Ræturnar vaxa gegnum netið og má síðan setja pottinn beint í stærri pott með gróðurmold þegar þar að kemur.

Annars er algengasta aðferðin að hella 6-7 cm þykku lagi af sáðmold í bakka og þjappa síðan létt yfir þannig að yfirborðið sé slétt. Moldin er vökvuð þannig að hún verði vel rök, en ekki blaut. Fræinu stráð yfir og síðan hulið með léttri moldinni. Þumarfingursregla er að moldarlagið sé tvisvar sinnum þykkara en fræið sjálft. Mjög fingert fræ eins og brúðarauga, tóbakshorn og ljónsmunna er ekki hulið.

Merkingar

Munið að merkja bakkann vel með nafni plöntunnar, tegund blóma og lit og athugið að halda moldinni mátulega rakri meðan á spírun stendur. Þau fræ sem eiga að spíra í birtu er sett laust plast sett ofaná, en þau fræ sem eiga að spíra í myrkri er sett laust plast og dagblöð ofaná.

Birta og hiti

Flest fræ spíra best á hlýjum stað (góður spírunarhiti er 18-20°C). en athugið að fylgjast vel með spíruninni og fjarlægið plast og dagblöða af um leið og þið sjáið spírur koma út úr fræjum því þá þurfa plönturnar að fá sem mesta birtu og loft. Athugið að jafnvægi þarf að vera á milli birtu og hita. Ef birtan er of lítil miðað við hita verður plantan teygð og veikluleg.

Gróðursetning

Þegar kímplönturnar fara að skipta blöðum er rétt að dreifplanta. Þá eru plönturnar gróðursettar í góða gróðurmold í potta eða bakka. Best er að gróðursetja þær þannig að kímblöðin sér sem næst moldinni. Hæfilegt vaxtarrými fyrst er 6x6 cm fyrir flestar plöntur. Góð birta er nauðsynleg og athugið að flestar plöntur verða fallegastar ef þær eru ræktaðar við fremur lágt hitastig.

Passið að gleyma ekki að vökva en athugið að fara mjög varlega í áburðargjöf ef þið notið tilbúna gróðurmold því hún á að innihalda öll næringarefni í réttum hlutföllum. Hætta er á skemmdum á viðkvæmum ungplöntum, ef þær fá of mikið af áburði.

Ef allt hefur gengið vel má síðan planta í beð um mánaðarmótin maí-júni eftir því sem veður leyfir en athugið að gott er að herða plönturnar áður, t.d. með því að setja bakkana eða pottanan út á daginn og inn aftur á kvöldin í nokkra daga svo vöxturinn haldi eðlilegum hraða.