Nokkur kartöfluyrki

Íslendingar byrjuðu að rækta Kartöflur Solanum tuberosum fyrir c.a. 255 árum.  Birni Halldórssyni prófasti í Sauðlauksdal við Patreksfjörð er oft eignaður heiðurinn af fyrstu kartöflurækt hér á landi.  Það mun þó ekki vera með öllu rétt því sænski baróninn Frederich  Wihelm Hastfer var aðeins á undan Birni og setti niður kartöflur á Bessastöðum vorið 1758.  Björn pantaði kartöflur frá Danmörku sama ár og setti þær niður 1759.  Svíinn Hastfer kom að fleiru hér en kartöfluinnflutningi því hann flutti inn 10 kynbótahrúta sem talið er að hafi borið með sér fjárkláða og við þekkjum afleiðingarnar af þeim vágesti.

Nú þegar þetta er skrifað eru flestir búnir að setja útsæði til spírunar en það tekur  4.-6.vikur fyrir kartöflurnar að spíra við 10-15°C. Kartöflur eru yfirleitt settar niður í byrjun maí.  

Helstu yrkin eru:

Gullauga

Gullauga en þær kartöflur eru hnöttóttar, stundum aflangar, nokkuð breytilegar að lögun, með gulhvítt hýði en gular að innan. Blómin ljósrauðfjólublá. Þetta eru bragðgóðar, þurrefnisríkar. Kartöflur.  Þessi tegund er næm fyrir myglu og stöngulsýki og er í meðallagi snemmvaxin.

Rauðar íslenskar

Rauðar íslenskar eru hnöttóttar, ögn flatvaxnar með mörgum djúpum augum. Hýðislitur er rauður eða bleikrauður, hvítur eða fölgulur oftast með rauðum hring. Þær þurfa langan vaxtartíma og eru bragðgóðar og mjöllitlar. Þær eru næmar fyrir myglu.

Helga

Helga er yrki sem er upprunnið frá Unnarsholti í Hrunamannahreppi, Árnessýslu. Þáverandi húsfreyja þar, Helga Filippusdóttir taldi sig hafa fundið gras með nokkrum smá kartöflum í garði sínum, en þar höfðu verið Gullauga og Eyvindur. Hún fór að rækta þessar kartöflur sérstaklega og þá kom í ljós að þær voru stökkbreytt afbrigði af þessum tveimur áðurnefndu yrkjum.  Nýju kartöflurnar fengu  nafnið Helga.  Þessar kartöflur eru hnöttóttar, stundum dálítið aflangar. Hýðislitur er rauðbleikur en augu eins og á Gullauga. Að innan eru þær gular. Þær eru heldur fljótvaxnari en Gullaugað og eru mjög þurrefnaríkar, mjög góðar matarkartöflur. Þeim er hætt við stöngulsýki.

Premier Kartöflur

Premier Kartöflur eru aflangar, dálítið flatar, hýðislitur er ljósgulur en að innan eru þær gular eða fölgular. Premier kartaflan er frekar stór, fljótvaxta og mjöllítil. Hún er mjög góð bökunarkartafla.


Kartöflukveðja
Magnús Jónasson
Skrúðgarðyrkjufræðingur