Karfan er tóm
Nú er farið að hausta og sumarblómin, sem við höfum dáðst að í allt sumar, byrjuð að fölna. Við höfum notið þess að horfa á fallegu blómin við heimkeyrsluna, á veröndinni, á svölunum, í hengipottum og hvar sem við höfum verið með eða séð þennan fegurðarauka. Við verðum því að bíða þolinmóð eftir næsta sumri. En svo eru til margar plöntur sem seldar eru á haustin og geta þá tekið við af sumarblómunum sem nú eru að enda sína lífdaga. Það eru t.d.runnarnir:, Ilmsnepla (Hebe odoria) sígræn,lágvaxin, fíngerð planta sem hentar vel í ker og potta, með öðrum plöntum, Berjamynta (Gaultheria procumbens) lágvaxin með sígrænum blöðum, rauðum berjum, falleg planta sem fer vel keri eða stórum pottum, Vorlyng (Erica carnea) lágvaxinn runni, með bleikum, rauðum og hvítum blómum, hentar vel í ker, potta og beð, Sólargull (Helichrysum italicum),hefur einnig verið kölluð Karrýplantan vegna ilmsins, er með silfruðum blöðum og er skemmtileg í ker og potta, þessi planta er gömul lækningajurt, Silfurþráður, öðru nafni Vírkambur (Calocephalus browii) með lítil grá blöð, vex í hálfgerðri flækju og því er erfitt að finna byrjun á legg og enda plöntunnar. Hún er lágvaxin en fín í ker og potta. Allar þessar plöntur sem ég hef talið upp hér að framan, þurfa skjól og geta þá bjargað sér en þola ekki mikið frost og eru því sjaldan langlífar hér á okkar landi.
Sem betur fer eru margir með sígrænan gróður sem gleður augað allt árið og hjálpar okkur að þreyja veturinn eins og t.d. Einir (Juniperus) og mörg fleiri afbrigði af honum sem lifa góðu lífi hér á landi og standa sig vel í beðum eða kerjum. Síprusar (Champaecyparis) eru virkilega glæsilegt vetrarskraut bæði í beð, ker og potta, en sum afbrigðin gætu þurft skjól.
Beitilyng (Calluna vulgaris) blómstrar rauðum, bleikum eða hvítum blómum á haustin og er til í mörgum litaafbrigðum. Hvítt beitilyng er sagt veita gæfu. Blöðin verða rauðbrún á veturna. Nafnið beitilyng vísar til þess að plantan þótti góð til beitar. Allt frá fornöld voru blóm beitilyngs notuð til að bragðbæta öl og beitilyngshunang þykir mikið lostæti. Í eina tíð voru vendir beitilyngs bundnir saman og búnir til úr þeim kyndlar eða sópar. Beitilyngsvendir geta líka staðið árum saman sem stofuskraut án þess að tapa lit. Þar sem mikið óx af beitilyngi þótti gott að hafa það undir undirsængunum í rúmfletum fyrri á tíð. Þarf reglulega vökvun eigi það að lifa fram eftir hausti.
Allar þessar plöntur lífga upp á umhverfið og hjálpa okkur að komast í gegnum vetrardrungann og skammdegið, hvort sem þær eru við útidyr, á veröndinni, svölunum eða hvar sem þær eru sjáanlegar.
Notið frjóan jarðveg og grófan vikur eða leirkúlur í botninn á kerjunum og ef kerin eru frá árinu áður, þarf að þrífa þau vel. Plönturnar ættu að festa rætur á skömmum tíma og ef vindurinn mæðir mikið á þeim getur verið nauðsynlegt að útbúa eitthvert skjól svo þær nái að festa ræturnar sínar og þrífast vel.
Nokkur sumarblóm geta með góðu móti lifað fram að áramótum og standa sig vel þó nokkrar frostanætur komi af og til og ef þær eru í sæmilegu skjóli. Það eru t.d. Silfurkambur
(Senecio cineraria) með sín fallegu silfruðu blöð og Skrautkál (Brassica oleracea var. acephala) með sinn skrautlega blaðlit.
Njótið haustdaganna með fallegum plöntum.
Skiptiborð: 540 3300
verslun@gardheimar.is
Opið 10-20 virka daga og 11-19 um helgar.
STIHL verslun opin frá kl 8.00-16.00 alla virka daga