Matjurtir

Það fyrsta sem við þurfum að hafa í huga þegar við förum út í grænmetisræktun er að velja skjólgóðan og bjartan stað. Gott ef staðurinn snúi í suður. Þar þarf að vera vel framræst og góð jarðvegsdýpt en það er c.a. 30-40 c.m. Þegar þetta er til staðar eru vaxtar möguleikar töluvert góðar fyrir grænmetisplönturnar.  Ef jarðvegurinn er frjósamur getur verið nóg að bæta í hann safnhaugsmold, moltu og jafnvel húsdýraáburði. 

Plöntur þarfnast margra næringarefna eins og t.d.

  • Niturs eða köfnunarefnis (N)
  • Fosfórs (P) og
  • Kalíums (K), ásamt snefilefna.

Ef notaður er tilbúinn áburður er hæfilegt að láta 10 kg. t.d. af Blákorni á hverja 100 fermetra beðs. Það getur þurft að gefa aukaskammt af nituráburði fyrir tegundir eins og hvítkál, rauðkál, blómkál, spergilkál og kínakál. Það er gert svona mánuði eftir útplöntun. Varðandi áburð þurfum við að hafa í huga að nitur í réttu magni hefur áhrif á blaðvöxt, eflir stöngul og styrkir plöntuna, kalíum hefur áhrif á blómgun, aldinmyndun og frostþol. Fosfór eykur rótarvöxt  og þar af leiðandi þarf aukaskammt af þeim áburði fyrir rótargrænmeti eins og t.d. gulrætur, gulrófur og hreðkur(radísur). Þegar áburðinum hefur verið dreift er jarðvegurinn stunginn upp eða tættur.  Þegar losað hefur verið vel um moldina er gott að strengja snúru til að marka fyrir c.a. 1.m. breiðu  beði og 30 c.m. gangstíg. Mokið moldinni úr gangstígnum upp í beðið, þannig hækkið þið beðið um 20-30 c.m. Þá verður frárennslið betra og jarðvegurinn verður ekki vatnssósa og súrefnislaus.  Það má líka setja timburkarm utanum beðin, það heldur garðinum snyrtilegum og auðveldar að mörgu leiti baráttuna við illgresi og meindýr.

Val á fræi er skiptir miklu máli. Bestu yrkin eru F1 svokallaðar afkvæmakynslóðir. En þar hafa foreldrar verið valdir sérstaklega.  Slík fræ eru yfirleitt í dýrari kantinum en af þeim vaxa kröftugri plöntur sem gefa meiri uppskeru.  Matjurtum getum við skipt í tvo hópa, það er þeim sem við sáum fyrir beint út í beð og hinum sem þarf að forrækta.  Það grænmeti sem við sáum fyrir er  t.d. gulrætur (Daucus carota sativus), hreðkur (radísur)(Raphanus sativus), næpur (Brassica rapa ssp. rapifera), spínat (Spinacia oleracea) og sinnepskál (Brassica juncea).  Fyrir þessu grænmeti er sáð eins fljótt og unnt er, það er að segja þegar allt frost er farið úr jörðu og jarðvegur farinn að hlýna. Þegar búið er að stinga upp jarðveginn er nauðsynlegt að akríldúk yfir, því það eykur hita jarðvegsins.

Ef  á að forrækta  plöntur tekur það 5-8 vikur við góðar ástæður. Á spírunartíma þarf hitinn að vera 18-20°C en þegar fræin hafa spírað á að minnka hitann niður í 10-15°C,  þá fáum við þéttar og góðar plöntur. Þær plöntur sem eru forræktaðar eru rauðkál (Brassica oleracea var. capitata rubra), hvítkál (Brassica oleracea var. capitata alba), blómkál (Brassica oleracea var. botrytis), kínakál (Brassica rapa ssp.pekinensis), gulrófur (Brassica napus var. napobrassica), höfuðkál (Brassica oleracea var, capitata), rósakál (Brassica oleracea var. gemmifera), sprotakál (Brassica oleracea var. italica), spergilkál (Brassica oleracea var. italica), beðja (Beta vulgaris subsp. vulgaris), stilksellerí (Apium graveolens var. dulce), salat (Lactuca sativa), og grænkál (Brassica oleracea var. sabellica). Athugið að sprotakáli og salati má líka sá beint á beð. Grænkáli má líka sá beint á beð þegar um lágvaxin yrki er að ræða.  Þegar plönturnar hafa spírað og við sjáum fyrstu kímblöðin er kominn tími til að dreifsetja. Viku síðar gefum við veika áburðarlausn (fljótandi). Svo þegar plönturnar hafa náð 10-12 c.m. hæð á að láta þær í herslu út í reit með gleri eða plasti yfir. Yfirleitt er þeim plantað í beð fyrstu vikuna í júní ef allt frost er farið úr jörðu. Munið að setja akríldúk yfir plönturnar. Allt grænmeti af krossblómaætt þarf að vera með vel yfirbreiddan akríldúk frá miðum júní, fram í miðjan júlí vegna kálflugunnar. Kálflugan sækir á allar káltegundir og gulrófur, næpur, hreðkur (radísur) og einnig á skrautplöntur af krossblómaætt. Hún verpir á stilka plantanna, lirfurnar klekjast út og verða að kálmöðkum sem gera mikinn usla. Annað leiðinda kvikindi er snigillinn.  Hann ræðst á blöð og gerir ljót göt á þau. Snigillinn er mjúkt slímugt lindýr, er aðallega á ferli um nætur og í votviðri.   Skiptiræktun getur verið nauðsynleg t.d. annað hvert ár en þá er tegundum víxlað milli reita. Þetta er gert til að koma í veg fyrir smitefni og meindýr.

Sumum tegundum af áður nefndum plöntum er hægt að sá og vera með margar uppskerur yfir sumarið því það tekur þær svo stuttan tíma að þroskast. Margar tegundirnar þola sæmilega haustfrostin og enn betur ef breiddur er yfir þær akríldúkur. Þá getum við fengið uppskeru langt fram á vetur.