Lífrænar varnir

Ráð gegn ýmsum sjúkdómum og meindýrum

Varnir

Gott ráð gegn meindýrum og sjúkdómum er að planta ákveðnum plöntum á milli. Mörg meindýr treysta á þefskynið og lyktsterkar plöntur eins og hvítlaukur og mynta villa um fyrir þeim. Þá er einnnig hægt að velja plöntur sem draga til sín vissa skaðvalda eins og t.d. Skjaldfléttu sem dregur að sér blaðlýs og svo flauelsblóm sem dregur að sveifflugur sem nærast á blaðlúsum.

Grænsápa og brennisteinsduft er efni sem innihalda pýretín. Pýretín er efni sem finnst í náttúrunni og er hættulaust í notkun. En til þess að efnin nýtist þurfa þau að snerta skaðvaldinn og oft þarf að endurtaka meðferð nokkrum sinnum.

Gildrur má nota til að veiða meindýr eins og snigla, svo sem bjórdósir. Einnig er gott ráð að setja fjalir eða tóma greipaldinhelminga milli plantnanna, sniglarnir skríða undir á daginn og þá er auðvelt að taka þá upp og fjarlæga. Auk þess má búa til seyði úr sniglum og vatni, og vökva því yfir plönturnar.

Gulir límborðar og spjöld eru góð í gróðurhúsum, Lús og hvítfluga laðast að gula litnum og festast í líminu.

Matarsódi leystur upp í vatn nýtist sem vörn gegn sveppagróðri. Best er að úða með daufri blöndu á moldina um leið og sáð er.

Fljótandi þangáburður getur bæði verið styrkjandi fyrir plöntur og hægt að nota sem vörn gegn sveppum. Úða má með blöndu gegn spunamaur og blaðlús.

Jurtaseyði úr hinum ýmsu plöntum hafa einnig ýmis forvarnargildi svo sem klóelfting eða vallhumall gegn blaðsveppi. Brenninetluseyði (einnig er til brenninetluduft) nýtist gegn kálflugu. Seyði úr rababarablöðum, regnfang og stórnetlu vinnur á skordýraplágum og koma jafnvel í veg fyrir þær.

Forvarnir

Veljið hraustar plöntur, þær eru líklegri til að þola ágang sjúkdóma og meindýra.

Veljið staðsetningu eftir þörfum plantnanna. Mikilvægt er að velja saman í beð plöntur með líkar þarfir varðandi vökvun og áburðargjöf.

Skiptiræktun minnkar líkurnar á að sjúkdómar safnist fyrir í jarðveginum. Hún er fólgin í að færa einærar plöntur á milli staða árlega. Þannig nýtast einnig þau mismunadi næringarefni sem eru í jarðveginum. Þetta á við um matjurtir, sumarblóm, lauk- og hnúðjurtir.