Laufskrúð

Þegar við veljum plöntur í garðinn er það oft blómgunin sem ræður valinu. Blómlitur, lögun, ilmur og blómgunartími eru þættir sem vega þar þungt. Oft spáum við lítið í hvernig laufið er þó blaðfagrar plöntur séu til mikillar prýði allt sumarið, ekki aðeins þegar þær standa í blóma. Sumar plöntur eru jafnvel eingöngu ræktaðar vegna laufskrúðsins.

Það er ekki síður fjölbreytileiki í gerð laufblaða en blóma. Laufblöð geta verið gljáandi eða mött, hvítloðin, slétt eða krumpuð, fíngerð eða grófgerð. Litaúrvalið einskorðast ekki bara við fagurgrænt. Litaskalinn er frá gulgrænu yfir í blágrænt og þar að auki getur lauf verið grátt, í ýmsum rauðum litbrigðum, fjólublátt, jafnvel næstum svart. Og það þarf ekki endilega að vera einlitt, það getur verið mynstrað, með hvítum, gulum eða rauðum rákum eða dröfnum. Fjölbreytileikinn er ótrúlega mikill og virkilega gaman að leika sér með að raða saman mismunandi laufformum og litum.

Hér á eftir fara nokkur dæmi um fjölærar tegundir með litfagurt lauf, flokkaðar eftir lauflit:

Blágrænt: Ýmsar brúskur t.d. blábrúska, glitlauf 'Blue Haze', blárúgur, álfamunnur, ýmsar nellikutegundir t.d. fjaðradrottning.

Rauðbrúnt – purpurarautt: Dvergavör 'Atropurpurea', bronslauf, sætumjólk 'Chamaeleon', ástarlogi 'Molten Lava'.

Hvítmynstrað: Ýmsar brúskutegundir t.d. 'Night Before Christmas', forlagabrúska 'Albopicta', dílatvítönn, gulltvítönn 'Herman's Pride', hnúðhafri 'Variegatum', garðskriðnablóm 'Variegata', nýrnajurt

Rauðmynstrað: Alpamítur

Grátt: Rottueyra

Gulgrænt: Forlagabrúska 'Gold Standard', háliðagras 'Aureovariegata'.