Kryddplöntusáning í mars

Í mars, þegar sól fer að hækka á lofti er tímabært að huga að sáningu kryddjurta. Það sem við sáum í mars þarf ekki neina sérstaka lýsingu. Kryddfræ eru 7-20 daga að spíra, allt eftir tegundum. Það sem til þarf við sáninguna er góð sáðmold, sótthreinsaðir bakkar eða pottar, dagblöð til að setja yfir sáninguna. Gott að setja plasthjálma yfir bakkana til að halda jöfnum hita og raka meðan á spírun stendur. Takið yfirbreiðslur af um leið og fræin byrja að spíra. Þegar fyrstu kímblöðin sjást er kominn tími til að dreifplanta. Viku eftir dreifplöntun er óhætt að gefa veika áburðarblöndu. Þegar plönturnar hafa náð 10-12 cm hæð er kominn tími til að herða þær.

Plöntur sem upplagt er að sá í mars eru:

  • Ambramalurt Artemisia abrotanum fjölær, sáð í mars-apríl
  • Anísjurt Pimpinella anisum einær, sáð í mars-apríl
  • Dill (Sólselja) Anethum graveolens einær, sáð í mars-apríl
  • Fáfnisgras (Franskt-estragon) Artemisia dracunculus) fjölær, sáð í mars-apríl
  • Fenníka (Sígóð) Foeniculum vulgare fjölær, sáð í mars-maí
  • Garðablóðberg (Timjan) Thymus vulgaris fjölær, sáð í mars-apríl
  • Hjólkróna Borago officinalis einær, sáð í mars-apríl
  • Hrokkinmynta Mentha spicata fjölær, sáð í mars-apríl
  • Hulduljós Stachys officinalis fjölær, sáð í mars
  • Indíánakrans (Bergkrans) Monarda didyma fjölær, sáð í mars
  • Ísópur Hyssopus officinalis fjölær, sáð í mars-apríl
  • Kattarmynta Nepeta cataria fjölær, sáð ímars-apríl
  • Kjarrmynta (Origan) (Bergmynta) Origanum vulgare fjölær, sáð í mars-apríl
  • Kóríander Coriandrum sativum einær, sáð í mars-apríl
  • Lofnarblóm (Lavendill) Lavandula angustifolía fjölær, sáð í mars-apríl
  • Lyfjasalvía Salvia officinalis fjölær, sáð í mars-apríl
  • Majoran (Kryddmæra) Origanum majorana fjölær, sáð í mars-apríl
  • Maríubrá Chrysanthemum majus (C.balsamita) fjölær, sáð í mars-apríl
  • Morgunfrú Calendula officinalis einær, sáð í mars-apríl
  • Piparmynta Mentha x piperita fjölær, sáð í mars-apríl
  • Rúðajurt Ruta graveolens fjölær, sáð í mars
  • Sítrónumelissa (Hjartafró) Melissa officinalis fjölær, sáð í mars-apríl
  • Steinselja Petroselinum crispum tvíær, sáð í mars-apríl

Sumar plönturnar sem eru taldar hér upp eru fjölærar en eingöngu ræktaðar hér á landi sem einærar. Það er raunar hægt að taka þær inn vel fyrir haustið og hafa þær í gluggakistu. Þannig er hægt að nýta þær áfram. Það er svo skemmtilegt með kryddplöntur að þær eru fínar hvar sem er, fallegar í ker, potta og jafnvel innan um fjölæru blómin í garðinum. Svo ef einhver vill vera stórtækur í ræktuninni er ekkert mál að útbúa sérstakan kryddgarð bæði til skrauts og nytja því kryddplöntur eru virkilega fallegar og regluleg garðaprýði.
Njótið kryddjurtanna og munið að hægt er að nota þær ferskar, þurrkaðar og jafnvel frystar eða að setja þær í edik og olíu.