Jarðarberjaræktun

Jarðarber hafa verið ræktuð með góðum árangri á Íslandi í áratugi, en jarðarber eru mjög einföld í ræktun og nægjusöm og því á allra færi að. Jarðarber er hægt að rækta á ýmsa vegu s.s. í pottum, kerjum, hengikörfum, gróðurreitum, inni í gróðurhúsi eða úti í beði.

Það sem mestu skiptir er að þau séu á sæmilega skjólgóðum stað og fái góða sól og vökvun. Þá eru jarðaberjaplöntur sérstaklega viðkvæmar fyrir því að þorna fyrstu vikurnar eftir að þær eru settar niður og svo aftur þegar berin eru að myndast. Athuga þarf að passa sérlega vel uppá vökvunina séu plönturnar hafðar í kerjum eða grunnum jarðvegi.

Algengt er að jarðarberjaplöntur byrji að gefa af sér um miðjan júlí, en því hlýrra sem loftið er, því fyrr koma berin. Þar af leiðandi er nokkuð vinsælt að reyna að flýta fyrir uppskerunni með því að breiða t.d. akrýldúk yfir. Hann heldur hita að plöntunum en hleypir samt vatninu í gegn. Hann hjálpar einnig til við að forða berjunum frá ágangi fugla. Þó getur verið gott að lyfta dúknum yfir hlýjasta hluta dagsins meðan á blómgun stendur til að leyfa flugunum að vinna sitt verk.

Svart plast, jarðvegsdúkur eða jafnvel trjákurl geta líka verið gagnleg hjálpartól, sérstaklega þegar ræktað er í skipulögðum röðum. Það gegnir því hlutverki að halda hita að rótum, raka í jarðvegi og sniglunum frá og er þá dúkur sniðinn (eða kurli dreift) í kringum hverja plöntu fyrir sig.

Jarðarberjaplöntur geta fjölgað sér mjög hratt. Það gera þær með því að skjóta renglum út frá sér ofanjarðar og myndast nýjar plöntur við enda þeirra. Algengt er að þetta gerist tvisvar á sumri. Plönturnar skjóta svo rótum þar sem þær lenda. Því þarf að fjarlægja renglurnar vilji maður ekki að plönturnar dreifi sér út um allt. Hægt að stýra fjölguninni með því að klippa plönturnar af renglunum og færa á góðan stað. Bestu plönturnar eru yfirleitt taldar vera þær sem vaxa af stystu renglunum. Þegar plönturnar eru orðnar 4-5 ára fara jarðaberin yfirleitt að minnka. Er þá tímabært að fjarlægja þær plöntur og leyfa nýjum að taka við.

Jarðarber gera ekki miklar kröfur til jarðvegs, en kjósa helst súran jarðveg (þola illa kalk). Gott er að blanda smá lífrænum áburði við moldina áður en plönturnar eru settar niður. Þó þarf að varast að gefa ekki of mikið, sérstaklega af köfnunarefni, þannig að plönturnar eyði ekki allri orkunni í blaðvöxt. Þá getur verið gott að gefa kalíríkan áburð þegar nálgast blómgun, en það ætti að hjálpa plöntunni að einbeita sér að berjamynduninni.

Plöntur sem settar eru niður að vori byrja yfirleitt ekki að gefa af sér fyrr en ári síðar. Sé ætlunin að setja niður nokkrar plöntur og láta þær fjölga sér er algengt að taki um 3 ár að koma sér upp myndarlegri ræktun.

Hér má sjá jarðarberjaplöntur sem til eru hjá okkur