Ígulrós

Ígulrósir eru hópur harðgerðra runnarósa sem setja mikinn svip á umhverfið þessa dagana og er Hansarósin þar fremst í flokki. En 'Hansa' er ekki eina ígulrósayrkið sem er þess virði að rækta, þeirra á meðal er mikill fjöldi úrvals garðplantna.

Ígulrós (R. rugosa) vex villt í austur-Asíu, m.a. í Japan. Hún barst til Evrópu um aldamótin 1800, en notkun hennar í kynblöndun hófst ekki fyrr en seint á 19. öld. Á árunum 1890 – 1915 komu fram nokkur yrki og var ‘Hansa’ ein af þeim. Svo varð lítil framþróun í kynbótum ígulrósa þar til kanadísku Explorer rósirnar komu á markað upp úr 1970.

Ígulrósir eru margar síblómstrandi eða lotublómstrandi, þó nokkrar blómstri bara einu sinni. Þær byrja flestar að blómstra í júlí og standa margar í blóma fram á haust. Þær eru allar með nokkuð stór blóm, einföld eða fyllt, oft mikið ilmandi og flestar mjög harðgerðar. Þær gera litlar kröfur um jarðvegsgæði og þola vel rýran jarðveg.

Nokkur yrki sem óhætt er að mæla með:

'Agnes' (1900) – ein fallegasta gula runnarósin sem völ er á. Með fyrstu ígulrósum til að blómstra í byrjun júlí. Einblómstrandi.

'Hansa' (1902) – þessa þarf varla að kynna fyrir neinum, enda mikið ræktuð bæði í görðum sem og opnum svæðum.

'F.J.Grootendorst' (1918) – ein af fjórum svokölluðu „nellikurósum“. Blómin eru smá, með tenntum krónublöðum sem minna á nellikublóm. Þarf gott skjól, kelur nokkuð mikið.

'Wasagaming' (1938) – oft first til að blómstra í byrjun júlí, ilmandi bleikum blómum. Nokkurs nafnaruglings hefur gætt með þessa rós og hafa önnur yrki verið seld hér undir þessu nafni um árabil.

'Louise Bugnet' (1960) – hvít fyllt blóm með rauðum bryddingum. Lotublómstrandi. Yndislega falleg.

Polareis' (1963) – fölbleik, ilmandi blóm. Lotublómstrand

'Jens Munk' (1974) – bleik, hálffyllt mikið ilmandi blóm. Kanadísk explorer rós.

'Henry Hudson' (1976) – hvít blóm, síblómstrandi. Kanadísk explorer rós.

'Schneekoppe' (1984) – fölbleik blóm með lillabláum blæ. Lotublómstrandi, stendur nánast samfellt í blóma í júlí og ágúst. Gróskumikil og virkilega flott rós.

'Hansaland' (1993) – rauð, fyllt blóm. Í viðkvæmari kantinum, þarf gott skjól en þrífst annars vel.

Fjöldi fleiri yrkja er í ræktun hér og þrífast þau öll vel.