Haustlaukar

Það er yndislegt þegar fyrstu vorblómin byrja að kíkja upp úr moldinni og gefa tilverunni lit eftir gráma vetrarins. Haustið er rétti tíminn til að búa í haginn fyrir blómríkt vor og planta haustlaukunum.

Það eru nokkur atriði sem er ágætt að hafa í huga þegar laukunum er valinn staður. Mér finnst það hafa reynst best að planta þeim í beð með fjölærum plöntum. Það þarf að vera ákveðið bil á milli fjölærra plantna til að þær hafi pláss til að njóta sín og þetta bil er kjörið að nýta undir haustlaukana. Þeir lífga upp á beðið þegar fáar fjölærar plöntur eru í blóma og þegar laufin fara að fölna hverfa þau inn í fjölæru brúskana eftir því sem þeir vaxa upp. Runnabeð eru ekki eins hentug þar sem runnarnir breiða úr sér og gætu því fjölærir laukar farið að vaxa upp úr greinaflækju eftir nokkur ár. Það eru helst lágvaxnir laukar eins og krókusar og vetrargosar sem myndu henta þar.

Flestar laukplöntur kunna best við sig á sólríkum stað. Krókusar og túlipanar opna ekki blómin í skugga. Páskaliljur geta vel vaxið í nokkrum skugga en þrífast þó betur sólarmegin í lífinu. Það er líka mikilvægt að jarðvegurinn sé ekki of blautur og klesstur. Krókusunum er sérstaklega illa við að standa í mikilli bleytu, en vel framræstur, næringarríkur jarðvegur er bestur fyrir allar tegundir haustlauka.

Krókusarnir eru með fyrstu vorblómunum til að byrja að blómstra og lífga óneitanlega upp á tilveruna þegar þeir opna blómin mót vorsólinni. 'Ruby Giant', er yndislega falleg tegund með nokkuð stórum, dökkfjólubláum blómum. 'Romance' er snotur gul sort. Krónublöðin eru ljósgul á ytraborði en dökkgul að innan sem er skemmtilega öðruvísi litasamsetning. Krókusar verða ekki mikið bleikari en 'Roseus'. Krónublöðin eru mjórri en á öðrum krókustegundum og blómin verða því stjörnulaga þegar þau opnast. Yndislega falleg tegund sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. 'Tricolor' er önnur dásamlega falleg tegund með fjólubláum blómum sem eru með gulum og hvítum blómbotni. Af stórblóma vorkrókussortum má nefna 'Pickwick' með skemmtilega röndóttum blómum og 'Jeanne D‘Arc' með hreinhvítum blómum. Algjör dásemd.

Páskaliljur eða hátíðarliljur byrja að blómstra í lok apríl og standa í blóma mest allan maí mánuð. Úrvalið er mikið bæði í litum og blómgerð. Febrúarliljan er lágvaxin með smáum blómum og er fyrst af hátíðarliljunum til að blómstra. Af henni eru nokkrar fallegar sortir. 'Tete-a-tete' er seld sem pottaplanta fyrir páska, en þrífst vel úti í garði og er yfirleitt fyrsta hátíðarliljan til að byrja að blómstra. 'February Gold' líkist 'Tete-a-tete' en er öll heldur stórgerðari. 'Jetfire' er í sérstöku uppáhaldi, yndislega falleg, gul með appelsínugulri hjákrónu. 'Thalia' er álíka smávaxin og febrúarliljurnar en blómstrar í maí hreinhvítum blómum.

Af stórblóma hátíðarliljum má nefna: 'Fortissima' sem er með risastór, gul blóm með appelsínugulri hjákrónu. Virkilega glæsileg. 'Corsage' er gul með appelsínugulri hjákrónu sem er kögruð eins og pífa. 'Orangery' er hvít með appelsínugulri, skiptri hjákrónu sem leggst flöt upp við krónublöðin. Mjög flott. Af laxableikum sortum er 'Precocious' ein sú allra flottasta. Nokkrar flottar sortir með fylltum blómum eru 'Delnashaugh' og 'Tahiti'. 'Double Campernelle' er með smáum, mikið ilmandi blómum í ótrúlega dökkgulum lit. Stórglæsileg, en ekki eins harðgerð og ofantaldar sortir og þarf sennilega bestu mögulegu skilyrði til að blómstra árlega.

Túlipanar blómstra flestir í lok maí og fram í júní. Stórblóma túlipanarnir eru hver öðrum fallegri, í öllum regnbogans litum.Villitúlipanar minna ekki mikið á stóru kynbættu yrkin sem mest eru ræktuð en þeir eru virkilega fallegir í einfaldleika sínum. Margir hverjir eru harðgerðir og blómstra árum saman. Nokkrar góðar tegundir eru: sveiptúlipani, dvergtúlipani og fjólutúlipani, en af honum eru til margar fallegar sortir m.a. 'Persian Pearl'.

Að lokum vil ég nefna nokkrar tegundir smálauka sem flestir blómstra í maí og eru ómissandi í vorgarðinn: voríris, balkansnotru, perluliljur t.d. 'Dark Eyes', 'Valerie Finnis', og M. latifolium, síberíulilju, postulínslilju, og snæstjarna. Garðskógarlilja 'Pagoda' er yndisleg skógarbotnsplanta sem blómstrar í maí og þolir töluverðan skugga.

Nú er um að gera að nýta haustblíðuna til að fara út í garð og pota niður laukum. Svo er bara að bíða veturinn af sér og hlakka til blómskrúðsins í vor.

Rannveig Guðleifsdóttir
Garðaflóra