Vetrargræðlingar

Val á móðurplöntum skiptir miklu máli þegar teknir eru græðlingar hvort sem það er gert að vetri eða sumri. Planta sem vex upp af græðlingi er erfðafræðilega eins og móðurplantan og kallast klónn. Algengast er að nýta ársprotann en hæglega má notast við tveggja eða þriggja ára greinar af víði og ösp. Heppileg lengd græðlinga er 15 til 20 sentímetrar en sverleikinn getur verið breytilegur eftir aldri greinanna. Varast skal að taka sprota sem eru grennri en 5 eða 6 millimetrar í þvermál.

Best er að geyma græðlinga í kæla við 1º C. Þeir sem ekki hafa aðstöðu til þess geta geymt græðlingaefni óklippt í skugga og á svölum stað og gott er að hylja græðlingana með sandi eða mosa.

Græðlingarnir sem geymdir eru lengi verða iðulega fyrir vökvatapi og því gott að setja þá í vatn sólarhring áður en þeim er stungið niður. Raðið græðlingunum lóðrétt í ílátið þannig að brumin vísi upp en ekki stinga þeim á kaf.

Gott er að stinga upp ræktunarbeð að hausti og blanda safnhaugamold, sveppamassa eða húsdýraáburði í jarðveginn. Nauðsynlegt er að setja svart plast yfir beðið og fergja það með sandi eða möl og stinga græðlingunum í gegnum það. Plastið heldur jöfnum raka í beðinu, dregur til sín hita og heldur illgresi í skefjum.

Hæfilegt bil milli víðigræðlinga í beði eru 10 til 12 sentímetrar og 15 til 20 sentímetrar milli raða. Græðlingunum er stungið niður og eitt til tvö brum látin standi upp úr.

Hægt er að stinga græðlingunum beint í potta eða fjölpottabakka en þegar slíkt er gert er lengd þeirra minni, 10 til 12 sentímetrar. Skjól á ræktunarstað er nauðsynlegt þar sem vindur eykur uppgufun og vatnsþörf plantanna. Gott að raða pottunum þétt og hreykja jarðvegi að úthlið þeirra til að varna því að ystu pottarnir þorni.

Græðlingunum er stungið niður þannig að 1/4 standa upp úr jarðveginum eða tvö til þrjú brum á víði og eitt brum á ösp. Gott er að strengja hvítt plast yfir pottana þar til græðlingarnir hafa rætt sig. Munið að lofta í heitu veðri. Ekki er æskilegt að láta græðlingana vera meira en eitt ár í pottum.

Ef víðigræðlingunum er stungið niður á endanlegan vaxtarstað skal hafa 30 til 35 sentímetrar á milli þeirra en 50 sentímetrar milli grófgerðra tegunda í skjólbelti.