Sígrænar plöntur

Þegar vetur er genginn í garð og snjórinn hefur lagst yfir gefa sígrænar plöntur kærkominn lit í tilveruna. Úrval sígrænna plantna einskorðast ekki við barrtré og runna, en ég ætla að láta nægja að fjalla um nokkrar tegundir í þeim hópi að þessu sinni.

Greni og fura eru algengustu sígrænu trjátegundirnar en flestar þeirra verða mjög stórvaxnar og henta ekki í litla garða. Ég ætla að nefna nokkrar fallegar tegundir sem eru nógu nettar til að prýða garða af hvaða stærð sem er og nógu harðgerðar til að þær geti lífgað upp á garðinn yfir vetrarmánuðina án vetrarskýlis. Reyndar geta jarðlægu tegundirnar horfið undir snjó þegar snjóar mikið en það er mikil prýði af þeim þegar snjólétt er.

Það er ekki um margar smávaxnar grenitegundir að velja en þó eru til dvergvaxin afbrigði af tveimur tegundum sem hafa verið ræktuð hér. Fyrri tegundin er hvítgreni, Picea glauca. Yrkið Conica sem hefur fengið nafnið keilugreni, vex mjög hægt og verður aldrei meira en lítil, nett keila. Það er mjög fallegt, með fallega ljósgrænt barr en því miður heldur viðkvæmt og þarf mjög skjólgóðan stað í garðinum. Hin tegundin er Rauðgreni og eru nokkur dvergvaxin yrki til af því sem eru öll jarðlæg. Það algengasta, Nidiformis, hefur fengið nafnið hreiðurgreni. 

Það er eins með fururnar og grenið, þær hafa tilhneigingu til að verða miklar um sig bæði á hæð og breidd. Af þeim furutegundum sem vaxa sem einstofna tré er broddfuran einna nettust, 5-10 m á hæð og vex mjög hægt. Fjallafura, er enn nettari, aðeins 1-3 m og eru tvær undirtegundir sem helst eru ræktaðar: fjallafura, (P. mugo var. mughus) sem verður rúmur meter á hæð og dvergfura (P. mugo var. pumilio) sem er enn lægri. Runnafura (P. pumila) er önnur smávaxin tegund sem vex í báðum grasagörðunum en hún er mun sjaldgæfari í ræktun og hef ég ekki rekist á hana í garðyrkjustöðvunum. Virkilega falleg og eftirsóknarverð tegund.

Taxus – ýviður er ættkvísl sem er tiltölulega ný í ræktun. Dvergjapansýr (Taxus cuspitata var. nana), Ýviður Sommergold (T. Baccata) og Garðaýr Hillii (T. x  media) hafa allar reynst ljómandi vel. Hillii er með mjög fallega dökkgrænt barr og uppréttan vöxt en Sommergold skartar gulgrænu barri á nývexti sem verður síðan ljósgrænt þegar það eldist. Hann vex meira á breiddina en hæð.

Það er komin lengri reynsla á ræktun einis (Juniperus). Íslenski einirinn er sjaldan ræktaður í görðum en til er ljómandi fallegt jarðlægt afbrigði af honum Repanda sem er vel þess virði að rækta. Það er grænna en himalayaeinirinn (J. squamata) sem er algengastur í ræktun og er oftast bláleitari. Mayeri er upprétt sort sem getur orðið nokkuð stór um sig. Blue Star og Blue Carpet eru báðar mjög bláleitar eins og nöfnin bera með sér, Blue Star verður lágvaxinn, hnöttóttur runni á meðan Blue Carpet breiðir úr sér eins og teppi. Holger er annað jarðlægt yrki en það skartar ljósgrænu barri á nývextinum sem er mjög fallegt. Fleiri einitegundir eins og t.d. kínaeinir eru líka í ræktun hér en eru heldur viðkvæmari en þær sem nefndar hafa verið.

Sýprus – Chamaecyparis er heldur viðkvæmur og oftast ræktaður í pottum sem sumarplanta, en þó eru örfáar tegundir sem hafa staðið sig sæmilega vel. Má þar nefna alaskasýprusinn (C. nootkatensis) sem getur náð a.m.k. 1-2 m hæð á vel skýldum stöðum. Fagursýprus Stardust verður ekki hávaxinn, en hann hefur staðið sig sæmilega vel úti í garði hjá mér. Ég þurfti reyndar að skýla honum framanaf en hann er farinn að pluma sig ágætlega núna og þroskaði meira að segja köngla í sumar. Hann er fallega ljósgrænn. Sýprus þolir ekki þurrk og því hefur mér reynst best að rækta hann úti í beði. Sé hann ræktaður í pottum verður að passa að moldin haldist rök allan veturinn.

Síðasta tegundin sem ég ætla að nefna er Vaxlífviður. Hann vex mjög hægt, er sæmilega skuggþolinn og eins og sýprusinn þolir hann ekki þurrk. Hann þrífst ljómandi vel á skjólgóðum stað.

Þó flestar grenitegundir verði of stórvaxnar með tímanum fannst mér nauðsynlegt að hafa eitt grenitré í garðinum til að skreyta fyrir jólin. Blágreni varð fyrir valinu og með klippingu má halda aftur af vextinum í þónokkuð mörg ár. Það er fátt fallegra en ljósum skrýtt grenitré þakið snjó.

 Rannveig Guðleifsdóttir

Garðaflóra