Steinselja - Moss Curled 2

Steinselja - Moss Curled 2
Steinselja - Moss Curled 2

Steinselja - Moss Curled 2

Petroselinum crispum

  • Sáðtími: Forræktun hefst inni frá janúar
  • Gróðursetning úti: Júní
  • Fjöldi fræja: Fjöldi fræja fer eftir stærð fræja og stærð potta.  Þumalputtaregla fyrir c.a. 12 cm pott er að nota 3-5 fræ í hvern pott (t.d. kóriander sem hefur stór fræ), en ef fræin eru mjög lítil þá 10-15 fræ í hvern pott (t.d. timian, oregano ofl sem hafa lítil fræ). Fræ sem eru mjög lítil er best að láta liggja ofaná moldinni.   
  • Hitastig: Venjulegur stofuhiti er ákjósanlegur fyrir nánast allar kryddjurtir.   Varist of mikinn hita þegar spírurnar eru litlar, þá geta stilkarnir orðið þunnir og ræfilslegir.

Framleiðandi: Mr Fothergill´s

ÝMSAR UPPLÝSINGAR UM MATJURTARRÆKTUN

Vörunúmer MF15175
Verð samtals:með VSK
490 kr.

Fróðuleikur

  • Sáning fræja - skref fyrir skref

    Hér má sjá hvernig á að sá fræjum skref fyrir skref

     

    1. Sáning

    • Setjið fræin í bakka með sáðmold
    • Setjið nokkur fræ í hverja holu
    • Sáðtími er misjafn eftir tegund, ca 3-6 vikur
    • Hafið hitastig ca 15°C
    • Haldi› moldinni rakri, gott að breiða blöð yfir eða notið hlýf

    2. Spírun

    • Takið dagblöðin/ hlýf af
    • Birtustig fer eftir tegund, sjá frælista
    • Hafið hitastig 10-20°C, fer eftir tegund
    • Vökvið vel og sjaldan, moldin á alltaf að vera rök

    3. Dreifplöntun (priklun)

    • Þegar ca 4 blöð hafa myndast, þá þarf að prikla
    • Takið þá hverja plöntu fyrir sig og setjið í hólfabakka
    • Notið gróðurmold, ekki sáðmold

    4. Herðing

    • Gott er að herða plönturnar áður en þær eru settar út. Það er gert með því að setja plönturnar út á daginn þegar orðið er frostlaust og taka inn að kvöldi

     

    5. Útplöntun og staðsetning

    • Staðsetning fer eftir tegundum, en oft er valinn sólríkur og skjólgóður staður
    • Gefið áburð þegar plantan er full vaxinn, best er að nota lífrænan áburð, t.d. þörungarmjöl, moltu eða þurrkaðan hænsnaskít
       
  • Matlaukur

    Matlaukur

    Matlaukur þarf frjóan og vel framræstan jarðveg á sólríkum stað, jafnvel í vermireit í byrjun. Honum er plantað út í maí með um 5 cm bili og 25‐30 cm á milli raða. Laukurinn er settur efst í moldarlagið svo að það glitti í enda. Hægt er að nýta blöðin á vaxtartíma en passa þarf að taka þau ekki öll. Laukurinn er fullþroska þegar blöð byrja á visna, þá þarf að taka hann upp og þurrka. Þeir geymast vel þegar skænisblöð (ystu blöð) eru orðin þurr og þá er óhætt að setja hann í geymslu við 0‐7°C og lágt rakastig.

    Skarlotlaukur

    Skalotlaukur er frábrugðinn matlauk. Hann myndar allt að 10 smálauka í kringum sig á vaxtarskeiði. Honum er fjölgað með sáningu í lok febrúar til byrjun mars eða ræktaður út frá útsæðislauk. Honum er plantað út í maí og þarf að hylja hann með um 4 cm þykku moldarlagi. Hæfilegt bil fyrir skalotlauk er 15 cm á milli plantna og 30 cm á milli raða.

    Hvítlaukur

    Hvítlaukur samanstendur af mörgum geirum. Honum er fjölgað með því að setja hnýði (geira) um 5 cm í jörðu mjög snemma vors (í byrjun apríl) eða að hausti og þá skilinn eftir yfir veturinn. Hitastig stjórnar þroska og vexti. Hitastig undir undir 0°C kemur honum í vetrardvala og mynda ný rif.

  • Forræktun lauka og hnýðis

    Hér er hægt að fræðast um forræktun lauka, hnýðis og forðaróta
    - skref fyrir skref

    1. Forræktun

    • Setjið laukinn/ hnýðið í rúmgóðan pott með pottamold
    • Nauðsynlegt er að hafa gott frárennsli í pottinum

     

    • Forræktun fer eftir tegund, frá mars til maí
    • Setjið pottinn á bjartan stað, hitastig ca 15°C
    • Notið sama pott fram að útplöntun

     

    • Efsti partur hnýðisins má standa upp úr moldinni
    • Setjið niður sem nemur tvisvar til þrisvar sinnum þykkt hnýðisins
      eða lauksins, þjappið moldinni lauslega í kring
    • Haldið moldinni rakri
    • Þegar blöð fara að myndast færið þá á svalari stað, áfram á að vera bjart
    • Þegar plantan hefur náð ca 10 cm hæð, gefið þá væga áburðarblöndu

    2. Herðing

    • Gott er að herða plönturnar áður en þær eru settar út í beð.
      Það er gert með því að setja þær út á daginn og taka inn að kvöldi
    • Lengið í útiverunni eftir því sem hlýnar úti. Þegar frostlaust er þá
      má setja plöntuna út í beð

    3. Útiplöntun

    • Veljið skjólgóðan og bjartan stað
    • Hægt er að þurrka mörg hnýði td Begoniur og Dalíur og geyma fram á næsta vor á dimmum, þurrum og frostlausum stað
       
       
  • Forræktun grænmetis

    Forræktun grænmetis 

    Með forsáningu flýtum við uppskeru grænmetis þar sem sumarið á Íslandi er stutt.  Gott er að byrja að sá í mars/apríl,  þó er það misjafnt eftir tegundum.  Yfirleitt eru ágætar upplýsingar aftan á fræpakkningum. Forræktun tekur yfirleitt um 3-6 vikur.

    Sáning og fjöldi fræja

    Mælt er með að nota sáðmold, eða sáðmoldarpillur, í sáningarbakka og/eða hólfabakka.  Eitt grænmetisfræ gefur af sér eina plöntu.  Þó má gera ráð fyrir að einstaka fræ spíri ekki og því er mælt með því að sá nokkrum umframfræjum saman.

    Hitastig við spírun

    Fræin spíra við 15°C og skal leggja dagblaðsarkir yfir meðan spírurnar eru að koma upp til að viðhalda raka. Um leið og spírun er farin af stað er gott að setja bakkana á sólríkan stað, taka dagblaðaarkirna af og halda hitastiginu lágu 10-20°C ef hægt er en þetta fer aðeins eftir tegundum.

    Vökvun

    Vökvun er mikilvæg, sérílagi á spírunartímabilinu.  Magnið getur farið eftir loft raka, sólskynsstundum. Gott er að kanna reglulega rakastig moldarinnar, t.d. með því að stinga fingrinum aðeins ofaní moldina. Frekar er mælt með því að vökva vel og sjaldan en oft og lítið.  Á sólríkum dögum þarf að vökva oftar.  

    Priklun

    Ef sáð er í sáningarbakka þarf að prikla þegar plantan er farin að mynda c.a. 4 blöð. Þá er ein planta sett í hvert hólf í hólfabakka og mælt með að skipta yfir í venjulega gróðurmold. 

    Útplöntun

    Þegar ekki er lengur næturfrost, oftast í byrjun júní, eru grænmetisplönturnar færðar út í beð. Gott er að herða plönturnar áður en þær eru fluttar á endalegan stað í garðinum. Þetta er annað hvort gert með því að setja þær út á daginn og taka inn að kvöldi eða flytja þær út í vermireiti (beð með yfirbreiðslu). Til að koma í veg fyrir kuldaskemmdir við upphaf ræktunar, er gott að setja akrýldúk yfir beðið.  Dúkurinn er líka vörn gegn kálflugu og gulrótarflugu. Ágætt er að hafa dúkinn yfir fram í miðjan júlí. Passið þó að dúkurinn sligi ekki plönturnar það getur þurft að losa aðeins um hann svo hann lyftist með plöntunum.

    Staðsetning

    Velja skal sólríkan og skjólsælan stað.  Áburðargjöf er nauðsynleg þegar plantan er í fullum vexti. Best er að nota lífrænan áburð, t.d. þörungarmjöl,  moltu og þurrkaðan hænsnaskít.

  • Ræktun kryddjurta

    Kryddjurtir

    Fátt er skemmtilegra en líflegar kryddjurtir í eldhúsglugganum sem gefa góðan ilm í húsið og einstakt bragð í matargerðina. Kryddjurtir má rækta allt árið um kring innanhúss, en flestir hefja ræktun í febrúar/mars þegar sól tekur að hækka á lofti. Góðar upplýsingar um sáningartíma og aðferðir er yfirleitt að finna aftan á fræpakkningum.

    Sáning og spírun  

    Gott er að nota sáðbakka og sáðmold eða sáðmoldarpillur og færa síðan spírurnar yfir í potta með venjulegri pottamold. Hægt er að sá beint í endanlega potta og nota venjulega pottamold en þá er mælt með þunnu lagi af sáðmold ofaná, sérílagi fyrir stærri fræ. Gott er að setja dagblaðsörk yfir pottinn eða sáðbakkann til að viðhalda raka og hita. 

    Fjöldi fræja

    Fjöldi fræja fer eftir stærð fræja og stærð potta. Þumalputtaregla fyrir 12 cm pott er að nota 3-5 fræ í hvern pott (t.d. kóriander sem hefur stór fræ) en ef fræin eru mjög lítil þá 10-15 fræ í hvern pott (timian, oregano ofl. lítil fræ). Fræ sem eru mjög lítil er best að láta liggja ofaná moldinni.   

    Umpottun

    Þegar spírur taka að myndast er dagblaðsörkin tekin af og plönturnar settar í endanleg ílát, ef við á. Dreifið úr spírunum og þjappið moldinni varlega að.

    Staðsetning  

    Mælt er með að velja fremur sólríkan stað t.d. gluggasyllu. Birta við ræktunina er mikilvæg og kryddjurtir þurfa sólríkan stað. Varast skal þó beina sól meðan spírur eru litlar því þær geta brunnið. Örfáar tegundir s.s. mynta og karsi þrífast í norðurglugga.   

    Vökvun og áburðargjöf

    Vökvun er mikilvæg sérílagi á spírunartímabilinu. Magnið getur farið eftir raka í loftinu, sólarstundum ofl og breytist þ.a.l. eftir árstíðum. Gott er að kanna reglulega rakastigið í moldinni t.d. með því að stinga fingri aðeins ofaní moldina. Betra er að vökva vel og sjaldnar en oft og lítið en á sólríkum dögum þarf að vökva oftar. Áburðargjöf er nauðsynleg þegar plantan er í fullum vexti, og er t.d. þörungaáburður í vöxvaformi góður kostur.

    Hitastig

    Venjulegur stofuhiti er ákjósanlegur fyrir nánast allar kryddjurtir. Varist of mikinn hita þegar spírurnar eru litlar því þá geta stilkarnir orðið þunnir og ræfilslegir. Vandamál með hitastig innanhúss skapast einkum á veturna nálægt miðstöðvarofnum sem eru hátt stilltir.  Ef miðstöðvarofn er undir kryddhillunni er mælt með að botninn á kryddpottunum liggi ekki beint í bleytu. Þá má setja bakka með leirkúlum eða vikri undir pottana.

    Varnir innanhúss

    Ef vart verður við lús eða hvítflugu má nota skordýrasápu (t.d. frá Safer´s).  Hvítflugan dregst að skærum hlutum svo flugnaspjöld í skærum litum geta komið að góðum notum.  Einnig er ýmiss konar laukur tilvalinn til að fæla meindýr frá. Hægt er að skera laukinn niður og stinga honum innan um kryddplönturnar eða rækta t.d. graslauk í potti innanum hitt kryddið.

    Uppskera

    Athuga þarf að ganga ekki of nærri plöntunni þ.e. ekki taka of mikið magn í einu en einnig er gott að hvíla hana á milli t.d. með því að hafa sömu tegundina í tveimur pottum og hvíla þær til skiptis. Mælt er með að klippa framanaf greinum til að viðhalda runnavexti en með örfáar tegundir (t.d. steinselju, graslauk) er betra taka elstu blöðin fyrst.

    Plöntur fluttar inn að hausti

    Síðsumars er hægt að flytja plönturnar aftur inn (lok ágúst áður en hætta er á næturfrosti). Ef plönturnar hafa verið í beði og eru orðnar stórar er hægt að skipta þeim upp í nokkra potta en ekki er gott troða rótum í of litla potta. Á þennan hátt er hægt er að njóta kryddjurtanna frameftir vetri.

  • Sáning matjurta - kennslumyndband

    Hér má sjá hvernig gott er að sá matjurtum

     

  • Sáð fyrir kryddplöntum í mars - listi yfri fræ

    Kryddplöntusáning í mars

    Í mars, þegar sól fer að hækka á lofti er tímabært að huga að sáningu kryddjurta. Það sem við sáum í mars þarf ekki neina sérstaka lýsingu.  Kryddfræ eru 7-20 daga að spíra, allt eftir tegundum. Það sem til þarf við sáninguna er góð sáðmold, sótthreinsaðir bakkar eða pottar, dagblöð til að setja yfir sáninguna. Gott að setja plasthjálma yfir bakkana til að halda jöfnum hita og raka meðan á spírun stendur. Takið yfirbreiðslur af um leið og fræin byrja að spíra. Þegar fyrstu kímblöðin sjást er kominn tími til að dreifplanta. Viku eftir dreifplöntun er óhætt að gefa veika áburðarblöndu.  Þegar plönturnar hafa náð 10-12 cm hæð er kominn tími til að herða þær.

    Plöntur sem upplagt er að sá í mars eru:

    • Ambramalurt Artemisia abrotanum fjölær, sáð í mars-apríl
    • Anísjurt Pimpinella anisum einær, sáð í mars-apríl
    • Dill (Sólselja) Anethum graveolens einær, sáð í mars-apríl
    • Fáfnisgras (Franskt-estragon) Artemisia dracunculus) fjölær, sáð í mars-apríl
    • Fenníka (Sígóð) Foeniculum vulgare fjölær, sáð í mars-maí
    • Garðablóðberg (Timjan) Thymus vulgaris fjölær, sáð í mars-apríl
    • Hjólkróna Borago officinalis einær, sáð í mars-apríl
    • Hrokkinmynta Mentha spicata fjölær, sáð í mars-apríl
    • Hulduljós Stachys officinalis fjölær, sáð í mars
    • Indíánakrans (Bergkrans) Monarda didyma fjölær, sáð í mars
    • Ísópur Hyssopus officinalis fjölær, sáð í mars-apríl
    • Kattarmynta Nepeta cataria fjölær, sáð ímars-apríl
    • Kjarrmynta (Origan) (Bergmynta) Origanum vulgare fjölær, sáð í mars-apríl
    • Kóríander Coriandrum sativum einær, sáð í mars-apríl
    • Lofnarblóm (Lavendill) Lavandula angustifolía fjölær, sáð í mars-apríl
    • Lyfjasalvía Salvia officinalis fjölær, sáð í mars-apríl
    • Majoran (Kryddmæra) Origanum majorana fjölær, sáð í mars-apríl
    • Maríubrá Chrysanthemum majus (C.balsamita) fjölær, sáð í mars-apríl
    • Morgunfrú Calendula officinalis einær, sáð í mars-apríl
    • Piparmynta Mentha x piperita fjölær, sáð í mars-apríl
    • Rúðajurt Ruta graveolens fjölær, sáð í mars
    • Sítrónumelissa (Hjartafró) Melissa officinalis fjölær, sáð í mars-apríl
    • Steinselja Petroselinum crispum tvíær, sáð í mars-apríl

    Sumar plönturnar sem eru taldar hér upp eru fjölærar en eingöngu ræktaðar hér á landi sem einærar. Það er raunar hægt að taka þær inn vel fyrir haustið og hafa þær í gluggakistu. Þannig er hægt að nýta þær áfram. Það er svo skemmtilegt með kryddplöntur að þær eru fínar hvar sem er, fallegar í ker, potta og jafnvel innan um fjölæru blómin í garðinum. Svo ef einhver vill vera stórtækur í ræktuninni er ekkert mál að útbúa sérstakan kryddgarð bæði til skrauts og nytja því kryddplöntur eru virkilega fallegar og regluleg garðaprýði.
    Njótið kryddjurtanna og munið að hægt er að nota þær ferskar, þurrkaðar og jafnvel frystar eða að setja þær í edik og olíu.

  • Krydd og matjurtir í pottum og kerjum

    Það eru ekki allir sem hafa pláss eða aðstöðu fyrir stóran matjurtagarð sem getur séð fjölskyldunni fyrir grænmeti og kartöflum frameftir vetri. Það er þó ekki þar með sagt að ekki sé hægt að njóta þess að gæða sér á heimaræktuðu grænmeti, þó í litlu magni sé. Það er nefnilega vel hægt að rækta matjurtir í pottum og kerjum á svölunum eða pallinum.

    Og hvað er svo hægt að rækta? Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru kryddjurtir og salat sem hvorutveggja henta mjög vel í pottarækt. Það er t.d. ekki amalegt að hafa pott með uppáhalds kryddjurtunum eða salati við dyrnar þar sem stutt er að ná sér í klípu með matnum. Það getur verið ágætt að sá salatinu tvisvar til þrisvar sinnum með nokkurra vikna millibili til að fá uppskeru yfir lengri tíma.

    Ég gerði tilraun með að rækta gulrætur í stórum blómakassa í fyrra sumar með fínum árangri. Það tók reyndar ekki marga daga að klára uppskeruna en það jafnast ekkert á við heimaræktaðar gulrætur þó í litlu magni sé! Þær njóta líka góðs af því að jarðvegurinn hitnar fyrr í kassanum heldur en í venjulegu beði. Jarðaber er líka fínt að rækta í kerjum og jafnvel hengipottum af sömu ástæðu. Þá liggja berin heldur ekki eins á moldinni og kannski minni líkur á að sniglarnir nái að gæða sér á berjunum á undan okkur. Allar káltegundir er auðveldlega hægt að rækta í kerjum og baunir líka.

    Það er t.d. kjörið að leyfa krökkum að prófa að rækta sitt eigið grænmeti í blómakössum. Það eru meira að segja til ýmis óvenjuleg litaafbrigði sem getur verið spennandi að prófa eins og t.d. fjólubláu og gulu gulræturnar sem slegið hafa rækilega í gegn hjá mínum dætrum. Sætar og góðar og stútfullar af andoxunarefnum. Möguleikarnir eru endalausir og um að gera að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og gleðja bragðlaukana með smá smakki af heimaræktuðu grænmeti í sumar.

  • Jarðarberjaræktun

    Jarðarberjaræktun

    Jarðarber hafa verið ræktuð með góðum árangri á Íslandi í áratugi, en jarðarber eru mjög einföld í ræktun og nægjusöm og því á allra færi að. Jarðarber er hægt að rækta á ýmsa vegu s.s. í pottum, kerjum, hengikörfum, gróðurreitum, inni í gróðurhúsi eða úti í beði.

    Það sem mestu skiptir er að þau séu á sæmilega skjólgóðum stað og fái góða sól og vökvun. Þá eru jarðaberjaplöntur sérstaklega viðkvæmar fyrir því að þorna fyrstu vikurnar eftir að þær eru settar niður og svo aftur þegar berin eru að myndast. Athuga þarf að passa sérlega vel uppá vökvunina séu plönturnar hafðar í kerjum eða grunnum jarðvegi.

    Algengt er að jarðarberjaplöntur byrji að gefa af sér um miðjan júlí, en því hlýrra sem loftið er, því fyrr koma berin. Þar af leiðandi er nokkuð vinsælt að reyna að flýta fyrir uppskerunni með því að breiða t.d. akrýldúk yfir. Hann heldur hita að plöntunum en hleypir samt vatninu í gegn. Hann hjálpar einnig til við að forða berjunum frá ágangi fugla. Þó getur verið gott að lyfta dúknum yfir hlýjasta hluta dagsins meðan á blómgun stendur til að leyfa flugunum að vinna sitt verk.

    Svart plast, jarðvegsdúkur eða jafnvel trjákurl geta líka verið gagnleg hjálpartól, sérstaklega þegar ræktað er í skipulögðum röðum. Það gegnir því hlutverki að halda hita að rótum, raka í jarðvegi og sniglunum frá og er þá dúkur sniðinn (eða kurli dreift) í kringum hverja plöntu fyrir sig.

    Jarðarberjaplöntur geta fjölgað sér mjög hratt. Það gera þær með því að skjóta renglum út frá sér ofanjarðar og myndast nýjar plöntur við enda þeirra. Algengt er að þetta gerist tvisvar á sumri. Plönturnar skjóta svo rótum þar sem þær lenda. Því þarf að fjarlægja renglurnar vilji maður ekki að plönturnar dreifi sér út um allt. Hægt að stýra fjölguninni með því að klippa plönturnar af renglunum og færa á góðan stað. Bestu plönturnar eru yfirleitt taldar vera þær sem vaxa af stystu renglunum. Þegar plönturnar eru orðnar 4-5 ára fara jarðaberin yfirleitt að minnka. Er þá tímabært að fjarlægja þær plöntur og leyfa nýjum að taka við.

    Jarðarber gera ekki miklar kröfur til jarðvegs, en kjósa helst súran jarðveg (þola illa kalk). Gott er að blanda smá lífrænum áburði við moldina áður en plönturnar eru settar niður. Þó þarf að varast að gefa ekki of mikið, sérstaklega af köfnunarefni, þannig að plönturnar eyði ekki allri orkunni í blaðvöxt. Þá getur verið gott að gefa kalíríkan áburð þegar nálgast blómgun, en það ætti að hjálpa plöntunni að einbeita sér að berjamynduninni.

    Plöntur sem settar eru niður að vori byrja yfirleitt ekki að gefa af sér fyrr en ári síðar. Sé ætlunin að setja niður nokkrar plöntur og láta þær fjölga sér er algengt að taki um 3 ár að koma sér upp myndarlegri ræktun.

     

     

     

  • Áburðargjöf - virkni næringarefna

    Viðeigandi næring skiptir sköpun í því hvernig plönturnar í garðinum dafna. Því er mjög mikilvægt að huga vel að áburðargjöf og fylgjast með því hvort garðurinn sé að líða einhvern skort. Einnig ber að hafa í huga að gefa hæfilegt magn áburðar, en of mikill áburður getur haft skaðleg áhrif á gróðurinn og koma þá fram svipuð einkenni og þegar um skort er að ræða.

    Megin næringarefni plantna

    Til að plöntur þroskist og vaxi eðlilega þurfa þær að fá nokkur megin næringarefni, s.s. köfnunarefni, fosfór, kalí, magnesíum og brennistein, en einnig eru s.k. snefilefni mikilvæg lífsstarfseminni. Blanda af þessum efnum er í flestum tilbúnum áburðum, en er samsetningin nokkuð mismunandi. Þá er kalk mjög mikilvægt fyrir jarðvegsbygginguna, en það vinnur gegn súrnun jarðvegs, losar næringarefni og bætir jarðveginn almennt.

    Virkni næringarefna og einkenni skorts

    Næringarefnin virka á mismunandi vaxtaratriði plantna. Oftast er hægt að koma auga á næringarefnaskort með því að skoða lit plantanna. Köfnunarefni hafa aðallega áhrif á blaðvöxt plantna og skerpa grænan lit fleirra. Sé um köfnunarefnisskort að ræða verður litur blaðanna ljós fölgrænn. Fosfór styrkir rótarkerfið og eykur undirvöxt plantna. Oft verða plöntur blágrænar eða jafnvel hálf fjólubláar á lit flegar um fosfór skort er að ræða. Kalí sér um að jafna salt og sýrustig plantna. Plöntur sem skortir kalí verða gulgrænar eða grágrænar á lit.

    Kartöflur þurfa frekar sýruríkan jarðveg og ber því að forðast að bera kalk á kartöflugarða, sem og rækta kartöflur í landi sem hefur verið kalkað sl 2-4 ár. Ef jarðvegurinn ef of sýruríkur getur komið kláði í kartöflurnar sem sýnir sig í óhrjálegum flekkjum á kartöflunum. Til að vinna til móts við kláða ber að blanda brennisteini saman við jarveginn áður en kartöflurnar eru settar niður, á 2-3 ára fresti.

    Ef litur blaða á matjurtum er ljós getur verið um snefilefnaskort að ræða. Þarf þá að gefa sérstaka snefi lefnablöndu, Sporamix, á 2 til 3 ára fresti. Þegar blómstrun lætur á sér standa, getur verið gott að bera kalíum og þrífosfat til að hvetja plöntuna áfram.

  • Almenn áburðargjöf

    Almennt er mælt með að bera áburð þrisvar yfir sumarið, frá maí til júlí. Áburðaverksmiðjan býður uppá tilbúna áburði sem henta við flest tilfelli og eru auðveldir og þægilegir í notkun.

    • Á grasflöt er talið gott að byrja á að bera Graskorn til að koma sprettunni af stað, en bera svo Blákorn í næstu tvö skiptin. Ef mikill mosi er í grasflötinni er hins vegar ráðlagt að bera Kalk og Blákorn í fyrstu gjöf og svo Graskorn í næstu gjöf. Einnig er þörungamjöl gott fyrir grasflötina. 
    • Í trjábeð er gott að bera Blákorn ef um blómstrandi tré eða runna er að ræða, en annars Trjákorn.
    • Í kartöflugarða er yfirleitt mælt með Blákorni í bland við þrífosfat til að auka undirvöxt. 
    • Í aðra grænmetisgarða þarf kalkmeiri áburð og því ágætt að bera á Blákorn og þörungamjöl.
    • Í sumarbústaðarlönd þar sem um næringarsnauðan jarðveg er að ræða og meirihluti plantna eru grænar er mælt með Trjákorni og Blákorni til skiptis. 
  • Hvernig rækta ég salat?

    • Salatfræjum má sá beint út í garð. 
    • Til að fá uppskeru allt sumarið er sniðugt að sá 2-3 sinnum. 
    • Sniðugt er að forsá salati til að flýta fyrir fyrstu uppskeru. 
  • Matjurtir

    Það fyrsta sem við þurfum að hafa í huga þegar við förum út í grænmetisræktun er að velja skjólgóðan og bjartan stað. Góður plús er að staðurinn snúi mói suðri. Þar þarf að vera vel framræst og góð jarðvegsdýpt en það er c.a. 30-40 c.m. Þegar þetta er til staðar eru vaxtar möguleikar töluvert góðar fyrir grænmetisplönturnar.  Ef jarðvegurinn er frjósamur getur verið nóg að bæta í hann safnhaugsmold,moltu og jafnvel húsdýraáburði.  Plöntur þarfnast margra næringarefna eins og t.d. niturs eða köfnunarefnis (N), fosfórs (P) og  kalíums (K), ásamt snefilefna. Ef notaður er tilbúinn áburður er hæfilegt að láta 10 kg. t.d. af Blákorni á hverja 100 fermetra  beðs. Það getur þurft að gefa aukaskammt af nituráburði fyrir tegundir eins og hvítkál, rauðkál, blómkál, spergilkál og kínakál. Það er gert svona mánuði eftir útplöntun. Varðandi áburð þurfum við að hafa í huga að nitur í réttu magni hefur áhrif á blaðvöxt, eflir stöngul og styrkir plöntuna, kalíum hefur áhrif á blómgun, aldinmyndun og frostþol. Fosfór eykur rótarvöxt  og þar af leiðandi þarf aukaskammt af þeim áburði fyrir rótargrænmeti eins og t.d. gulrætur, gulrófur og hreðkur(radísur). Þegar áburðinum hefur verið dreift er jarðvegurinn stunginn upp eða tættur.  Þegar losað hefur verið vel um moldina er gott að strengja snúru til að marka fyrir c.a. 1.m. breiðu  beði og 30 c.m. gangstíg. Mokið moldinni úr gangstígnum upp í beðið, þannig hækkið þið beðið um 20-30 c.m. Þá verður frárennslið betra og jarðvegurinn verður ekki vatnssósa og súrefnislaus.  Það má líka setja timburkarm utanum beðin, það heldur garðinum snyrtilegum og auðveldar að mörgu leiti baráttuna við illgresi og meindýr.
       
    Val á fræi er skiptir miklu máli. Bestu yrkin eru F1 svokallaðar afkvæmakynslóðir. En þar hafa foreldrar verið valdir sérstaklega.  Slík fræ eru yfirleitt í dýrari kantinum en af þeim vaxa kröftugri plöntur sem gefa meiri uppskeru.  Matjurtum getum við skipt í tvo hópa, það er þeim sem við sáum fyrir beint út í beð og hinum sem þarf að forrækta.  Það grænmeti sem við sáum fyrir er  t.d. gulrætur (Daucus carota sativus), hreðkur (radísur)(Raphanus sativus), næpur (Brassica rapa ssp. rapifera), spínat (Spinacia oleracea) og sinnepskál (Brassica juncea).  Fyrir þessu grænmeti er sáð eins fljótt og unnt er, það er að segja þegar allt frost er farið úr jörðu og jarðvegur farinn að hlýna. Þegar búið er að stinga upp jarðveginn er nauðsynlegt að akríldúk yfir, því það eykur hita jarðvegsins.  
       
    Ef  á að forrækta  plöntur tekur það 5-8 vikur við góðar ástæður. Á spírunartíma þarf hitinn að vera 18-20°C en þegar fræin hafa spírað á að minnka hitann niður í 10-15°C,  þá fáum við þéttar og góðar plöntur. Þær plöntur sem eru forræktaðar eru rauðkál (Brassica oleracea var. capitata rubra), hvítkál (Brassica oleracea var. capitata alba), blómkál (Brassica oleracea var. botrytis), kínakál (Brassica rapa ssp.pekinensis), gulrófur (Brassica napus var. napobrassica), höfuðkál (Brassica oleracea var, capitata), rósakál (Brassica oleracea var. gemmifera), sprotakál (Brassica oleracea var. italica), spergilkál (Brassica oleracea var. italica), beðja (Beta vulgaris subsp. vulgaris), stilksellerí (Apium graveolens var. dulce), salat (Lactuca sativa), og grænkál (Brassica oleracea var. sabellica). Athugið að salati má líka sá beint á beð. Grænkáli má líka sá beint á beð þegar um lágvaxin yrki er að ræða.  Þegar plönturnar hafa spírað og við sjáum fyrstu kímblöðin er kominn tími til að dreifsetja. Viku síðar gefum við veika áburðarlausn (fljótandi). Svo þegar plönturnar hafa náð 10-12 c.m. hæð á að láta þær í herslu út í reit með gleri eða plasti yfir. Yfirleitt er þeim plantað í beð fyrstu vikuna í júní ef allt frost er farið úr jörðu. Munið að setja akríldúk yfir plönturnar. Allt grænmeti af krossblómaætt þarf að vera með vel yfirbreiddan akríldúk frá miðum júní, fram í miðjan júlí vegna kálflugunnar. Kálflugan sækir á allar káltegundir og gulrófur, næpur, hreðkur (radísur) og einnig á skrautplöntur af krossblómaætt. Hún verpir á stilka plantanna, lirfurnar klekjast út og verða að kálmöðkum sem gera mikinn usla. Annað leiðinda kvikindi er snigillinn.  Hann ræðst á blöð og gerir ljót göt á þau. Snigillinn er mjúkt slímugt lindýr, er aðallega á ferli um nætur og í votviðri.   Skiptiræktun getur verið nauðsynleg t.d. annað hvert ár en þá er tegundum víxlað milli reita. Þetta er gert til að koma í veg fyrir smitefni og meindýr.  
       
    Ég vil benda ykkur á grein eftir mig sem heitir “Óvinir grænmetis og kryddplönturæktenda” en þar fer ég yfir helstu varnir sem gagnast í glímunni við erkifjendur grænmetis og kryddplöntu ræktenda.  
    Sumum tegundum af áður nefndum plöntum er hægt að sá og vera með margar uppskerur yfir sumarið því það tekur þær svo stuttan tíma að þroskast. Margar tegundirnar þola sæmilega haustfrostin og enn betur ef breiddur er yfir þær akríldúkur. Þá getum við fengið uppskeru langt fram á vetur.

    Gangi ykkur vel með matjurtaræktina.

    Með grænni kveðju
    Magnús Jónasson
    Skrúðgarðyrkjufræðingur

  • Matjurtir - myndband

    Hér má sjá áhugavert myndband um matjurtir sem hægt er að rækta.

     

  • Matjurtargarðurinn

    Þegar hefja á matjurtaræktun er gott að byrja á því að stinga garðinn vel upp og blanda í hann lífrænum áburði s.s. hænsnaskít, sveppamassa, moltu eða þaramjöli. Sé jarðvegurinn súr þarf að bæta í hann kalki. Allt er þetta góður áburður sem eykur uppskeruna og bætir bragðgæðin. Kalk er þó ekki sett í kartöflugarða því það eykur hættu á kláða.Auka má uppskeruna í garðinum með því að lyfta yfirborði beðanna um 20 til 30 sentímetra. Við það hitnar jarðvegurinn fyrr. Hæfileg breidd á matjurtabeði er einn metri. Sú breidd er þægileg til vinnslu og auðvelta að ná yfir þau án þess að teygja sig of mikið.

    Jarðvegur í matjurtareitnum þarf að vera hæfilega blanda af mold og sandi og yfirleitt þarf að blanda hann með lífrænum áburði og kalki til að bæta hann.Jarðvegshiti þarf að hafa náð að minnsta kosti 6°C við útplöntun matjurta sem er yfirleitt um mánaðarmótin maí og júní. Í Garð sem er 10 fermetrar að flatarmáli nægir að gefa um eitt kíló af alhliða tilbúnum áburði þegar garðurinn er stunginn upp og hálf kíló um það bil mánuði síðar.

     

  • Nokkur kartöfluyrki

    Um íslenskar kartöflur

    Íslendingar byrjuðu að rækta Kartöflur Solanum tuberosum fyrir c.a. 255 árum.  Birni Halldórssyni prófasti í Sauðlauksdal við Patreksfjörð er oft eignaður heiðurinn af fyrstu kartöflurækt hér á landi.  Það mun þó ekki vera með öllu rétt því sænski baróninn Frederich  Wihelm Hastfer var aðeins á undan Birni og setti niður kartöflur á Bessastöðum vorið 1758.  Björn pantaði kartöflur frá Danmörku sama ár og setti þær niður 1759.

    Það tekur 4.-6.vikur fyrir kartöfluútsæði að spíra við 10-15°C. Kartöflur eru yfirleitt settar niður í byrjun maí.  

    Helstu yrkin

    Gullauga

    Gullauga en þær kartöflur eru hnöttóttar, stundum aflangar, nokkuð breytilegar að lögun, með gulhvítt hýði en gular að innan. Blómin ljósrauðfjólublá. Þetta eru bragðgóðar, þurrefnisríkar kartöflur. Þessi tegund er næm fyrir myglu og stöngulsýki og er í meðallagi snemmvaxin.

    Rauðar íslenskar

    Rauðar íslenskar eru hnöttóttar, ögn flatvaxnar með mörgum djúpum augum. Hýðislitur er rauður eða bleikrauður, hvítur eða fölgulur oftast með rauðum hring. Þær þurfa langan vaxtartíma og eru bragðgóðar og mjöllitlar. Þær eru næmar fyrir myglu.

    Helga

    Helga er yrki sem er upprunnið frá Unnarsholtskoti í Hrunamannahreppi, Árnessýslu. Þáverandi húsfreyja þar, Helga Gísladóttir taldi sig hafa fundið gras með nokkrum smá kartöflum í garði sínum, en þar höfðu verið Gullauga og Eyvindur. Hún fór að rækta þessar kartöflur sérstaklega og þá kom í ljós að þær voru stökkbreytt afbrigði af þessum tveimur áðurnefndu yrkjum.  Nýju kartöflurnar fengu  nafnið Helga.  Þessar kartöflur eru hnöttóttar, stundum dálítið aflangar. Hýðislitur er rauðbleikur en augu eins og á Gullauga. Að innan eru þær gular. Þær eru heldur fljótvaxnari en Gullaugað og eru mjög þurrefnaríkar, mjög góðar matarkartöflur. Þeim er hætt við stöngulsýki.

    Premier Kartöflur

    Premier Kartöflur eru aflangar, dálítið flatar, hýðislitur er ljósgulur en að innan eru þær gular eða fölgular. Frekar stór, fljótvaxta og mjöllítil. Hún er mjög góð bökunarkartafla.


    Kartöflukveðja
    Magnús Jónasson
    Skrúðgarðyrkjufræðingur

     

  • Lífrænar varnir - ráð gegn ýmsum sjúkdómum og meindýrum.

    Lífrænar varnir

    Gott ráð gegn meindýrum og sjúkdómum er að planta ákveðnum plöntum á milli.  Mörg meindýr treysta  á þefskynið og lyktsterkar plöntur eins og hvítlaukur og mynta villa um fyrir þeim. Þá er einnnig hægt að velja plöntur sem draga til sín vissa skaðvalda eins og t.d. Skjaldfléttu sem dregur að sér blaðlýs og svo flauelsblóm sem dregur að sveifflugur sem nærast á blaðlúsum.   

    Grænsápa og brennisteinsduft

    Grænsápa og brennisteinsduft er efni sem innihalda pýretín. Pýretín er efni sem finnst í náttúrunni og er hættulaust í notkun.  En til þess að efnin nýtist þurfa þau að snerta skaðvaldinn og oft þarf að endurtaka  meðferð nokkrum sinnum.

    Gildrur

    Gildrur má nota til að veiða meindýr eins og snigla, svo sem bjórdósir.  Einnig er gott ráð að setja fjalir eða  tóma greipaldinhelminga milli plantnanna, sniglarnir skríða undir á daginn og þá er auðvelt að taka þá upp og fjarlæga.  Auk þess má búa til seyði úr sniglum og vatni, og vökva því yfir plönturnar. 

    Gulir límborðar

    Gulir límborðar og spjöld eru góð í gróðurhúsum, Lús og hvítfluga laðast að gula litnum og festast í líminu. 

    Matarsódi

    Matarsódi leystur upp í vatn  nýtist sem vörn gegn sveppagróðri. Best er að úða með daufri blöndu á moldina um leið og sáð er.

    Fljótandi þangáburður

    Fljótandi þangáburður getur bæði verið styrkjandi fyrir plöntur og hægt að nota  sem vörn gegn sveppum.  Úða má með blöndu gegn spunamaur og blaðlús.  

    Jurtaseyði

    Jurtaseyði úr hinum ýmsu plöntum hafa einnig ýmis forvarnargildi svo sem klóelfting eða vallhumall gegn blaðsveppi. Brenninetluseyði (einnig er til brenninetluduft) nýtist gegn kálflugu. Seyði úr rababarablöðum, regnfang og stórnetlu vinnur á skordýraplágum og koma jafnvel í veg fyrir þær.

    Forvarnir

    Veljið hraustar plöntur, þær eru líklegri til að þola ágang sjúkdóma og meindýra.

    Veljið staðsetningu eftir þörfum plantnanna. Mikilvægt er að velja saman í beð plöntur með líkar þarfir varðandi vökvun og áburðargjöf.

    Skiptiræktun

    Skiptiræktun minnkar líkurnar á að sjúkdómar safnist fyrir í jarðveginum. Hún er fólgin í að færa einærar plöntur á milli staða árlega. Þannig nýtast einnig þau mismunadi næringarefni sem eru í jarðveginum. Þetta á við um matjurtir, sumarblóm, lauk- og hnúðjurtir.

     

  • Ræktun jarðaberja og rabarbara

    Ræktun

    • Forræktuð inni við 10-12°C á sólrríkum stað.
    • Settar grunnt í pottamold blandaða sandi ca. 12cm pott.
    • Of mikill hiti veldur blaðvexti en litlum rótarvexti.
    • Plantaðar út í beð með góðu frárennsli með 25 cm á milli plantna.
    • Jöfn vökvun tryggir betri ávexti.
  • Ræktun ávaxtatrjáa

    Epl-, plómu-, peru- og kirsuberjatré

    Skjól og staðsetning

    Í upphafi er mjög mikilvægt að huga að skjóli í garðinum. Ávaxtatré eiga ekki möguleika á að mynda aldin ef þau eru í stöðugum barningi við vindinn. Tré, limgerði og skjólveggir skapa umhverfi þar sem aldintré þrífast. Í skjólinu skapast staðbundið veðurfar sem er oft nokkrum gráðum heitara en mælingar Veðurstofunnar segja til um. Þessi viðbótarhiti er mikilvægur þroska og vexti epla-, peru-, plómu og kirsuberjatrjáa. Það er því lykilatriði að velja trénu góðan stað, bæði bjartan og heitan. 

    Sjá greinina í heild sinni. 

  • Nokkrar tegundir aldinjurta til að rækta í gróðurhúsum

    Ræktun í gróðurhúsum

    Þeir sem búa svo vel að eiga upphituð gróðurhús eiga möguleika á að rækta upp sitt eigið aldinmeti. Þar er um ýmislegt að velja. Tómatar, paprikur, melónur og eggaldin eru meðal margra skemmtilegra aldinjurta sem gaman er að spreyta sig á.  Þær eru ættaðar frá hitabeltinu og þurfa talsverðan hita og birtu til að geta gefið af sér uppskeru.

    Melóna 

    Cucumis mefo er einær planta sem verður um 2 m. á hæð og myndar margar hliðargreinar.  Hún þrífst best við 18-25 °C. Hún þarf frjóan jarðveg og talsvert nitur og er yfirleitt sáð beint í uppeldispottinn.  Forræktunin tekur um það bil 6 vikur en þá þarf að setja við hana prik eða uppbindingu til stuðnings. Það er líka hægt að rækta melónu lárétta en gróðurhúsið nýtist betur ef hún er uppbundin. Bil á milli plantna ætti að vera um 40 c.m. og þær þurfa reglulega vökvun og góða áburðargjöf á 10-14 daga fresti. Melónur þarf yfirleitt að handfræva.

    Paprika 

    Capsicum annuum var. glossum er runnakennd, einær, verður c.a. 80 c.m. á hæð og c.a. 50 c.m. að umfangi.  Aldin hennar eru 3-15 c.m. á hæð en 3-8 c.m. að þvermáli.  Litur aldinanna er ýmist grænn, rauður, gulur, eða appelsínugulur.  Þetta er hitabeltisplanta og henni líður vel í 20°C hita og í miklum raka, 70-80%.  Hitinn má aldrei fara niður fyrir 15°C né upp fyrir 30°C. Ef hitinn er of mikill myndar hún færri aldin.  Paprikan vill frjóan djúpan jarðveg, 8-12 c.m. potta en hefur ekki mikla þörf fyrir nitur.  Það tekur 8-10 vikur að forrækta papriku. Henni er sáð í bakka og dreifplantað í uppeldispotta eftir 2.-3. vikur.  Mikilvægt er að halda háum hita meðan á spírun stendur (23-25°C) en lækka svo hitann í 20°C eftir dreifsetningu.  Hæfilegt bil milli plantna er 45-50 c.m. á hvern veg. Paprikan þarf uppbindingu og  jafnan jarðvegsraka.  Hún er sérstaklega viðkvæm fyrir spunamaur og blaðlús.

    Tómatar

    Lycopersicon escukentum  eru einærir.  Þeir hafa tvennskonar vaxtarlag. Annarsvegar eru það einstofna einstaklingar (klifurplöntur) og  hins vegar runnakenndir. Á einstofna plöntum er blómaklasinn efstur en á þeim runnakenndu myndast margar hliðargreinar  sem allar enda í blómaklasa. Tómatar vaxa best við 20-24°C.  Ef hitinn fer niður fyrir 16°C eða upp fyrir 27°C vaxa þeir mjög lítið. Tómatplöntur þurfa mikla birtu og  frjóan vel framræstan jarðveg.  Það er nauðsynlegt að sótthreinsa eða skipta um jarðveg árlega til að forðast sjúkdóma og meindýr.  Tómatplantan þarf djúpan jarðveg og það tekur 8 vikur að forrækta hana.  Henni er sáð í bakka og síðan, þegar fyrstu kímblöðin sjást eru  plönturnar   látnar í 12 c.m. botnlausa uppeldispotta. Ágætt bil á milli plantna er c.a.45 c.m. þannig er hægt að hafa góðan gang til að komast vel að þeim.  Aldinin eru hnöttótt, c.a.5-10 c.m. að þvermáli, oftast rauð.  Plönturnar þurfa uppbindingu, yfirleitt með vír en hann þar að vera í það minnsta 2 m. langur. Tómatplöntur  þurfa góða vökvun en meðan þær eru ungar geta þær fengið rótarfúa og  grámyglu séu þær vökvaðar of mikið.   

    Eggaldin 

    Solanum melongena er skammlífur runni og aldinin eru oftast nýtt á fyrsta ári.  Plönturnar verða 60-70 c.m. háar og 50 c.m. að ummáli. Aldinin eru talsvert breytileg að lögun, stundum egglaga, perulaga eða kringlótt.  Þau vega 200-500 gr. og eru dökkfjólublá eða gulgræn en einnig eru til hvít.  best er að rækta þau í 24°C hita að deginum en hitinn má fara niður í 18°C á næturnar.  Mismunur á hita dags og nætur má helst ekki vera meiri en 5°C.  Plantan þarf frjóan, rakan jarðveg og hefur miðlungs niturþörf.  Sá skal í hólfaða bakka en síðan, þegar plönturnar hafa náð c.a. 8 c.m. hæð,er þeim dreifplantað í 12 c.m.  uppeldispotta.  Þegar fyrstu blómin springa út er tímabært að panta í beð og hafa bilið á milli plantnanna 40-50 c.m. svo hægt sé að hafa gott aðgengi að hverri plöntu.  Það getur verið þörf á að binda plönturnar upp annað hvort við stuðningsprik eða nota vír til að hjálpa þeim uppá við.  Á tveggja vikna fresti er gott að dreifa alhliða áburði á beðið.  

    Nú er um að gera að láta reyna á ræktunarhæfileikana við ræktun á aldinmatjurtum.
    Gangi ykkur vel.
     
    Með aldinkveðju
    Magnús Jónasson
    Skrúðgarðyrkjufræðingur.

     

  • Sveppir og sveppatínsla

    Villtir matsveppir

    Ef safna á sveppum til átu er mikilvægt að vanda valið og neyta aldrei sveppa sem ekki hafa verið greindir sem hæfir til neyslu. Þrátt fyrir að hér á landi vaxi fáir eitraðir sveppir er aldrei of varlega farið og óþarfi að fara út í tilraunastarfsemi. 

    Þrátt fyrir að tiltölulega fáar tegundir af eitruðum sveppum finnist hér á landi má þó nefna tegundir eins og berserk, slöttblekil, köngulsveppi, viðarkveif, garðlummu, trektlur og höddur.  Flestir þessir sveppir valda magaverkjum, uppköstum, niðurgangi og jafnvel ofskynjunum.  Með hlýnandi loftslagi og aukinni ræktun má búast við að fjölgi í fungu landsins og því full ástæða til að fara varlega þegar sveppir eru tíndir til neyslu.

    Helstu sveppategundirnar

    Til að greina sveppi er gott að hafa góða bók við höndina. Byrjendum er ráðlagt að læra að þekkja nokkrar algengar tegundir til að byrja með, t.d. kúalubbi, furusveppur og gorkúla, en láta aðra sveppi eiga sig í fyrstu. Smám saman eftir því sem þekkingin eykst er svo nýjum tegundum bætt við í söfnunarferðum.

    Villtir íslenskir matsveppir eru allir hattsveppir en lögun hattsins getur verið mismunandi til dæmis hvelfdur, flatur eða kúlulaga svo dæmi séu tekin. Ef er litið undir hatt ýmissa stórsveppa eru þar annað hvort fanir eða pípur og lítið mál er að þekkja þær í sundur. Undir hatti pípusveppa er röð lóðréttra pípa sem minna einna helst á svamp. Fansveppir hafa aftur á móti lóðrétt blöð eða fanir sem liggja undir hattinum.

    Allir nema einn pípusveppur, piparsveppur, sem hér hefur fundist eru ætir. Þeirra á meðal eru lerki- og furusveppir, kóngssveppurinn og kúalubbi.

    Sveppatímabilið

    Sveppir skjóta upp kollinum síðsumars í ágúst og fram eftir hausti í september og jafnvel fram í október ef vel viðrar.  Mest er um þá í skóglendi og hefur tegundum matsveppa fjölgað með aukinni skógrækt en þeir finnast einnig í mó- og graslendi.  Sumar tegundir vaxa í kringum ákveðnar trjátegundir eins og furusveppur og lerkisveppur en aðrar lifa í sambýli við margar tegundir eins og kóngssveppur og kúalubbi. Best er að tína sveppi 3 til 4 dögum eftir rigningu og í þurru veðri því annars eru þeir slepjulegir viðkomu. Þá er líka mest af þeim.Sveppir eru bestir á meðan þeir eru ungir og óskemmdir af áti snigla eða skordýra. Þegar sveppir eru tíndir skal taka neðst um stafinn og snúa honum varlega og losa þannig frá jarðveginum. Einnig má skera þá lausa með beittum hníf. Ekki er ráðlagt að kippa sveppum upp því þá er hætt við að ímurnar eða sveppþræðirnir skemmist. Ráðlegt er að tína sveppi í ílát sem loftar vel um t.d. körfu eða kassa en aldrei í plastpoka eða plastílát því þá rotna þeir.

    Hreinsun á sveppum

    Gott er að skera neðsta hlutann af stafnum burt og hreinsa skal allt lauf og óhreinindi af um leið og sveppirnir eru tíndir og er ráðlegt að fjarlægja allar skemmdir strax. Ef til stendur að þurrka sveppina er gott að skera þá í tvennt til að sjá hvort þeir eru maðkaðir. Möðkuðum sveppum verður að henda og er best að gera það á staðnum.  Þeir sem safna sveppum ættu að venja sig á að ganga vel um sveppamóinn og hvorki taka upp né sparka um koll sveppum sem ekki er ætlunin að safna. Sveppir eru nauðsynlegur hluti af hringrás náttúrunnar og enginn ástæða til að skemma þá að ástæðulausu.

    Geymsla á sveppum.

    Sveppir eru viðkvæmir og geymast illa og óráðlegt er að geyma ferska sveppi lengur en sólarhring eftir að þeir eru tíndir. Algengasta geymsluaðferðin er frysting eða þurrkun.
    Ef frysta á sveppina skal hreinsa þá vel og skera í bita. Hita skal bitana við vægum hita á pönnu og láta þá svo kólna. Að því loknu skal setja þá í ílát og í frysti.Við þurrkun er best að sneiða sveppina og dreifa þeim á grind eða grisju. Sveppirnir þurfa að vera orðnir skraufþurrir fyrir geymslu. Ef þeir eru harðir og stökkir eru þeir nógu þurrir, en ef þeir eru seigir verður að þurrka þá betur. Þurrkaða sveppi má setja beint út í súpur og pottrétti en ef á að steikja þá, þarf að láta þá liggja í bleyti í nokkrar klukkustundir fyrir matreiðslu.

    Vilmundur Hansen

Sjá fleiri spurningar & svör