Þegar flytja á stór tré

Tré eru föst í jörðinni og þess eðlis að þau flytja sig ekki úr stað af sjálfsdáðum. Stundum kemur upp sú staða, fyrir einhverjar sakir, að tré henta ekki lengur á þeim stað sem þau standa. Breyta þarf skipulagi eða þá að tré sem einu sinni var lítill kvistur hefur vaxi og breyst í stór og mikið tré sem skyggir á sól og lokar fyrir útsýni. Við slíkar aðstæður er tvennt í boði. Fella tréð eða flytja það sé það hægt.
Þegar ákvörðun um að flytja tré er tekin er einkum þrennt sem hafa þarf í huga. Að tréð sé það fallegt að það taki því að flytja það. Að tréð sé af tegund sem vert er að halda upp á og að aldur þess sé ekki það hár að tréð drepist fyrir aldurssakir innan fáeinna ár eða að tréð hafi persónulegt gildi.

Rótarskurður

Allra best er að hefja undirbúning fyrir flutningi trjáa ári fyrr en flutningurinn þeirra fer fram. Fyrra árið á að grafa holu og rótarskera hálfan hring umhverfis tréð. Stærð rótarhnaussins sem fylgir trénu fer eftir stærð þess. Þumalfingurreglan segir að margfalda eigi þvermál stofnsins með tíu og rótarstinga í þeirri fjarlægð frá stofninum. Hafa verður í huga að tré með stóran rótarhnaus eru mjög þung og taka verður tillit til þess þegar tré eru rótaskorinn. Ef um mjög stór tré er að ræða er óvinnandi vegur að flytja þau nema með öflugum vinnuvélum. Því er gott að að sýna fyrirhyggju og flytja tré áður en þau verða of stór. Þegar búið er að grafa 40 til 50 sentímera djúpan hálfhring kringum tréð og klippa á ræturnar á að fylla holuna með lausum jarðvegi. Hafa skal rótarskurðinn sem allra hreinast og gæta þess að brjóta ekki rætur að óþörfu.
Undirbúa á jarðveginn á þeim stað sem tré á að standa í framtíðinni ári áður en tréð er flutt. Stinga skal upp jarðveginn og blanda hann með lífrænum jarðvegi. Ári seinna er tré rótarstungið hinum megin og hnausnum pakkað í striga eða jarðvegsdúk.

Flutningur

Gæta verður þess að sem minnst af jarðvegi hrynji af rótunum meðan á flutningi stendur svo að ræturnar skaðist ekki að óþörfu. Einnig þarf að passa vel að rótarhnausinn þorni ekki í flutningi. Ef flytja á tréð langa leið í opinni kerru eða á palli er nauðsynlegt að pakka því í striga til að varna því að laufið vindþorni ekki á leiðinni. Rætur þola ekki beina sól og því mikilvægt að hlífa hnausnum við beinu sólskini.

Gróðursetning

Til að auðvelda niðursetningu trésins á nýja staðnum er best að hafa holuna sem það fer í rúma. Það auðveldar alla vinnu og kemur í veg fyrir að rótum sé þvingað ofan í holuna. Jarðveginn kringum hnausinn verður líka lausari í sér eftir að tréð er komið niður og auðveldar því að skjóta rótum. Ekki má setja tré dýpra en það stóð áður, sumar tegundir þola það að vísu en aðrar alls ekki. Til að tryggja að tré standi af sér veður og vinda fyrst eftir gróðursetningu og vaggi ekki til í holunni verður að reka niður stoð við hliðina á því og binda tréð við hana með gúmmíi.
Eftir að búið er að koma trénu fyrir í holunni og þjappa jarðveginum gætilega að hnausnum á að vökva vel og gæta þess að hnausinn þorni ekki fyrstu vikurnar eftir gróðursetningu.

Vor eða haust

Að jafnaðir er talið betra að flytja tré á vorin, þau ná þá að skjóta rótum á nýja staðnum yfir sumarið og festa sig fyrir veturinn. Í góðu árferði geta rætur trjáa vaxi frá því í apríl og fram í október og ættu því tré sem er flutt snemma að getað fest sig í jarðveginum fyrir næsta vaxtarskeið. Hvort sem tré eru flutt að vori eða hausti verður að gæta þess að staga þau vel niður svo þau falli ekki um koll.

 

Heimild: Árstíðirnar í garðinum.

Vilmundur Hansen