Sumar

 • Júlíblóm

  Júlí er tími írisa, blágresis, drottningablóma (nellika) og fjölda annarra fjölærra blóma. Dæmi um íristegundir sem standa nú í blóma eru rússaíristjarnarírisengjaíris og bretaíris. Blágresisættkvíslin er risastór og inniheldur mikinn fjölda úrvals góðra garðplantna. Á meðal þeirra sem blómstra um þetta leiti eru garðablágresiroðablágresiliðablágresiskrautblágresiarmeníublágresimýrablágresi og í steinhæðinni dalmatíublágresiblóðgresigrágresi og tíbetblágresi.  Það eru þó drottningablómin, nellikurnar, sem eru í aðalhlutverki í steinhæðinni núna. Fjaðradrottning og dvergadrottning eru þær algengustu, báðar til í fjölda mismunandi litbrigða frá hvítu og bleiku yfir í rautt. Keisaradrottning er önnur virkilega falleg tegund. Murur eru líka áberandi í júlí. Í byrjun júlí skartar jarðaberjamuran sínum eldrauðu blómum og þegar líða tekur á mánuðinn taka aðrar við eins og silkimurablendingsmura og blóðmura. Aðrar fjölærar plöntur í blóma núna eru t.d. skrautlúpínurtyrkjasóldraumsólfingurbjargarblómkínahnappur og friggjarlykill.

  Í júlí fara fyrstu rósirnar líka að blómstra. Þyrnirósirnar og aðrar villirósir eins og t.d. fjallarósin eru fyrstar og fljótlega bætast fyrstu ígulrósirnar við. 'Wasagaming' og 'Agnes' eru yfirleitt þær fyrstu til að byrja að blómstra. Á meðal annarra rósa í blóma núna eru 'Louise Bugnet', Maigold', 'Pike‘s Peak' (Hringbrautarrósin)‚ gullrós 'Bicolor' og Dornrós.

  Af blómstrandi runnum eru sýrenurnar og ýmsir hvítblóma kvistir eins og t.d. birkikvistur og stórkvistur sennilega mest áberandi í júlí. Aðrir fallegir runnar í blóma núna eru stjörnutoppur og brárunni ‚Siska‘. Svo styttist í að ljúfur kúlutyggjósilmur snækórónunnar leggist yfir garðinn.

   

  Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Þyrnirósir

  Þyrnirósirnar eru loksins byrjaðar að blómstra. Fyrstu blómin hafa oftast byrjað að springa út í lok júní en kuldakastið í vor hefur greinilega tafið þær talsvert.

  Þyrnirósir vaxa best í frekar sendnum og rýrum jarðvegi. Fái þær of mikinn áburð setja þær alla orku í blaðvöxt og blómgun verður lítil eða engin. Þyrnirósin er með hvítum, einföldum blómum. Hún vex villt á örfáum stöðum á Íslandi en er ekki mikið til skrauts og blómstrar sjaldan. Þær plöntur sem vaxa villtar eru alfriðaðar.

  Þyrnirósablendingar komu fyrst fram um aldamótin 1800 og voru mjög vinsælir á 19. öld. Þegar síblómstrandi rósayrki komu fram á sjónarsviðið döluðu vinsældir þyrnirósanna og mörg yrki sem voru í ræktun hafa glatast. Þær eiga samt fullt erindi í íslenska garða þar sem þær eru afar harðgerðar og blómstra á undan flestum öðrum rósum. Blómin geta verið einföld eða fyllt, oftast hvít eða bleik, en það eru líka til nokkur yrki með gulum og rauðbleikum blómum.

  Nokkur góð yrki sem óhætt er að mæla með eru:

  'Totenvik' með hvítum, hálffylltum blómum.

  'Katrín Viðar' með óvenju stórum, hvítum, einföldum blómum sem eru með fölbleikri slikju þegar blómin eru að springa út.

  'Juhannusmorsian' sem er finnskt yrki með fylltum, ljósbleikum blómum.

  'Poppius' með fylltum, bleikum blómum.

  'Glory of Edzell' með dökkbleikum, einföldum blómum með kremhvítri miðju.

  'Red Nelly' með rauðbleikum, einföldum blómum.

  'Harison‘s Yellow' sem er blendingur þyrnirósar og gullrósar með sterkgulum, fylltum blómum sem lýsast ekki með aldrinum.

  Þyrnirósayrkja má svo finna ýtarlegri lista yfir fjölda þyrnirósayrkja sem hafa verið reynd hérlendis.

  Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Sumarverkin í garðinum

  Garðurinn stendur í blóma og búið að planta flestu því sem planta þarf. Búið að hreinsa til og snyrta eftir veturinn. Garðhúsgögnin komin út. Nú er tíminn til að njóta garðsins. Það er þó engin ástæða til að kvíða verkefnaskorti. Fyrir þá sem njóta þess að vinna í garðinum þegar vel viðrar og hafa tímann til þess er alltaf hægt að finna sér eitthvað til dundurs.

  Grasflötina þarf að slá reglulega. Ég slæ hana oft svo ég þurfi ekki að raka grasið. Ég er með létta, handknúna slátturvél sem dugar mér vel. Auðvelt að kippa henni út, ekkert vesen með bensín, ekkert vesen að koma henni í gang, engar snúrur og létt að ýta henni. Það er kannski korters trimm að trilla henni yfir grasflötina. Létt trimm.

  Kantarnir eru ekki alveg eins fljót afgreiddir. En það er svo sem ekkert sem segir að þeir þurfi alltaf að vera stífklipptir og skornir. Ég læt mér nægja að snyrta þá einu sinni til tvisvar yfir sumarið.

  Svo eru það fjölæru plönturnar. Margar hverjar hafa náð þeirri hæð að þær þurfi á stuðningi að halda til að brotna ekki í næsta roki eða leggjast út af. Það er því góður tími núna til að huga að því. Það eru til ýmsar gerðir af plöntustoðum og kannski engin ein betri en önnur. Ég hef þó mest notað bambusprik og bast til að binda þær plöntur upp sem þurfa á því að halda og hefur það reynst ágætlega. Sem betur fer þarf þó ekki að standa í því að binda allar fjölærar plöntur upp, sumar standa keikar alveg hjálparlaust og lágvaxnar plöntur þurfa að sjálfsögðu engan stuðning.

  Það er líka gott að klippa burt blómstöngla þegar blómgun er lokið nema ætlunin sé að safna fræi. Þá er jafnvel nóg að skilja bara nokkra stöngla eftir og klippa restina burt. Þetta er sérstaklega mikilvægt með tegundir sem hafa mikla tilhneigingu til að sá sér, en almennt séð verða plönturnar líka snyrtilegri ef blómstönglarnir eru klipptir burt. Þó eru til plöntur sem eru fallegar eftir að blómgun líkur og ástæða til að leyfa þeim að halda sér. Þetta á t.d. við um kasmírsalvíu.

  Ekki var hægt að stóla á rigninguna í júni til að vökva garðinn og þá þarf að draga fram garðslönguna og vökva. Það getur jafnvel þurft að vökva þó það rigni því oft dugði þessi litla rigning sem kom þó í júní varla til að rétt væta í yfirborði moldarinnar. Hvort notaðir eru úðarar eða handvökvað er smekksatriði.

  Svo er það illgresið. Bölvað illgresið myndu margir segja. Það eru ýmsar leiðir færar í baráttunni við það. Það er hægt að hylja beð með dagblöðum og kurli, möl, þekjuplöntum o.s.frv. Það er hægt að eitra fyrir því. Þar sem mér er illa við að eitra garðinn minn læt ég mér nægja að reyta það burt. Mestu skiptir að fjarlægja það áður en það þroskar fræ, þá nær það aldrei að verða vandamál.

  Þessi vel þekktu sumarverk eru kannski ekki í uppáhaldi hjá öllum, en það er undir hverjum og einum komið hversu vel snyrtur garðurinn er og því þurfa þau ekki að vera nein kvöð. Svo er bara fátt dásamlegra en að gleyma sér i garðinum á fögru sumarkvöldi. Það endurnærir sálina.

   Rannveig Guðleifsdóttir

  Garðaflóra

 • Júníblóm

  Júní er hálfnaður og loksins er hitastigið farið að stíga upp á við og minna á sumar. Það er mesta furða hvað gróðurinn hefur lítið látið þennan kulda á sig fá og júníblómin blómstra nú hvert af öðru. En hvaða plöntur eru það helst sem skarta sínu blómskrúði á þessum tíma?

  Júní er tími vatnsbera og goðalykla.Vatnsberar eru af sóleyjaætt og hafa líka verið nefndir sporasóleyjar. Þeir hafa það óorð á sér að vera fulliðnir við að dreifa sér um allt og því ekki velkomnir í öllum görðum. Þó eru til vatnsberategundir sem haga sér skikkanlega og leggja ekki garðinn undir afkomendur sína. Þeir fyrstu til að blómstra eru blævatnsberi og stjörnuvatnsberi. Blævatnsberinn er lágvaxin tegund, varla meira en 30 cm á hæð með tvílitum bláum og hvítum blómum. Til eru sortir með hvítum og bleikum blómum líka, sumar enn smávaxnari en aðaltegundin. Stjörnuvatnsberinn er meðalhár með risastórum blómum á mælikvarða vatnsbera sem eru annað hvort tvílit, hvít og blá eða einlit blá. Sá einliti er líka þekktur undir nafninu vorvatnsberi. Báðar þessar tegundir sá sér lítið og hef ég aldrei fundið sjálfsáða stjörnuvatnsberaplöntu í garðinum mínum. Sem er eiginlega synd því hann er svo dásamlega fallegur. Þegar líða tekur á seinni hluta mánaðarins taka svo garðavatnsberarnir við með sínum undursamlega fallegu og litríku blómum. Ég á ljúfar æskuminningar af sporasóleyjunum í garðinum hans afa sem mér fannst að hlytu að vera þau dásamlegustu blóm sem fyrirfinndust á jörðinni. Og þeir eru enn í miklu uppáhaldi hjá mér. Þeir eru kannski ekki alveg eins stilltir og fyrrnefndu tegundirnar; ég hef fengið nokkrar dásamlega fallegar, sjálfsáðar plöntur af þeim, en þeir eru ekkert að leggja garðinn undir sig. Skógarvatnsberinn sér um það.

  Goðalyklar er önnur ættkvísl sem er mjög áberandi um þetta leiti. Þetta eru lágvaxnar plöntur af maríulykilsætt sem flestar eiga heimkynni sín í Norður-Ameríku.  Þær eru allar með bleikum eða hvítum blómum, harðgerðar og dásamlega fallegar. Ég er með fimm tegundir í garðinum mínum sem eru allar mjög keimlíkar en þó eru tvær sem skera sig aðeins úr. Hjartagoðalykillinn er sá eini sem blómstrar hvítum blómum, sem eru mun minni en á hinum tegundunum. Laufið er líka áberandi tennt en hinar tegundirnar eru allar með heilrenndum blöðum. Brekkugoðalykill ber þó af þeim öllum að mínu mati. Mjög gróskumikill með fallega ljósbleikum blómum.

  Vorblómstrandi lyklarnir eru nú búnir en aðrir taka við. Nú eru það kínalykilsdeildin og maríulykilsdeild sem eru í aðalhlutverkum.  Í kínalykilsdeildinni eru það kínalykillklukkulykill og fellalykill sem eru byrjaðir að blómstra og harnarlykillinn í maríulykilsdeild. Allt saman úrvalsgóðar og harðgerðar garðplöntur sem þarf ekkert að hafa fyrir.

  Páskaliljurnar eru flestar að fölna og túlipanarnir hafa tekið við af þeim. Mörgum finnast páskaliljurnar heldur ræfilslegar þegar blómgun er lokið og því er gott ráð að klippa burtu blómstönglana eftir blómgun. Þá fer heldur ekki óþarfa orka í að þroska fræ og laukarnir safna meiri forða fyrir blómgun næsta vors. Það sama á við um túlipanana þegar þeir hafa lokið blómgun sinni. Það er þó mikilvægt að klippa laufið ekki burt fyrr en það fer að fölna því annars ná laukarnir ekki að safna forða fyrir næsta vor.

  Aðrar tegundir sem eru einkennandi fyrir júnímánuð eru silfursóleygullhnappar, ýmsar deplur eins og t.d. kósakkadeplanjakobsstigarblásól og í steinhæðinni eru fjallablöðkurnar að byrja að opna sín ævintýralega fallegu blóm ásamt ýmsum lágvöxnum bláklukkum.

  Rannveig  Guðleifsdóttir
  Garðaflóra

 • Bóndarósin

  Bóndarósin er blóm himinsins.   Í mínum huga minnir bóndarósin (Paeonia) mun frekar á fallega heimasætu í sveit, eilítið bústna og rjóða í kinnum, en íslenskan bónda þrátt fyrir að nafnið sé búsældarlegt. Nafnið bendir aftur á móti til þess að fyrstur bóndarósirnar í íslenskum görðum eigi uppruna sinn að rekja til Danmerkur þar sem plantan kallast bonderose. Sunnar í Evrópu eru bóndarósir aftur á móti kenndar við gríska lækninn Paion sem samkvæmt Ilíonskviðu Hómer á að hafa grætt sár Aresar, sem hann hlaut í Troju-stríðinu, með smyrslum sem unninn voru úr jurtinni. Elstu heimildir um Paion eru aftur á móti skráðar á leirtöflur sem fundust við fornleifauppgröft í Knossos á eyjunni Krít og benda til þess að jurtin hafi verið notuð til lækninga frá því á tímum Forn Grikkja. Kínverjar segja að bóndarósin sé blóm himinsins og hún er jafnframt þjóðarblóm Kína.

  Til skamms tíma tilheyrðu bóndarósir ætt sóleyja en í dag teljast þær til sérstakrar ættar sem nefnist Paeoniaceae eða bóndarósarætt. Innann ættkvíslarinnar Paeoniu eru svo um þrjátíu og fimm tegundir sem skiptast í jurtir og runna. Innan hverra tegundar er svo fjöldi yrkja sem áhugamenn um ræktum bóndarósa hafa búið til. 

  Flestar ef ekki allar bóndarósir bera stór blóm sem eru til í fjölbreytum litum. Hvít, gul, bleik, rauð og allt þar á milli. Lögun blóma er líka fjölbreytt og geta verið einföld upp í það að vera fyllt. Sumar bóndarósir auka enn á fegurð sína með því að gefa frá sé góðan ilm og voru krónublöð þeirra í eina tíð notuð til ilmvatnsgerðar. Bóndarósir eru fallegra sem afskorinn blóm í vasa.

  Sú bóndarós sem algengust er í görðum hér á landi kallast Paeonia officinalis á latínu og finnst villt við Miðjarðarhafið og á grísku eyjunum í Eyjahafinu. Tvær tegundir bóndarósa finnast villtar í Norður Ameríku en flestar eiga þó náttúruleg heimkynni í Mið Asíu og Kína. Ræktum bóndarósa á sér langa sögu í Kína og voru þær í miklum metum í görðum keisaranna, bæði sem augnayndi og sem lækningarjurtir og má finna heimildir um ræktun þeirra að minnsta kosti tvöþúsund ár aftur í tímann. Ræktunarafbrigðin skiptu hundruðum og mikil áhersla var lögð á fjölbreytni lita og í blómlögun. Kínverjar gáfu yrkjunum yfirleitt nöfn sem tengdust litnum en inn á milli mátti finna skondinn heiti eins og Drukkna hjákonan. Á Tang skeiðinu (618 til 906) naut bóndarósin sérstakrar verndar keisarans og jókst útbreiðsla hennar mikið. Plantan þykir enn í dag ómissandi til lyfjagerðar og talinn lækna flest mannamein.

  Bóndarósir skipta einnig veglegan sess í bókmenntum og listum í Kína. Ort eru ljóð um fegurð hennar og hún mikið notuð sem mótíf til skreytinga á postulín, í málverk, vefnað, útsaum og til útskurðar. Í borginni Lijang í Yunnan héraði gróðursetur fólk bóndarósir í garðinum sínum og býður til veislu og borðar úti undir skrúða blómstrandi bóndarósarunna sem geta náð allt að sex metra hæð. Elstu bóndarósarrunnarnir sem vitað er um í Kína eru farnir að nálgast fimmta hundraðið og stærsta blómið sem mælst hefur var tuttugu og átta sentímetrar í þvermál. 

  Fyrstu nytjar manna af bóndarós í Evrópu tengjast að öllum líkindum lækningum. Grikkir til forn nýtu alla hluta jurtina til lækninga og þótti hún jafngóð til að lækna geðveiki, tannpínu, gallsteina, slæmar draumfarir, getuleysi og losa konur undan barnsnauð. Fræ plöntunnar voru þrædd upp á band og börn látinn bera þau um hálsinn til að bægja burt hinu illa auga og vondum öndum. Öruggast þótti að safna jurtinni á nóttinni því sagt var að bóndarósin nyti verndar spætunnar og að nóg væri að spætan sæi til þegar henni var safnað til að gera lækningamátt plöntunnar að engu eða jafnvel hættulegan. Fyrstu runnabóndarósirnar bárust til Evrópu árið 1789 og var það Sir Josep Banks forstöðumaður Kew grasagarðsins í London sem fékk þær sendar frá Kína. Banks var mikill Íslandsvinur og ferðaðist um landið 1772. Lærlingur hans William Jackson Hooker, síðar forstöðumaður Kew-garðsins, var með í för þegar Jörgen Jörgensen síðar hundadagakonungur kom til Íslands. Sagan segir að Hooker hafi verið að safna plöntum á hæðinni þar sem Landakotskirkja stendur í dag á meðan Jörundur tók völd. Ekki er vitað með vissu hver var fyrstur til að flytja bóndarósina til Íslands en óneitanlega kemur Jón Rögnvaldsson stofnandi og fyrrum forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri sterklega til greina. Bóndarósir hafa verið lengi í ræktun á Akureyri og þrífast vel. Það er þó allt eins líklegt að einhver áhugasamur ræktandi hafi flutt fræ eða rótarhnúð með heim í töskunni í siglingu í kringum seinni heimstyrjöldina og að “íslenska” bóndarósin sé afkomandi hennar. Í dag eru um þrjátíu tegundir bóndarósa í rækt hér á landi og þar af nokkrar runnabóndarósir.

  Bóndarósir eru yfirleitt auðveldar í ræktun eftir að þær hafa komið sér fyrir. Plantan er langlíf og líður best ef hún fær að standa lengi óhreyfð á sama stað. Plönturnar geta orðið fyrirferðamiklar með tímanum og því best að ætla þeim gott pláss strax í upphafi. Þeim líður best í þurrum, djúpum, frjósömum og eilítið basískum jarðvegi. Jurtkenndar bóndarósir geta orðið 50 til 100 sentímetrar á hæð allt eftir tegund og er vöxtur þeirra kúlulaga. Vegna þunga blaða og blóma eiga plönturnar eiga það til að leggjast útaf fái þær ekki stuðning. Blómgun á sér yfirleitt stað í lok júní og fram í júlí en að henni lokinni skarta plantan fallegum blaðskrúð. Auðvelt er að fjölga bóndarós með skiptingu en einnig er hært að rækta nýjar plöntur af fræi.

  Fræ bóndarósarinnar hefur harða skurn og getur því verið lengi að spíra er gott að rispa fræið með hníf eða sandpappír fyrir sáningu og flýta þannig fyrir vatnsupptöku þess. Fræið þarf að fara í gegnu hita- og kuldaskeið áður en það tekur við sér og spírun tekur yfirleitt ár.

  Ef skipta á bóndarós skal grafa upp rótina í heilu lagi að haust, lok ágúst eða byrjun september, og kljúfa hana í nokkra hluta allt eftir stærð. Gætið þessa að það sé að minnsta kosti eitt brum á hverjum hluta. Bóndarósir hafa gildar forðarætur sem geta orðið mjög stórað og legið djúpt hafi plantan fengið að vaxa lengi á sama stað. Eftir að búið er að kljúfa rótina skal koma nýju hlutunum fyrir í vel unnum, frjóum og góðum jarðvegi sem blandaður hefur verið með búfjáráburði að minnsta kosti fjörutíu sentímetra niður. Þegar rótarbút af bóndarós er komið fyrir í jarðvegi verður að gæta þess að stinga honum ekki of djúpt í moldina. Fjórir til fimm sentímetrar undir yfirborðinu er passlegt, sé stungið dýpra er plantan lengur að koma upp og það dregur úr blómgun. Sé aftur á móti stungið grynnra getur rótin skemmst vegna vetrarkulda. Ræturnar alls ekki að standa í bleytu og fúna fljótlega við slíkar aðstæður. Bóndarósir skjóta fyrstu sprotunum upp snemma á vorin og því getur reynst nauðsynlegt að skýla þeim ef það kemur kuldakast. Einnig er nauðsynlegt að skýla viðkvæmustu tegundunum yfir veturinn að minnsta kosti á meðan þær eru litlar.

 • Sumargræðlingar - kennslumyndband

  Hér má sjá kennslumyndband hvernig sumargræðlingar útbúnir.

   

 • Matjurtir - myndband

  Hér má sjá áhugavert myndband um matjurtir sem hægt er að rækta.

   

 • Sumarblóm - kynningarmyndband

  Hér má sjá kynninarmyndband á sumarblómum með Vilmundi Hansen

   

 • Sáning sumarblóma

  Vorverkin

  Sáning sumarblóma er eitt af vorverkunum.  Reikna má með 4-8 vikum þar til hægt er að planta út á vaxtarstað. Þó eru til nokkrar harðgerar, fljótvaxnar tegundir, sem hægt er að sá beint út á vaxtarstað í maí, ef aðstæður leyfa. Aftan á fræpökkunum eru upplýsingar ef meðhöndla þarf fræið sérstaklega.

  Notkun sáðmoldar

  Ef sáð er í bakka eða potta er handhægast að nota til þess gerða sáðmold, þar sem hún hefur rétta samsetningu og á að vera laus við sjúkdóma og meindýr.  Athugið að þvo vel úr heitu vatni öll áhöld og potta sem nota skal fyrir sáningu, sérstaklega ef þau hafa verið notuð áður,  það borgar sig að eyða eðeins meiri tíma til að fá upp heilbrigðar plöntur.

  Sáðtöflur

  Annar möguleiki er að nota sáðtöflurnar, sem eru samanþjöppuð svarðmold eða kókosmold, sem þrútnar út í vatni og myndar nokkurs konar moldarpott með neti utan um. Byrja þarf á að láta sáðtöfluna drekka í sig vatn áður en  fræið  er sett í moldarpottinn.  Ræturnar vaxa gegnum netið og má síðan setja pottinn beint í stærri pott með gróðurmold þegar þar að kemur.   

  Annars er algengasta aðferðin að hella 6-7 cm þykku lagi af sáðmold í bakka og þjappa síðan létt yfir þannig að yfirborðið sé slétt.  Moldin er vökvuð þannig að hún verði vel rök, en ekki blaut.  Fræinu stráð yfir og síðan hulið með léttri moldinni.  Þumarfingursregla er að moldarlagið sé tvisvar sinnum þykkara en fræið sjálft.  Mjög fingert fræ eins og brúðarauga, tóbakshorn og ljónsmunna er ekki hulið. 

  Merkingar

  Munið að merkja bakkann vel með nafni plöntunnar, tegund blóma og lit og athugið að halda moldinni mátulega rakri meðan á spírun stendur. Þau fræ sem eiga að spíra í birtu er sett laust plast sett ofaná,  en þau fræ sem eiga að spíra í myrkri er sett laust plast og dagblöð ofaná. 

  Birta og hiti

  Flest fræ spíra best á hlýjum stað (góður spírunarhiti er 18-20°C). en athugið að fylgjast vel með spíruninni og fjarlægið plast og dagblöða af um leið og þið sjáið spírur koma út úr fræjum því þá þurfa plönturnar að fá sem mesta birtu og loft.  Athugið að jafnvægi þarf að vera á milli birtu og hita.  Ef birtan er of lítil miðað við hita verður plantan teygð og veikluleg.

  Gróðursetning

  Þegar kímplönturnar fara að skipta blöðum er rétt að dreifplanta.  Þá eru plönturnar gróðursettar í góða gróðurmold í potta eða bakka. Best er að gróðursetja þær þannig að kímblöðin sér sem næst moldinni.  Hæfilegt vaxtarrými fyrst er 6x6 cm fyrir flestar plöntur.  Góð birta er nauðsynleg og athugið að flestar plöntur verða fallegastar ef þær eru ræktaðar við fremur lágt hitastig.  

  Passið að gleyma ekki að vökva en athugið að fara mjög varlega í áburðargjöf ef þið notið tilbúna gróðurmold því hún á að innihalda öll næringarefni í réttum hlutföllum.  Hætta er á skemmdum á viðkvæmum ungplöntum, ef þær fá of mikið af áburði.

  Ef allt hefur gengið vel má síðan planta í beð um mánaðarmótin maí-júni eftir því sem veður leyfir en athugið að gott er að herða plönturnar áður, t.d. með því að setja bakkana eða pottanan út á daginn og inn aftur á kvöldin í nokkra daga svo vöxturinn haldi eðlilegum hraða.

 • Lífrænar varnir

  Forvarnir

  Veljið hraustar plöntur, þær eru líklegri til að þola ágang sjúkdóma og meindýra.

  Veljið staðsetningu eftir þörfum plantnanna, og velja saman í beð plöntur með líkar þarfir varðandi vökvun og áburðargjöf. 

  Skiptiræktun  minnkar líkurnar á að sjúkdómar safnist fyrir í jarðveginum. Hún er fólgin í að færa einærar plöntur á milli staða árlega. Þannig nýtast einnig  þau mismunadi næringarefni sem eru í jarðveginum.  Þetta á við um matjurtir, sumarblóm,  lauk- og hnúðjurtir. 

  Varnir

  Hvítlaukur og mynta

  Gott ráð gegn meindýrum og sjúkdómum er að planta ákveðnum plöntum á milli.  Mörg meindýr treysta  á þefskynið og lyktsterkarplöntur eins og hvítlaukur og mynta villa um fyrir þeim. Þá er einnnig hægt að velja plöntur sem draga til sín vissa skaðvalda eins og t.d. Skjaldfléttu sem dregur að sér blaðlýs og svo flauelsblóm sem dregur að sveifflugur sem nærast á blaðlúsum.   

  Grænsápa og brennisteinsduft

  Grænsápa og brennisteinsduft er efni sem innihalda pýretín Pýretín er efni sem finnst í náttúrunni og er hættulaust í notkun.  En til þess að efnin nýtist þurfa þau að snerta skaðvaldinn og oft þarf að endurtaka  meðferð nokkrum sinnum.

  Gildrur

  Gildrur má nota til að veiða meindýr eins og snigla, svo sem bjórdósir.  Einnig er gott ráð að setja fjalir eða  tóma greipaldinhelminga milli plantnanna, sniglarnir skríða undir á daginn og þá er auðvelt að taka þá upp og fjarlæga.  Auk þess má búa til seyði úr sniglum og vatni, og vökva því yfir plönturnar. 

  Gulir límborðar

  Gulir límborðar og spjöld eru góð í gróðurhúsum,  Lýs og hvítfluga laðast að gula litnum og festast.

  Matarsóti

  Matarsódi leystur upp í vatn  nýtist sem vörn gegn sveppagróðri. Best er að úða með daufri blöndu á moldina  um leið og sáð er.

  Fljótandi þangáburður

  Fljótandi þangáburður getur bæði verið styrkjandi fyrir plöntur og hægt að nota  sem vörn gegn sveppum.  Úða má með blöndu gegn spunamaur og blaðlús.  

  Jurtaseyði

  Jurtaseyði úr hinum ýmsu plöntum hafa einnig ýmis forvarnargildi svo sem klóelfting eða vallhumall gegn blaðsveppi. Brenninetluseyði (einnig er til brenninetluduft) nýtist gegn kálflugu. Seyði úr rababarablöðum, regnfang og stórnetlu vinnur á skordýraplágum og koma jafnvel í veg fyrir þær.

 • Vorlaukar

  Dalíur

  • Forræktaðar inni frá ca. miðjum mars í amk 15 cm potti í pottamold
  • Háls tengir hnýðin saman og hann má standa upp úr mold
  • Vökva vel eftir pottun
  • Góð birta og 12-15°C
  • Þarf að herða plöntur áður en þær eru settar út í júní
  • Til að dalíur geymist milli ára þarf að taka þær inn fyrir frost og þurrka hnýði

  Liljur

  • Forræktaðar inni frá apríl í amk. 25 cm djúpum potti í pottamold
  • Lauk er plantað djúpt í pott með örlítla mold ofaná . Svo er bætt í eftir sem plantan vex
  • Vökva vel eftir pottun, en passa að hafa pott ekki rennblautan í ræktun
  • Góð birta og 12-15°C
  • Herða þarf plöntur áður en þær eru settar út. Plantaðar djúpt í beð
  • Fjölærar í beðum

  Ranunculus - Asíusóley

  • Forræktaðar inni frá apríl í 12-15 cm potti ca. 3 í potti
  • Hnýðin líta út eins og klær og þær snúa niður
  • Plantaðar grunnt í pottamold með góðu frárennsli, passa að ofvökva ekki
  • Góð birta og 12-15°C
  • Herða plöntur áður en þær eru settar út í júní
  • Einærar hér á landi

  Anemónur – Maríusóley

  • Hnýði lögð í bleyti umþb. 20 mín. og sett beint út í garð þegar frost fer úr jörðu
  • Oft er erfitt að sjá hvernig hnýði eiga að snúa, og þá er gott að hafa þau upp á rönd

  Paeonia – Bóndarós

  • Forræktaðar innandyra í góðri birtu við 12-15°C
  • Settar í 20 cm pott, með pottamold
  • Plantaðar út í júní, á sólríkan skjólgóðan og þá helst á varanlegan stað
  • Fjörær

  Hosta - Blábrúska

  • Forræktaðar innandyra í góðri birtu og við 12-15°C
  • Í pottamold í 15 cm pott
  • Plantaðar út í júní í velræstan næringarríkan jarðveg. Vill skugga eða hálfskugga
  • Fjölær

  Gladíólur-jómfrúlilja

  • Forræktaðar inni frá apríl/maí við 12-15°C
  • Settar grunnt ca 6cm, 5 saman í 25-30 cm pott með vikri í botn til að tryggja gott frárennsli
  • Þola illa kulda og þurfa góðan stuðning
  • Einær

  Begóníur-Skrúðbegóníur

  • Forræktaðar innandyra á hlýjum og sólrríkum stað
  • Hnýði eru með skál í miðju og snýr hún upp. Sett í 15cm pott í pottamold
  • Vökva reglulega með áburði og volgu vatni
  • Hægt er að setja begóníur út í sumar en þola illa kulda undir 10°C
  • Hægt er að þurrka hnýði og geyma fram á næsta vor
Sjá fleiri spurningar & svör