Indjánafjöður

Indjánafjöður
Indjánafjöður

Indjánafjöður

Sanseviera

Falleg og vinsæl planta sem er auðveld í umsjón. Hefur mjög jákvæð áhrif á loftgæði, en má alls ekki innbyrða.

Ath keramikpotturinn á myndinni fylgir ekki með plöntunni.
19cm pottur


 Dafnar best við björt skilyrði og beint sólarljós, en þolir allt nema algjört myrkur.


  Er mjög hita/kuldaþolin, en dafnar best við 18-25°.


Vökvið sparlega, ekki meira en hálfur bolli af vatni hálfsmáðarlega. Betra að undirvökva en ofvökva.

Ef laufin verða slímug er það merki um ofvökvun.
Ef laufin fara að lafa eða vinda uppá sig er það merki um undirvökvun.


Vex mjög hægt.
Getur blómstrað smágerðum hvítum blómum yfir sumartímann.

Kemur í 12cm potti. c.a. 20cm á hæð. 

Vörunúmer

Vara er ekki til sölu

Indjánafjöður getur aukið heilsu okkar og líðan. Hún dregur úr óæskilegum efnum sem myndast í andrúmsloftinu og getur dregið úr þreytu, höfuðverk, særindum í öndurnarvegi og augum.

Rannsóknar hafa sýnt að planta eins og Indjánafjöður getur dregið í sig mengunarvalda úr loftinu og bætt þannig líðan okkar með heilnæmara andrúmslofti á vinnustöðum og á heimilum.

Tengdar vörur

Fróðleikur um inniplöntur

 • Eitraðar plöntur

  Kristmann Guðmundsson, rithöfundur og töffari, var mikill áhugamaður um garða og plöntur. Auk skáldsagna skrifaði hann lítið kver um plöntur sem nefnist Garðaprýði. Kristmann stóð fyrir talsverðum innflutningi á nýjum tegundum plantna og um tíma voru þær nefndar Kristmannsplöntur. Á stríðsárunum bjó Kristmann í Hveragerði og kom sér upp fallegum garði.Sagan segir að hermenn hafi átt það til að stunda æfingar í og við garðinn hans Kristmanns. Hann reyndi oft að fá hermennina til að hætta þessu brölti því að þeir tröðkuðu plönturnar hans niður. Að lokum greip Kristmann til þess ráðs að tala við foringja hermannanna og segja honum að garðurinn væri fullur af eitruðum plöntum og það væri stórhættulegt fyrir þá að vera í honum. Eftir þetta héldu hermennirnir sig frá garðinum og Kristmann fékk að rækta hann í friði.

  Hvernig má koma í veg fyrir eitrun?

  Aukinn áhugi og innflutningur á plöntum undanfarin ár hefur aukið framboð þeirra til muna. Sumar þessar plöntur geta verið varasamar og jafnvel eitraðar og er því nauðsynlegt að fólk sé vel á verði gagnvart þeim og að foreldrar gæti þess að börn komist ekki í þær. Íslensk börn eru reyndar ekki vön því að borða plöntur beint úr náttúrunni en smábörn eru gjörn á að stinga öllu upp í sig.

  Varasamar tegundir

  Garðeigendur skyldu vera á verði gagnvart plöntum eins og venusvagni, fingurbjargarblómi, geitabjöllu, töfratré og gullregni og ylliber geta verið varasöm ef þeirra er neitt í einhverjum mæli. Fólki er sérstaklega bent á að vara sig á ývið og lífvið þar sem safinn úr þessum plöntum er mjög eitraður og jafnvel banvænn.
  Af varasömum pottaplöntum má nefna neríu, næturstjörnu, friðarlilju, jólastjörnu, köllu og allar mjólkurjurtir.

  Nokkur atriði til að hafa í huga

  Til þess að koma í veg fyrir eitrun af völdum plantna ætti því að hafa eftirfarandi atriði í huga: 1) Aflið upplýsinga um plönturnar þegar þær eru keyptar, varist að kaupa
  eitraðar plöntur. 2) Það getur verið hættulegt að stinga upp í sig plöntuhlutum, hvort sem það eru lauf, stönglar, blóm, fræ, ber eða sveppir. 3) Neytið aldrei plantna eða sveppa sem þið þekkið ekki. 4) Hafið neyðarnúmer tiltækt ef eitrun á sér stað. 5) Ef nauðsynlegt reynist að fara upp á slysavarðstofu er brýnt að taka með hluta plöntunnar sem étin var. Þetta hjálpar læknum og hjúkrunarfólki að átta sig á hvers eðlis eitrunin er. 6) Notið hanska þegar eitraðar plöntur eru meðhöndlaðar.

  Lifum heil
  Vilmundur Hansen

 • Meðferð pottaplantna

  Þrátt fyrir að Garðanördinn hafi gaman af því að rótast í moldinni í garðinum, klippa runna og færa til plöntur hefur hann líka gaman af því að rækta pottaplöntur.  Þeim má alls ekki gleyma og vanrækja þótt mikið sé að gera í garðinum því fallegar pottaplöntur lífga upp á heimilið, gera það hlýlegt og bæta andrúmsloftið. Til þess að blómunum líði vel verðum við að búa þeim góð skilyrði og það er auðveldara en flesta grunar. Flestir hafa heyrt talað um blómakonur sem allt virðist vaxa og dafna hjá og, það sem meira er, þær virðast ekkert hafa fyrir því. Við hin, sem ekki erum svo heppin að hafa græna fingur, verðum að reiða okkur á leiðbeiningar eins og þær sem hér fara á eftir. Allt sem þarf er viljinn því flest pottablóm drepast vegna þess að eigandinn er of latur eða sinnulaus til að hugsa um þau.

  Vökvun

  Flestar pottaplöntur drepast vegna rangrar vökvunar - þær eru vökvaðar of mikið eða of lítið. Ekki er til nein ákveðin regla um það hvenær á að vökva því þættir eins og stærð potta, birta og hitastig hafa allir áhrif. Í grófum dráttum má segja að blómstrandi plöntur þurfi meira vatn en blaðplöntur og blaðplöntur meira vatn en kaktusar. Séu plönturnar látnar standa í vatni er hætt við að ræturnar rotni og ef vökvun er spöruð um of þorna þær upp. Ein besta leiðin til að meta hvort þurfi að vökva er að skoða moldina í pottinum. Litur og áferð moldarinnar segir mikið um rakastig hennar. Þurr mold er ljósari en blaut og hún á það til að losna frá pottinum. Vatnsskortur sést greinilega á plöntum þegar blöðin fara að hanga og þær verða slappar.

  Venjulegt kranavatn hentar prýðilega og mjög gott er að setja í það áburð annað slagið, sérstaklega á vorin og sumrin. Gætið þess að vatnið sé volgt svo að ræturnar ofkólni ekki. Það má hvort sem er vökva ofan á moldina eða í skálina sem potturinn stendur í. Þeir sem kjósa að vökva ofan á ættu að nota könnu með mjóum stút og gæta þess að bleyta moldina þar til vatn fer að renna út um gatið á botninum. Það verður svo að tæma undirskálina svo ræturnar standi ekki í vatni. Með því að vökva neðan frá er tryggt að moldin blotni í gegn. Þægilegasta aðferðin til að vökva á þennan hátt er að fylla fötu af vatni og dýfa plöntunum ofan í. Þegar moldin er orðin blaut í gegn þarf potturinn að fá að standa í smátíma svo umframvatn renni burt áður en potturinn er settur á sinn stað.
  Blómapottar eiga alltaf að vera með gati á botninum til þess að vatn safnist ekki fyrir í þeim. Plastpottar eru betri en leirpottar vegna þess að ekki þarf að vökva eins oft og þeir gefa ekki frá sér sölt eins og leirpottar. Ræturnar eiga það til að vaxa inn í leirinn og getur það valdið rótarskemmdum við umpottun.

  Birta, hita- og rakastig

  Allar plöntur þurfa birtu til að vaxa og dafna. Sumar þurfa mikla birtu en aðrar þrífast best í hálfskugga. Blómstrandi plöntur sem ekki fá næga birtu fá gul blöð, vaxtarsprotarnir verða langir og mjóir og blómin litlaus. Blómstrandi plöntur þurfa mikla birtu en ekki beina sól og ættu því að standa í gluggum sem snúa í austur eða vestur. Gluggar sem snúa í suður henta best fyrir kaktusa og þykkblöðunga. Þar sem birta er lítil er alltaf hægt að grípa til lýsingar og setja upp sérstakar perur sem gefa frá sér blárri birtu en við eigum að venjast. Þeir sem nota gróðurperur verða að gæta þess að perurnar séu í um tíu sentímetra fjarlægð frá blómunum því annars teygja þau sig of mikið átt að ljósinu og verða veikluleg. Plöntur með stór blöð, eins og t.d. rifblaðka, eru með mikið yfirborð og þola því meiri skugga en plöntur með lítil blöð. Gott er að snúa pottaplöntum annað slagið þannig að sama hliðin snúi ekki alltaf af birtunni.

  Hentugt hitastig fyrir flestar pottaplöntur er á bilinu 18 til 24° C á daginn en 13 til 16° C á nóttunni og það á að vera lægra á veturna en sumrin vegna lítillar birtu.
  Æskilegur loftraki fyrir pottaplöntur er á bilinu 40 til 60% en það er nánast ómögulegt að halda svo háu rakastigi á venjulegum heimilum. Því er nauðsynlegt að úða reglulega yfir blóm eins og orkideur, burkna og gardeníur sem þurfa mikinn loftraka. Skálar með vatni gera mikið gagn séu þær látnar standa nálægt blómunum og svo er einnig hægt að koma sér upp rakatæki ef mikið liggur við. Svo má einnig rækta rakakær blóm í eldhúsinu eða á baðherberginu.

  Áburðargjöf

  Blóm sem keypt eru í blómabúðum eða gróðrarstöðvum eru ræktuð við kjöraðstæður og þurfa því ekki áburð fyrstu vikurnar. Á sumrin er hæfilegt að vökva heimilisblómin með áburðarlausn á þriggja til fjögurra vikna fresti en sjaldnar yfir vetrarmánuðina og það er vita gagnslaust að gefa plöntum sem ræktaðar eru við slæm skilyrði áburð.

  Finna má góðan blómaáburð í hvaða blómabúð sem er. Áburðurinn er misjafnlega sterkur og því ætti fólk að lesa leiðbeiningarnar og fara eftir þeim. Of mikill áburður brennir rætur plantnanna og dregur úr vexti. Þeim sem vilja ekki nota tilbúinn áburð er bent á að ósaltað kartöflusoð er ágætur áburður og einnig er hægt að nota vatn sem mulin eggjaskurn hefur staðið í sem kalkgjafa.

  Gangi ykkur vel,
  Vilmundur Hansen

 • Risajúkka

  Risajúkka (Hermannshvíld) Yucca guatemalensis (Yucca elephantipes) er falleg planta sem auðvelt er að rækta hér, sé hún inni.  Langbest er að hafa hana í gróðurskála þar sem hún fær næga birtu og gott pláss. Risajúkkan er upprunalega frá Mið-Ameríku og í sínum heimahögum getur hún orðið allt að 10 m. á hæð. Svo stór verður hún auðvitað ekki innanhúss hér á landi.

  Þessar plöntur þola töluverðan kulda og eru oft hafðar úti á verönd eða svölum yfir sumartímann. Júkkan þolir ekki frost svo það er eins gott að huga vel að veðri og taka hana inn ef hætta er á hinu minnsta frosti.  Á veturna hentar henni vel að vera í frekar svölu herbergi. Stofn Jukkunnar er ljósbrúnn á litinn og oftast 15 til 100 c.m. á hæð.  Plantan er þekkt fyrir sín stinnu, oddmjóu, grænu blöð sem eru c.a.15 til 30 c.m. löng og vaxa út frá stofninum í tígulegri hvirfingu. 

  Risajúkkan getur hugsanlega blómstrað hér við albestu skilyrði og þá koma  hvít blómin út úr miðjum stofni á háum brúski. Það er þó frekar ósennilegt að hún blómstri innandyra. Hitinn fyrir hana yfir veturinn má alveg fara niður í 5 til 6 °C og á þeim tíma þarf að vökva hana c.a þriðju hverja viku og tína af henni öll blöð sem gulna. Á sumrin á hins vegar að vökva hana tvisvar, þrisvar í viku og setja fljótandi áburð í vatnið á tíu daga fresti fram á mitt sumar en þá ætti að hætta að gefa áburð en halda samt áfram vökvuninni. Jukkunni líður best í frjóum, sandbornum jarðvegi. Það er mjög gott að úða vatni á laufblöðin hennar á sumrin. Hún vex c.a. 15 til 30 c.m. á ári fyrstu árin og því þarf að umpotta hana árlega meðan hún er ung en eftir það á tveggja til þriggja ára fresti. Það er auðvelt að fjölga henni bæði með græðlingum og rótarskiptingu. Plantan þolir illa mjög þurrt loft en kjörhiti fyrir hana er 10 til 15 °C.  Ef ykkur finnst þurfa að þurrka af blöðunum er allt í lagi að nota við það rakann klút.


   Með kveðju
   Magnús Jónasson
   Skrúðgarðyrkjufræðingur.

 • Umpottun - kennslumyndband

  Hér má sjá kennslumyndband hvernig best er að umpotta pottaplöntum.

   

 • Sáning kryddjurta

  Kryddjurtir

  Fátt er skemmtilegra en líflegur kryddjurtagarður í eldhúsglugganum sem gefur góðan ilm í húsið og einstakt bragð út í matargerðina.   Kryddjurtir má rækta allt árið um kring innanhúss, en flestir hefja ræktun í febrúar/mars þegar sól tekur að hækka á lofti.  Góðar upplýsingar um sáningartíma og aðferðir er yfirleitt að finna aftan á fræpakkningum.

  Sáning og spírun  

  Margir nota sáðbakka og sáðmold eða sáðmoldarpillur,  og færa síðan spírurnar yfir í potta með venjulegri pottamold.  Einnig er hægt að sá beint í endanlega potta og nota venjulega pottamold, en þá er mælt með þunnu lagi af sáðmold ofaná, sérílagi fyrir stærri fræ.  Gott er að setja dagblaðsörk yfir pottinn eða sáðbakkann, til að viðhalda raka og hita. 

  Fjöldi fræja

  Fjöldi fræja fer eftir stærð fræja og stærð potta.  Þumalputtaregla fyrir c.a. 12 cm pott er að nota 3-5 fræ í hvern pott (t.d. kóriander sem hefur stór fræ), en ef fræin eru mjög lítil þá 10-15 fræ í hvern pott(t.d. timian, oregano ofl sem hafa lítil fræ). Fræ sem eru mjög lítil er best að láta liggja ofaná moldinni.   

  Umpottun

  Þegar spírur taka að myndast, er dagblaðsörkin tekin af, og plönturnar settar í endanleg ílát, ef við á.  Dreifið úr spírunum og þjappið moldinni varlega að.

  Staðsetning  

  Mælt er með að velja fremur sólríkan stað, t.d. gluggasyllu.

  Birta

  Birta við ræktunina er mikilvæg, kryddjurtir þurfa sólríkan stað. Varast skal þó beina sól meðan spírur eru litlar, því þær geta brunnið.  Örfáar tegundir s.s. mynta og karsi þrífast í norðurglugga.   

  Hitastig

  Venjulegur stofuhiti er ákjósanlegur fyrir nánast allar kryddjurtir.  Varist of mikinn hita þegar spírurnar eru litlar, þá geta stilkarnir orðið þunnir og ræfilslegir.

  Vökvun

  Vökvun er mikilvæg, sérílagi á spírunartímabilinu.  Magnið getur farið eftir raka í loftinu, sólarstundum ofl og breytist þ.a.l. eftir árstíðum.  Gott er að kanna reglulega rakastigið í moldinni, t.d. með því að stinga fingrinum aðeins ofaní moldina. Mælt er með að vökva vel og sjaldnar, frekar en oft og lítið.  Á sólríkum dögum þarf að vökva oftar.  

  Áburðargjöf

  Áburðargjöf er nauðsynleg þegar plantan er í fullum vexti, t.d.  er þörungaáburður í vöxvaformi góður kostur.

  Kryddjurtaræktun

  Nokkrar góðar ábendingar varðandi:

  Hitastig

  Vandamál með hitastig innanhúss geta einkum skapast á veturna, nálægt miðstöðvarofnum sem eru hátt stilltir.  Ef miðstöðvarofn er undir kryddhillunni, er mælt með að botninn á kryddpottunum liggi ekki beint í bleytu.  Þá mætti setja bakka með leirkúlum eða vikum undir pottana.

  Varnir innanhúss

  Smá hætta er á lús og hvítflugu, þá má nota skordýrasápu (t.d. frá Safer´s).  Hvítflugan dregst að skærum hlutum, svo flugnaspjöld í skærum litum geta komið að góðum notum.  Einnig er ýmiss konar laukur tilvalinn til að fæla meindýr frá, hægt er að skera laukinn niður og stinga honum innanum kryddplönturnar, eða rækta t.d. graslauk í potti innanum hitt kryddið.

  Uppskera

  Athuga þarf að ganga ekki of nærri plöntunni, þ.e. ekki taka of mikið magn í einu og einnig er gott að hvíla hana á milli, t.d. með því að hafa sömu tegundina í 2 pottum og hvíla þær til skiptis.   Mælt er með að klippa framanaf greinum til að viðhalda runnavexti, en með örfáar tegundir (t.d. steinselju, graslauk) er betra taka elstu blöðin fyrst.

  Plöntur fluttar inn að hausti

  Síðsumars, ekki of seint (lok ágúst, áður en hætta er á næturfrosti) er hægt að flytja plönturnar aftur inn.   Ef plönturnar hafa verið í beði og eru orðnar stórar, er hægt að skipta þeim upp í nokkra potta.  Ekki skyldi troða rótum í of litla potta.   Þannig er hægt er að njóta kryddjurtanna frameftir vetri.

Sjá fleiri spurningar & svör

Mold

Mold

Plastpottar

Plastpottar

Keramikpottar

Keramikpottar