Jarðarber

26.04 2011

Það jafnast ekkert á við bragðið af ferskum jarðarberjum úr eigin garði eða af svölunum.  Ræktun jarðarberja er einfaldari en flestir halda.  Hefja má ræktun með fáum plöntum, svo sjá þær sjálfar um að fjölga sér ótrúlega hratt.  
 

Staðsetning

Jarðarber eiga auðvelt með að fjölga sér og þess vegna kjósa margir að hafa þau í afmörkuðum beðum.  Margir nota einnig svalakassa eða blómaker með góðum árangri.  Einnig má nota sérstök jarðarberjaker, með hólfum fyrir plönturnar til að stinga sér út um (sjá mynd).

Ræktun

Við upphaf ræktunar er gott er að setja svart plast yfir beðin og þá er gat gert í plastið fyrir hverja plöntu.  Plastið hitar jarðveginn og plönturnar verða því þróttmeiri.  Einnig heldur plastið sniglum frá.  Ef ekki er notað plast er mælt með að leggja akrýldúk yfir ræktunarsvæðið.  Jarðarber þurfa ekki mikinn áburð en kjósa næringarríka mold, og passa þarf að vökva vel meðan á blómgun stendur og aldinin eru að þroskast.

Fjölgun

Til að  auka aldinmyndunina er gott að taka fjölgunarsprotana (renglurnar) af plöntunum á vorin, en leyfa þeim svo að koma síðsumars til að fá nýjar plöntur fyrir næsta sumar.  Plönturnar eru að gefa mest af sér upp að 5 ára aldri.  Því er gott að grisja reglulega, taka elstu plönturnar úr, því þær eru hættar að gefa af sér ber að einhverju ráði.   

Uppskera

Berin eru þroskuð þegar þau eru orðin hárauð á litinn.  Geymslutíminn er stuttur, berin geymast nokkra daga í ísskáp en annars er mælt með að frysta berin ef ekki á að neyta þeirra fljótlega eftir uppskeru.

Meindýr

Þar sem sniglar eru vandamál má setja sniglagildru.  Gildran er grafin niður þannig að efri brúnin nemur við efri brún moldarinnar, bjór settur í, snigillinn sækir í bjórlyktina og drukknar.  Einnig má leggja spýtur í kringum garðinn, sniglarnir leita skjóls yfir daginn undir spýtunni, sér í lagi á heitum dögum.  Í lok dags má taka spýtuna upp og skafa sniglana burt.

05.05.2011

Blákorn


24.01.2011

Áburður

09.03.2011

Forræktun vorlauka

Bíðum nú við, vorlaukar, hvaða laukar eru það? En haustlaukar?


31 - 11 af 11
1 2 

Leita