Trjáklippingar

29.03 2012

Klippingar á trjám og runnum

Eftir áramótin er gott að huga að því að klippa tré og runna í garðinum.  Greinabyggingin sést best áður en laufgun hefst.  Klippingar örva trjávöxt og blómgun plöntunnar.  Ef þétta á plöntu er nauðsynlegt að klippa ofan af henni til þess að hún örvist til að setja út fleiri greinar að neðanverðu.  Þetta er þó misjafnt eftir tegundum.
Nauðsynlegt er að vita hvaða tegundir eru í garðinum áður en hafist er handa, því klippingar eru ekki eins á öllum plöntum.

 

Hvaða verkfæri henta best?

  • Greinaklippur eru þægilegar til að klippa smærri og stakar greinar.  Arnarklippur (skógarklippur) er þægilegri til að taka sverari greinar.  Hægt er að fá þær með lengjanlegu handfangi fyrir hærri tré eða ef klippa þarf niðurfyrir sig.  
  • Handsagir eru hentugar þegar þarf að saga þykkar greinar af, eða trjástofna.  
  • Hekkklippur eru notaðar til að klippa limgerði og til að forma smærri runna.  Æskilegt er að þrífa klippurnar eftir hverja notkun og nauðsynlegt er að hafa þær vel beittar, þá koma snyrtilegri sár og minni hætta á sýkingum.
  • Rafmagns- og bensín hekkklippur eru þægilegar til að taka stærri limgerði og móta litla runna.  
  • Rafmagns- og bensín keðjusagir eru góðar í að taka þykkari greinar og trjáfellingar.

Aðferðin fer eftir plöntutegund

Tré

Á veturna, þegar lauf eru fallin, sést vel hvernig greinabygging trjánna er.  Þá er auðvelt að sjá hvort greinarnar liggi saman og séu að særa hvora aðra.  Í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að klippa af óæskilegar greinar.  Yfirleitt myndi maður taka greinar sem vísa innávið og halda þeim sem vísa útávið.  Þetta fer þó eftir tegund og hvernig við viljum að plantan líti út.  Klippa skal dauðar greinar af plöntunum.  Ef endurnýja á plöntuna er hún klippt vel niður, gott er að skilja c.a. 10 cm stubba eftir.   Þó misjafnt eftir tegundum, þetta á t.d. við um kvisti, ýmsar rósir, víðitegundir,  en ekki um reyni og barrtré.  Best er að klippa fyrir ofan brum, til að forðast sýkingar og kalkvisti.

Limgerði

Tegundir eins og víði ofl er best að klippa í A-laga form, þannig að toppurinn sé grennri en neðri partur plöntunnar.  Með því móti færðu meira sólarljós á alla plöntuna og minni hætta á að limgerðið verði greinalaust að neðan. Limgerðið þarf ekki að vera breitt til að veita skjól, aðalatriðið er að það sé þétt.   Óhætt er að klippa inn í eldri greinar, plantan kemur til með að þétta sig.  Klippt er af hliðunum og einnig ofanaf.   Á ungu limgerði er gott að klippa 2/3 af ársvextinum.  

Kvistir

Misjafnt er hvort kvistir blómstri hvítum eða bleikum blómum.  Bleikblómstrandi kvisti (rósakvistur, dvergrósakvistur, japanskvistur ofl) er óhætt að klippa vel niður, en ekki nauðsynlegt.  Þeir blómstra á greinum sem vaxa það sumarið.  Á kvistum sem blómstra hvítum blómum (birkikvistur, sunnukvistur, stórkvistur, bogkvistur ofl) er meira tekið heilar greinar innanúr því þeir blómstra á eldri greinum.  Gott er að fara með hendina í góðum hanska inn á milli greinanna og brjóta kalkvistina af, sem eru oft inni í miðri plöntunni, það léttir aðeins á plöntunni.  Einnig er óhætt að klippa stakar greinar sem eru t.d. fyrir göngustíg.  Ef fólk vill forma hvítu kvistina stíft er best að klippa þá eftir að blómgun er lokið (um mitt sumar), því þá fer hann að vaxa og er tilbúinn fyrir blómgun næsta sumar.

Sírenur

Þarf oft að skoða varðandi krossgreinar, því þær særa hvor aðra.  Þá er önnur þeirra tekin í burtu.  Ekki er æskilegt að klippa alla toppa ofanaf sírenunni því þá ertu að klippa blómgreinar í burtu.  Betra er að klippa ofanaf eftir blómgunina um sumarið.

Sígrænar plöntur:  Ef klippa á sígræna plöntu er nauðsynlegt að einhverjar nálar verði eftir á greininni, annars á að klippa greinina alveg upp að stofni.  Auðvelt er að forma margar sígrænar plöntur, t.d. sitkagreni.   Auðvelt er að láta grenið þétta sig og einnig forma í limgerði.

Berjarunnar

Eru að gefa mest af berjum á 2ja ára og eldri greinum.  Best er að klippa greinar innanúr gömlum runnum.  Gott er að klippa nánast allt úr runnanum á c.a. 10-15 ára fresti, með því fær runninn birtu og pláss til að endurnýja sig.  Reynið að velja greinar sem eru gamlar og langar.  Nauðsynlegt er að skilja eftir 12-15 greinar sem eru 2-4ra ára gamlar.

Umræður

Skrifaðu athugasemd


Leita