Kartöfluútsæði

25.03 2011

Hversu mikið af kartöflum þarf ég á 100 m2 svæði?

Um það bil 5 kg. af útsæði er hæfilegt á 20-25 m2 svæði, það fer þó einnig eftir stærð kartaflnanna.   Mælt er með að planta útsæðinu á 4-5 cm dýpi í leir- og moldarjarðveg, en 6-8 cm dýpi í sendinn jarðveg.  Gott er að hafa 25-35 cm á milli kartaflnanna en 60 cm á milli raða.  Passið að spírurnar snúi upp.

Hver er hæfilegur spírunartími?

Hæfilegur spírunartími er u.þ.b. 4-6 vikur við 10-15°C.  Með góðri birtu fást stuttar og gildar spírur.  Varist þó að sólin skíni á útsæðið.  Komi aðeins ein toppspíra þarf að brjóta hana af til þess að örva fleiri spírur.

Hvenær má ég planta kartöflunum út í beð?

Gott er að miða við byrjun maí.

Hverjar eru fljótastar?

Premier:  snemmvaxnar og mjölmiklar, bökunarkartöflur
Gullauga:  í meðallagi snemmvaxnar, bragðgóðar, gular
Helga:  í meðallagi snemmvaxnar, bragðgóðar, með svolitlum roða
Rauðar íslenskar:  seinvaxnar en koma margar undir.  Mjög bragðgóðar (sætar).  Vaxa vel í sendnum jarðvegi.  Þola dálítið næturfrost.

Í hvernig jarðvegi er best að rækta kartöflur?

Kartöflur vilja fremur lausan og gljúpan jarðveg.  Sendinn jarðvegur heldur illa vatni og þéttur moldarjarðvegur þornar og hitnar hægt, auk þess sem hætt er við að körtöflurnar hafi ekki nægilegt rými til að vaxa.  Því er blanda af hvoru tveggja besta lausnin.  Æskilegt sýrustig er á bilinu 5,2 – 5,8 pH.

Hvar í garðinum hentar best að rækta kartöflur?

Kartaflan er sólelsk og því gott að velja henni stæði þar sem sólar og hita nýtur við.  Afmörkuð beð sem halla í sólarátt  eru æskileg þar sem þau draga í sig hita og vatnið safnast ekki upp í beðinu.  Skjól stuðlar einnig að auknum hita og dregur úr skaða á grösum af völdum veðra, svo sem frostskemmdum að hausti.  Akrýldukur er góður þegar veður er kalt og vindkæling er mikil.  Mælt er með skiptiræktun á c.a. 2ja ára fresti til að forðast kláða.

Hversu mikinn áburð þarf í 25 m2 kartöflugarð?

Það er vissulega nauðsynlegt að bera áburð í kartöflugarðinn en ef köfnunarefnisáburður er of mikill hleypur spretta í grösin.  Gott er að blanda lífrænum áburði saman við moldina haustinu áður, þannig nær áburðurinn að leysast vel upp í moldinni.  Hæfilegt magn af lífrænum áburði er 5 kg á 25 m2 ef notað er þörungamjöl.  Heldur meira þarf ef notaður er hænsnaskítur, eða um 15 kg. Að lokinni gróðursetningu er gott að gefa tilbúinn áburð, t.d. blákorn.  Hæfilegt magn af blákorni er um 2,5 kg í moldarjarðveg, en 3-4 kg í sendinn jarðveg.  
Þrífosfat er gott ef styrkja þarf rótarkerfið og allan undirvöxt.   Hæfiegt magn af honum er 700 g. á móti blákorninu, en ef lífrænn áburður er notaður er hæfilegt magn c.a. 1 kg af þrífosfati.  Gott er svo að gefa örlítinn áburð, t.d. blákorn, aftur í byrjun júlí.  

Hvað er kláði?

Kláði orsakast af ýmsum sveppum eða bakteríum sem leggjast á hýði kartöflunnar.  Ef sýrustig jarðvegsins er of hátt (of mikið kalk í jarðvegi) eða of lágt geta sveppirnir myndað hrúður. Hægt er að mæla sýrustigið með s.k. ph mæli, en rétt sýrustig er um ph 5.5.

Erfitt getur reynst að losna við kláða úr jarðvegi. Eitt ráð gegn of háu sýrustigi er að bera brennistein í jarðveginn og þannig stilla hann í rétt sýrustig. Brennisteininn er best að bera á um leið og snjóa leysir að vori. Hæfilegt magn er c.a. 700 g. á 25 m2 svæði.  Skiptiræktun er einnig góð leið til að koma í veg fyrir kláða.  Þá eru kartöflur ræktaðar í t.d. 2 ár í senn í sama beðinu og svo ræktaðar í nýju beði. Mikilvægt er að velja smitfrítt útsæði, en útsæði getur borið smit í sér. 

Hvernig get ég haldið arfanum í skefjum?

Ef plantað í gegnum svartan plastdúk, er hægt að halda arfanum í skefjum.  Þá er dúkurinn strengdur yfir beðið, göt skorin í dúkinn og kartöfluútsæðinu plantað í gegnum dúkinn.
Hægt er að takmarka arfa með Afalon-illgresiseyði.  Passa þarf þó að úða eftir að arfinn hefur spírað fram, og áður en kartöflugrösin birtast.

Hvenær má búast við uppskeru?

Uppskerutíminn er yfirleitt ágúst – september, en það fer eftir tegundum og aðstæðum í kartöflugarðinum.  Kartöflum er hættara við sköddun og sprungum ef þær eru teknar upp í köldu veðri.  Auk þess er ekki mælt með upptöku í vætu.  Magn uppskeru veltur mikið á því hvað þú ert tilbúin(n) til að gera fyrir garðinn þinn.  Uppskeran fer líka að miklu leyti eftir veðri og fleiri umhverfisþáttum.   Það er því aðeins hægt að fullyrða að það er hægt að búast við eins til tífaldri uppskeru.

Prentvæn útgáfa


Leita