Forræktun grænmetis

24.01 2011

Með forsáningu flýtum við uppskeru grænmetis þar sem sumarið á Íslandi er stutt.  Gott er að byrja að sá í mars/apríl,  þó er það misjafnt eftir tegundum.  Yfirleitt eru ágætar upplýsingar aftan á fræpakkningum. Forræktun tekur yfirleitt um 3-6 vikur, misjafnt eftir tegundum.

Sáning og fjöldi fræja

Mælt er með að nota sáðmold, eða sáðmoldarpillur, í sáningarbakka og/eða hólfabakka.

Eitt grænmetisfræ gefur af sér eina plöntu.  Þó má gera ráð fyrir að einstaka fræ spíri ekki og því mælt með að sá nokkrum umframfræjum.

Hitastig við spírun:

Fræin spíra við 15°C og skal leggja dagblaðsarkir yfir meðan spírurnar eru að koma upp til að viðhalda raka.
Birta við ræktunina er mikilvæg.  Varast skal þó beina sól meðan spírur eru litlar, því þær geta brunnið.

Vökvun

Vökvun er mikilvæg, sérílagi á spírunartímabilinu.  Magnið getur farið eftir raka í loftinu, sólarstundum ofl.  Gott er að kanna reglulega rakastigið í moldinni, t.d. með því að stinga fingrinum aðeins ofaní moldina. Mælt er með að vökva vel og sjaldnar, frekar en oft og lítið.  Á sólríkum dögum þarf að vökva oftar. 

Priklun

Ef sáð er í sáningarbakka þarf að prikla þegar plantan er farin að mynda c.a. 4 blöð.   Þá er ein planta sett í hvert hólf í hólfabakka, og þá er mælt með að skipta yfir í venjulega gróðurmold.

Útplöntun

Þegar hætta á næturfrosti er að mestu yfirstaðin, t.d. í byrjun júní, eru grænmetisplönturnar færðar út í beð.   Mælt er með að herða plönturnar áður en þær eru fluttar á endalegan stað í garðinum.  Það er gert með því að setja þær út á daginn og taka inn að kvöldi, eða flytja þær út í vermireiti (beð með yfirbreiðslu).   Til að koma í veg fyrir kuldaskemmdir við upphaf ræktunar, er gott að setja akrýldúk yfir beðið.  Dúkurinn er líka vörn gegn kálflugu og gulrótarflugu.  Ágætt er að hafa dúkinn yfir fram í miðjan júlí.  Passið þó að dúkurinn sligi ekki plönturnar, oft þarf að losa aðeins um hann svo hann lyftist með plöntunum.

Staðsetning og áburðargjöf

Velja skal sólríkan og skjólsælan stað.
Áburðargjöf er nauðsynleg þegar plantan er í fullum vexti.  Best er að nota lífrænan áburð, t.d. þörungarmjöl,  moltu og þurrkaðan hænsnaskít.
 

Góð ráð um grænmetisræktun án forræktunar: 

•  Nokkrum grænmetistegundum er yfirleitt sáð beint út í garð, s.s. gulrótum, radísum og pastinakka, og þá snemma sumars,  í byrjun maí.
• Sumum grænmetistegundum má sá beint út í garð, t.d. ýmiss rófum, næpum, vorlauk og ýmiss konar salati.  En einnig má forrækta þær til að flýta fyrir uppskeru. 
• Sniðugt er að forsá salati til að flýta fyrir fyrstu uppskeru, og sá einnig beint út, 2-3 sinnum yfir sumarið, til að hafa uppskeru allt sumarið.
• Þegar sáð er beint út í garð er gott er að búa til örlitlar rákir í moldina, sá fræjunum ofan í og setja þunnt moldarlag yfir.  Athugið þó að ef fræ eru smá er ekki mælt með að þekja þau með mold.
• Sniðugt getur verið að sá gulrótum og radísum til skiptis í rákir, radísurnar koma fyrr upp og skýla gulrótunum.  Þannig sparast líka pláss þar sem uppskeran af radísum er fyrr, fá gulræturnar meira pláss.
• Gott ráð um klettasalat (rucola) sem farið er að blómstra er að klippa ofan af plöntunni og skilja eftir 2-3 cm stilka, þá vex plantan aftur upp. 
• Við vökvun er gott að nota úðadreifara að kvöldi eða í byrjun dags.

 

prentvæn útgáfa

29.03.2012

Trjáklippingar

05.04.2011

Matjurtir

14.10.2011

Nóvemberkaktus


31 - 8 af 8
1 

Leita