Forræktun vorlauka

09.03 2011

Eftirfarandi grein er eftir Sigríði Hjartar úr Blómi vikunnar, pistlum G.Í. í Fasteignablaði Morgunblaðsins.

Þessa dagana er sungið hástöfum á mínu heimili: “Vorið er komið og grundirnar gróa”. Ástæðan er einföld, í síðustu viku voru hjá okkur tveir þurrir, lognværir dagar. Svei mér ef ég fór ekki að skima eftir farfuglunum. Og viti menn, ég sá þéttan fuglahóp nálgast úr suðri. Þegar betur var að gáð voru fuglarnir auðvitað snjótittlingar – ekki sólskríkjur – en samt gáfu þeir fyrirheit um vor í vændum.  Fyrirheit um vor má finna víða.  Auglýsingar um fræ og vorlauka berast á öldum ljósvakans.

Hvað eru vorlaukar?

Bíðum nú við, vorlaukar, hvaða laukar eru það? En haustlaukar? Já, það er nú það.  Haustlaukar eru lagðir í mold á haustin, en blómstra á vorin og vorlaukar eru lagðir í mold á vorin en blómstra á haustin, eða réttara sagt síðsumars. Haustlaukarnir eru yndislegir og auðveldir viðfangs.  Maður þarf fyrst og fremst að ákveða hvaða lauka á að gróðursetja og opna budduna og kaupa ótrúlega ódýra lauka að hausti til. Svo er bara að trítla með fenginn út í garð einn góðan veðurdag að hausti til og grafa holu, láta laukana detta ofaní, moka yfir og láta svo veturinn líða við bóklestur, sjónvarpsgláp, þrekþjálfun eða ferðalög, sem sagt það sem hugurinn girnist. Og viti menn, einn góðan veðurdag , réttara sagt einn góðan vordag, stingur upp kollinum krókus, vetrargosi, vorboði, páskalilja, túlipani, nánast allt mögulegt. Ég er viss um að bestu galdranornir deila með garðeigandanum gleðinni yfir vel heppnuðum galdri, galdrinum sem grókraftur moldar og plantna býr yfir, garðeigandinn segir aðeins hókus – pókus.

Tegundirnar

Vorlaukarnir láta dekstra við sig dálítið meira en þeir launa líka dekrið margfalt. Þetta eru blómfagrar skrautplöntur eins og sést þegar eru talin upp nokkur nöfn: anemónur, begóníur, dalíur, gladíólur, írisar, liljur, bóndarósir og asíusóleyjar.     Dekrið er fólgið í því að setja vorlaukana í mold innanhúss áður en garðurinn utanhúss er tilbúinn undir sumarið.  Með því erum við í rauninni að plata laukana og segja þeim að vaxtartíminn sé lengri en íslenska sumarið er. 

Forræktun innahúss

Þegar við forræktum vorlaukana innanhúss fáum við blómgun áður en hætta er á haustfrostum, en ef við gróðursetjum vorlaukana ekki fyrr en garðurinn er tilbúinn um miðjan maí eða jafnvel í júní er hætt við að haustfrost komi í veg fyrir blómgun. Flestir vorlaukar þola ekki frost, en suma þeirra, svo sem begóníur og dalíur má grafa upp eftir fyrsta haustfrost sem skemmir blómgun, þurrka þá og geyma við 5-10° yfir veturinn og koma aftur til næsta vor. Margar liljur geta lifað veturinn af úti í beði og jafnvel fjölgað sér eftir því sem árin líða.    

Hitastig og birta

Almennt gildir við forræktun vorlauka að reyna þarf að hafa hitann í lágmarki en birtuna í hámarki. Þetta getur verið þyngri þrautin og auk þess koma alltaf upp spurningarnar um hvernig laukarnir eiga að snúa í moldinni því það er ekki alltaf borðleggjandi.     Anemónur eru venjulega fyrstar í blóma af vorlaukunum og ef vel tekst til blómstra þær allt fram í frost. Ýmsir garðeigendur nota anemónur á svipaðan hátt og aðrir nota sumarblóm, þar sem anemónublómin eru gjarnan stór og litskrúðug en ekki svo há að til vandræða horfir. Vandræðin þarf að leysa strax og rótarhnýðin eru sett í mold.  

Hvað snýr upp?

Gott er að nota litla potta, svona eins og sumarblómin eru seld í, setja létta gróðurmold í pottana, þrýsta henni laust niður, leggja hnýðið á yfirborðið og sálda þunnu lagi af sömu mold yfir. Á vorin er daglega hringt á skrifstofu Garðyrkjufélags Íslands til að spyrja hvernig anemónuhnýðin eiga að snúa. Við þessu er tiltölulega einfalt svar. Gott er að leggja hnýðin í bleyti í 4-6 tíma. Þá sjást oftast ör eftir stöngla á þeirri hlið sem á að snúa upp, en för eftir rætur (miklu fleiri og líkjast helst nálarstungum) eru á neðri hliðinni. Ef maður er enn ekki öruggur er langbest að setja hnýðin upp á rönd.     Begóníurnar eru tiltölulega einfaldar, önnur hliðin á hnýðunum er með djúpri holu, hún á að snúa upp. Begóníur, dalíur og liljur er gott að setja í tiltölulega djúpa potta og láta efri brún hnýðis (lauksins) nema við yfirborðið. Þegar plantan fer að vaxa er smám saman bætt moldu ofan á. Þar með fá stönglarnir meiri festu og þola betur það hnjask sem fylgir útplöntuninni. Margar liljur mynda stoðrætur á stönglinum. Þeim er mikil nauðsyn á að mold sé smám saman bætt í pottinn, ekki á að gróðursetja liljulaukinn strax á bólakaf.    

Að lokum

Í síðustu viku var pistillinn helgaður bóndarósum. Þess vegna verður ekki fjallað sérstaklega um þær nú.  Almennt gildir um vorlauka: Forræktun innan húss í léttri mold. Hiti sparaður, birta mikil, vatn í hófi, næg þolinmæði. Gróðursetning á skýlum stað eftir að næturfrost eru um garð gengin. Góða skemmtun

13.12.2012

Ávaxtatrjáa gjafabréf

Þennan veturinn bjóðum við upp á eplatré, kirsuberjatré, perutré og plómutré.
Trén eru 2ja - 3ja ára að aldri, og eru til afhendingar ræktunarvorið 2013.  Skemmtileg gjöf fyrir garðeigendur.  Verð kr. 7.500,-

26.04.2012

Ræktunarbakkar fyrir baunaspírur

Þægilegir bakkar fyrir ræktun á baunaspírum, tekur ekki nema um 5-7 daga að fá uppskeru.  Pakkningin inniheldur bakka og fræ, svo er einnig hægt að kaupa fræin sér.  Sjá leiðbeiningar:

18.05.2011

Skýlum plöntunum

Þegar hætta er á næturfrostum á vorin er hægt að grípa til ýmissa varnar gegn frostskemmdum.

11.04.2011

Grátslöngur

Grátslöngur henta vel í beð og á þá staði í garðinum sem eru erfiðir til vökvunar.  Grátslöngurnar koma í 25 metra rúllum, 1/2" tomma, með endatappa og hraðtengi upp á krana. 


31 - 4 af 4
1 


Góð ráð

Hversu djúpt skal gróðursetja haustlauka? Þumalputtareglan er að gróðursetja á dýpt sem samsvarar 3xstærð laukanna.  Páskaliljur fara á 20 cm dýpi og túlípanar á 15 cm dýpi.  Grafið holuna, jafnið botninn, raðið laukunum, oddurinn snýr upp, moldin aftur yfir.  Fylgið leiðbeiningum á pökkunum sem eru oftast mjög góðar.
Leita